14.02.1983
Neðri deild: 38. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1920 í B-deild Alþingistíðinda. (1667)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt athugasemd í sambandi við orð hæstv. sjútvrh. Ég hygg að sú athugun sem Þjóðhagsstofnun hefur gert standi á ákaflega veikum grunni og ég held að þessir útreikningar hennar fái engan veginn staðist. Höfuðatriði þessa máls er salan á þessari afurð og hið dökka útlit á því að losna við þær miklu birgðir sem eru. Ég held að það sé ekki auðleysanlegt mál, hvorki fyrir hæstv. sjútvrh. né aðra, að bæta skreiðarframleiðendum upp við þessar aðstæður í auknum útlánum úr bönkum landsins út á þessa skreið. Ég efast ekkert um að hæstv. sjútvrh. er duglegur maður, en ég held að hann komi því ekki fram við bankakerfið.

Margt bendir til að ef eitthvað úr rætist um sölu á skreið til Nígeríu verði þar um langan gjaldfrest að ræða. Við höfum ekki í okkar hendi að segja þar fyrir verkum því aðrir bjóða líka upp á langan gjaldfrest. Hins vegar hefur staðið á nógu traustum ábyrgðum. Þær hafa jafnan verið í gegnum evrópska banka, sem hafa veitt slíkar ábyrgðir. En nú um hríð hefur verið talað um ábyrgðir banka í Nígeríu, sem eru engan veginn eins traustir því að efnahagsástand í því landi er nú ótryggt.

Það er af þessum ástæðum öllum sem ég tel að gengishagnaður af skreið sé ekki til nema á pappírnum og verði ekki til nema á pappírnum. Ég held að þegar allt verður til lykta leitt sé afkoma skreiðarframleiðenda mjög bágborin og því sé nauðsynlegt að ýta undir það að þeir selji frekar afurðir sínar gegn ábyrgð þó það sé með löngum greiðslufrestum. Þetta vildi ég gjarnan að kæmi hér fram.