17.02.1983
Sameinað þing: 54. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2098 í B-deild Alþingistíðinda. (1810)

68. mál, endurskoðun siglingalaga

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. atvmn. fyrir afgreiðslu hennar á þeirri þáltill. sem við nú ræðum.

Eins og fram kom hjá hv. frsm. n. er hér um mjög þýðingarmikið mál að ræða. Till. samhljóða þessari var flutt af okkur þm. Vestfjarða á síðasta þingi, nokkuð síðla á þingi, þannig að málið náði þá ekki afgreiðslu. Í framhaldi af því hóf Orkustofnun þegar í stað aðgerðir í þessu máli. En samkv. till. er mælt svo fyrir m. a. að Orkustofnun fjalli um þau efni sem þar er gert ráð fyrir, eða sinni rannsóknum sem varða hagnýtingu surtarbrandsins. Það er þess vegna, eins og hv. frsm. n. vék að, þýðingarmikið að einmitt núna verði engin töf á afgreiðslu Alþingis á þessu máli. Og ætla verður að svo verði ekki þegar atvmn. hefur nú einróma samþykkt að mæla með samþykkt till.

Ég ætla ekki hér að fara að ræða mikilvægi þessa máls. Það hef ég ítarlega gert áður. Ég vil aðeins undirstrika það, að hér er um mál að ræða sem gæti haft ákaflega mikla þjóðhagslega þýðingu, auk þess sem þetta mál gæti skipt sköpum í byggðaþróun Vestfjarða.