17.02.1983
Sameinað þing: 53. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2081 í B-deild Alþingistíðinda. (1804)

169. mál, hljóðvarpsskilyrði eystra

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég mun ekki eyða löngum tíma í aths. mína og síst vil ég liggja núv. hæstv. menntmrh. á hálsi fyrir það hvernig ástatt er um hlustunarskilyrði á Austurlandi og Norðausturlandi, í kjördæminu mínu og kjördæminu hans, og meðal frænda okkar beggja á Austurlandi.

Mér er það minnisstætt að fyrir 25 árum gengu á fund þáv. menntmrh. þrír þm. Austurlands og ekki af léttari sortinni, þeir hv. þáv. þm. Eysteinn Jónsson, Lúðvík Jósepsson og Einar Sigurðsson, og inntu fyrst menntmrh. og síðan útvarpsstjóra — eftir að hafa fengið nokkuð óljós svör frá þáv. menntmrh. — eftir því, hvort ekki væri unnt með einhverjum tæknilegum brögðum að bæta hlustunarskilyrði á Austurlandi, þannig að Austfirðingar heyrðu þó mælt mál, og eins þeir á Norðausturlandi. Þá fengu þeir eftirfarandi svör hjá þáv. útvarpsstjóra: „Það hefur aldrei verið í sjálfu sér stefna Ríkisútvarpsins að heyrast út um hvippinn og hvappinn.“

Á allra síðustu árum hefur Ríkisútvarpinu tekist með dyggilegri aðstoð Landssímans að koma upp sjónvarpskerfi, sem nær um svo til allt landið, og síðan á afmæli Ríkisútvarpsins var byrjað stereóútvarp frá Reykjavík, á meðan vesalings Austfirðingarnir okkar — ja, því miður, stundum bæti ég við sem betur fer, — geta ekki einu sinni heyrt mælt mál í Ríkisútvarpinu og þetta dregst ár eftir ár. (Gripið fram í: Er það hvippinn og hvappinn?) Þeir virðast vera aðalráðunautar æðstu stjórnar Ríkisútvarpsins í þessu máli.