14.02.1983
Neðri deild: 38. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1940 í B-deild Alþingistíðinda. (1686)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Áður en atkvgr. hefst vil ég gera eftirfarandi grein fyrir afstöðu þingflokks sjálfstæðismanna við afgreiðslu þessa frv. við 2. umr.:

Þegar ríkisstj. setti brbl. á s. l. sumri lýsti Sjálfstfl. yfir andstöðu við lögin og krafðist þess, að þing yrði kallað saman, lokið yrði afgreiðslu nauðsynlegra mála, eins og kjördæmamálsins, og efnt til kosninga. Nýrri ríkisstjórn hefði þá gefist færi á að takast á við efnahagsvandann. Efnisleg andstaða Sjálfstfl. gegn lögunum hefur byggst á því, að lögin væru gagnslaus efnahagsaðgerð. Yfirlýst markmið laganna var að veita viðnám gegn verðbólgu, draga verulega úr viðskiptahalla og stöðva þannig söfnun eyðsluskulda erlendis. Efni þeirra fólst í verðbótaskerðingu á laun, hækkun skatta og ráðstöfun gengishagnaðar. Lögin hafa nú verið í gildi í um hálft ár og ekkert ofangreindra markmiða hefur náðst, eins og nú hefur komið fram með eftirminnilegum hætti í svartri skýrslu Seðlabanka, sem dregur upp ógnvænlega mynd af ástandi efnahagsmála og bendir á hættuástand fram undan. Öll gagnrýni sjálfstæðismanna hefur því reynst á rökum reist.

Þótt ríkisstj. hafi misst starfhæfan meiri hl. í Nd. hefur hún þráast við og situr án þess að hafa nokkurt frumkvæði eða forustu í brýnustu málum. Innan hennar er allt í upplausn og engin samstaða um neinar aðgerðir. Afstaða þingflokks sjálfstæðismanna hefur þá ekki síður mótast af kröfunni um breytta stjórnarstefnu, lausn á kjördæmamálinu og síðan þingrof og kosningar, þannig að myndast gæti nýr þingmeirihl., sem tækist af festu á við efnahagsvandann.

Nú liggur fyrir samþykki allra þingflokka á kosningum eigi síðar en í apríl n. k. Jafnframt er nú verið að ganga frá víðtæku samkomulagi í kjördæmamálinu, og verður frv. um breytingu á stjórnarskrá væntanlega lagt fram í vikunni. Alþingi þarf því nokkurn tíma til að fjalla um það mikilvæga mál. Til að forðast umsvifalaust þingrof, ef brbl. verða felld, og til að greiða fyrir afgreiðslu kjördæmamálsins hefur þingflokkur sjálfstæðismanna ákveðið að sitja hjá við afgreiðslu brbl. Af hálfu þingflokksins er flutt till. um að útfluttar skreiðarafurðir skuli greiddar á því kaupgengi sem í gildi er á hverjum tíma, og jafnframt mun þingflokkurinn greiða atkv. gegn brtt. sjútvrh. Þá mun þingflokkurinn flytja brtt. sem miða að því að vörugjaldið færist í það horf sem það var 1978.

Þingflokkur sjálfstæðismanna lýsir ábyrgð á hendur ríkisstj. fyrir alla meðferð þessa máls og fyrir þann háska sem steðjar að efnahagslífinu og fjárhagslegu sjálfstæði íslensku þjóðarinnar.