15.02.1983
Sameinað þing: 51. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2012 í B-deild Alþingistíðinda. (1745)

192. mál, langtímaáætlun í vegagerð

Egill Jónsson:

Herra forseti. Ég tek undir þau orð sem hér hafa verið látin falla um það, að það er út af fyrir sig ánægjulegt að þáltill. um langtímaáætlun í vegagerð skuli hafa verið lögð fyrir Alþingi. Hins vegar er það nokkurt umhugsunarefni að það skuli ekki hafa verið gert fyrr, þegar fyrir liggur að Alþingi á einungis stutt eftir af sínu starfi, og ekki síst vegna þess að í raun var gert ráð fyrir því að afgreiða þessa vegáætlun fyrir einu ári síðan. En það er vissulega líka ástæða til að minnast aðeins á aðdragandann að þessari vegáætlun. Hann var m. a. sá, að Sjálfstfl. lagði fram á árinu 1981 till. um langtímaáætlun í vegagerð og ríkisstj. gerði slíkt hið sama, þannig að hér voru þá til meðferðar tvær áætlanir um langtímaverkefni í vegagerð.

Sá meginmunur var á þessum tveim áætlunum, að í tillögu okkar sjálfstæðismanna var gert ráð fyrir því að ná tilteknum markmiðum á 10 árum, en í þeirri till. sem ríkisstj. lagði fram var hins vegar framkvæmdatíminn hér um bil helmingi lengri. Þetta skiptir þó ekki meginmáli heldur hitt, að Alþingi varð sammála um að afgreiða þessar tillögur báðar með sameiginlegri ályktun. Og það er einmitt sú ályktun sem hæstv. samgrh. var áðan að vitna til. Þar voru tilgreind sérstaklega fjögur meginmarkmið sem áætlunin ætti að taka til. Í fyrsta lagi er þar kveðið á um að vegir hafi fullt burðarþol, 10 tonn allt árið. Og ég vek þegar í stað athygli hv. alþm. á því, að þetta markmið er ekki einungis bundið við stofnbrautir heldur vegi almennt séð. Í öðru lagi að vegir séu byggðir upp úr snjó eftir því sem unnt er. Það markmið er ekki heldur einvörðungu bundið við stofnbrautir. Síðan kemur þriðja atriðið, bundið slitlag, sem er miðað við áætlaðan umferðarþunga er nemi 100 bifreiðum á sólarhring. Og svo að síðustu að tekið sé tillit til umferðaröryggis við uppbyggingu veganna. Þetta var það sem Alþingi varð sammála um. Þetta var það sem þm. bæði í stjórn og stjórnarandstöðu komu sér saman um árið 1981.

Þegar nú er fjallað um áætlunina sem slíka og hún tekin hér til afgreiðslu verður að sjálfsögðu ekki komist hjá því að meta hvort þessi markmið, sem Alþingi setti fram 25. maí 1981, séu til staðar í langtímaáætluninni. Að sjálfsögðu gefst kostur á að ræða það mál nánar í fjvn. og þegar málið kemur aftur til umr. hér á hv. Alþingi, en núna við þessa umr. vildi ég þó leyfa mér að benda á nokkur atriði.

Það fyrsta er að áætlunin er nær einvörðungu miðuð við stofnbrautir. Hún tekur nálega ekkert til þjóðbrauta. Í öðru lagi hefur þegar komið fram í máli hæstv. samgrh. að nú er farið að þrengja þau verkefni sem hinn svokallaði stuðpúði, eins og hæstv. ráðh. orðaði það, átti að leysa í þessari vegáætlun. Nú er einvörðungu talað um að þau 20% af fjármagninu, sem er haldið utan við framkvæmdakostnað, eigi að ganga til þess að mæta verðbólgunni í landinu. Það er út af fyrir sig ekki óeðlilegt að á það sé minnst hér, þegar fyrir liggur að þegar er búið að ráðstafa fyrir fram vegna framkvæmda síðasta árs stórum hluta af þeim 20% sem voru geymd til ársins í ár.

Annað er það sem ekki heldur má gleymast og í rauninni liggur fyrir án þess að til þeirrar skerðingar á þjóðarframleiðslu hafi komið sem nú er raun á. Í þeim efnum vitna ég m. a. í erindi sem vegamálastjóri og umdæmisverkfræðingur Vegagerðar ríkisins fluttu á fundi sveitarfélaga á Austurlandi á s. l. sumri. Þar var frá því sagt að á þessa áætlun varðandi stofnbrautirnar mætti líta sem verkefni fram undir næstu aldamót. Þá sjáum við að þessi vegaáætlun er farin að bera ærið mikinn keim af þeim markmiðum sem ríkisstj. setti fram í sínum tillöguflutningi veturinn 1981, að þessi verkefni tækju fast að tveimur áratugum.

Ég vil líka minna á það sem fram kom hér við umr. á s. l. ári, m. a. yfirlýsingar hæstv. samgrh. um að hinir svokölluðu Ó-vegir yrðu fjármagnaðir með sérstökum fjárveitingum, en fjármagn til þeirra yrði ekki tekið af þeim verkefnum sem sérstaklega væri fjallað um í vegáætlun. Nú hefur þetta reynst með öðrum hætti. M. a. hefur það leitt til þess að fjármagn hefur færst til á milli kjördæma. Þannig er hlutur Austurlands mun verri en ella hefði verið.

Ég undirstrika það sem kom hér fram í ræðu hv. þm. Halldórs Blöndals, þegar rætt var um vegáætlun 1983-1986, að það er ekki nema einn þáttur þessara mála þegar verið er að tala um stofnbrautirnar. Ég minni á það sem kom fram hér á síðasta þingi, m. a. hjá hæstv. samgrh., að áætlun yrði til staðar um þjóðbrautir þegar vegáætlun kæmi nú fyrir Alþingi. Á þær er að vísu minnst í þessari áætlun, en öllu fátæklegra gat það ekki orðið. Ég vek athygli á því að hæstv. samgrh. minntist varla á þjóðbrautirnar. Hann talaði nánast einvörðungu um stofnbrautir. Ég hygg þó að æði margir alþm. hafi áhuga á því að ná fram myndarlegu átaki í uppbyggingu stofnbrauta umhverfis landið án þess þó að þjóðbrautaféð sé dregið til þeirra verkefna. Á bls. 18 kemur fram hvernig áætlað er að þau mál þróist. Þar er frá því sagt að uppbygging þjóðbrautanna muni taka 28 ár, eða helmingi lengri tíma en uppbygging stofnbrautanna, sem reyndar er þó fyrirséð að muni raskast.

Ég ætla ekki að svo komnu máli að fjölyrða frekar um þetta, en legg á það áherslu að Alþingi hlýtur að meta við gerð þessarar áætlunar hvaða samræmi það ætlar að hafa í ákvörðunum sínum, þeim sem það tók 25. maí 1981 og svo þeim sem það tekur væntanlega núna innan fárra vikna. Það hlýtur þá líka að koma skýrt fram, ef víkja á frá þeirri ályktun, hvort það á að koma niður á þjóðbrautunum í landinu. Og þá fæst um leið mikilvægur skilningur Alþingis á því með hvaða hætti eigi að skipa byggðinni í landinu.