14.02.1983
Neðri deild: 38. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1941 í B-deild Alþingistíðinda. (1688)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Brbl., þau, sem nú er hér verið að afgreiða, eru aðeins einn hlekkur í enn óslitinni keðju bráðabirgðaráðstafana. Þrátt fyrir ítrekaðar skammtímaaðgerðir af þessu tagi hefur heildarárangurinn enginn orðið. Verðbólgan hefur farið árvaxandi, uns nú er svo komið að hættuástand blasir við verði grundvallarstefnubreyting ekki gerð. Brbl. fela ekki í sér slíka stefnubreytingu. Þau fjalla aðeins um skattahækkanir og launaskerðingu. Áhrif þeirra eru þegar að engu orðin. Nú þarf að gera grundvallarbreytingu á stjórn efnahagsmála. Þm. Alþfl. hafa lagt fram ákveðnar tillögur um hvernig slíkt skuli gert. Aðeins breyting af slíku tagi getur skilað varanlegum árangri. Áframhaldandi bráðabirgðaráðstafanir tefja aðeins fyrir því að slík breyting verði gerð. Þess vegna greiða þm. Alþfl. atkv. gegn brbl., en krefjast þess að tillögur Alþfl. um gerbreytta efnahagsstefnu verði teknar til umr. og afgreiðslu án frekari tafa. Með vísan til þessarar greinargerðar um afstöðu þm. Alþfl. segi ég nei.