16.02.1983
Neðri deild: 41. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2073 í B-deild Alþingistíðinda. (1785)

184. mál, kosningar til Alþingis

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Frv. það um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis, sem hér liggur fyrir, felur í sér breytingar á fjórum greinum laganna. Er í aths. með frv. gerð nokkur grein fyrir hverju þessara ákvæða fyrir sig. Tel ég ekki þörf að rekja efni þeirra allra hér, en vil þó fara nokkrum orðum um tvö ákvæðanna. þeirra sem eru í 2. og 3. gr. frv.

Með fyrra ákvæðinu, sem er í 2. gr., er lagt til að þeim sem af trúarástæðum geta ekki sótt kjörfund á kjördegi verði heimilað að greiða atkv. utan kjörfundar. Miðað við ákvæði 62. gr. laganna er þetta eigi gild ástæða til að greiða atkv. utan kjörfundar. Fyrir sveitarstjórnarkosningar á síðasta vori kom í ljós að sumir kjósendur, sem teljast til Sjöunda dags aðventista, töldu það ekki samrýmast sinni trúarskoðun að neyta kosningarréttar síns á laugardegi, en þá var kjördagur í fyrsta sinn á þeim degi. Gildir þetta um laugardaginn fram til sólseturs.

Heimild til að greiða atkv. utan kjörfundar er samkv. 62. gr. laganna bundin við tilteknar ástæður, þ. e. fyrirhugaða fjarveru á kjördegi, ráðgerða sjúkrahúsvist og barnshafandi konur sem ætla má að verði hindraðar í að sækja kjörfund á kjördegi. Aðrar ástæður heimila eigi atkvgr. utan kjörfundar. Hér er þess að geta, að kjósanda ber að greina kjörstjóra frá ástæðu þess að hann vill kjósa utan kjörfundar og gera grein fyrir hvar hann muni verða staddur á kjördegi, og skal færa þessar upplýsingar í þar til ætlaða bók, sem umboðsmenn lista hafa aðgang að. Reynist þessar ástæður ekki fyrir hendi á kjördegi er kjósanda skylt að tilkynna nærveru sína áður en atkvgr. lýkur að viðlagðri refsiábyrgð. Vegna þessa ákvæðis töldu kjörstjórar eigi heimilt að leyfa utankjörfundaratkvgr. af trúarástæðum, einkum við sveitarstjórnarkosningarnar á síðasta ári. Til að koma til móts við þessa kjósendur er lagt til að kveðið verði ótvírætt á um það í 62. gr. kosningalaganna að þeim sé heimil kosning utan kjörfundar ef þeir af þessum ástæðum geta eigi sótt kjörfund á kjördegi.

Þótt ekki sé það lagt til nú tel ég ástæðu til að það verði tekið til athugunar hvort ástæða sé til að kanna jafnrækilega og nú er ástæður þess að kjósandi vill kjósa utan kjörfundar. Mætti ætla að kjósanda megi treysta til að meta það sjálfur, hvort hann hafi ástæður til að greiða atkv. utan kjörfundar og ekki séu efni til að láta skipta máli þótt þær ástæður reynist ekki fyrir hendi þegar kjördagur rennur upp. Er rétt að minna á, að fyrir alþingiskosningar í des. 1979 var heimilað að kjósa utan kjörfundar, þótt þær ástæður sem í lögum eru tilgreindar ættu ekki við, ef kjósandi hafði ástæðu til að ætla að veður eða færð mundi hamla honum kjörsókn á kjördegi.

Síðara ákvæðið varðar notkun stimpla við utankjörfundaratkvgr. Það mál var tvívegis til meðferðar á hv. Alþingi á s. l. þingi. Í samræmi við lög frá því þingi voru stimplar útbúnir til notkunar við sveitarstjórnarkosningar á síðasta ári. Voru stimplar notaðir hjá 51 kjörstjóra, þ. e. við borgarfógetaembættið í Reykjavík, hjá embættum sýslumanna og bæjarfógeta, í sendiráðum og hjá nokkrum hreppstjórum. Að kosningum loknum leitaði dómsmrn. upplýsinga frá kjörstjórum og yfirkjörstjórnum í kaupstöðum um reynslu af notkun stimplanna. Hefur verið gert sérstakt yfirlit með þeim upplýsingum, sem þar koma fram, og er þar bæði lýst kostum og göllum í sambandi við notkun stimplanna.

Ekki tel ég ástæðu til að lesa hér upp það yfirlit sem gert var. Með frv. þessu er hins vegar lagt til að fengin verði frekari reynsla af stimplanotkun áður en endanlega verður kveðið á um að einungis skuli notaðir stimplar við utankjörfundaatkvgr.

Herra forseti. Ég tel eigi ástæðu til að rekja efni frv. frekar en gert hefur verið og legg til að því verði að þessari umr. lokinni vísað til allshn.