15.02.1983
Sameinað þing: 51. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2021 í B-deild Alþingistíðinda. (1754)

140. mál, hafnaraðstaða í Þorlákshöfn

Flm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. þm. Guðmundi Karlssyni og Eggert Haukdal að flytja till. til þál. um rannsókn á hafnaraðstöðu í Þorlákshöfn.

Till. sem ég fjalla hér um er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta fara fram ítarlega rannsókn á því, með hverjum hætti hagkvæmast muni að bæta hafnaraðstöðuna í Þorlákshöfn. Sú könnun beinist einkum að:

1) stækkun hafnarinnar til þess að vera stórskipahöfn sem þyldi efnisflutninga að og frá landi í tengslum við stóriðju,

2) dýpkun hafnarinnar og bygging varnargarða eða annarri vörn er komi í veg fyrir sandrek inn í höfnina.

Rannsókn þessari skal hraða svo sem kostur er.“

Ég tel ástæðu til að fara örfáum orðum um þessa till., sem hér er til umr., þó að í grg. sé bent á vissa mjög þýðingarmikla þætti sem styðja að því að til þessarar rannsóknar sé efnt.

Eins og fram kemur í till. er þarna aðallega um tvo rannsóknaþætti að ræða. Annars vegar er um að ræða stækkun hafnarinnar. Ég vil í byrjun fara nokkrum orðum um þann hluta till.

Í grg. er bent á að flest orkuver hér á landi eru innan Suðurlandskjördæmis. Það eru þar nú þegar þrjár stórvirkjanir, sem framleiða meginhlutann af raforkunni ásamt eldri virkjunum við Sog, eins og öllum er kunnugt. Samt sem áður hefur ekki enn verið sett þar niður neitt það fyrirtæki sem kallast getur orkufrekt. Uppbyggingin í atvinnulífinu tengist því ekki raforkunni svo teljandi sé þótt stórvirkjanirnar séu þar innanhéraðs. Þó má ætla að það væri hagstætt, bæði fyrir framleiðendur raforkunnar, dreifendur raforkunnar og héraðsbúa skoðað frá sjónarhorni atvinnuuppbyggingarinnar, að fyrirtæki í orkufrekum iðnaði væri reist á Suðurlandi.

Ef þetta er skoðað dálítið nánar kemur í hugann að starfandi hefur verið nefnd til að athuga um staðarval fyrir álver. Það hefur komið út áfangaskýrsla frá þeirri staðarvalsnefnd, og mér þykir ástæða til í þessu sambandi að benda á þann kaflann sem fjallar um Þorlákshöfn og athugun þar.

Um niðurstöður að þessu leyti segir svo í skýrslu staðarvalsnefndar, með leyfi hæstv. forseta:

„Allt orkar tvímælis þá gert er, segir máltækið, og það á vissulega við um þessa áfangaskýrslu eins og önnur mannanna verk. Að mati höfunda er það miður að ekki hafa verið tök á að framkvæma allar þær rannsóknir sem æskilegar hefðu verið á einstökum stöðum. Er þetta einkum til baga vegna þess að talsvert misræmi ríkir milli staða að þessu leyti. Hlýtur nefndin að gera sérstakan fyrirvara af því tilefni og vísa jafnframt til Ara fróða. Hins vegar hefur nefndin gert sér allt far um að afla þeirra upplýsinga um viðkomandi staði sem tiltækar eru með litlum fyrirvara og með takmörkuðum tilkostnaði. . . Sjö þeirra tíu staða sem hér hafa verið teknir til athugunar fullnægja vel þeim lágmarksskilyrðum sem gera verður um meginþættina tvo, annars vegar vinnumarkað og hins vegar hafnarskilyrði í tengslum við landrými. Þrír athugunarstaðir, Árskógsströnd, Þorlákshöfn og Grundartangi, fullnægja þessum skilyrðum ýmist alls ekki eða þá tæplega svo sem nú skal rakið í fáum orðum. . .

Varðandi Þorlákshöfn gengur staðarvalsnefnd út frá því sem gefnu að brú yrði komin á Ölfusá við Óseyrarnes þegar kæmi að framkvæmdum við byggingu og rekstur álvers. . . Hafnargerð fyrir stór skip er talin dýr og áhættusöm í Þorlákshöfn. Þróun í gerð óvarinna hafnarmannvirkja kann þó að breyta einhverju þar um og mun staðarvalsnefnd fylgjast með þeim málum eftir föngum. Raunar hefur nefndin lagt slíkt mannvirki til grundvallar mati sínu á hafnargerðarkostnaði í Þorlákshöfn, en það mat og notagildi slíkrar aðstöðu er háð sérstakri óvissu vegna skorts á rannsóknum“.

Ég vil benda á og leggja áherslu á ofangreind orð í niðurstöðum staðarvalsnefndar, að það er vegna skorts á rannsóknum sem hún á erfitt með að gera sér fulla grein fyrir því hvort til greina kemur að setja niður stóriðju í Þorlákshöfn eða í tengslum við þá höfn. Ég vil benda á þetta sérstaklega til að undirstrika hversu mikla þýðingu það hefur að gera sér grein fyrir hvort stækkun hafnarinnar getur átt sér stað.

Þá vil ég í annan stað koma að síðari þættinum, sem fjallað er um í tillgr., þar sem um er að ræða sandburð inn í höfnina og dýpkun sem þar þarf til að koma. Það hefur verið vitað nokkurn undangenginn tíma að erfiðleikar hafa verið vegna sandburðar inn í höfnina. 12. apríl 1982 skrifa 24 skipstjórar, sem hafa notað höfnina í Þorlákshöfn að staðaldri, bréf til landshafnarnefndarinnar og kvarta undan þessum erfiðleikum, sem þeir eiga í, og segja þar m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Í dag er höfnin nánast ófær stórum fiskiskipum og meðalstórum flutningaskipum, og hefur hreyfing í höfninni aukist mjög frá því sem áður var sökum þess hve grynnkað hefur.“

Ég vil taka það fram að við þessu vandamáli var brugðist á árinu 1982 þannig að dýpkun hefur nú farið þar fram. Útvegað var bráðabirgðalán til að koma dýpkuninni áfram og hefur það tekist vel. En það er skoðun okkar flm. að ástæða sé til að rannsaka hvort ekki sé unnt að fyrirbyggja að sandburður verði inn í höfnina í jafnríkum mæli og verið hefur. Til þess bendir síðari hluti till., sem ég nefndi hér áðan, um dýpkun hafnarinnar.

En um leið og þetta er gert vil ég einnig koma að því, sem minnst er á í grg. með till., að að sjálfsögðu er Þorlákshöfn orðin svo stór fiskibátahöfn, það eru svo margir bátar sem þangað sækja, að fullkomin þörf er á að gera úrbætur að því leyti og laga til fyrir bátana innan hafnarinnar og jafnvel ýtir það undir þá stækkun sem hér er talað um hversu margir bátar sækja þangað. Ég vil minna á að á árinu 1980 var landað í Þorlákshöfn 48 200 tonnum af fiski, árið 1981 45 460 tonnum og árið 1982 48 990. Ef við berum saman það aflamagn sem borist hafði til Þorlákshafnar í janúarmánuði s. l. og það aflamagn sem borist hafði til annarra hafna er Þorlákshöfn sú fjórða í röðinni hvað varðar heildarafla landaðan í janúarmánuði eða með 1 709 tonn. Hvað varðar bátafisk er hún önnur í röðinni af höfnum yfir landið með aflamagn í janúar og hvað snertir togarafisk er hún fimmta í röðinni. Þetta sýnir hversu þýðingarmikil fiskihöfn Þorlákshöfn er orðin. Það er því fullkomin ástæða til að það blandist inn í þessa rannsókn hvort ekki sé hægt með einhverju móti að skipuleggja betur aðstöðu bátanna inni í höfninni. Það rekur og á eftir stækkuninni, sem till. gerir ráð fyrir, hversu þýðingarmikil fiskihöfn hún er.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að hafa öllu fleiri orð um þessa till., sem ég hef hér lagt fram og mælt fyrir fyrir hönd okkar flm. En ég vil leggja á það áherslu, að þessi till. er þess eðlis að nauðsynlegt er að hún fái afgreiðslu og það sem fyrst því hér er um knýjandi mál að ræða.

Ég hef þá ekki að þessu sinni fleiri orð um till., en vil leggja til að henni verði vísað til atvmn. að lokinni þeirri umr. sem hér fer fram.