15.02.1983
Sameinað þing: 51. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2014 í B-deild Alþingistíðinda. (1746)

192. mál, langtímaáætlun í vegagerð

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Um leið og ég lýsi ánægju yfir því að till. til þál. um langtímaáætlun hefur komið hér fram á Alþingi og sömuleiðis vegáætlunin fyrir 1983–1986 vil ég að gefnu tilefni, vegna orða hv. 11. landsk. þm. er hann var að rekja forsögu þessara mála, taka fram að út af fyrir sig hef ég ekkert við hans skýringar að athuga að öðru leyti en því, að ég vil benda honum á að í þessum málum komu fram fleiri þáltill. en þáltill. hv. sjálfstæðismanna og till. ríkisstj. Það var einnig um að ræða þáltill. frá þingflokki Framsfl., sem hann var búinn að endurflytja þing eftir þing, þáltill. um 10 ára áætlun í varanlegri vegagerð. Ég fagna því eins og hv. þm. að takast skyldi allsherjarsamkomulag um langtímaáætlun, sem lögð var fram á síðasta ári hér á hv. Alþingi, nást skyldi sú samstaða sem býr að baki þeirri áætlun. Þetta er ákaflega þýðingarmikið og ég vona svo sannarlega að alþm. haldi áfram þeirri samstöðu sem um þessi mál hefur náðst og haldi fast við það að fylgja fram þeirri áætlun sem unnið hefur verið að og unnið verður að. Ég vil taka undir með hæstv. samgrh. um hina miklu þýðingu sem vegagerð hefur fyrir þjóðlífið í heild. Eins og við höfum oft sagt hér áður er þetta eitt stærsta og þýðingarmesta byggðamál sem við vinnum að. Þar má ekki láta deigan síga. Við verðum að standa saman um að fylgja þessu máli fast eftir.

Í sambandi við það sem hv. þm. Halldór Blöndal sagði hér áðan varðandi veginn norður, Reykjavík-Akureyri, árétta ég að auðvitað hafa allir áhuga fyrir þeirri vegagerð. Ég vil benda honum á það m. a., að það hefur sannarlega verið erfitt fyrir okkur þm. á Vesturlandi að þurfa að beygja okkur fyrir þeirri staðreynd, að við verðum fyrst að láta leggja varanlegt slitlag á veginn yfir Holtavörðuheiði áður en við förum að eygja von í varanlegu slitlagi á veginn vestur Mýrar, svo að eitthvað sé nefnt. Þetta gerum við vegna þess að við beygjum okkur fyrir þeirri staðreynd, að vegurinn upp Norðurárdal norður yfir Holtavörðuheiði og til Akureyrar er mikilvægur þáttur í heildarvegagerðinni sem verður að hafa vissan forgang. En vissulega þyrfti að skoða það atriði nánar, hvort hægt væri að útvega sérstakt fjármagn í þessa vegagerð, sem léttir á landshlutunum hvað þetta snertir.

Ég ætla ekki, herra forseti, að tefja umr. um þetta mál. En út af því einnig sem hv. 11. landsk. þm. sagði vil ég leggja áherslu á það, að Vegagerðin geti hraðað sem mest úttekt og áætlunum um þjóðbrautirnar. Þær eru, eins og hann réttilega sagði, ákaflega mikilvægur þáttur í vegakerfinu. Við þurfum að fá þjóðbrautirnar inn í myndina á sama hátt og Vegagerðinni hefur tekist að setja stofnbrautir landsins, sem er ákaflega þýðingarmikið atriði.

Ég vil svo að lokum segja að ég tel að Vegagerð ríkisins hafi staðið vel að þessum málum. Það er ákaflega mikilvægt, einmitt í svona mikilvægum framkvæmdaþáttum þjóðarinnar, að vel sé staðið bæði að rannsóknum og undirbúningi verka. Þessi langtímaáætlun, sem ákveðið var að gera í þessu formi, að miða við ákveðna prósentu af þjóðartekjum, gerir það að verkum að Vegagerð ríkisins getur staðið allt öðruvísi að undirbúningi framkvæmda en verið hefur áður. Með því ætti að skapast meira öryggi í framkvæmd vegamála á Íslandi. Að lokum vona ég að menn átti sig á því núna í þessari stöðu að þm. verða að hafa hraðar hendur til þess að það slys hendi okkur ekki að ekki verði búið að afgreiða vegáætlunina áður en Alþingi lýkur störfum fyrir komandi kosningar.