16.02.1983
Sameinað þing: 52. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2035 í B-deild Alþingistíðinda. (1765)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur nú vikið hér að því sem lýtur að endurákvörðunum skatta, framleiðslugjalds á ÍSAL og svarað þeim fsp. sem þar að lúta svo að ég þarf ekki að fara yfir það talnalega séð eða hvað ákvarðanir snertir sérstaklega. Hér er þó ýmsu að svara úr máli hv. 6. þm. Reykv. varðandi þær ásakanir sem hann hafði hér uppi í minn garð. Hlýt ég að taka á þeim málum og víkja að nokkrum þáttum þessarar endurákvörðunar skatta á Íslenska álfélagið hf. sem nú liggja fyrir.

Ég vil í upphafi endurtaka það, sem fram kom hér s. l. föstudag, að mér er ánægja að ræða þessi mál hér á hv. Alþingi þó að ég teldi ekki aðstæður til þess eðlilegar á föstudaginn var. Ég fagna þeirri umr. sem hér fer fram um þessi efni og er reiðubúinn að ræða þessi mál hér hvenær sem hv. alþm. telja að henti og tími þingsins leyfir með eðlilegum hætti.

Það vekur athygli og hefur gert það þegar þessi mál hefur borið á góma hér á hv. Alþingi á undanförnum árum, er óhætt að segja, að þar standa upp fulltrúar stjórnarandstöðunnar, því að þeir hafa lengst af haft forustu um gagnrýni í minn garð í sambandi við þetta mál og beina þungum ásökunum að iðnrn. og mér sem iðnrh. fyrir þetta efni, en þeir eiga engin orð af svipuðu tagi, engin gagnrýnisorð að flytja þeim aðila sem Ísland stendur í deilu við í þessu efni, eiganda álversins í Straumsvík, Alusuisse. Menn tóku eftir því að þetta sama gerðist hér áðan hjá hv. 6. þm. Reykv. Um leið og hann hafði uppi hinar hörðustu ádeilur í minn garð fyrir málsmeðferð í þessu máli og efnistök sá hann ekki ástæðu til að hafa uppi gagnrýni eða beina sóknar- og hvatningarorðum gagnvart þeim aðila sem Ísland á nú í harðri deilu við í sambandi við réttlætismál.

Ég hlýt einnig að rifja það upp að hv. 6. þm. Reykv., sem stóð hér að tillöguflutningi um sérstaka viðræðunefnd vegna mála Alusuisse á Alþingi í haust, segir þar í grg. að ekki hafi verið notað sóknarfæri til þess að knýja fram hækkað raforkuverð til álversins í Straumsvík á árinu 1980. Ég hef ítrekað svarað þessum málflutningi hv. þm. og rifjað það upp fyrir honum og skorað á hann að standa fyrir máli sínu í því, hvar voru kröfur hans á árinu 1980 um að knýja fram hækkað raforkuverð til álversins í Straumsvík, hvar voru kröfur Sjálfstfl. í þá átt á þeim tíma? Ég hef beðið hann um að koma hér og rifja það upp fyrir hv. Alþingi hvar þær kröfur er að finna. Og ég hef bent honum á að hann megi gjarnan fara aftur á árið 1981 og jafnvel aftur á árið 1982. Það er þá fyrst sem fer að örla á því að undirtektir fáist frá því varnarliði Alusuisse, sem hefur staðið hér í ræðustól á Alþingi æ ofan í æ til þess að beina spjótum sínum inn á við gagnvart þeim aðilum íslenskum, sem eru að sækja okkar rétt í þessu máli og vilja benda á ráð til þess að ná okkar rétti, benda á ráð sem engin voru hjá þeim á sama tíma og þeir hafa streist við að hlífa gagnaðilanum og verja þann samning frá viðreisnarárunum, sem Sjálfstfl. og Alþfl. bera ábyrgð á þó að fleiri hafi einnig komið þar við sögu.

Vegna þess sem hv. þm. sagði hér áðan, að ég hefði notað tækifærið til þess á undanförnum árum og vildi halda þeim möguleika opnum að ráðast að þeim aðilum sem gerðu þennan endemissamning á sínum tíma, vísa ég þeim ásökunum á bug. Ég hef ekki verið frumkvæðisaðili að því að halda hér uppi árásum og gagnrýni á fortíðina. Ég hef þvert á móti hvatt menn til samstöðu í þessu máli og til að láta deiluatriði varðandi fortíðina hvíla á meðan við reynum að ná saman um rétt okkar.

En það hafa verið aðrir, sem hafa haft frumkvæði að því ótilkvaddir að streitast við að verja þennan endemissamning, sem ríkisstj. Sjálfstfl. og Alþfl. stóð að á sínum tíma og sem ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl. stóð að endurskoðun á 1975/1976. Hv. þm. hóf sína árás áðan með því að víkja að því að ég hefði sett skattamálið á oddinn og gert það að aðalatriði og spillt með því fyrir möguleikum okkar að ná fram hækkuðu raforkuverði. Já, það er eðlilegt að hv. þm. taki á þessu atriði. En hverjar hafa áherslur Sjálfstfl. verið í þeim efnum? Það er vert að rifja upp það sem stendur í bréfi sem þingflokkur Sjálfstfl. ritaði til mín 20. júlí 1981. Þar sem segir m. a. með leyfi hæstv. forseta:

„Þingflokkurinn telur að fyrsta skrefið sé að ljúka alhliða athugun málsins (þ. e. skattamálsins) þannig að í ljós komi hvort Íslendingar hafi orðið fyrir tjóni á skattgreiðslum eða með öðrum hætti. Vegna breyttra aðstæðna frá því að endurskoðun álsamningsins fór fram árið 1975 verði síðan teknar upp viðræður við Alusuisse m. a. um hækkun raforkuverðs og skattgreiðslu fyrirtækisins.“

Ég vek sérstaka athygli á þessari áherslu í bréfi þingflokks Sjálfstfl. frá júlímánuði 1981. Þar er það nánast gert að skilyrði fyrir hugsanlegri samstöðu og samstarfi um þetta mál, sem ég hafði óskað eftir á þeim tíma við alla þingflokka, að fyrst verði tekið á skattamálinu til að fá greitt úr því og síðan verði teknar upp viðræður við Alusuisse m. a. um hækkun raforkuverðs. Svipaðar áherslur er að finna í bréfi, sem þingflokkur Sjálfstfl. ritaði mér 5. maí s. l. og birt er í grg. með till. til þál. um viðræðunefnd við Alusuisse, sem hv. 6. þm. Reykv. er 1. flm. að. Það er einmitt lögð áhersla á þetta sama. Þetta er málflutningur í lagi. Hv. þm. hafði um það stór orð að hefði ég einhvern tíma haft áhuga á að ná samningum við Alusuisse um þessi ágreiningsefni væri sá áhugi örugglega ekki til staðar lengur. Hann vill skrifa á minn reikning tafir í þessu máli, ég hafi ekki viljað semja, ég hafi viljað gera þetta að kosningamáli, ég hafi kallað til þröngan hóp flokksmanna o. s. frv. Ég vísa þessum ásökunum á bug. Ég vísa til þeirra sáttatilrauna sem átt hafa sér stað til þess að ná fram sanngirniskröfum okkar í þessum efnum, sáttatilraunum sem bornar voru fram æ ofan í æ án þess að viðbrögð kæmu frá Alusuisse til þess að verða við sanngjörnum kröfum okkar um lágmarksleiðréttingu, um nettóleiðréttingu á gildandi samningum.

Hv. þm. vék sérstaklega að Landsvirkjun í þessu efni. Ég minni á að við Landsvirkjun hefur iðnrn. ítrekað haft samráð við undirbúning mála og tekið það skýrt fram að ef samningsgrundvöllur fáist til að hefja efnislegar viðræður um endurskoðun raforkuverðs við Alusuisse verði að sjálfsögðu haft eðlilegt samstarf við Landsvirkjun um það mál. Það er því algerlega rangt, sem hv. þm. segir, að við höfum haft áhuga á því að halda Landsvirkjun með óeðlilegum hætti utan við þessi mál. En hér er um mál að ræða sem varða ekki bara Landsvirkjun heldur þjóðarhagsmuni í heild, þ. á m. skattatekjur íslenska ríkisins af álverinu í Straumsvík og þeirri starfsemi sem þar fer fram. Það er það heildardæmi sem ríkisstjórn Íslands og íslenskum stjórnvöldum ber að tryggja að litið sé til þegar leitað er samningsgrundvallar í þessu máli. Og þannig hefur verið að þessu staðið.

Það eru uppi ásakanir í minn garð um að hafa ekki leitað eftir samstarfi við aðra aðila innan þingsins um þessi mál. Ég vísa til þess frumkvæðis sem ég hafði um þetta efni í júlí 1981 þegar Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu, að því er virtist nauðugur, gerðist þó þátttakandi í álviðræðunefnd þar sem sátu fulltrúar allra þingflokka og stjórnaraðila ásamt sérfræðingum og báru saman bækur sínar. En stjórnarandstaða Sjálfstfl. elti fullrúa Framsfl. þegar hann stökk út úr álviðræðunefnd með frægum hætti 6. des. s. l. Þá lýstu fulltrúar Sjálfstfl. því yfir í umr. hér á hv. Alþingi að þeir teldu að sá samstarfsvettvangur væri ekki lengur fyrir hendi af þeirra hálfu.

Og þegar talað er um að unnið hafi verið að þessu máli í þröngum hópi flokksbræðra minna minni ég á þá lögfræðilegu álitsgerð sem fyrir liggur og gerð hefur verið opinber, m. a. frá Benedikt Sigurjónssyni fyrrv. hæstaréttardómara. Skyldi hann vera einhver flokksgæðingur Alþb. sem dreginn hafi verið til verka í þessu máli? Ég minni á ríkisendurskoðanda sem átt hefur hlut að þessu máli á vegum rn. alla tíð. Skyldi hann vera úr hópi flokksgæðinga Alþb. í þessu máli? Ég get talið upp þannig fjölda manna innlendra, sem að þessu máli hafa komið, þ. á m. endurskoðanda Seðlabankans, Stefán Svavarsson, og aðra menn í fremstu röð með sérfræðiþekkingu sem um þessi mál hafa fjallað af alúð og trúmennsku.

Ég vísa einnig til þeirra erlendu sérfræðinga sem fengnir hafa verið til að styrkja íslenskan málstað í þessum efnum. Þeir hafa ekki verið sóttir til einhverra þeirra stofnana eða aðila erlendra sem hv. 6. þm. Reykv. mundi telja að væru í einhverjum tengslum við Alþb. Þeir sérfræðingar hafa verið valdir eftir efnisástæðum úr fremstu röð manna á heimsmælikvarða, sem þekkja til áliðnaðar, og sérstaklega manna vestan hafs, sem hafa veitt okkur ómetanlega aðstoð í þessu máli, jafnt skattamálum og deilum þar að lútandi, lögfræðilega aðstoð eins og frá Charles Lipton, efnislega aðstoð eins og frá Samuel Moment, sem er einhver þekktasti sérfræðingur á sviði áliðnaðar í heiminum, og til manna eins og Carlos M. Varsavsky, sem einnig er í röð fremstu manna sem sérfræðingur og er í tengslum við stofnun Sameinuðu þjóðanna, sem er ráðgjafi ríkisstj. um samskipti við fjölþjóðahringa.

Málflutningi af því tagi sem hv. 6. þm. Reykv. hafði hér uppi um þröng vinnubrögð í þessu máli vísa ég á bug. Ég gæti fært fram fjöldamörg önnur rök máli mínu til stuðnings, sem gera hans karp að ómerkilegu þrasi til að reyna að skyggja á aðalatriði þessa máls og frammistöðu hans og flokksmanna hans margra hverra í þessu máli hingað til.

Hv. 6. þm. Reykv. höfðar nú mjög til hæstv. sjútvrh. sem vænlegs bandamanns í þessu máli. Og hann hefur vitnað til hv. 12. þm. Reykv. og hans frammistöðu sem hann virðist telja mjög til fyrirmyndar. Ég verð því miður að segja að hann hefur fengið stuðning úr þeirri átt, stuðning sem ég vonaði að ekki kæmi til frá þeim aðilum sem staðið hafa að þessu máli innan ríkisstj. og sem reynt hefur verið að hafa sem best samstarf við.

Hv. 6. þm. Reykv. vísar til þess að unnið hafi verið að þessum málum með öðrum hætti en áður. Öllum eru kunnar ásakanir hans og annarra aðila á opinberum vettvangi, þ. á m. úr röðum Framsfl., þar sem nú upp á síðkastið er klifað á því af mönnum úr forustu flokksins, eins og hv. 12. þm. Reykv., eins og af hæstv. sjútvrh., eins og af flokksmálgagni þeirra Tímanum, og þar sem nú er leikin plata í málgögnum þess flokks allt í kringum landið til þess að taka undir þann málflutning að ástæðan fyrir því að ekki hefur tekist að ná fram kröfum okkar í sambandi við raforkuverð gagnvart ÍSAL sé sú, að haldið hafi verið illa á samningum og ekki fylgt eftir rétti Íslands. Nægir að vísa til ummæla í blöðunum um þetta. Ég vil taka hér eitt dæmi til viðbótar sem lesa má í aðalflokksmálgagni Framsfl. á Norðurlandi. Það er viðtal við hv. 5. þm. Norðurl. e. 3. febrúar í Degi. Þar segir m. a. með leyfi hæstv. forseta:

„Það getur hver maður séð að seinagangur í samningum við álverið um hækkun raforkuverðs veldur okkur stórkostlegu tjóni. Og því miður er samningsstaðan mun verri nú en fyrir tveimur árum. Ennþá hefði að líkindum verið hægt að ná viðunandi samningum. Það má því segja að seinagangur í samningum við álverið um hækkun raforkuverðs standi nú í veginum fyrir því að hægt sé að jafna húshitunarkostnað landsmanna.“

Þetta er orðrétt tilvitnun í ummæli hv. 5. þm. Norðurl. e. úr flokksmálgagni Framsfl. á Norðurlandi. Ég hef heyrt svipaðan tón úr málgögnum flokksins á Austurlandi og kemur ekki á óvart þótt lesa megi þau víðar nú upp á síðkastið þó ég hafi ekki kynnt mér það sérstaklega. Ég tel það með nokkrum ólíkindum að samstarfsaðili Alþb. að ríkisstj. skuli hafa slíkan málflutning uppi og feta þar með í fótspor Morgunblaðsins og stjórnarandstöðunnar, sérstaklega talsmanna Sjálfstfl., sem borið hafa mig þungum sökum í þessu máli.

Ég hlýt vegna þessa varnarliðs Alusuisse, sem heyrist í hér á hv. Alþingi, að rifja upp hvernig staðið var að málum meðan þessir aðilar komu hér við sögu sem forustuaðilar í sambandi við endurskoðun samninga, þegar tókst að knýja fram endurskoðun samninga við Alusuisse 1975 og 1976. Ég hef ekki talið ástæðu til að flíka þeim málum á meðan ég hafði von um að hægt væri að stilla menn saman í þessu stóra máli. Ég taldi það ekki þjóna okkar hagsmunum að vera að því. En þegar ég er borinn hér á hv. Alþingi þyngstu ásökunum um að spilla fyrir íslenskum málstað, og það af ásettu ráði eins og heyra mátti hér frá hv. 6. þm. Reykv., hlýt ég að minna þennan hv. þm. á það, og einnig hv. framsóknarmenn sem kasta í sömu átt að mér, hvernig háttað var endurskoðun samninga 1975 þegar m. a. formaður Framsfl., hæstv. núv. sjútvrh., var meðal aðaltrúnaðarmanna ríkisstj. við endurskoðun þeirra samninga ásamt Ingólfi Jónssyni þáv. hv. alþm. og Jóhannesi Nordal seðlabankastjóra.

Í ljósi svonefndra tillagna hæstv. sjútvrh. og hv. 12. þm. Reykv., sem mjög er undir tekið af hv. 6. þm. Reykv. er vert að rifja upp til hvers samningarnir 1975 leiddu, samningar sem Alusuisse hefur túlkað af sinni hálfu sem slétt skipti en ýmsir hafa gumað af hér innanlands og vitnað til að undanförnu. Það er full ástæða að líta á það, þegar hér eru aðilar á hv. Alþingi sem mæla með því að við föllumst án skilyrða á kröfur Alusuisse um stækkun álversins í Straumsvík og um að fá að taka inn nýjan eignaraðila að hálfu, sér til hagsbóta. Þessir sömu menn, sem mæla með því nánast að gefa Alusuisse sérstaka forgjöf, ásaka mig fyrir drátt á samningum. Ég tel rétt að upplýsa hv. Alþingi og þjóðina um hvað við höfum haft upp úr endurskoðun samninganna frá 1975, sem eiga að vera eins konar fordæmi fyrir þá samningabraut sem þeir aðilar sem ég hef hér nefnt vilja knýja íslensk stjórnvöld inn á.

Þessi endurskoðun samninga 1975 fól fyrst og fremst í sér þrjá þætti:

1. Breytingar á framleiðslugjaldi ÍSALs Alusuisse í vil.

2. Nokkra leiðréttingu á raforkuverði til ÍSALs Íslandi í vil, a. m. k. á pappírnum.

3. Stækkun álversins í Straumsvík sem nam 20 mw. að afli, fyrst og fremst Alusuisse í vil.

Þess utan fékk Alusuisse skattinneign, sem umdeilt var hverjum ætti að reikna, í sinn hlut á hæstu vöxtum. Það er sú skattinneign sem ríkissjóður nú hefur sléttað með hækkun og endurákvörðun framleiðslugjalds til ÍSALs og auk þess gert kröfu á ÍSAL um umtalsverðar fjárhæðir í sambandi við framleiðslugjaldið. Fyrir utan þetta var um að ræða á samningaborði þeirra aðila sem undirbúa áttu endurskoðun samninganna 1975 yfirverð að mati Coopers & Lybrand og umtalsverða upphæð sem eðlilegt hefði verið að endurákvarða þá í sambandi við framleiðslugjald.

Hver skyldi, hv. alþm., og ég bið ykkur að taka eftir, hver skyldi hafa orðið töluleg útkoma þessara breytinga á umræddu tímabili 1975–1980? Við skulum fyrst líta á framleiðslugjaldið. Ef ekki hefði verið fallist á breytingar á skattaformúlum og þar með framleiðslugjaldinu 1975 og með lögfestingu hér á hv. Alþingi 1976, þá hefði innheimt framleiðslugjald, eins og það var ákvarðað samkv. ársreikningum vel að merkja á þeim tíma, verið 25 616 631 dalir. Þetta hefði verið það sem komið hefði í ríkissjóð að óbreyttum samningum. Hvað innheimtist í reynd á sama tímabili, eftir að fallist hafði verið á og lögfestar breytingar á skattaformúlunni? Takið eftir, ekki 25 millj. Bandaríkjadala heldur 8 056 759 dalir. Mismunurinn, sem þarna hallar á í sambandi við framleiðslugjaldið, er 17 559 872 Bandaríkjadalir. Þetta er niðurstaðan varðandi framleiðslugjaldið á þessu tímabili. Er það ekki glæsileg niðurstaða eða hitt þó heldur? Hvað um annan þátt þessa máls, raforkuverðið? Án breytinga hefði Landsvirkjun fengið á þessu tímabili fyrir raforku árin 1975–1980 13 968 000 Bandaríkjadali, en með breytingunni hefur þessi upphæð reynst samkv. upplýsingum frá Landsvirkjun 32 636 000 Bandaríkjadalir. Mismunurinn til hækkunar, Íslandi í hag, er 18 660 000 Bandaríkjadalir á meðan hin upphæðin sem ég rakti hér áðan, sem reiknuð var Íslandi en tekin var til baka í sambandi við framleiðslugjaldið var nálægt því sama upphæð, 17 559 872 dalir.

Í ljósi þessarar útkomu er kannske ekki að furða að Alusuisse talar um skipti á sléttu, „give and take“, sem munstur fyrir samninga sem þeir séu reiðubúnir að taka þátt í. Það eru samningar af þessu tagi sem virðist vera áhugaefni margra hér á hv. Alþingi að endurtaka. Og er þó ekki allt talið því að fyrir utan það sem hér liggur fyrir, nánast skipti á sléttu, nánast núllútkoma fyrir Ísland út úr þessari endurskoðun samninga, fékk Alusuisse viðurkennda til sín þá skattinneign sem stóð inni þegar gengið var frá samningunum í des. 1975. Sú skattinneign var síðan sett á hæstu vexti og hefur hlaðið utan á sig frá þeim tíma. En það var algerlega ófrágengið mál áður hverjum hún skyldi reiknuð og íslenskir lögfræðingar, sem ráðlögðu íslenskum samningaaðilum, þ. á m. hæstv. sjútvrh., töldu eðlilegt að þessi skattinneign yrði reiknuð íslenska ríkinu til tekna. Fyrir svo utan þetta lá það fyrir bréflega frá Coopers & Lybrand til íslensku samningamannanna að vantalinn hagnaður ÍSALs vegna hráefna, vegna aðfanga á árinu 1974 næmi 3 160 432 Bandaríkjadölum, og eðlilegt væri að mati Coopers & Lybrand að gera kröfu um hækkun skatta, endurákvörðun framleiðslugjalds sem næmi 549 849 Bandaríkjadölum eða sem svarar 10.5 millj. ísl. kr. á núvirði.

En hvað skyldi nú hafa orðið um þessa kröfu? Ætli hún hafi ekki verið endurákvörðuð og reiknuð íslenska ríkinu til tekna ? Nei. Svo undarlegt sem það er þá var það m. a. s. aldrei upplýst opinberlega, ekki einu sinni gagnvart hv. Alþingi, að þessi bellibrögð hefðu verið viðhöfð af fyrirtækinu á árinu 1974, og þess sér hvergi stað að þessi vantaldi hagnaður Alusuisse eða ÍSALs á þessum tíma hafi gagnað íslenskum samningamönnum hið minnsta. Ein meginkrafa og eðlileg krafa af Íslands hálfu í þessum samningum var m. a. það að fá inn endurskoðunarákvæði í samningana. Sú krafa fékk engan hljómgrunn, undir þá kröfu var ekki tekið, og það var gengið frá samningunum óbreyttum að þessu leyti.

Ég tel, hv. alþm., að nauðsynlegt hafi verið að greina hér frá þessari stöðu mála nú, þegar fyrir liggur að ýmsir hv. alþm. og jafnvel ráðh. í ríkisstjórn Íslands hvetja til þess að farið sé út á viðlíka samningabraut og gert var við Alusuisse 1975 með þeim hörmulegu niðurstöðum sem þarna liggja fyrir. Ég held að það sé líka umhugsunarefni þegar um það er gerð till. af hæstv. sjútvrh., sem hér var rifjuð upp áðan, að farið verði að setja upp sérstaka álviðræðunefnd, sem Framsfl. hafði engan áhuga á að starfaði áfram í byrjun des. og neitaði að endurskipa fulltrúa í þá nefnd með sérstakri þingflokkssamþykkt. En svo tveimur mánuðum síðar kemur formaður flokksins og virðist sýna iðrunarmerki í þeim efnum og vill fara að endurreisa þessa nefnd til þess að taka á málum með þeim hætti sem hann hefur lýst í sínu flokksmálgagni. Þar kemur hann m. a. að því og hefur sérstakan áhuga á því að Landsvirkjun eigi fulltrúa í þeirri nefnd. Nú er mér ekki kunnugt um hvort

Landsvirkjun sem slík átti nokkurn fulltrúa í samninganefndinni 1975, sem tók á þessum málum fyrir hönd stjórnvalda og lagði á öll ráð. Mér er ekki kunnugt um með hvaða hætti stjórn Landsvirkjunar fjallaði um þessi efni. En ég vil benda hv. alþm. á það í sambandi við niðurstöður endurskoðunar samninga 1975, sem hér hafa verið rifjaðar upp og greint frá í fyrsta skipti hvernig líta út í reynd, að þá gerðist það að Landsvirkjun krafðist vissrar leiðréttingar á sínu dæmi og náði fram breytingum á raforkuverði til þess að bæta sinn hag að nokkru, en sama upphæð, nokkurn veginn sama upphæð var flutt úr ríkissjóði, var tekin úr ríkissjóði á þessum tíma með breytingum á reglum um framleiðslugjaldið, um skattana, og færð yfir til Landsvirkjunar. Svo hælast menn um að hafa náð fram leiðréttingum mála fyrir Íslands hönd.

Það er fyllsta ástæða til að mæla hér viðvörunarorð til þeirra manna sem vilja standa þannig að málum, að leggja allt í sölurnar að því er virðist til þess að setjast til málamynda að samningaborði við Alusuisse, án þess að hafa hina minnstu tryggingu fyrir því að nokkur nettóleiðrétting okkar mála fáist, án þess að hafa nokkra tryggingu fyrir því fyrir fram, en vilja kaupa það því verði að fá að setjast að slíku samningaborði, sem ekki ber slíkt nafn með réttu, að byrja á því að gefa Alusuisse í forgjöf þær kröfur sem fyrirtækið ber fram og sem fyrst og fremst eru til þess fallin að skapa okkur viðspyrnu í þessu máli. Ég hef ekki áhuga á slíku. Ég hef ekki áhuga á að standa fyrir endurskoðun samninga upp á þau býti sem hér voru rakin áðan. Ég hef aðeins áhuga á því að sá fráleiti samningur sem hér var gerður 1966 fáist leiðréttur í reynd Íslandi til hagsbóta. En það gerist ekki með því að hv. alþm. standi með spjótin úti hver gegn öðrum hér á hv. Alþingi Íslendinga og skemmti þeim herramönnum sem hirða arðinn af íslenskum orkulindum og verki íslenskra handa og sitja með sínar aðalstöðvar suður í Zürich. Þannig náum við ekki fram rétti okkar. Honum náum við aðeins með því að átta okkur á aðalatriðum máls, stilla saman og fylkja saman um íslenska hagsmuni. Enn er til þess tími. enn er ráðrúm til þess að sjá að sér fyrir þá sem horft hafa í ranga átt í þessu máli. Ég skora á hv. alþm. að endurskoða og endurmeta afstöðu sína, þá menn sem sjá það sem sitt erindi fremst að kasta hnútum að mér fyrir málsmeðferð í þessum efnum en láta þann aðila sem við eigum við að fást og ætti að vera hinum megin við borðið skemmta sér á meðan.

Ástæðan fyrir því að nú hefur verið endurákvarðað framleiðslugjald á ÍSAL í samræmi við niðurstöður Coopers & Lybrand er að sjálfsögðu sú, að reynt hefur verið til þrautar að ná þeim samningsgrundvelli fyrir Ísland sem geti veitt okkur vonir um að fá leiðréttingu okkar mála. Þar eru lokuð sund. Þar höfum við fengið nei á nei ofan. Þar hefur því verið lýst yfir í símskeytum frá Alusuisse að það sé óhugsandi að þeir fallist á einhverja leiðréttingu mála að óbreyttum samningum að öðru leyti, einhverja nettóleiðréttingu mála okkur til handa. Þetta hefur verið ítrekað nógu oft til þess að þeir sem á annað borð vilja skilja hvernig málin liggja ættu að vera farnir að átta sig til hlítar. En eftir þeim málflutningi sem hér er viðhafður virðist enn því miður sem svo sé ekki orðið, þessi vísa sé ekki enn nógu oft kveðin. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Ég vil að endingu segja það, að vilji Íslendingar tryggja sér eðlilega leiðréttingu mála í viðskiptum við það fyrirtæki sem hér hefur aðstöðu til rekstrar í okkar landi og flutt hefur arðinn frá íslenskum auðlindum og vinnu íslenskra handa til útlanda á liðnum árum, vilji menn ná fram slíkri leiðréttingu verður það aðeins tryggt með því að hér verði samstaða á hv. Alþingi um að sækja okkar hlut af einurð og með því að beita okkar rétti. Við höfum nú sett punktinn aftan við deilur fortíðarinnar. Sjálfstfl. hv. í stjórnarandstöðu ætti ekki að þurfa að kvarta undan því að þeim málum sé ekki lokið. Hann ætti að geta farið að taka á raforkuverðsmálunum með okkur þess vegna. Úr þeirri leiðréttingu sem nú er fram komin með endurákvörðun framleiðslugjalds hefur verið gert litið hér af hv. talsmönnum Sjálfstfl., (Gripið fram í: nei.) hv. 6. þm. Reykv. fremstur í flokki, en hún svarar þó til árstekna af raforkusölu til ÍSALs og hún svarar til þess að við höfum hækkað framleiðslugjaldið sem innheimt hefur verið á þessu tímabili úr því að vera 8 278 000 Bandaríkjadalir um 6 660 000 dali eða um 80.5%. Það er sú hækkun á skatttekjum íslenska ríkisins á þessum tíma sem nú hefur verið ákvörðuð. Menn geta kallað hana smáræði ef þeir vilja.

Herra forseti. Það mætti margt fleira segja um þetta mál að gefnu tilefni hér í dag, en ég læt máli mínu lokið.