15.02.1983
Neðri deild: 40. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1961 í B-deild Alþingistíðinda. (1716)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Frsm. 3. minni hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Eins og fram kom við upphaf þessarar umr. í gær flutti hæstv. sjútvrh. brtt. eftir að því frv. sem hér er til umr. hafði verið breytt við 2. umr. málsins. Till. sú sem ráðh. flutti við 2. umr. málsins, fyrri hluti hennar, hafði verið felldur, en ráðh. dró til baka síðari hluta till. Sýnist mér því að hér komi til umr.brtt. sem hann hefur flutt á þskj. 343 auk þess sem hér kemur til atkvgr. síðari till. hans á þskj. 255.

Við 2. umr. málsins lýsti ég nokkuð andstöðu okkar sjálfstæðismanna í fjh.- og viðskn. við þær aðferðir sem hæstv. sjútvrh. og ríkisstj. hyggjast beita, þ. e. að taka gengismun til ráðstöfunar í þágu Byggðasjóðs. Ég benti á að sú upphæð sem um væri að ræða væri svipuð þeim gengismun sem skreiðarútflytjendum væri ætlað að láta í gengismunarsjóð. Hæstv. ráðh. taldi í gær að hér væri um að ræða 80–90 millj. kr. Í grg. sem við fengum í fjh.- og viðskn. nú í morgun kemur í ljós einmitt það sem við höfum haldið fram, að óinnkominn gengismunur af skreið samkv. ákvæðum brbl. er um 54 millj. Það sem komið er inn áður eru 9 millj. 435 þús. kr. þannig að hér er um rúmlega 60 millj. kr. að ræða sem væri gengismunur af skreiðinni. Það er einmitt sú upphæð sem talað hefur verið um að ríkisstj. hygðist nota af gengismun til þess að bæta stöðu fyrirtækja, sem enn er ekki vitað hver eru en eru og hafa verið í athugun hjá Framkvæmdastofnun, þ. e. hjá Byggðasjóði.

Við báðum um upplýsingar í nefndinni um stöðu þessara fyrirtækja einfaldlega til þess að átta okkur á því, hvort um væri að ræða fyrirtæki sem líkleg væru til þess að geta endurgreitt verðtryggð lán, sem þau ættu að fá frá Byggðasjóði, en þær upplýsingar hafa ekki fengist. Staðreynd málsins er því sú, að það er verið að taka gengismun af skreiðarbirgðum fyrirtækja, við skulum segja Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar, og láta Byggðasjóð fá það til þess að lána Bæjarútgerð Hafnarfjarðar aftur í verðtryggðum lánum. Þetta eru aðferðir sem við sjálfstæðismenn erum ekki tilbúnir að fallast á. Eins og við 2. umr. munum við greiða atkv. gegn till. sjútvrh., hvort heldur það er till. á þskj. 343 eða till. á þskj. 255, þ. e. till. sjútvrh. til þess að afla ríkisstj. heimildar til að taka 50–60 millj. af gengismun og láta Byggðasjóð ráðstafa því samkv. þeirri ákvörðun sem hæstv. sjútvrh. lýsti að búið væri að taka af hálfu ríkisstj. þegar hann talaði fyrir till. við 2. umr.