15.02.1983
Neðri deild: 40. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1963 í B-deild Alþingistíðinda. (1719)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. þm. Halldór Blöndal hefur verið að spyrja mig að því undanfarnar vikur hvenær von sé á að lánsfjáráætlun verði lögð fram. Þessi spurning er fullkomlega eðlileg og ekkert við það að athuga að hún sé enn einu sinni borin upp. Hann spurði mig að því í gær hvort lánsfjáráætlun yrði lögð fram í þessari viku og til þess að spara hér umr. svaraði ég úr sæti mínu neitandi. Nú er spurt hvort hægt sé að svara því nákvæmlega á hvaða degi þessi áætlun verði lögð fram. Ég verð enn að svara neitandi. Hún er ekki fullfrágengin og ekki hægt að dagsetja það nákvæmlega hvenær hún kemur fram.

Það eru nokkur atriði í lánsfjáráætlun sem hafa verið til nánari athugunar og eru það stór í sniðum að erfitt er að ganga frá áætluninni endanlega án þess að þau séu einnig fullfrágengin. Það er kappsmál okkar allra að erlendar lántökur geti verið í lágmarki á þessu ári, en til þess að svo geti orðið þarf að sjálfsögðu að haga allra stærstu framkvæmdum á þann hátt að lántökur verði sem minnstar. Ég nefni alveg sérstaklega framkvæmdir Landsvirkjunar. en það er langsamlega stærsta talan sem yrði á ferðinni í lánsfjáráætlun. Þar er töluvert af verkum sem þegar er búið að bjóða út og búið að ganga út frá að verði unnin á þessu ári, en ekki fullfrágengið hversu mikið lánsfé raunverulega er hægt að taka í þágu Landsvirkjunar á þessu ári.

Annað stórt mál sem er ófrágengið er væntanleg bygging kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði. Ég vil minna á það, að hinn 20. jan. s. l. var skýrsla stjórnar kísilmálmverksmiðjunnar send til allra hv, þm. og nokkrum dögum seinna var síðan send fsp. til þingflokkanna, í bréfi til formanna þingflokkanna, þar sem þess var getið af bréfritara, hæstv. iðnrh. Hjörleifi Guttormssyni, að æskilegt væri að fá fram meginviðhorf þingflokkanna til niðurstaðna stjórnar kísilmálmverksmiðjunnar eins og þær kæmu fram í fyrrnefndri skýrslu. Í bréfinu var einnig vísað til þess, að starfstími Alþingis kynni að verða styttri en venjulega að þessu sinni, og bent á að unnið væri að undirbúningi fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar fyrir árið 1983 og því sérstaklega mikilvægt að niðurstaða fengist í því máli hvort Alþingi ætlaði að veita heimild til þess að hafist yrði handa um byggingu kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði þegar á þessu ári.

Í bréfi hæstv. ráðh. segir m. a. með leyfi forseta: „Samkv. þeim upplýsingum sem rn. hefur fengið frá framkvæmdastjórn Kísilmálmverksmiðjunnar hf. er sá kostnaður, sem leggja þarf í á þessu ári, nálægt 110 millj. kr. og þá miðað við að halda þeim möguleika opnum að verksmiðjan geti hafið rekstur á árinu 1986. Æskilegt er að fá fram viðhorf og ábendingar þingflokka um mál þetta sem fyrst og helst ekki síðar en 5. febr. n. k.“

Mér er ekki kunnugt um að svör hafi borist frá þingflokkum varðandi þetta mál, þó að nú séu liðnir 15 dagar af febrúar, þ. e. 10 dagar fram yfir þann frest sem settur var til að umsagnir þingflokka lægju fyrir. Ég vil eindregið hvetja þingflokkana til þess að taka þetta mál til meðferðar. því að þetta er eitt með öðru sem veldur því að ekki hefur vérið unnt að ganga endanlega frá lánsfjáráætlun, að ekki liggur fyrir niðurstaða um afstöðu þingflokkanna í þessu máli.