15.02.1983
Neðri deild: 40. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1965 í B-deild Alþingistíðinda. (1721)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil aðeins skjóta því að hæstv. sjútvrh., að lánsfjáráætlun og erlendar lántökur snerta vissulega það mál sem hér er á dagskrá, eins og þegar kemur fram í yfirlýsingu ríkisstj. frá því í ágúst, ef hæstv. sjútvrh. þá tekur mark á þeirri yfirlýsingu, og er miklu nær að hugsa um þá hluti nú heldur en einhvern nýmyndaðan gengishagnað af skreið, sem guð einn veit hvenær selst og hvort selst yfir höfuð. (Gripið fram í: Hyggurðu að hann viti það?) Ja, ég veit að hann er a. m. k. ekki í Framsfl.

Ég vil svo þakka hæstv. fjmrh. fyrir hans svör. Þau eru kannske betri en engin. Þau segja okkur a. m. k. að á þessari stundu er allt í óvissu um það hvort hann hyggst yfir höfuð leggja fram lánsfjáráætlun fyrir yfirstandandi ár og frv. til lánsfjárlaga. Það er auðvitað alveg út í hött að blanda kísilmálmverksmiðjunni í Reyðarfirði saman við það mál. Það er allt, allt önnur spurning, hvort við eigum að leggja á annað hundrað millj. í þá framkvæmd strax á þessu ári og hvort við yfir höfuð treystum núv. hæstv. iðnrh. til að fara með forræði þess máls. Hann hefur ekki reynst svo trúverðugur í störfum sínum sem iðnrh. að sérstök ástæða sé til að fela honum ávöxtun mikilla fjármuna eða hafa með höndum hvernig að væntanlegri kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði verður staðið. Það er allt, allt annað mál. Það sem ég hef í huga er það, hvort þess sé að vænta að fjárfestingarlánasjóðir atvinnuveganna verði gerðir virkir, hvort þeir geti tekið afstöðu til þeirra lánsbeiðna sem fyrir hendi eru, og þannig verði leystur sá mikli fjárhagsvandi sem virkilega blasir við í mörgum undirstöðuatvinnugreinum.

Ég veit vel að hæstv. fjmrh. er sem þm. Norðurl. v. kunnugur þeirri erfiðu stöðu sem ýmis sjávarútvegsfyrirtæki eru í. Honum er jafn kunnugt um það og mér að t. d. Fiskveiðasjóður er algerlega fjárvana og getur ekki tekið á þeim málum sem fyrir liggja. Það var að vísu auglýst eftir umsóknum að venju, en það er ekki hægt að taka þær fyrir því að enginn veit á þessari stundu hvaða fé er þar til ráðstöfunar. Byggðasjóður er fjárvana, Iðnlánasjóður o. s. frv. Ég hygg að það sé ábyrgðarhluti af þessari ríkisstj. að sýna a. m. k. ekki lit á því að leggja fram einhver gögn um það hvernig hún ætti sér að standa að lánsfjáráætlun, til þess að ekki þurfi að koma til hruns atvinnurekstrarins, stöðvunar fyrirtækja o. s. frv.