14.02.1983
Neðri deild: 38. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1942 í B-deild Alþingistíðinda. (1689)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Þótt hv. þm. Karvel Pálmason hafi gert sérstaka grein fyrir atkv. Alþfl. vil ég gera grein fyrir atkv. mínu.

Nú ber brýna nauðsyn til þess að knýja óstarfhæfa og vanmáttuga ríkisstj. til að láta af völdum svo að unnt verði að efna til kosninga og mynda nýja og starfhæfa ríkisstj., sem tekist getur á við þann efnahagsvanda sem ógnar afkomu þjóðarinnar og efnahagslegu sjálfstæði hennar. Brbl., sem hér eru til afgreiðslu, eru dæmigerð skammtímalausn, sem hvorki leysa vandann til skemmri tíma né lengri tíma. En að fella þau gæti þó orðið það bjargráð er skiptir sköpum í dauðastríði ríkisstj. Alþfl. lýsti andstöðu við brbl. þegar í upphafi. Um leið og ég vænti þess að hæstv. forsrh. taki með afstöðu ríkisstj. og tillit til þeirrar staðreyndar, að ríkisstj. starfar ekki lengur á grundvelli lýðræðislegra hefða, stend ég við yfirlýsta afstöðu Alþfl. og segi nei.