16.02.1983
Neðri deild: 41. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2075 í B-deild Alþingistíðinda. (1795)

164. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 313 um frv. til 1. um breyt. á sveitarstjórnarlögum, nr. 58 29. mars 1961, með síðari breytingum. Hér er um að ræða þá breytingu á sveitarstjórnarlögum, að aftan við 94. gr. laganna bætist svohljóðandi mgr.:

„Þegar ákveðið hefur verið að sameina tvö eða fleiri sveitarfélög, getur félmrh. ákveðið að tala sýslunefndarmanna verði sú sama og fyrir sameininguna, enda óski fráfarandi hreppsnefndir eftir að svo verði gert.“

Þessi lagabreyting er fyrst og fremst gerð vegna eindreginna óska sveitarstjórna Dyrhólahrepps og Hvammshrepps í Vestur-Skaftafellssýslu, en samþykkt var við almenna atkvgr., sem fram fór 14. nóv. 1982 í Dyrhóla- og Hvammshreppum, að þessir hreppar yrðu sameinaðir í einn hrepp.

Ríkisstj. hafði fjallað um beiðni félmrh. um þetta mál á sínum tíma og var meðmælt umræddri lagabreytingu. Nefndin ræddi frv. og athugaði málið frá ýmsum hliðum og mælir með því að það verði samþ. óbreytt. Fjarverandi afgreiðslu málsins voru hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson og hv. þm. Eggert Haukdal.