15.02.1983
Sameinað þing: 51. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2006 í B-deild Alþingistíðinda. (1741)

191. mál, vegáætlun 1983-1986

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi láta í ljós ánægju mína yfir því að hæstv. samgrh. skuli hafa lagt vegáætlun fram þó seint sé. Auðvitað hefði verið betra að fá vegáætlunina fyrr til meðferðar, en þó skammt sé til þingloka er betra að fá hana fram þó seint sé en ekki, og mætti gjarnan verða hæstv. fjmrh. til fyrirmyndar varðandi frv. til lánsfjárlaga, sem hann virðist ætla að þráast við að leggja fram, jafnvel þótt fyrir liggi að þingi ljúki innan nokkurra vikna, innan hálfs mánaðar eða þriggja vikna, sem er náttúrlega dæmalaus framkoma.

Eins og þessi till. ber með sér hafa vonir okkar, þeirra sem bjartsýnastir voru um vegaframkvæmdir, að því leyti ekki ræst að þjóðarframleiðsla hefur dregist saman og af þeim sökum er minna til vegamála en ella mundi. Gjöldum við þarna þeirrar stefnu sem fylgt hefur verið í atvinnu- og efnahagsmálum. Óstjórnin undanfarin ár kemur líka fram í vegalögunum. Hún kemur hvarvetna fram. Það er ekki aðeins að tekjur heimilanna minnka, það er ekki aðeins að skuldir erlendis aukist, það kemur líka fram í því að minna er til vegamála en ráð hafði verið fyrir gert.

Ég vil í fyrsta lagi segja að það er nokkur galli við þessa vegáætlun að henni skuli fylgja beiðni um nýja skattheimtu í landinu. Það er að sjálfsögðu afleiðing af því að ríkissjóður hefur tekið til sín það fjármagn sem lagt hefur verið á umferðina á undanförnum árum. Eins og fram kemur í grg. till. er ekki einu sinni gert ráð fyrir því í fjárlögum að til vegamála fari sú fjárhæð sem þó hafði verið gert ráð fyrir. Það var skorið við nögl, en í staðinn á að leggja á nýjan skatt til að afla fjár til vegamálanna. Þetta er að sjálfsögðu galli.

Ég skal ekki á þessu stigi fara mörgum orðum um einstök atriði, en ég vil þó segja að hver er sjálfum sér næstur. Við tölum mikið um byggðastefnu hér í sölum Alþingis. Við viljum leggja mikið upp úr því að landið sé allt byggt og mörg orð hafa verið um það sögð hversu mikill styrkur strjálbýlinu sé að því að eitthvert byggðamótvægi skuli vera til á Norðurlandi á móti höfuðborgarsvæðinu. Ég held að enginn strjálbýlismaður gæti hugsað þá hugsun til enda, hvernig atvinnuástandið væri eða hvernig byggðamálin væru ef Eyjafjarðarsvæðið væri þó ekki eins sterkt og það er.

Á sínum tíma þótti það lýsa nokkrum stórhug þegar Alþingi tók þá ákvörðun að leggja hringveg í kringum landið. Þegar sá fyrir endann á því var flutt hér till. til þál. um sérstaka fjáröflun í því skyni að byggður yrði upp vegur og lagt varanlegt slittag á þjóðveginn milli Akureyrar og Reykjavíkur. Alþingi lýsti vilja sínum í þeim efnum. Ég man það áreiðanlega rétt. Síðan hefur menn skort þrek til að fylgja þessari hugmynd fram.

Nú stendur svo á, að miklar framkvæmdir eiga að verða við Blönduvirkjun á næstu árum. Norðlendingar hafa staðið mjög fast saman um þá framkvæmd og litið svo á að hún væri styrkur fyrir allt Norðurland. Það er ekki aðeins Norðurl. v. heldur líka Norðurl. e. sem hefur lagt áherslu á að sú virkjun risi. Á hinn bóginn er ómögulegt að neita því, að mjög slæmar vegasamgöngur milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar torvelda eðlileg viðskipti og eðlilega þjónustumiðlun á milli einstakra byggðarlaga í Norðurlandi. Það er komið svo nú, að á þeim hluta hringvegarins sem er milli Akureyrar og Reykjavíkur eru sumir verstu kaflarnir í þjóðvegakerfi landsins. Þar á ég annars vegar við veginn um Hörgárdal og Öxnadal og hins vegar veginn upp Norðurárdalinn. samkv. þeirri langtímaáætlun sem hér liggur fyrir — og ég vil taka það skýrt fram að með ummælum mínum er ég síður en svo að sakast við hæstv. samgrh. og enginn má skilja orð mín svo, ég er almennt að gagnrýna þá stefnu sem hér er lýst og hefur verið mörkuð, — er gert ráð fyrir að í árslok 1986 verði ekki ennþá byrjað á því að lagfæra þjóðbrautina milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar og töluvert í land í Norðurárdalnum. Ef við förum fram til ársins 1990 má segja að þessi leið milli þessara tveggja helstu þéttbýlisstaða sé komin verulega áleiðis, vantar þó herslumuninn. Nú er það reynsla okkar að áætlanir, sem settar séu fram, séu afskaplega bjartsýnar áður en fjármagnið er útvegað. Við munum eftir mjög bjartsýnni vegáætlun forvera núv. hæstv. samgrh., Ragnars Arnalds, meðan hann sat um stutt skeið í sæti samgrh. Þá var hann bjartsýnn og þá taldi hann nóga peninga til. Síðan varð hann fjmrh. og var ekki jafnrausnarlegur á fjármunina eftir að hann bar ábyrgð á ríkissjóðnum. Ég held að það sé óhjákvæmilegt í tengslum við afgreiðslu langtímaáætlunar í vegamálum nú, að alþm. geri upp hug sinn varðandi þessa leið. Hluti hennar kemur öðrum kjördæmum vitaskuld til góða, eins og vegurinn upp Norðurárdal. Það er ekki bara fyrir Akureyri og það er ekki bara fyrir Sauðárkrók. Það er fyrir aðra landsmenn einnig. Og ég fullyrði að þeir miklu þungaflutningar sem eru á þessari höfuðleið, þessum möndli milli tveggja mestu þéttbýlisstaða landsins, kalla á að vegirnir séu byggðir upp mjög rösklega.

Nú get ég auðvitað skilið að þm. úr öðrum kjördæmum eigi erfitt með að sætta sig við að þessi hluti vegakerfisins hafi nokkurn forgang. Það er að sjálfsögðu skiljanlegt. En við höfum nú orðið að kyngja því um suma aðra staði að þeir hafa haft forgang, þeir hafa gengið á undan í sambandi við vegamálin. Það er ekki nægilegt að mæla eingöngu fjölda bifreiða. Ef við viljum halda uppi eðlilegri byggðaþróun verðum við líka að hugsa um tengsl milli helstu byggðakjarna og átta okkur á því að þeir erfiðleikar, sem nú eru að gera vart við sig úti á landsbyggðinni, verða í verulegum dráttum raktir til þess að samgöngurnar eru ekki nógu góðar. Þetta vil ég segja um einn sérstakan þátt vegáætlunarinnar.

Ég verð því miður að segja samt sem áður, að ég geri mér ekki miklar vonir um að í hinu háa Alþingi sé skilningur á sérstöðu þessarar leiðar, sem ég hef verið að tala um, vegarins milli Reykjavíkur og Akureyrar. Ég óttast mjög að einstakir þm. vilji ekki setja sig inn í þetta nauðsynjamál. En á það er þó einnig að líta og á það vil ég leggja áherslu, að ef unnt yrði að koma þessum parti leiðarinnar frá yrði rýmri fjárhagur næsta ár á eftir og þá hægt að hraða ýmsum málum öðrum, sem líka þurfa að bíða of lengi, og flýtir ekki fyrir að draga einhverja mikilvægustu vegagerð landsins af því sem eftir er.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Eins og ég sagði ber þessi vegáætlun þess vitni að okkar framleiðsla er að dragast saman. Við eigum við mikla erfiðleika að stríða í okkar efnahagslífi. Það er að sjálfsögðu út í hött að kenna eingöngu útlendingum um það, eins og sumir vilja gera, og ástandinu í öðrum löndum. Það er síður en svo að svo vel hafi verið haldið á málum hér heima, að menn geti hvítþvegið sig. Samviskan er nú ekki alveg hvít, eins og fram kom í ummælum hæstv. félmrh. hér fyrr í dag. En ég vænti þess að Alþingi gefi sér tíma til að ganga frá þessari áætlun áður en þing verður rofið.