15.02.1983
Neðri deild: 40. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1966 í B-deild Alþingistíðinda. (1724)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Örfá orð áður en ég tilkynni afstöðu mína. Ég hef í fjh.- og viðskn. kynnt mér þessi mál allrækilega og séð býsna marga meinbugi á þeirri till. sem hér liggur fyrir um gengishagnað af skreið. Það hefur komið fram hér í ræðum annarra þm. Ég álít að hluti af þessu sé vonarpeningur, það sé óvarlegt að áætla þessar birgðir, vegna þess að ef um langan geymslutíma verður að ræða verði líka um mikil afföll að ræða.

Jafnframt gæti svo farið, eins og kom hér fram hjá 1. þm. Reykn., að fyrirtæki, sem fengju gengishagnað ef þessi vara seldist, fengju þann sama gengishagnað lánaðan á gengistryggðum lánum sem aðstoð. Ég hafði í hyggju að koma hér með brtt. um að fara þarna millileið. (Forseti: Þetta er að verða ræða.) Þetta er að verða ræða, já. Ég skal stytta mál mitt. En í öllu samkomulagsleysinu, sem hér ríkir, skal ég til samkomulags styðja þessa till. um 5.5% þó að ég hrópi nú ekki húrra fyrir henni. Ég segi já.