15.02.1983
Sameinað þing: 51. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2018 í B-deild Alþingistíðinda. (1749)

192. mál, langtímaáætlun í vegagerð

Egill Jónsson:

Herra forseti. Það er alveg ástæðulaust að teygja úr þessari umr., einkum vegna þess að tími fæst til þess síðar að fjalla um þetta mál. Ég vil þó minnast hér á tvö mikilvæg atriði sem komu fram í ræðu hæstv. samgrh.

Hið fyrra var það, að hann talaði um að í vegalögum væri gerður greinarmunur á þjóðbrautum og stofnbrautum og þar væru tilgreind áhersluatriði um þessa tvo mikilvægu verkþætti. Það er ekki það sem verið er að tala um hér núna. Það var ekki það sem ég byggði mál mitt á, heldur var það sú ályktun sem Alþingi samþykkti vorið 1981. Það er hún sem leggur grundvöll að þeirri áætlunargerð sem hér er til umr.

Hitt atriðið, sem ég vil líka benda á og gera athugasemd við, er að hæstv. samgrh. bar fyrir sig þingmannanefndina. Þingmannanefndin hafði það verkefni að fjalla um skiptinguna, og skiptingin í hinum einstöku kjördæmum var að sjálfsögðu skýrð í þingflokki Sjálfstfl., en ekki þær stefnumótandi ákvarðanir sem hæstv. samgrh. ber fyrir sig að þingmannanefndin hafi tekið, þar á meðal um að fjármagna bæri Ó-vegina af þessu heildarfjármagni, þótt það gengi þvert á hans yfirlýsingar. Reyndar hélt hann áfram að lýsa því yfir alveg fram á vor og eftir að þingmannanefndin lauk störfum. Ég vil þó alveg sérstaklega benda á að þingmannanefndina er ekki hægt að bera fyrir niðurstöðunni um tímalengd þjóðbrautaáformanna, einfaldlega vegna þess að þær tölur voru ekki til staðar þegar sú nefnd var að störfum. Í fyrravor, þegar verið var að fjalla um málið eftir að till. um þetta efni var flutt hér á Alþingi, leitaði ég alveg sérstaklega eftir því við Vegagerðina hver stærð þessa verkefnis væri. Hún var þá alls ekki til staðar. Þingmannanefndin hafði þess vegna enga möguleika á því að tímasetja þjóðbrautaframkvæmdirnar til 28 ára. Hún hefur þá gert það beint út í loftið. Ég vil biðja menn að taka þessum skýringum hæstv. samgrh. með nokkurri varúð, að ekki sé meira sagt.