14.02.1983
Neðri deild: 38. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1918 í B-deild Alþingistíðinda. (1663)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Frsm. 3. minni hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Það eru ekki ýkja mörg atriði sem ég þarf að svara eftir þá framsöguræðu sem ég hafði fyrir nál. 3. minni hl. fjh.- og viðskn. Ég vil þó vekja athygli hæstv. fjmrh. á því, þar sem hann gerði að umræðuefni bréf það sem ritað var á vegum fjh.- og viðskn. til prófessors Sigurðar Líndals til að leita álits hans á lagafyrirmælum um láglaunabætur á árinu 1983, að skýrt er tekið fram í lögum um ríkisendurskoðun hvernig haga skuli útgreiðslum úr ríkissjóði. Ég væri nú til með að bera saman texta þessa bréfs og þær greinar sem um þetta fjalla í lögum um ríkisendurskoðun. Það kemur svo að sjálfsögðu í ljós þegar við fáum svar frá þessum ágæta prófessor, sem leitað hafði verið til áður og látið hafði uppi skoðun sína á ýmsum þáttum þessa frv. í þeirri grg. sem birt er með nál. sem fskj. IX. Ég held að það sé nokkuð ljóst að ákveðnari fyrirmæli um greiðslur láglaunabóta 1983 þurfi að vera fyrir hendi heldur en aðeins sá texti sem er í fjárl. og heyrir undir fjmrh., 130 millj. til efnahagsráðstafana.

Hæstv. sjútvrh. svaraði spurningu minni sem ég beindi til hans varðandi þá brtt. sem hann flytur við frv. Ég spurði hann hvort ríkisstj. eða hann sem sjútvrh. hefði gert ráðstafanir til þess að útvega lánsfé handa Byggðasjóði til að standa straum af þeim lánveitingum sem hæstv. sjútvrh. gerði grein fyrir þegar hann talaði hér fyrir sinni brtt. Hans svar var ofur einfalt, að hann hefði ekki gert neinar ráðstafanir til að útvega lánsfé. Það er þá ekki á vísan að róa í þeim efnum fyrir þá aðila sem eiga að fá samkv. ákvörðun ríkisstj. aðstoð frá Byggðasjóði af gengismun skreiðarinnar, þegar enginn veit hvenær hún fer, hvort hún fer, hvenær hún fer eða hvert verður andvirði þeirra birgða sem í landinu eru nú. Mér sýnist þetta bera keim af aðferð keisarans forðum, sem fékk sér ný föt, þegar hér er verið að leggja til að nota fjármagn sem enginn veit hvenær kemur eða hvað verður. Og á meðan það fjármagn er ekki komið er sagt að lánsfé hafi ekki verið útvegað til þess að standa straum af þeim lánveitingum sem gert er ráð fyrir.

Að öðru leyti ætla ég ekki að fjölyrða um svör hæstv. ráðh. hér við þessa umr. Þau gögn sem við í minni hl. fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar óskum eftir eru ekki enn komin. Við óskuðum eftir gögnum frá Framkvæmdastofnuninni með upplýsingum um þau fyrirtæki sem sótt hafa þar um aðstoð og eru í athugun. Birt eru nöfn þeirra hér í fskj. Við vildum gjarnan fá upplýst hvernig staða þessara fyrirtækja er, hvort búast má við að það lánsfé sem hæstv. sjútvrh. hyggst fá af gengismun verði yfirleitt nokkurn tíma endurgreitt, ef lánað verður, til þess að gera sér grein fyrir því hvort hér er ekki beinlínis verið að taka fé frá atvinnugrein sem á í miklum erfiðleikum og afhenda fyrirtækjum sem ekki munu greiða það til baka.

Ég vék að því í ræðu minni hér að komið hefði fram hjá fulltrúa Seðlabankans, sem kom á fundinn, að hér væri um einsdæmi að ræða, ef að lögum yrði, og þess vegna ástæða til að athuga sinn gang í þeim efnum. Til að lýsa okkar vilja í þessu máli höfum við hv. 1. þm. Vestf. flutt brtt. um þetta efni sem hann gerði hér grein fyrir áðan. Þá vil ég gera grein fyrir brtt. sem við fulltrúar Sjálfstfl. í fjh.- og viðskn. leyfum okkur að flytja við 7. gr. frv. Þar er um að ræða vörugjald. Það er till. okkar að frá og með 1. mars til og með 31. des. 1983 verði vörugjald 16% eins og það var þegar vinstristjórnartímabilið hófst í sept. 1978. Við leggjum ennfremur til að tollflokkar þeir sem teknir voru upp með brbl. verði felldir niður til grundvallar vörugjaldsálagningu eins og þar er gert. Því það var vissulega að grípa í skottið á sjálfum sér að setja vörugjald á þessi tollnúmer, þessa vöruflokka sem voru og eru neysluvörur almennings, til þess að fá fjármagn til að greiða láglaunabætur. Þá var verið að fara í hring, nema hvað það snerti að hér var verið að taka miklu hærri upphæð.

Það fjármagn sem ríkissjóður yrði af, ef þessi till. verður samþykkt, nemur ekki þeim upphæðum að erfitt væri að mæta því á útgjaldahliðinni með niðurskurði. Eins og áður hefur verið venjan af hálfu okkar sjálfstæðismanna erum við reiðubúnir að vinna að því máli ef þess væri óskað. Þessi till. er flutt af mér ásamt 1. þm. Vestf. og hv. 3. þm. Reykv. og borin hér fram skriflega. Leyfi ég mér, herra forseti, að biðja um að leitað verði afbrigða til þess að till. megi koma hér til umr. og afgreiðslu.