15.02.1983
Neðri deild: 40. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1977 í B-deild Alþingistíðinda. (1729)

195. mál, viðmiðunarkerfi fyrir laun

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Þegar það gerist að tveir stjórnaraðilar kjósa að flytja frv. til l. um jafnstórt mál og vísitölumálið í trássi við þann þriðja, þá er eðlilegt að fara rækilega yfir málin og átta sig á því, í hverju sá ágreiningur liggur sem veldur þeirri staðreynd að hæstv. forsrh. hefur hér flutt sérstakt vísitölufrv. Þetta vísitölufrv. er ekki stjfrv. eins og hér hefur komið fram hjá hæstv. forsrh. aftur og aftur. Þetta vísitölufrv. er ekki stjfrv. eins og hér hefur verið bent á af hv. þm. Sighvati Björgvinssyni. Hér er um að ræða frv. sem forsrh. flytur einn og skýrir svo frá, að hann hafi á bak við það stuðning sjö ráðh. Framsfl. og Sjálfstfl.

Nú hlýt ég að harma það sem einn af aðilum núv. ríkisstj. að ekki skuli hafa tekist samkomulag um jafn veigamikið mál og þetta. Og ekki síst hlýt ég að undirstrika þessar skoðanir mínar þegar þess er gætt, að núverandi stjórnarsamstarf hefur í heildina tekið verið farsælt og árangursríkt, og það hefur skilað mörgum þýðingarmiklum málum í höfn fyrir land okkar og þjóð. Staðreyndin er engu að síður sú, sem við stöndum nú frammi fyrir, að þetta frv. sem hér er rætt varpar skugga á stjórnarsamstarfið og teflir því í tvísýnu. Samþykkt frv. um vísitölu- og kjaramál gegn einum stjórnarflokknum væri tvímælalaust brot á stjórnarsáttmálanum eins og glöggt er þar tíundað, en framlagning frv. um þessi efni af hæstv. forsrh. er ekki með þeim hætti, að menn þurfi að slá því föstu að þetta frv. verði að lögum. Þvert á móti bendir margt til þess að svo verði ekki, m. a. með tilliti til þess að skammt lifir nú af sérkennilegu þinghaldi þessa vetrar.

Þegar þetta frv. lá fyrir í ríkisstj. gerði miðstjórn Alþb. svofellda samþykki:

„Miðstjórn Alþb. mótmælir harðlega þeim tillögum um breytingar á vísitölukerfinu sem nú liggja fyrir af hálfu annarra aðila í ríkisstj.

Miðstjórnin telur að breyta beri núverandi vísitölukerfi í samræmi við neyslukönnun Hagstofunnar frá 1979-1980 og að gera verði ýmsar breytingar á núverandi viðmiðunarkerfi, enda stuðli þær að því að tryggja betur kaupmátt almennra launa og þá ekki síst hinna lægstu launa.

Fundurinn leggur áherslu á að breytingar á vísitölukerfinu verða hins vegar að eiga sér stað í beinum tengslum við aðrar breytingar á efnahagskerfinu. Alþb. er reiðubúið til samstarfs um að tryggja nauðsynlegar breytingar á stjórn efnahagslífsins og minnir í því sambandi á ákvarðanir ríkisstj. frá s. l. ári um verðlagskerfi sjávarútvegs og landbúnaðar og tillögur Alþb. varðandi sjóðakerfið, innflutningsverslunina og fleiri þætti efnahagsmála. Því miður hafa ákvarðanir ríkisstj. frá s. l. ári í þessum efnum ekki náð fram að ganga, og þess vegna er fráleitt að mati flokksins að slíta vísitölumálið út úr samhengi, eins og tillögur eru nú um innan ríkisstj.

Fundur miðstjórnar Alþb. 12. febr. 1983 telur óhjákvæmilegt að einhliða ákvörðun einstakra stjórnaraðila um flutning frv. um vísitölumálið hljóti að hafa alvarleg áhrif á stjórnarsamstarfið, vegna þess að ákvæði stjórnarsáttmálans kveða á um annað. Flokkurinn hlýtur því að meta slík vinnubrögð í tengslum við framgang annarra mála í stjórnarsamstarfinu og á Alþingi á næstunni.“

Þegar þetta mál var tekið fyrir í ríkisstj. í gærmorgun, þá lagði ég fram þessa samþykkt miðstjórnar Alþb. En fleiri aðilar höfðu þá þegar fjallað um þetta mál, þar á meðal miðstjórn Alþýðusambands Íslands. Í ályktun miðstjórnar Alþýðusambands Íslands 10. febr. s. l. segir svo með leyfi hæstv. forseta:

„1. Í samningaviðræðum á s. l. sumri lýsti Alþýðusambandið sig reiðubúið til þess að semja um að nýr vísitölugrunnur yrði tekinn í notkun við útreikning vísitölu framfærslukostnaðar. Á strandaði að Vinnuveitendasambandið hafnaði nýja grunninum nema nýir frádráttarliðir yrðu jafnhliða teknir upp við verðbótaútreikning. Ekkert bendir til að afstaða verkalýðssamtakanna verði önnur í komandi samningum.

2. Alþýðusambandið hefur ávallt verið reiðubúið til þess að ræða breytt vísitölufyrirkomulag. Afstaða Alþýðusambandsins hefur mótast af því sjónarmiði að nýtt viðmiðunarkerfi yrði að tryggja kaupmátt ekki síður en núverandi kerfi. Rétt er að minna á að samkv. erindisbréfi og sérstakri yfirlýsingu ríkisstj. átti svonefnd vísitölunefnd að hafa þetta sjónarmið að meginmarkmiði. Yfirlýsingar einstakra valdsmanna að undanförnu ganga þvert á ofangreind sjónarmið. Krafist er aukinnar verðbótaskerðingar með nýjum frádráttarliðum og lengingu verðbótatímabila. Miðstjórn ASÍ fordæmir þessi viðhorf. Ljóst er að efnahagsvandinn verður ekki leystur með síendurteknum kjaraskerðingum. Miðstjórnin bendir á að frá því í des. hefur verkafólk þolað verulega kjaraskerðingu til viðbótar almennri tekjurýrnun á árinu 1982. Í kjölfar þessarar kjaraskerðingar hefur ekki bólað á efnahagsaðgerðum stjórnvalda á öðrum sviðum. Miðstjórn ASÍ varar við skerðingarhótunum einstakra ráðamanna og harmar það úrræðaleysi sem í þeim opinberast.“

Það er sem sagt ljóst að þegar frumvarpstillaga sú sem hér er nú til umr. lá fyrir í hæstv. ríkisstj. í gærmorgun lágu þar einnig fyrir í fyrsta lagi mótmæli verkalýðssamtakanna, mjög hörð og eindregin, sem þó á að hafa samráð við samkv. stjórnarsáttmála núv. ríkisstj., og þar lá einnig fyrir samþykkt eins stjórnarflokksins, Alþb., enda þótt svo sé kveðið á í stjórnarsáttmála ríkisstj. að ekki megi setja lög um kjaramál nema allir stjórnaraðilarnir séu því samþykkir. Það er því eins ljóst og frekast getur verið að samþykkt vísitölufrv. gegn Alþb. væri skýlaust brot á sáttmála núv. ríkisstj. og hlyti að hafa pólitískar afleiðingar í samræmi við það.

Þessi mál hafa verið rædd mjög í þjóðfélaginu núna um nokkurt skeið. Má segja að sú umr. hafi hafist fyrir alvöru í tengslum við efnahagsyfirlýsingu ríkisstj. s. l. sumar og þau brbl. sem þá voru sett og staðfest hér á Alþingi í dag. Þessi brbl. hafa átt sér sögulegan feril eins og kunnugt er og endalokin urðu ljós í dag og í gær, þegar stjórnarandstaðan í Sjálfstfl. ákvað, eftir háværar raddir um að hér væri um að ræða frv. sem væri í öllum atriðum vont og hættulegt, að sitja hjá eftir allt sem á undan var gengið. Í þeirri umr. sem hér hefur farið fram um brbl. var það rætt, einkum eftir að þing kom saman í haust, hvort ríkisstj. hefði meiri hl. til þess að fá brbl. staðfest. Við sem stöndum að ríkisstj. vissum ekki betur, þegar brbl. voru sett, en að þau hefðu þingmeirihluta. Þegar Alþingi kom saman s. l. haust gerðust hins vegar þau tíðindi að einn af stuðningsmönnum ríkisstj. lýsti því yfir, að hann hefði snúist á sveif með stjórnarandstöðunni og þar með væri óvissa um framgang brbl. hér á hv. Alþingi. Þessi yfirlýsing lá fyrir um svipað leyti og Alþingi kom saman og það var þá fyrst með óyggjandi hætti ljóst, að ríkisstj. hafði mjög tæpa stöðu hér í hv. Nd. Í tengslum við þá niðurstöðu ákvað Alþb. að leggja til í ríkisstj. að gripið yrði til sérstakra pólitískra aðgerða. Í fundargerð ríkisstj. 14. okt. s. l. segir svo með leyfi forseta:

„Félmrh. lagði fram svohljóðandi samþykkt þingflokks Alþb.:

Þingflokkur Alþb. telur nauðsynlegt að frv. til staðfestingar á brbl. um efnahagsaðgerðirnar í ágúst s. l. verði lagt fram á Alþingi þegar í stað og meðferð málsins hagað þannig, að sem fyrst fáist niðurstaða í þeirri óvissu sem nú er í stjórnmálum landsins. Félli frv., sem yfirlýsingar formanna þingflokka stjórnarandstöðunnar benda til, er rétt að rjúfa þing þegar í stað og efna til kosninga svo tímanlega fyrir lok nóvember, að ríkisstj. með skýran þingmeirihluta að baki gæfist tími til að gera þær ráðstafanir sem hún teldi nauðsynlegar fyrir 1. des. n. k. Þingflokkur Alþb. bendir á að sú óvissa, sem nú er um að ræða, getur haft í för með sér að ýmis mál ríkisstj. stöðvist eða tefjist í þinginu. Jafnframt er hætta á að þingstörf verði í heild ekki jafn markviss og skyldi við þessar aðstæður. Með tilliti til framanritaðs leggur þingflokkurinn áherslu á að brbl. verði afgreidd strax.“

Á þessum fundi ríkisstj. 14. okt. s. l. kom m. ö. o. fram að Alþb. vildi að þá þegar yrði látið reyna á það hvort þingið samþykkti brbl. eða ekki. Og ef þau yrðu felld, þá yrði efnt til kosninga svo fljótt fyrir 1. des. að ný ríkisstj. gæti gert viðeigandi ráðstafanir í tæka tíð. Því miður báru samstarfsaðilar okkar í ríkisstj. ekki gæfu til að fara að þessum ráðum strax. Ég hygg að allir þeir sem hafa lifað þennan vetur hér og fylgst með málum á Alþingi Íslendinga nú síðustu mánuðina sjái hversu miklu skynsamlegra það hefði verið að bregðast þarna strax við og afgreiða brbl. þegar í stað, til þess að unnt væri að vísa málum til þjóðarinnar ef brbl. hefðu verið felld í Nd. þingsins, eins og þá benti flest til.

Ég hlýt að láta þetta koma fram hér vegna þess að skýringin á þeirri efnahagslegu sjálfheldu sem okkar þjóðarbú er í um þessar mundir birtist ekki í því að menn hafi dregið að leggja fram eitthvert vísitölufrv. Skýringin á sjálfheldunni liggur fyrst og fremst í því að menn voru ekki tilbúnir til að ganga með vandamálin til þjóðarinnar á því augnabliki sem það lá fyrir að slíkt var í rauninni óhjákvæmilegt. Það að ekki tókst að ná samstöðu um þetta í haust er orsök þess hversu komið er og hversu háttar nú til í efnahagsmálum hér í þessu landi.

Ég undirstrika þetta atriði hér, herra forseti, vegna þess að ég tel að það sé óhjákvæmilegt að líta á það sem bakgrunn þeirrar efnahagslegu þróunar sem nú hefur verið að ganga yfir. Það er útilokað fyrir hina stjórnaraðilana að bjarga sér frá þessari staðreynd með því að standa nú að þessu vísitölufrv. Þó ekki væri nema vegna þess, herra forseti, að þetta frv., jafnvel þótt samþykkt yrði, hefði um 5% áhrif á verðbólguna í landinu eða svo á heilu ári í 70% verðbólgu. Ég hygg að sjaldan hafi það gerst að menn hafi ætlast til jafn stórra afreka af jafn litlu frv. og því sem hér liggur fyrir í þessa veru.

Ég fór þess á leit við Þjóðhagsstofnun í gær, að hún gerði athugun á því hvaða áhrif þetta frv. hefði á þjóðarbúið og efnahagslífið á þessu ári. Í minnisblaði frá Hallgrími Snorrasyni, sem mér barst í gærkvöld um þetta efni, segir svo orðrétt með leyfi hæstv. forseta:

„Í greinargerð Þjóðhagsstofnunar frá 14. 01. 1983 um framreikning framfærsluvísitölu og kauptaxta á árinu 1983 voru helstu niðurstöður þær, að á gefnum forsendum mætti búast við að hækkun framfærsluvísitölu á næstu mánuðum yrði yfirleitt 65–70%, færi yfir 70% um mitt ár, en síðan gæti dregið úr árshækkun vísitölunnar ef ekki kæmu upp sérstök verðbólgutilefni. Hækkunin yrði þó enn á bilinu 60–65% í árslok. Meðalhækkun framfærsluvísitölunnar yrði samkv. þessum reikningi 65–70%, en meðalhækkun kauptaxta 55–60% og kaupmáttur kauptaxta rýrnaði að meðaltali um 7% á árinu.

Framreikningur framfærsluvísitölu og kauptaxta miðað við frv. forsrh. en að öðru leyti á sömu forsendum og framreikningurinn frá 14. 01. 1983 gefur þær niðurstöður að hækkun framfærsluvísitölunnar frá upphafi til loka ársins geti orðið um 5 stigum minni en ella. Þannig yrði hækkun vísitölunnar 57–58% með svipaðri nákvæmni og í fyrri reikningi, meðalhækkunin frá fyrra ári yrði 64–65% og meðalhækkun kauptaxta 51–52%. Samkv. þessu yrði kaupmáttur kauptaxta um 8% lakari að meðaltali á þessu ári en í fyrra. Í sambandi við þessar tölur verður að hafa í huga að mun meiri óvissa ríkir um framreikning eftir hinum nýja grunni en hinum gamla, m. a. um vægi frádráttarliða o. fl., þótt reynt sé að gera dæmin sem samstæðust. Áhersla skal jafnframt á það lögð að sömu forsendur og fyrirvarar eiga að öllu leyti við um bæði dæmin.“

Hér lýkur tilvitnun í minnisblað Þjóðhagsstofnunar sem sýnir ákaflega vel hvaða áhrif þetta frv. hefði á vísitölu og þar með verðbólgu og kaupmátt á þessu ári.

Ég vík nú, herra forseti, að frv. sjálfu og einstökum efnisatriðum þess. Ég vil þá fyrst taka það fram, að þetta frv. hefur verið til meðferðar hjá hæstv. ríkisstj. nú um nokkurt skeið. Málin hafa verið ítarlega rædd, m. a. á fundum vísitölunefndar og á fundum ráðherranefndar sem ég hef átt sæti í, og sömuleiðis hafa þau verið rædd nokkrum sinnum á fundum ríkisstj. sjálfrar.

Ég vil taka það fram hér að gefnu tilefni, að ég tel að hæstv. forsrh. hafi lagt sig mjög fram um að ná samkomulagi um þetta mál á milli stjórnaraðila. Og ég tel raunar að hið sama eigi við um formann Framsfl., hæstv. sjútvrh. (Forseti: Ég þykist vita að hv. ræðumaður eigi langt mál eftir.) Já, talsvert. (Forseti: Mætti ég vinsamlega fara fram á við hann að gera örstutt hlé á ræðu sinni vegna þess að fundur í Sþ. hafði verið auglýstur kl. 3. En það verður aðeins stutt hlé, ég tek það fram.) Já, það er sjálfsagt. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég minntist á það þegar ég fór úr stólnum hér áðan að þetta mál, vísitölumálið, hefði verið til meðferðar í ríkisstj. nokkuð lengi, bæði á vegum ráðherranefndar, sem ég hef átt sæti í, og á vegum vísitölunefndarinnar svokölluðu. Ég tók það fram að bæði hæstv. forsrh. og hv. formaður Framsfl., sjútvrh., hefðu lagt sig fram um það mestan part að reyna að ná samkomulagi um þetta mál. Ég held að það sé hins vegar svo, að í stuðningsliði beggja hafi verið ýmsir aðilar sem reyndu að pressa það fram að þetta frv. yrði lagt fyrir, jafnvel með ákvæðum sem alltaf hafði legið fyrir að yrðu ekki samþykkt af Alþb. Þar sem um slík viðhorf var að ræða hjá örfáum stuðningsmönnum stjórnarinnar gat auðvitað svo farið sem farið hefur, að lagt yrði fram frv. af forsrh. einum. Frammi fyrir þeirri pólitísku staðreynd stöndum við nú.

Ég vil þessu næst, herra forseti, víkja að frv. sjálfu og einstökum efnisgreinum þess og þá fyrst að sjálfsögðu að því sem rætt er í 1. gr. frv.

Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að nýr vísitölugrundvöllur verði lögfestur nú þegar og taki gildi við næsta vísitöluútreikning. Ég er út af fyrir sig almennt séð þeirrar skoðunar, að það sé eðlilegt að miða við sem nýjastar upplýsingar um neyslusamsetningu, þegar teknar eru ákvarðanir um vísitölugrundvöll. Í þessu efni er þó ekkert sjálfgefið frekar en í öðrum og það er ljóst að nýi vísitölugrundvöllurinn, sem svo er kallaður, er allt öðruvísi samsettur en hinn gamli vísitölugrundvöllur. Þannig eru t. d. landbúnaðarvörur mun léttari í nýja vísitölugrundvellinum en þeim gamla og frá sjónarmiði landbúnaðarins og þeirra sem vilja leggja áherslu á sem mesta sölu innlendra landbúnaðarafurða hlýtur að orka tvímælis að taka inn hinn nýja grundvöll gersamlega óbreyttan.

Auk þess eru í hinum nýja vísitölugrundvelli ýmis atriði sem ekki voru til í þeim gamla, eins og t. d. laxveiðar, hey fyrir sporthesta og sólarlandaferðir. Þar voru aftur á móti ferðir fimmta hvert ár með Gullfossi fyrir vísitölufjölskylduna, sem af eðlilegum ástæðum er ekki með í nýja vísitölugrundvellinum.

Mér finnst þessi dæmi sýna það dálítið vel að í rauninni er ekki alveg einboðið að vísitölugrundvöll eigi að taka upp nákvæmlega eins og hann kemur út úr neyslukönnuninni á hverjum tíma. Það er ekki einboðið, segi ég, vegna þess að ef við tökum þennan grundvöll óbreyttan og reiknum verðbætur á laun eftir honum, þá erum við í raun og veru að borga þeim sem lægstar hafa tekjurnar lægri verðbætur en þeir ættu að fá, miðað við eigin neyslusamsetningu, en aftur á móti þeim sem eru með meiri neyslu hærri verðbætur. Þetta sýnir hvað vísitölumælingin sem slík er í raun og veru varhugavert tæki ef menn nota það ekki með fullri aðgát.

Það er einnig nauðsynlegt, herra forseti, þegar ákveðið er að taka upp nýjan vísitölugrundvöll, ef menn vilja miða við neyslusamsetninguna eins og hún er á hverjum tíma, að það sé í raun og veru nýr vísitölugrundvöllur, en ekki þegar nokkurra ára gamall eins og sá sem hér er verið að tala um. Hann er nú kominn nokkuð á fjórða ár að aldri, þessi vísitölugrundvöllur hinn nýi, sem menn eru að tala um að taka hér upp. Ég er þess vegna alveg sammála því sjónarmiði, sem mér heyrðist koma fram hér hjá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, að nauðsynlegt væri að koma á reglulegum neyslukönnunum til þess að vísitölugrundvöllurinn á hverjum tíma samsvaraði sem best þeirri neyslu sem miða á við. Það er í raun og veru mjög einfalt nú orðið að koma við slíkum könnunum reglulega og útreikningi. Ég teldi reyndar að þetta ætti að vera hægt að gera annað hvert ár eða svo, þannig að tekið væri mið af þeirri neyslu sem menn eru með að jafnaði í landinu á hverjum tíma. Þetta er atriði sem mér finnst að Hagstofa Íslands, sem hefur haft með þessi mál að gera, ætti að taka til athugunar. Ég er alveg viss um að verkalýðshreyfingin í landinu hefur áhuga á því að koma slíkri viðmiðun við. Ég held að það ætti að vera einfalt fyrir okkur, hvað svo sem ágreiningi um vísitölumál líður að öðru leyti, að sameinast um það að viðmiðanir séu endurnýjaðar reglulega.

Ég held að það gæti vel komið til greina að koma á nýjum vísitölugrundvelli fljótlega. Það hefur áður verið gert með lögum. En ég minni á að kjarasamningar renna út núna upp úr miðju þessu ári mig minnir 31. ágúst eða svo, og mér fyndist eðlilegt að samið væri um vísitöluna um leið og kjarasamningarnir eru gerðir. Ég veit að báðir aðilar, verkalýðshreyfing og atvinnurekendur, hafa vissan áhuga á því, þó að fram kæmi á s. l. ári, þegar kjarasamningar voru gerðir, að Vinnuveitendasamband Íslands gerði kröfu um það að teknir yrðu inn fleiri frádráttarliðir í vísitöluna, ef hún ætti að koma til framkvæmda, sú hin nýja, og þess vegna var því hafnað af verkalýðssamtökunum.

Ég held að þetta ákvæði, sem hér er í 1. gr., sé í raun og veru það einfaldasta í þessu frv. Engu að síður ber að leggja á það áherslu að svona ákvörðun á ekki að taka nema í samráði við verkalýðshreyfinguna. Og auðvitað er eðlilegast að nýr vísitölugrundvöllur sé einfaldlega tekinn upp með ákvörðun kauplagsnefndar. Kauplagsnefnd getur tekið slíka ákvörðun. Það er hún sem ákveður við hvað er miðað þegar verðbætur á laun eru reiknaðar út. Þess vegna gæti kauplaganefnd auðvitað, ef hún vildi. með einföldum hætti tekið ákvörðun um það, hvenær sem henni sýnist, að taka hinn nýja vísitölugrundvöll í notkun.

Í 2. gr. frv. er ein veigamesta breyting þess. Þar er kveðið á um breyttar dagsetningar á vísitöluútreikningi. Þar er gert ráð fyrir því að vísitölubætur verði ekki greiddar núna 1. mars heldur 1. apríl og síðan á fjögurra mánaða fresti. Það hefur legið fyrir allan tímann frá því að umr. hófust um þetta mál að Alþb. væri ekki reiðubúið til að fallast á að fresta þessari vísitölugreiðslu til 1. apríl n. k. Við höfum lagt á það áherslu að vísitölubæturnar verði borgaðar út 1. mars. Við teljum að það sé útilokað fyrir fólk að bera dýrtíðina bótalaust einum mánuði, lengur, jafnrík og hún hefur verið nú að undanförnu.

Í þessu frv. eru ákvæði í síðustu og næstsíðustu mgr. um bændur og sjómenn. Ég tel eðlilegt að dagsetningar á fiskverði og búvöruverðshækkunum séu þær sömu og á verðbótum á laun. Mér er hins vegar ekki kunnugt um að þær brtt. sem hér eru hafi verið bornar undir bændasamtökin eða sjómannasamtökin formlega eða óformlega að undanförnu. Hér er gert ráð fyrir því að fiskverðshækkun, sem menn hafa búist við 1. mars, eigi sér ekki stað fyrr en 1. apríl, undir lok vertíðarinnar, og munar auðvitað mjög verulega á því hvort fiskverðsbreyting kemur til framkvæmda 1. apríl eða 1. mars. Mér er ekki heldur kunnugt um að þessi breyting á búvöruverðinu hafi verið borin undir bændasamtökin sérstaklega. Væntanlega fást um það upplýsingar á síðari stigum þessa máls.

Í 4. gr. frv. er annað veigamesta ákvæði þess, en það gerir ráð fyrir breytingum á svokölluðum frádráttarliðum vísitölunnar. Eins og kunnugt er hafa frádráttarliðir verið inni í vísitölunni um margra ára skeið. Fyrst svokallaður búvörufrádráttur alveg frá um það bil 1950, að mig minnir, og síðan frádráttur vegna verðhækkana á áfengi og tóbaki alveg frá 1974. Þessir frádrættir hafa að vísu verið teknir út af og til. T. d. voru þeir teknir út árið 1981 að fullu ef ég man rétt. En þeir hafa komið inn aftur. M. a. samdi Alþýðusambandið um þessa frádrætti í þeim kjarasamningum sem gerðir voru í lok ársins 1981.

Frv. sem hér liggur fyrir gerir ráð fyrir óbreyttum frádráttarliðum frá því sem um er að ræða í Ólafslögum að öðru leyti en því, að bætt er við nýjum frádráttarlið, tölul. 3, en þar segir að breytingar á gjaldskrám raf- og hitaveitna eigi að taka út úr vísitölunni á sama hátt og breytingar á áfengis- og tóbaksverði og breytingar á búvöruverði, sem stafa af breytingum á launalið bóndans. Hér er auðvitað um að ræða grundvallarbreytingu sem hefði vafalaust talsverð áhrif á vísitölu verðbóta á næsta tímabili og framvegis.

Í þessari gr. er einnig annar tölul., tölul. 4, þar sem gert er ráð fyrir því að breytingar á óbeinum sköttum og gjöldum og breytingar á niðurgreiðslum fari líka út úr vísitölunni. Hér er um að ræða mikla grundvallarbreytingu frá því sem verið hefur, og í þessum efnum verða menn auðvitað að átta sig á því, að ef ákvörðun er tekin um að taka óbeina skatta og niðurgreiðslur út úr vísitölunni, þá er ljóst að svigrúm stjórnvalda til ákvörðunar um skattlagningu og áhrif á vísitölu er miklu rýmra eftir þessu en það er nú.

Einnig verða menn að átta sig vel á því. þegar ákvörðun yrði tekin um þetta, hvaða opinber gjöld það eru sem þarna á að fella niður. Í 7. gr. frv. segir:

Forsrh. skal setja nánari reglur um framkvæmd laga þessara.“ Og í 4. gr. segir að breytingar á óbeinum sköttum og gjöldum eigi að fara út. Nú er það mín spurning, hvaða gjöld eru þetta? Hvaða óbeinir skattar eru þetta, sem ætlunin er að setja hér inn í reglugerð? Hvernig á að taka óbeina skatta og opinber gjöld út úr verðlagi í öllum tilvikum? Með hvaða hætti verður það gert? Hvernig verður þetta framkvæmt? Það er óhjákvæmilegt að hv. Alþingi fái nákvæmar upplýsingar um þetta meðan málið er hér til meðferðar í þinginu svo að menn geti áttað sig sem gleggst á því hvað hér er á ferðinni.

Ég vil aðeins, herra forseti, koma aftur að 2. gr. frv. Þar er gert ráð fyrir því að fækka verðbótadögum úr fjórum á ári í þrjá á ári. Gert er ráð fyrir að hér verði um að ræða dagsetningar 1. apríl og síðan 1. ágúst að því er varðar búvöruverðið, en að Sexmannanefnd geti síðan breytt þessu að vild ef henni sýnist svo. Mér sýnist að hér sé settur inn í frv. mikill óvissuþáttur sem þarf að athuga nánar.

Þá er gert ráð fyrir því í 1. mgr. 2. gr. að verðbætur á laun verði greiddar 1. apríl, síðan þá væntanlega 1. júlí og svo aftur 1. nóv. Mér sýnist að hér sé um að ræða dagsetningar sem eru að mörgu leyti mjög óheppilegar. Ég held að heppilegustu dagsetningarnar, ef menn ætla sér að vera með þrjú verðbótatímabil á árinu, væru frekar t. d. 1. jan., 1. maí og 1. sept. Ég held að þessar dagsetningar féllu miklu betur að þeim hreyfingum sem eru í okkar atvinnulífi, bæði í landbúnaðinum og sjávarútveginum, heldur en þær dagsetningar sem settar eru inn í frv. Þess vegna finnst mér að þegar út frá þessari efnislegu ástæðu sé frv. ótímabært og væri miklu eðlilegra að hér yrði við það miðað að nýtt kerfi tæki gildi t. d. frá og með nýjum kjarasamningum í haust í kringum 1. sept.

Þetta voru nokkrar athugasemdir, herra forseti, sem ég vildi gera við frv. sjálft. Ég held að það sé óhjákvæmilegt, þegar farið er yfir þessi mál, að við gerum okkur sem besta grein fyrir þeirri almennu stöðu sem okkar þjóðarbú er í um þessar mundir og veltum því fyrir okkur, hvort frv. af þessu tagi geti leyst þar nokkuð verulega úr. Ég held að svo sé í rauninni ekki. Ég held að okkar þjóðarbú standi núna frammi fyrir alvarlegri vandamálum en oft áður, það standi á krossgötum. Við höfum um áratuga skeið búið við svo að segja jafnan hagvöxt á ári hverju. Frá því eru ekki margar undantekningar í eftirstríðsárasögunni. Nú stöndum við frammi fyrir tvennu: Í fyrsta lagi ytri alþjóðlegri kreppu, sem birtist okkur í hækkandi verði á innfluttum afurðum, lækkandi verði á okkar afurðum og samdrætti á mörkuðum fyrir okkar eigin vörur. Hins vegar birtast þessar breytingar okkur í því. að við erum komin að endimörkum nýtingar okkar eigin auðlinda. Það er þess vegna ljóst að mínu mati að vandinn á næstu árum í íslensku efnahagslífi horfir allt öðruvísi við en verið hefur um langt skeið.

Það er mikil tíska í stjórnmálaumræðunni þegar eins stendur á og nú í efnahagsmálum, að kenna stjórninni um, stjórn þeirri sem setið hefur á næstu árum á undan, það sé henni að kenna hvað misfarist hefur. Ég held að þarna sé oft um miklar ýkjuumræður að ræða sem gefi mönnum ranga mynd af veruleikanum og gefi mönnum líka falskar vonir um möguleika til að lagfæra hlutina. Ég held að við þurfum að gera okkur það mjög vel ljóst, að frammi fyrir þeim vandamálum sem uppi eru núna duga engar töfralækningar af neinu tagi frekar en fyrri daginn.

Viðskiptahallinn magnar vandamál efnahagslífsins dag frá degi. Ég er þeirrar skoðunar að viðskiptahallinn sé eitt alvarlegasta efnahagsvandamálið á Íslandi í dag. Fyrst og fremst vegna þess að hann skapar erlendar skuldir sem eru margfaldar í sumum tilvikum á við þær erlendu skuldir sem stofnað er til vegna framkvæmda. Hér í þessum sal setja menn á langar ræður stundum um fjárfestingar- og lánsfjáráætlanir ríkisstj. Menn eru að vonum áhyggjufullir yfir þeim háu tölum um erlent lánsfé sem þar birtast okkur. Engu að síður er það staðreynd, að þær tölur eru í rauninni lágar miðað við þær erlendu skuldir sem hlaðast upp vegna viðskiptahallans, vegna þess að við flytjum meira inn í landið en við ráðum við að borga með okkar eigin framleiðslu. Ég tel að þetta séu í raun og veru alvarlegustu efnahagsvandamálin á Íslandi í dag. Ég tel að þetta frv. hafi í rauninni þar engin áhrif á, eins og það er nú. Ég tel að gagnvart svona stórum vanda beri að grípa til mjög víðtækra efnahagsaðgerða og að okkur beri þá að leggja áherslu á að sameina kraftana í þjóðfélaginu um þær efnahagsaðgerðir, en við eigum ekki við slíkar aðstæður að sundra þeim sem saman eiga.

Núv. ríkisstj. greip til þeirra ráða á s. l. ári að verðbætur á laun voru skertar 1. des. Það var sársaukafull aðgerð, sem kemur við alþýðuheimilin í landinu, hefur í för með sér minni kaupmátt og minni kaupgetu. Þessi aðgerð var einn þátturinn í því að draga úr viðskiptahallanum og erlendum skuldum. En fleira þarf að koma til. Eitt af því sem hefur valdið mér nokkrum vonbrigðum í núv. hæstv. ríkisstj. er hversu seint hefur gengið að grípa til ýmissa efnahagsaðgerða að auki sem óhjákvæmilegar eru. Ef hinn breiði fjöldi launafólks í landinu á að finna sig í því að taka á sig nokkrar byrðar, þá verður heildin að leggja ekki minna, heldur í sumum tilvikum meira á sig. Ég tel að megináhersluatriði efnahagsmálanna núna á næstunni eigi að vera þrjú. Í fyrsta lagi eigi að grípa til ráðstafana innan okkar efnahagskerfis til þess að takamarka innflutning og spara gjaldeyri. Ég er ekki að tala hér um það sem kallað hefur verið höft. Ég er að tala hér um að gripið verði til aðgerða af ýmsum toga sem draga úr innflutningi og þar með úr gjaldeyriseyðslu. Ég er að tala um aðgerðir sem samrýmast okkar alþjóðlegu fríverslunarsamningum í öllum meginatriðum. Ég tel að með slíku átaki eigi að vera unnt að ná eins og 1/3 af þeim viðskiptahalla sem enn stendur eftir á þessu ári. Annar þriðjungur þessa viðskiptahalla verður svo að nást niður með kerfisbundnum sparnaði í þjóðfélaginu öllu. Hér á ég við ríkisvaldið sjálft, hér á ég við sveitarfélögin, hér á ég við fyrirtækin, hér á ég við það að lagðar verði niður stofnanir, sem um árabil hafa verið starfræktar hér í landinu en ekki hefur fengist pólitísk samstaða um að leggja niður eða breyta í grundvallaratriðum.

Ég get nefnt eina stofnun til marks um það hvað ég á við þegar ég er að tala um stofnanir sem eigi að breyta í grundvallaratriðum, spara og flytja starfsemina til. Framkvæmdastofnun ríkisins. Ég tel að í þessu alhliða sparnaðarátaki eigi að sameina fyrirtækin. Ég nefni olíufélögin sem dæmi. Ég tel að í þessu allsherjar sparnaðarátaki eigi að draga úr milliliðakostnaði, grípa til ráðstafana þar sem beinlínis fækkar þeim sem fást við innflutningsverslun og tryggja að hún verði sem allra kostnaðarminnst. Ég tel að það eigi að grípa til krónutöluálagningar en ekki prósentuálagningar í innflutningi, eins og núv. ríkisstj. hefur gert fjölmargar samþykktir um en ekki hefur verið sinnt. Ég tel að með þessum hætti mætti ná verulegum árangri til sparnaðar í þjóðfélaginu öllu. Ég er þeirrar skoðunar að það sé meginatriði að þjóðarátak sé gert í þessu skyni, þar sem hvarvetna sé reynt að fara yfir það hvað er hægt að spara, til þess að draga úr þeim mikla viðskiptahalla og erlendu skuldasöfnun sem þjóðin nú horfir á. Ég tel að þessi sparnaður verði að eiga sér stað í atvinnugreinum okkar, í sjávarútveginum, í landbúnaðinum og í iðnaðinum. Ég tel að hann eigi að eiga sér stað í milliliðunum og í versluninni. Hérna þurfi allir að leggjast á eitt. Ég er sannfærður um að með því er unnt að ná hér verulegum efnahagslegum árangri.

Þriðja atriðið, sem ég tel að við eigum að leggja áherslu á nú gagnvart þessum mikla viðskiptahalla, er stóraukin framleiðsla. Ég held að unnt sé að auka framleiðsluna í landinu og verðmæti framleiðslunnar. Ég held að bara með því einu að draga verulega úr skreiðarverkun en flytja í staðinn hráefnið yfir til arðbærari greina í sjávarútveginum, hvort sem það er blokk eða flök, gætum við skapað okkur mjög verulega fjármuni. Ég fyrir mitt leyti er viss um það, að með markvissri, skipulagðri stefnu í sjávarútvegsmálum, þar sem tekið er á veiðum og vinnslu í senn, er unnt að ná hundruðum millj. kr. inn í þjóðarbúið.

Það voru nefndar tölur í tímaritinu Ægi fyrir nokkru um 200 millj. kr. sem væri hægt að ná inn í þjóðarbúið með betri meðferð aflans í fiskvinnslustöðvunum. Ég er þeirrar skoðunar að þessi tala sé allt of lág til þess að sýna þá möguleika sem okkar sjávarútvegur hefur enn. Hérna eigum við geysilega mikla ónotaða möguleika og þá eigum við að sjálfsögðu einnig í okkar iðnaði, þar sem við getum lagt á það aukna áherslu að framleiða fyrir stærri hluta af heimamarkaðinum en við gerum nú. Með þessum hætti, að leggja áherslu á takmörkun innflutnings, alhliða sparnað og aukna framleiðslu, á að vera unnt að vinna viðskiptahallann niður og skapa forsendur til þess að menn geti stöðvað sig í þeirri skriðu erlendrar skuldasöfnunar sem annars er hætta á.

En það þarf fleira að koma til. Þetta dygði að sjálfsögðu ekki vegna þess að núna hafa aðstæður það í för með sér, að örugg atvinna á næstu árum er ekki jafn sjálfgefin og hún hefur verið í sumra augum á síðustu árum. Á síðustu 8 eða 9 árum hafa bæst við á vinnumarkaði á Íslandi 17 þús. atvinnutækifæri. Það hafa bæst við á hverju ári um 1500–1600 atvinnutækifæri, á hverju ári hefur þetta komið til. Nú er því spáð af Þjóðhagsstofnun, að ef þjóðarframleiðslan dregst jafnmikið saman og nú eru horfur á og sumpart er þegar orðið, þá verði atvinnutækifærin sem bætast við ekki 1500–1600 á ári, heldur kannske 100–300 á ári. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að um leið og við setjum okkur það að rífa hér upp framleiðsluna og skapa þannig forsendur fyrir betri lífskjörum í landinu eigum við jafnframt að gera áætlun til nokkurra ára um virka atvinnumálastefnu, þar sem við setjum okkur það að tiltekinn fjöldi manna fái hér störf á næstu árum. Ísland má ekki verða fórnarlamb atvinnuleysisins. En það eru margar aðrar leiðir til en sú sem hv. þm. hér nefndi í þessu efni. Ég er sannfærður um að ef þarna er vel og markvisst unnið, þá er unnt að benda á mikla möguleika, en ég held — eða óttast það öllu heldur, að á síðustu árum hafi menn vanist við það að líta á fulla atvinnu sem sjálfgefinn og fyrirhafnarlausan hlut. En það er ekki þannig að mínu mati. Ég held að við þurfum þarna að standa miklu betur að en við höfum gert á liðnum árum vegna þess hvaða horfur eru fram undan.

Þetta, herra forseti, tel ég að séu stærstu málin í íslenskum efnahagsmálum um þessar mundir, þ. e. að hægt sé að verjast á þeim krossgötum sem þjóðarbúið nú stendur frammi fyrir, það sé hægt að verjast atvinnuleysinu með markvissum hætti, verja kjörin og tryggja það að hér verði lífskjör almennt ekki lakari en gerist í grannlöndum okkar, svo að við þurfum ekki að missa héðan fólk í stórum stíl vegna þess að það hafi hér ekkert fyrir sig að leggja eins og var á síðustu árum viðreisnarstjórnarinnar.

En hvað kemur þetta allt því máli við sem hér er á dagskrá? Jú, það kemur því þannig við að mínu mati, að ég tel að þegar við ræðum um nýtt viðmiðunarkerfi fyrir laun séum við að ræða um mjög mikilvægan þátt kjara- og efnahagsmála í landinu. Það er óhjákvæmilegt að þá sé bent á hver séu í rauninni aðalatriðin í því efnahagsdæmi sem nú er við að glíma.

Ég gæti sýnt fram á það með nokkrum orðum hér í viðbót að á liðnum árum hefur núv. ríkisstj. átt mjög gott samstarf við verkalýðshreyfinguna í landinu. Ríkisstj. hefur gripið til aðgerða sem verkalýðshreyfingin hefur stundum samþykkt og stundum látið ómótmælt. Ég teldi það mikla skammsýni, þegar við stöndum frammi fyrir nýjum kjarasamningum á hausti komanda, að efna til ófriðar við verkalýðshreyfinguna með því að knýja í gegn vísitölufrv. sem hún er í grundvallaratriðum andvíg.

Ágreiningurinn um þetta vísitölufrv. stafar í fyrsta lagi af því að við teljum að það sé gagnslítið, eins og það er hér lagt fyrir, í baráttunni gegn verðbólgu. Í öðru lagi af því að ekkert samráð hefur verið haft við verkalýðshreyfinguna, og því að frv. stofnar stjórnarsamstarfinu í hættu eins og nú er í pottinn búið. Það er í þriðja lagi mín skoðun að eðlilegt sé, þegar við nú horfum fram á kosningar eftir skamman tíma, að miða við það að ný ríkisstj. taki á efnahagsmálunum í heild, bæði vísitölumálum, framleiðsluvandamálum þjóðarbúsins, atvinnumálum og öðrum þáttum. Ég tel ekki eðlilegt að rífa þetta mál út úr samhengi við önnur mál um þessar mundir.

Ég minni á það að ætlunin var að jafnhliða ákvörðun um vísitölumálið yrði tekin ákvörðun um breytingu á verðlagskerfi sjávarútvegsins, það yrði tekin ákvörðun um breytingar á búvöruverðsákvörðunum, það yrði tekin ákvörðun um breytingar á húsnæðislánakerfinu, það yrði tekin ákvörðun um traustari peningamálastefnu og þar fram eftir götunum. Þetta hefur ekki tekist að tryggja. Það er vegna þess að ríkisstj. hefur ekki haft nægilega sterkan meiri hl. á Alþingi til að koma þessum málum fram. Ég tel því að hérna séu menn að taka út úr einn þátt, sem sé í rauninni fráleitt að gera, miðað við allar aðstæður.

Ég vil minna á í þessu sambandi, herra forseti, að fyrir örfáum mánuðum voru umr. um það í þessum sal að nauðsynlegt væri að breyta útreikningi lánskjaravísitölu. Það þyrfti að endurskoða og laga reikning lánskjaravísitölu og tryggja það að þeir sem eru með húsnæðislán þyrftu ekki að bera hækkandi lánskjaravísitölu á tímum lífskjarasamdráttar. Hvað hefur verið gert í sambandi við þetta mál? Það hefur verið gert sorglega lítið. Og ég verð að segja alveg eins og er, að mér finnst það nokkur tilætlunarsemi að á sama tíma og þetta liggur fyrir skuli menn vilja reyna að ná fram máli af þessu tagi, sem sumpart inniheldur hluti sem alltaf hefur verið vitað að við, fulltrúar Alþb., hefðum ekki getað samþykkt. Hv. talsmenn stjórnarandstöðunnar komu hér upp áðan og héldu ræður og erindi. Þeir höfðu enga skoðun á þessu máli. Það var athyglisvert. Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.