15.02.1983
Efri deild: 44. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1959 í B-deild Alþingistíðinda. (1705)

190. mál, orkulög

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Þeir þrír hv. ræðumenn sem hér hafa talað eftir að ég lauk máli mínu hafa farið á víð og dreif yfir svið orkumálanna og verðlagningu á orku og ég ætla ekki að taka hér mikinn tíma til viðbótar til þess að fjalla um þetta mál af minni hálfu. Ég vænti þess að málið komist til nefndar og fái þar sína eðlilegu meðferð og þar verði m. a. tækifæri til að fara ofan í þau mál sem allir hv. iðnaðarnefndarmenn hafa áhuga á að verði tekið til meðferðar, þ. á m. hv. 4. þm. Vestf., sem á sæti í þeirri nefnd. Ég geri ráð fyrir að hann komi þar fram með sín sjónarmið. Ég hjó eftir því í hans máli, að hann tók ekki af tvímæli varðandi þá spurningu sem ég bar hér fram, hvort rétt og eðlilegt væri að einnig Landsvirkjun væri háð verðlagseftirliti stjórnvalda, eða ég tók a. m. k. ekki eftir því að hann viki sérstaklega að gildandi ákvæðum orkulaga um þessi efni. En hann svarar því eflaust í viðkomandi nefnd hver hugur hans er í sambandi við þann þátt málsins.

Ég ætla ekki hér að fara að munnhöggvast við hv. 11. landsk. þm. um mín störf sem iðnrh. Það gefst eflaust tækifæri til þess okkar á milli að ræða þau mál frekar. Ég tók eftir því að hv. 11. landsk. þm. orðaði það svo í sambandi við hið brýna mál að fá fram hækkun á raforkuverði til ÍSALs, að það væri ekki ágreiningur hér á hv. Alþingi um að orkuverð til ÍSALs þurfi að hækka. Mér þykja þetta vera góð orð úr munni hv. þm. og ég vænti þess að hann stuðli að því að þarna megi fá eðlilega leiðréttingu mála og reyndar mjög brýna leiðréttingu mála.

Það væri allt of mikið mál að fara að taka þá þætti sem hv. þm. vék hér að í sínum orðum. Ég vísa því til seinni tíma að ræða þau mál við hann, þó að ég gæti vel hugsað mér að eiga orðastað við hann um þau efni hér og nú. En ég hef áhuga á því að þetta mál nái hér til nefndar í dag og vil stuðla að því.

Hv. 4. þm. Vestf. spurði hvers vegna ég hefði komið í veg fyrir hækkun til Hitaveitu Reykjavíkur. Líklega á hv. þm. þá við síðustu gjaldskrárákvörðun. Þá sótti Hitaveita Reykjavíkur um 32% gjaldskrárhækkun eða svo. Hún fékk heimild til 18.5% hækkunar eða 7.5% umfram verðlagshækkanir, miðað við það tímabil sem litið var til og ekki er vefengt að sé raunhækkun til veitunnar, 7.5%. Hún hafði á undanförnum ársfjórðungum fengið nokkra leiðréttingu sinna mála, um 30% hækkun og rösklega það raunar á síðasta ári umfram verðlagshækkanir, svo að ég held að þetta veitufyrirtæki þurfi ekki neitt sárlega að kvarta undan afgreiðslu mála og vísa sem sagt til þess.

Ég tel mig í fyrri ræðu minni hafa svarað því sem sneri að þeim tillögum að frv. til nýrra landsvirkjunarlaga sem hv. þm. vék hér að. Fulltrúar ríkisins, sem áttu þátt í undirbúningi þess máls, greindu frá því við undirbúning málsins að gera mætti ráð fyrir að flutt yrði frv. í þá veru sem hér er gert, til þess að tryggja stjórnvöldum íhlutunarrétt um gjaldskrárákvarðanir Landsvirkjunar. Það þarf því ekki að koma þeim neitt á óvart sem þar áttu hlut að máli.

Herra forseti. Ég orðlengi þetta ekki frekar að þessu sinni, tel ekki ástæðu til að fara hér út í langa umr. af minni hálfu um þetta efni og læt máli mínu lokið.