01.11.1982
Sameinað þing: 10. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í B-deild Alþingistíðinda. (177)

Umræður utan dagskrár

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Mér fannst nokkuð sérkennilegt að hv. síðasti ræðumaður skyldi telja það við hæfi að snúa út úr fyrri ummælum sem hér voru flutt eins og hann gerði, þegar það liggur fyrir í samþykki sem gerð var og birt opinberlega frá þingflokki Alþb. hver afstaða hans er sérstaklega varðandi þessi vaxtamál. Meginatriðið í samþykkt þingflokks Alþb. var að verðbótaþáttur verðtryggðra lána hækki ekki meira en nemur hækkun almennra launa, þar sem fyrirsjáanlegur er verulegur munur á lánskjaravísitölu og verðbótum á laun 1. des. n.k. Með þessari áherslu er Alþb. auðvitað að leggja áherslu á rekstrargrundvöll heimilanna í landinu, fjölskyldnanna, sem verða að búa við mjög óþægileg vaxtakjör. Þetta er fólk sem ekki hefur fengið óverðtryggð lán núna á liðnum mánuðum. Þetta er alveg meginatriði í afstöðu Alþb.

Í umr. í dag hefur mjög verið um þetta mál rætt. Ég vil láta það koma hér fram, að í síðustu viku var birt niðurstaða nefndar sem fjallaði um húsnæðismál á vegum ríkisstj. og það var eitt meginatriðið í tillögum nefndarinnar að húsnæðislán yrðu þannig afgreidd að greiðslur yrðu miðaðar við kauplagsvísitölu eins og hún er á hverjum tíma, en ef lánskjaravísitala er hærri á mismunurinn að flytjast aftur fyrir og lánin þannig að lengjast. Undir nál. þetta skrifa þm. úr Framsfl., skrifa menn úr Alþb. og úr Sjálfstfl. Alþfl. hefur flutt frv. á Alþingi sem er mjög svipað. Þannig má það vera athyglisverð staðreynd til umhugsunar, m.a. fyrir bankastjórn Seðlabankans á þessum sólarhringum, að í rauninni virðist að það sé allra flokka samkomulag hér á Alþingi um að halda á málum eins og hér var nefnt. Þetta er athyglisvert og þm. mættu taka það til athugunar á næstu vikum.

Ég tel, herra forseti, að meginniðurstaða þessara umr. sé þó í rauninni miklu alvarlegri en sú sem hér hefur þegar verið nefnd. Ég tel að meginniðurstaðan sé sú, að sú raunvaxtastefna, sem knúin var fram af Alþfl. og var sem betur fer eitt af því fáa sem hann náði fram í ríkisstj. 1978–1979, hafi gengið sér til húðar. Raunvaxtastefnan átti að leysa allan vanda hér í þjóðfélaginu, bókstaflega allan. Bankarnir áttu að fyllast af peningum á stundinni. Það átti ekki að verða mikill vandi að þjóna húsbyggjendum eða atvinnuvegum með ýmsum hætti og þeim hætti sem bestur væri. Staðreyndin er auðvitað sú, að núna loksins liggur það fyrir að þessi stefna, þessi peningamálastefna, er í blindgötum. Það er ekki seinna vænna að menn geri sér grein fyrir því. Ég tel að hér sé um að ræða svo alvarlega staðreynd að það eigi að ákveða að láta fara fram gagngera endurskoðun allra laga hér í landinu um peningamál og menn eigi að velta því fyrir sér, hvort ekki sé rétt að breyta ákvæðum varðandi vald Seðlabankans til þess að ákveða vexti.

Mér finnst það nokkuð athyglisvert, að á sama tíma og menn berja sér hér mjög á brjóst og hneykslast yfir ákvörðun Seðlabankans skuli enginn talsmaður flokkanna hér fyrr hafa nefnt þann möguleika að það sé eitthvað bogið við það að stofnun eins og Seðlabankinn skuli geta ákveðið jafn þýðingarmikinn þátt í efnahagslífinu og vextirnir þrátt fyrir allt eru. (SvH: Hann getur það ekki í praxís nema með ykkar leyfi.) Seðlabankinn gerir það samkv. lögum, hv. þm., það liggur alveg fyrir. Hitt er annað, að oftast hefur orðið um það samkomulag milli ríkisstj. og bankans hversu þessu ætti að haga, það er rétt. (Gripið fram í.) Þetta er alveg meginatriði, sem menn þurfa að taka hér til athugunar, bæði ríkisstj. og þm. Ég vil bæta þessu við: Ákvæði Ólafslaga um vexti þarf einnig sérstaklega að endurskoða, eins og hæstv. sjútvrh. reyndar gat um áðan. Hér þarf sem sagt að taka á þessum málum öllum í heild og vonandi kemur um það stjfrv. áður en mjög langur tími líður að taka á þessum málum í heild vegna þess að svona má málið ekki ganga miklu lengur. En meginniðurstaðan er sú: Raunvaxtapólitík Alþfl. hefur siglt í strand — það eina sem í rauninni var eftir af þeirri pólitík sem hann náði fram í ríkisstj. 1978– 1979, og það er fagnaðarefni að menn skuli hafa áttað sig á því hversu langt sú stefna hefur í raun og veru leitt okkur og hvað hún hefur skapað mikil vandamál. Í öðru lagi, herra forseti, vil ég segja það, að það er ekki fyrst og fremst vaxtahækkun Seðlabankans sem þó vekur hér athygli og skapar vandamál að mínu mati. Ég tel að hættan liggi fyrst og fremst í hinum nýju útlánareglum gagnvart viðskiptabönkunum. Þar er staðan þannig, að ákveðinn hluti viðskiptavinanna er þegar kominn upp á hið 15. refsiþrep hins háa Seðlabanka. Hinir stærri viðskiptabankar, sem mega sín í landinu hvað mest og láta stundum talsvert í sér heyra, standa nú á bilinu 10.–15. refsiþrepi Seðlabankans. (Gripið fram í.) Spurningin er sú í þessum efnum, hvort þessi stefna getur ekki haft í för með sér að það komi niður á atvinnuvegunum í landinu, valdi þar samdrætti og hættu á atvinnuleysi. Ég minni á það, hv. þm. og aðrir sem mál mitt heyra, að Seðlabankinn hefur talið að hann hefði heimild til þess að ákveða þetta sjálfur samkv. lögum og enginn þm. hefur fyrr í þessum umr. nefnt það sem möguleika að ríkisstj., hver sem hún er, taki sér þéttara vald í þessu efni en gerst hefur að undanförnu.