17.02.1983
Sameinað þing: 53. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2081 í B-deild Alþingistíðinda. (1803)

169. mál, hljóðvarpsskilyrði eystra

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. þessi svör. Þau eru býsna skýr, skýrari en menn hafa fengið þar um slóðir um að þetta stæði til alveg á næstunni og yrði þá úr bætt að fullu, þ. e. eins og hæstv. ráðh. kom inn á, að á þeim stöðum þar sem mest hefur verið kvartað, svæðinu frá Fáskrúðsfirði til Breiðdalsvíkur verði bætt úr þessum vandræðum í næsta mánuði, í marsmánuði, með FM-stöðvum bæði á Hafnarnesi og í Staðarborg. Þá er þetta mál vitanlega leyst að svo miklu leyti sem af hálfu Ríkisútvarpsins getur verið um það að ræða. Ég fagna því svo sannarlega og einnig því að ýmislegt sem maður heyrði um þetta austur þar er greinilega rangt og úr þessu verður að fullu bætt í mars.