21.02.1983
Efri deild: 46. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2103 í B-deild Alþingistíðinda. (1817)

187. mál, fólksflutningar með langferðabifreiðum

Frsm. (Jón Helgason):

Herra forseti. Samgn. fjallaði um þetta mál á tveimur fundum og fékk þá aðila sem ég gat um til viðræðu. Mér er ekki fyllilega ljóst á hvern hátt þetta þrengir hag heimamanna. Það getur vel verið að hv. 2. þm. Austurl. hafi þar lög að mæla, að slíkt geti átt sér stað, en ég held að þetta eins og margt fleira fari eftir því hvernig framkvæmdin verður og erfitt að ganga þannig frá í lögum að komið verði í veg fyrir slíkt. Þó virðist að við það að bæta inn fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga í skipulagsnefnd fólksflutninga ætti heldur betur að vera auðveldara fyrir sveitarfélögin að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Hitt er annað, að forgangsréttur sveitarfélaga er kannske ekki mjög einfalt mál vegna þess að nú er orðið hægt að keyra hringinn í kringum á landinu og sum sérleyfi liggja í gegnum mörg héruð. Það er vafasamt að heppilegt væri að búta þau niður í smáeiningar. A. m. k. hefur reynsla undanfarinna áratuga orðið sú, að sérleyfishöfunum hefur fækkað mikið frá því sem áður var vegna þess að óhagkvæmt er að það séu mjög margir aðilar sem keyra sömu leiðina.

Atriðið um kaupskyldu á hinum gömlu bifreiðum, ef skipt er um sérleyfishafa, var nokkuð rætt í nefndinni. Mönnum fannst að e. t. v. væri þarna um atriði að ræða sem nú mætti falla út þar sem vitanlega eru breyttar aðstæður frá því sem áður var. En það var mat okkar nefndarmanna að eins og það hefur orðið minni þýðingu, þá væri jafnframt minni hætta í því fólgin, þ. e. að því yrði beitt í óhag þeim sem við tekur. Enda á að fara fram mat á eignum og þetta á því aðeins að vera mögulegt að þær eignir, sem um er að ræða, séu nothæfar.

Ennfremur var rætt hvort hægt væri að framselja sérleyfin. En vegna gildandi hlutafjárlaga er vitanlega ekki hægt að koma í veg fyrir að eignaskipti verði á hlutabréfum, ef það er hlutafélag sem er sérleyfishafinn. Það er held ég eini möguleikinn þar sem um væri að ræða eignaskipti án þess að sérleyfi væri auglýst.

Ég held að atriðið um póstflutningana hafi ekki verið rætt sérstaklega í n. og get því miður ekki gefið fyllri svör um það án þess að afla mér þá betri upplýsinga.