16.02.1983
Neðri deild: 41. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2069 í B-deild Alþingistíðinda. (1782)

195. mál, viðmiðunarkerfi fyrir laun

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa mörg orð um þetta mál núna við 1. umr. og ætla ekki að fara efnislega að ráði út í einstakar greinar eða útfærslu er varðar það nýja viðmiðunarkerfi sem upp á að taka samkv. þessu frv. Það er ekkert nýtt að þegar uppi eru ráðagerðir um efnahagsúrræði til að ná tökum á verðbólgunni sé það meginþátturinn í öllum efnahagsúrræðum, sem til framkvæmda hafa komið, að einblína á launin og skerða þau með einum eða öðrum hætti, án þess að á sama tíma sé leitast við með samræmdum aðgerðum á öllum sviðum efnahagslífsins að beita úrræðum, sem skila varanlegum árangri til lausnar þeim verðbólguvanda sem við er að glíma. Það sem nú gerist er einmitt einkennandi fyrir efnahagsúrræði síðari ára, að það er einmitt rétt fyrir útreikning verðbóta á laun sem stjórnvöld vakna upp og gera sér ljóst að það þurfi að leggja fram efnahagsúrræði við vandanum. Úrræðin miðast síðan við að skerða launin. Stundum fylgja með önnur skammtímaúrræði, sem engan vanda leysa, og síðan fylgir iðulega með þessum aðgerðum orðsending um að á næstunni skuli stefnt að hinu og þessu til að ná varanlegum tökum á efnahagsmálunum og verðbólgunni, treysta lífskjörin og byggja upp heilbrigt efnahagslíf. En efndirnar eru engar, eins og allir þekkja. Við vitum vel hver reynslan er, hver framkvæmdin hefur verið, hverjar efndir stjórnvalda hafa verið þegar til kastanna kemur að standa við yfirlýsingar og markmið. Öllu er velt á undan sér. Öllum ákvörðunum, er snerta uppskurð á efnahagskerfinu og uppbyggingu atvinnuveganna, er slegið á frest. Það eina sem ekki er slegið á frest er að skerða launin í landinu með einum eða öðrum hætti.

Hverjar eru svo afleiðingarnar? Þær blasa alls staðar við hjá atvinnuvegunum. Þarf ekki að fara nánar út í það hér hvernig mörg fyrirtæki ramba á barmi gjaldþrots og atvinnuöryggi launþega er stefnt í mikla tvísýnu. Og ekki eru afleiðingarnar síður alvarlegar fyrir mörg heimilin í landinu, sem berjast í bökkum, þar sem launin hrökkva ekki fyrir brýnustu nauðsynjum.

Þegar litið er til þess hvernig málsvari launafólks að eigin sögn, Alþb., hefur leikið með í þessum hringdansi í stjórnarsamstarfinu og staðið að hverri kjaraskerðingunni á fætur annarri, án þess að með fylgdu önnur úrræði sem máli skipta til að uppræta verðbólgudrauginn, er afstaða og málflutningur þeirra til þess frv. sem við hér ræðum afar einkennilegur. Innihald málflutnings Alþb. nú er að ekki komi til greina að samþykkja slíka kjaraskerðingu á launafólk þegar stjórnvöld gangi ekki á undan með góðu fordæmi og geri samhliða aðra nauðsynlega uppstokkun á efnahagskerfinu og hefji nýja framfarasókn í atvinnuuppbyggingunni.

Það var síðast í gær sem þessir málsvarar launafólks réttu upp hönd til að staðfesta þá kjaraskerðingu sem þeir stóðu að með brbl. í ágúst, sem ekkert fylgdi nema skattahækkanir og loforðaumbúðir um að gera hitt og þetta á sviði efnahags- og atvinnumála, sem ekki hefur verið staðið við. Þessir sömu menn hafa haft á fjórða ár til að beita sér fyrir uppstokkun á efnahagslífinu og framþróun í atvinnuuppbyggingunni. Og hver er árangurinn? Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens stendur einn eftir sem minnisvarði þessarar ríkisstj. um það sem gera átti en ekki var gert. Stjórnarsáttmálinn er minnisvarði um loforðin. Lýsinguna og minnismerkið í hnotskurn um efndirnar má svo sjá í hrikalegri skuldasöfnun og slæmri stöðu atvinnuveganna með þeim afleiðingum að atvinnuöryggi er í stórfelldri hættu og lífskjörin hafa dregist saman hjá launafólki og heimilunum í landinu. En þessa dagana klæðast Alþb. menn kosningaskrúðanum og reyna að draga dulu yfir fyrri gerðir. Þá er það bannorð í þeirra herbúðum að tala um einhliða skerðingu á laun fólksins í landinu án annarra aðgerða. Nú ganga þeir um vinnustaði og tala um að Tómas hafi svikið þetta, Steingrímur hitt og Gunnar annað.

Svona er málflutningur þessara manna nú, sem staðið hafa að hverri kjaraskerðingunni á fætur annarri og á fjórða ár hafa haft gullið tækifæri til að koma á gerbreyttri efnahagsstefnu, ekki síst vegna þess að launafólk hefur sýnt þessari ríkisstj. takmarkalausa þolinmæði og lagt sitt af mörkum til að leggja lið í baráttunni við verðbólguna. Engu að síður hefur þessi ríkisstj. með Alþb.-menn í broddi fylkingar níðst á þolinmæði og fórnum launafólks og ekki haft uppi neina tilburði í þrjú ár til að efna loforðin og koma á samræmdum efnahagsaðgerðum sem skili árangri og verði til þess að launafólk sjái árangur fórna sinna. Þegar þessi ríkisstj. setti brbl. í ágústmánuði s. l. var sagt við launafólk: Ef þið færið ekki þessar fórnir verður verðbólgan á næsta ári 70% í stað 50%. En hver er árangurinn nokkrum vikum eftir að launafólk færði fórnina? Verðbólgan er ekki 50%, eins og ríkisstj. sagði í ágúst, heldur nálægt 70% og stefnir hærra. Árangurinn er auðvitað strax uppétinn af því að ríkisstj. hafði ekki þá fremur en áður áræði eða þor til að gera aðrar nauðsynlegar samræmdar ráðstafanir á sviði efnahags- og atvinnumála. Þetta er sami hringdansinn á þriggja mánaða fresti ár eftir ár. En samt er haldið áfram.

Það frv. sem við fjöllum um nú, um nýtt viðmiðunarkerfi fyrir laun og fleiri ákvæði sem því fylgja, er sami hringdansinn. Hæstv. viðskrh. sagði hér áðan að þetta væri fyrsta skrefið, fyrsti áfanginn. Hversu oft höfum við ekki heyrt það, hversu oft hefur launafólk ekki heyrt það, þegar verið er að skerða launin, að þetta sé fyrsta skrefið, meira eigi að koma. Hver er reynslan? Það verður aldrei nema þetta fyrsta skref og við stöndum áfram í sömu hjólförunum.

Það frv. sem við fjöllum um nú, um nýtt viðmiðunarkerfi fyrir laun og fleiri ákvæði sem því fylgja, er því sami hringdansinn. Frv. felur í sér aðgerðir sem miðast við að taka eingöngu af laununum og er atgerlega slitið úr samhengi við aðrar nauðsynlegar efnahagsaðgerðir og þá uppstokkun á efnahagskerfinu sem er orðin lífsnauðsyn. Ég er ekki með þessum orðum að andmæla því eða draga úr því að leiðrétta þarf vísitölugrunninn og koma í veg fyrir víxlgang kaupgjalds og verðlags. En sú aðferð dugar ekki ein sér í baráttunni við verðbólguna, slitin úr samhengi við aðrar nauðsynlegar efnahagsaðgerðir. Það er löngu orðið tímabært að efnahagsúrræðin, sem hér fara frá hv. Alþingi og sem ríkisstjórnir standa að, miðist ekki nær eingöngu við það að launþegar séu látnir færa fórnir og heimilin í landinu séu látin bera byrðarnar af rangri stefnu í efnahags- og atvinnumálum.

Ég er sannfærð um það, að launafólk og verkalýðshreyfingin mundu skoða þetta frv. með mjög jákvæðu hugarfari, ef við samhliða værum hér að ræða aðrar aðgerðir í efnahagsmálum, sem tryggðu að fórnir launþega skiluðu varanlegum árangri og tryggðu til frambúðar betri lífskjör. Þetta frv. eitt sér, ef að lögum verður, gefur launafólki enga tryggingu fyrir því að það sjái árangur þeirra fórna sem ákvæði frv. fela í sér. Auðvitað eru launafólk og verkalýðshreyfingin treg til, svo að ekki sé meira sagt, að samþykkja einhverjar breytingar á verðbótaákvæðum, jafnvel þó því sé vel kunnugt um stórfellda galla þeirra, þegar það sér hvergi neina vörn eða neitt skjól fyrir þeim sífelldu verðlagshækkunum á vöru og þjónustu sem sífellt dynja yfir og sem verðbótaákvæði launa halda hvergi nærri í við. Ég vil t. d., með leyfi hæstv. forseta, lesa það sem fram kemur um 4. gr. þessa frv. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Í þessari grein er að finna þá grundvallarbreytingu á núgildandi verðbótatilhögun, að lagt er til að breytingar á óbeinum sköttum og niðurgreiðslum hafi ekki áhrif á greiðslu verðbóta á laun. Sem dæmi um slíka óbeina skatta og gjöld má nefna söluskatt, aðflutningsgjöld, innflutningsgjöld og vörugjöld, en gert er ráð fyrir að um nánari framkvæmd þessara ákvæða verði kveðið á í reglugerð.“

Hvaða áhrif hefur þetta á verðlagsþróunina? Það er allt í óvissu um hvaða áhrif þetta hefur á afkomu heimilanna. Heimilin verða enn frekar en nú varnarlaus gagnvart þeim hækkunum sem dynja yfir, ef stjórnvöldum þóknast að gera breytingar á óbeinum sköttum svo sem vörugjaldi eða söluskatti, sem ekki munu hafa áhrif á launin. Ennfremur er vert að benda á það, sem kemur fram í 4. gr. einnig, að gert er ráð fyrir að um nánari framkvæmd þessara ákvæða verði kveðið á í reglugerð. Og í 7. gr. segir: „Forsrh. skal setja nánari reglur um framkvæmd þessara laga.“

Að þessu leyti er frv. auðvitað meingallað. Forsrh. eru gefnar frjálsar hendur um hvernig að framkvæmd þessa ákvæðis skuli staðið. Þau úrræði sem felast í frv. ein sér eru eins og áður ekki liður í samræmdum aðgerðum, þar sem tekið er á öllum þáttum efnahagsmála, eins og Alþfl. hefur margoft lagt til undanfarin ár að gert verði og hvað eftir annað lagt fram tillögur um að gera. Þó að ýmis mál þar að lútandi liggi nú fyrir Alþingi sér Alþingi enga ástæðu til að líta nánar á, hvað þá heldur að afgreiða þau mál.

Það er samt athyglisvert að nú á síðustu mánuðum þessa stjórnarsamstarfs skýtur það upp kollinum af og til, bæði hjá ríkisstj. í loforðalista hennar og í ályktunum og samþykktum miðstjórna ríkisstj.-flokkanna, að hitt og þetta þurfi nú bráðnauðsynlega að gera. Er þar einmitt oft bent á ýmis atriði, bæði á sviði efnahags- og atvinnumála, sem Alþfl. hefur margoft undanfarin ár ítrekað og flutt frv. um að gera þyrfti í efnahags- og atvinnumálum. Skal ég ekki, herra forseti, eyða tíma þingsins til að rifja það upp þótt freistandi væri.

Tafarlaus framkvæmd samræmdra efnahagsúrræða er auðvitað forsenda þess að réttlætanlegt sé að stjórnvöld grípi inn í verðbætur launa vegna þrenginga í efnahags- eða atvinnumálum. Þessu hefur Alþfl. marghamrað á og margsinnis látið koma fram að einhliða krukk stjórnvalda í laun, úr samhengi við aðrar aðgerðir, skili engum árangri. Þetta frv. eitt og sér er því algerlega úr takt við þá stefnu sem Alþfl. vill fylgja, hefur barist fyrir og lagt fram tillögur um — og það sem meira er. verið sjálfum sér samkvæmur í. Það þarf ekki að rifja upp mörgum orðum hér að Alþfl. neitaði 1979, þegar hann rauf stjórnarsamstarf við ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, að fylgja stefnu sem var í engu samræmi við stefnu flokksins og tillögur um árangur í efnahags- og atvinnumálum og varaði við afleiðingum þess að fetað yrði áfram á þeirri braut, braut skammtímaráðstafana sem eingöngu miðast við að skerða launin, og vildi breyta því að stjórnvöld rumski aðeins rétt fyrir útreikning verðbótavísitölu, eins og ævinlega er gert og eins og nú á að fara að gera.

Herra forseti. Ég skal fara að ljúka máli mínu. Það er ljóst að þetta frv. er ekki liður í samræmdum efnahagsaðgerðum og því andstætt þeirri stefnu sem Alþfl. boðar og sýndi með eftirminnilegum hætti 1979 að honum er fullkomin alvara að framfylgja. Ég vil lýsa því hér yfir að ég tel óráð og vægast sagt mjög hæpið, svo að ekki sé meira sagt, að fylgja því frv. sem hér er til umr. Ég lýsi andstöðu minni við það í þeim búningi sem það er, slitið úr samhengi við meiri háttar efnahagsaðgerðir sem gætu tryggt að fórnir launþega skili þeim árangri sem látið er í veðri vaka að þær geri.