15.02.1983
Sameinað þing: 51. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2023 í B-deild Alþingistíðinda. (1756)

124. mál, rannsóknir á laxastofninum

Flm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um eflingu rannsókna á laxastofninum. Flm. auk mín eru hv. alþm. Páll Pétursson og Guðmundur Bjarnason. Tillgr. er orðuð þannig:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um að nú þegar verði rannsóknir á laxastofninum stórefldar vegna aukinnar sjávarveiði Færeyinga á laxi.“

Svo sem kunnugt er hófu Færeyingar laxveiði í sjó fyrir 1970. Árleg veiðifyrsta áratuginn var þó óveruleg miðað við það sem síðar varð, en 1978 veiddust yfir 50 tonn. Hin síðari ár hafa Færeyingar stóraukið sjávarveiði á laxi, sbr. aflatölur. 1979 veiddust tæp 200 tonn, 1980 yfir 700 tonn og 1981 yfir 1000 tonn. Veiðikvótinn á síðustu vertíð var 750 tonn og umsaminn kvóti á yfirstandandi vertíð mun vera um 625 tonn.

En samtímis því sem Færeyingar stórauka laxveiðar sínar verður ískyggileg rýrnum veiði í laxveiðiám okkar árin 1980, 1981 og 1982 miðað við fjölda veiddra laxa. Árið 1979 veiddust rúmlega 64 þús. laxar, en 1980 veiddust alls rúmlega 52 þús. laxar að heildarþunga rúmlega 248 tonn eða 19% lakari veiði en meðaltal áranna 1970 til 1979 þegar miðað er við fjölda laxa. Þess ber þó að geta að meðalþyngd á laxi var sú hæsta sem um getur eða 9.6 pund árið 1980, enda var heildarþungi meiri en 1979 eða 225 tonn. Veiðin 1981 var rúmlega 46 þús. laxar að heildarþunga 163 tonn eða u. þ. b. 27% lakari veiði en meðaltal 10 ára þar á undan og meðalþyngd var 7 pund. S. l. sumar var veiðin um 40 þús. laxar eða u. þ. b. 15% lakari veiði en sumarið 1981 og yfir 20% lakari veiði en árlegt meðaltal s. l. 20 ára, en álíka veiði og var 1968. Enda þótt heildarveiðin minnkaði á liðnu sumri komu nokkrar ár betur út en 1981, svo sem Elliðaárnar, Þverá, Norðurá, Langá og Álftá.

Í stuttri ræðu er ekki mögulegt að lýsa í smáatriðum þróun veiða á þeim árum, sem ég hef gert hér að umtalsefni, svo sem vert væri, enda hef ég stiklað á stóru. Þessi þróun blasir við varðandi laxveiðar okkar, en á sama tíma hafa Færeyingar stóraukið laxveiðar í sjó, eins og ég hef áður getið um. Í ljósi þess er ekki óeðlilegt að getum sé að því leitt að þarna sé orsakasamhengi á milli. Enn sem komið er er ekki hægt að segja að gögn séu fyrir hendi sem sanna að svo sé. Hins vegar er til staðar ábending um að íslenskur lax leiti á Færeyjamið, þar sem skilað hefur verið merkjum af þremur íslenskum löxum sem veiðst hafa við Færeyjar. Á hinn bóginn er ekki vitað að hve miklu leyti laxinn fer austur í haf frá Íslandi og er veiddur á umræddum Færeyjamiðum. Það er kunnugt að okkar lax leitar einnig vestur fyrir Grænland og veiðist þar, en sjö íslenskum laxamerkjum hefur verið skilað frá Grænlandi. Ennfremur skal þess getið, að í Laxá í Dölum hefur veiðst lax sem var merktur við Vestur-Grænland.

Orsakir rýrnandi laxveiði hér á landi þrjú síðustu ár eru e. t. v. margar. Í því sambandi ber að nefna að kalt árferði 1979 og lágur sjávarhiti, einkum fyrir Norður- og Austurlandi, eiga hugsanlega sinn þátt í þeirri öfugþróun laxveiða sem ég hef áður lýst. Hið kalda árferði 1979, sem var eitt hið kaldasta frá því veðurfarathuganir hófust hér á landi, er talið hafa valdið tregari göngu laxaseiða til sjávar en áður hafði verið. Þá má telja líklegt að skilyrði í sjó fyrir seiðin hafi verið mjög óhagstæð vegna mikils kulda. Í veiðunum 1980 var mjög lítið af eins árs laxi úr sjó og 1981 af tveggja ára laxi. En hvort tveggja gefur til kynna afar lélega afkomu sjógönguseiða.

Orsakir lakari veiði hérlendis geta verið margar, eins og ég hef raunar þegar vikið að, þ. e. hér heima fyrir, í hafinu og vegna veiða á fjarlægum hafsvæðum. Í þessu efni er að mínum dómi varasamt að vera með fullyrðingar. Hér getur verið um að ræða samspil margra þátta sem okkur ber skylda til að gera okkur sem gleggsta grein fyrir.

Þekking á ferðum laxins um úthafið var mjög af skornum skammti þar til laxveiðar hófust í einhverjum mæli við Vestur-Grænland fyrir u. þ. b. 20 árum og síðar veiðar í Noregshafi og við Færeyjar. Rannsóknir á laxi við Vestur-Grænland hafa m. a. leitt í ljós að um helmingur laxins, sem þar veiðist, er upprunninn í Ameríku, en hann er að langmestu leyti frá Kanada, og hinn hlutinn frá Evrópu. Um uppruna laxins, sem veiðist við Færeyjar, er minna vitað svo að óyggjandi verði talið. Merkingar á sjógönguseiðum í upprunalöndum laxins og merkingar á laxi veiddum og merktum á Færeyjamiðum hafa hingað til gefið til kynna að langmestur hluti hans sé upprunninn í Noregi, Skotlandi og Írlandi.

Við Íslendingar bönnum með lögum laxveiðar í sjó og er sjávarveiði á laxi því okkur andstæð. Okkar stefna hlýtur því að vera sú, að dregið verði allverulega úr sjávarveiði á laxi og helst að laxveiðar í sjó verði af lagðar. Því er okkur mjög mikilvægt að afla vitneskju um veiðarnar við Færeyjar í mun ríkara mæli en gert hefur verið og reyndar einnig við Vestur-Grænland, en tíu merkjum úr íslenskum löxum, sem veiddir voru á þessum svæðum, hefur verið skilað, eins og áður hefur komið fram. Merkingar sjógönguseiða hafa farið fram hér á landi nokkuð samfellt í þrjá áratugi, en því miður í mjög litlum mæli. Það var ekki fyrr en á liðnu ári að seiðamerkingar voru auknar verulega frá því sem áður var. Um 140 þús. sjógönguseiðum var sleppt í ár og frá hafbeitarstöðum víðs vegar um landið, þar af um helmingur á Norður- og Austurlandi, en álitið er að laxaseiði úr þessum landshlutum gangi fremur austur í Atlantshaf. Auk seiðamerkinga er nauðsynlegt að leita að merktum löxum og taka þátt í alþjóðlegri samvinnu um gagnasöfnun og rannsóknir laxagangna.

Löndin við norðanvert Atlantshaf leggja lax til Færeyjaveiðanna. Því hlýtur að teljast eðlilegt og nauðsynlegt að þau kanni á sameiginlegum vettvangi hversu stóran hlut hvert þeirra leggur til Færeyjaveiðanna svo að hægt verði að gera sér sem gleggsta grein fyrir réttarstöðu hvers þeirra. Alþjóðahafrannsóknaráðið hefur beitt sér fyrir samvinnu um rannsóknir á laxi, sem veiðist á Norður-Atlantshafi, á hliðstæðan hátt og gert var áður vegna laxveiðanna við Vestur-Grænland. Gert er ráð fyrir að þátttökulöndin í rannsóknunum standi hvert um sig undir kostnaði við framlag sitt til rannsóknanna. Í lok ársins 1981 komu saman í Þórshöfn í Færeyjum fiskifræðingar frá upprunalöndum laxins til að semja áætlun um rannsóknirnar sem ná bæði til gagnasöfnunar og úrvinnslu gagna. Ennfremur var verkefnum skipt á milli þátttökulandanna. Við tökum þátt í þessum rannsóknum og er framlag okkar Íslendinga fólgið í laxaseiðamerkingum, endurheimt merkja og gagnasöfnun um borð í færeyskum laxveiðibátum, svo sem gert var í febrúar á liðnu ári.

Gert hefur verið ráð fyrir að slík ferð verði farin á þessu ári, á sama hátt eða svipaðan og gert var á liðnu ári, til að leita að laxamerkjum á grundvelli þeirrar samvinnu sem áður er getið um.

Í þessu sambandi, þegar rætt er um auknar rannsóknir og fjármagn til þeirra, vil ég leyfa mér að minna á samþykktir aðalfundar Landssambands stangaveiðifélaga, sem haldinn var á haustdögum 1981, en jafnframt aðalfundarsamþykkt frá liðnu hausti. Aðalfundarsamþykktin frá 1981 er þannig, með leyfi forseta, hvað þetta varðar:

„Aðalfundur Landssambands stangaveiðifélaga, haldinn á Hótel Esju 10. og 11. okt. 1981, mótmælir harðlega aukinni laxveiði Færeyinga og annarra þjóða í sjó og krefst þess að stjórnvöld hefji nú þegar viðræður við þær um takmörkun veiðanna. Fundurinn telur að merkingar á laxi í sem flestum ám svo og í sjó við Færeyjar sé forsenda þess að upplýsingar fáist um göngu og lifnaðarhætti hans og hlutdeild íslenska laxins í afla Færeyinga. Því skorar fundurinn á stjórnvöld að stórauka fjárveitingar til rannsókna á íslenska laxastofninum, svo ganga megi úr skugga um hvað veldur þverrandi veiði í íslenskum laxveiðiám.“

Ég tel ekki ástæðu til að lesa meira, herra forseti, enda þótt ég hafi vikið að því áðan að ég mundi lesa aðalfundarsamþykktina frá liðnu hausti, en hún gengur mjög í sömu átt og sú aðalfundarsamþykkt sem ég nú hef lesið. Landssamband stangaveiðifélaga leggur sem sagt megináhersluna á rannsóknir í þessu sambandi.

Herra forseti. Það er ljóst að skynsamleg nýting og ræktun laxastofnsins er allveruleg tekjulind hér á landi og stoð margra byggðarlaga. Það er skoðun okkar flm. þessarar till. til þál. að allar rannsóknir þurfi að efla. Niðurstöður laxarannsókna munu reynast okkur haldbestu rökin þegar samið er um að draga úr eða stöðva laxveiðar utan upprunalanda laxins. Því þarf að auka fjárframlög til þeirra rannsókna.

Herra forseti. Ég legg til að loknum þessum hluta umr.till. verði vísað til atvmn.