16.02.1983
Efri deild: 45. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2059 í B-deild Alþingistíðinda. (1774)

198. mál, fjáröflun til vegagerðar

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breytingu á lögum um fjáröflun til vegagerðar. Það er meginefni þessa frv. að lagt er á gjald, sem greiða skal árlega, svokallað veggjald, og rennur það óskipt til vegagerðar. Gjaldið er lagt á allar bifreiðar og bifhjól. Gjaldið nemur 1 kr. af hverju kg eigin þyngdar bifreiðar.

Í 1. gr. frv. er heimild til að hækka gjaldið í réttu hlutfalli við hækkun á vísitölu byggingarkostnaðar. Gjaldtaka þessi er í fullu samræmi við þá vegáætlun sem lögð hefur verið fram á hv. Alþingi.

Mér er kunnugt um að samgrh. hefur kynnt þetta mál fyrir stjórnarandstöðuþm. Alþfl. hefur þegar lýst yfir fylgi sínu við þetta mál og málið mun hafa verið rætt í hópi þm. Sjálfstfl. Afstaða hefur enn ekki komið fram, en óhætt mun að segja að málinu hefur ekki verið andmælt enn sem komið er. Er því von til þess að hér geti verið um samkomulagsmál að ræða.

Tekjur þær sem gjaldið gefur nema um 120 millj. kr. á verðlagi ársins 1983. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að fjmrn. hefur tvívegis lækkað verulega innflutningsgjöld af litlum sparneytnum bifreiðum og raunar lækkað gjöld af öllum innfluttum bifreiðum í síðara sinnið. Mun láta nærri að þær breytingar, sem gerðar hafa verið á innflutningsgjöldum, nemi um 120 millj. kr. á verðlagi þessa árs. Er þá miðað við 8 000 bíla innflutning, en innflutningur undanfarin ár hefur verið á bilinu 7 500 bifreiðar og upp í 11 500 bifreiðar á seinasta ári, árinu 1982, eða að meðaltali 9 500 bifreiðar. Sé miðað við 8 000 bifreiðar er þarna um tekjumissi að ræða sem nemur nokkurn veginn sömu upphæð og þessu gjaldi er ætlað að gefa.

Þessi breyting, sem hér er verið að gera, er í fullu samræmi við álit og niðurstöður starfshóps um fjáröflun til vegaframkvæmda, sem birt var í nóv. 1981. Þar var einmitt lagt til að innflutningsgjald af bifreiðum yrði lækkað, en í þess stað tekið upp gjald það sem hér um ræðir.

Í röksemdum starfshópsins fyrir þessu nýja gjaldi kom m. a. fram, að með því væri skattlagning færð frá bifreiðakaupum yfir á eignarhald bifreiða og ætti það að auðvelda almenningi kaup og endurnýjun bifreiða.

Með þessari tilfærslu eru gjöld bifreiðaeigenda jafnframt færð frá ríkissjóði í Vegasjóð og því til framkvæmda á sviði vegamála. Einnig benti starfshópurinn á, að með því að tengja þetta gjald þyngd bifreiða samrýmdist þessi tillaga orkusparnaðarsjónarmiðum.

Rétt er að benda á að með þessu frv. er einnig lagt til að eitt gjald sé lagt niður, en það er gúmmígjald sem lagt er á innflutta hjólbarða. Er það gert á þeim forsendum að ekki sé rétt að leggja háa sérskatta á rekstrarvöru sem hefur mikil áhrif á umferðaröryggi.

Fjármagn. sem fæst með þessari gjaldtöku, verður fyrst og fremst notað til að auka lagningu bundins slitlags á vegi á næstu árum.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál frekar. Ég tel það mjög mikið ánægjuefni ef svo til tekst að samstaða verður hér í þinginu um afgreiðslu þessa máls og afgreiðslu vegáætlunar. Ég vil leyfa mér að leggja til að að lokinni þessari umr. verði þessu máli vísað til hv. fjh.- og viðskn.