02.11.1982
Sameinað þing: 11. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í B-deild Alþingistíðinda. (183)

263. mál, lögmannskostnaður og ríkisábyrgð á launum

Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 31 ásamt hv. 1. landsk. þm. Pétri Sigurðssyni flutt fsp. til félmrh. um lögmannskostnað og ríkisábyrgð á launum. Þessar greiðslur eru samkv. lögum nr. 31 frá 28. mars 1974 og enn fremur samkv. breyt. á þeim lögum frá 5. mars 1979. Í sambandi við ríkisábyrgðina segir svo m.a.:

„Hafi launþegi krafist gjaldþrotaskipta eða hafið innheimtuaðgerðir vegna vanskila á greiðslum þeim, sem um ræðir í 1. mgr. þessarar greinar, tekur ábyrgðin til alls nauðsynlegs kostnaðar, sem honum er skylt að greiða í því sambandi.“

Það sem fyrir mér vakir er með öðrum orðum að ganga úr skugga um hvort hæstv. ráðh. hafi í sambandi við ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot farið þá leið að halda sig við lögin eða greitt fleiri kröfur en þær sem koma inn í búið sem forgangskrafa, og hef ég þá m.a. í huga innheimtulaun málflutningsmanna, en hafa ber það í huga, að ríkissjóður gengur inn í þann rétt sem viðkomandi hefur haft varðandi forgangskröfur og ef hann fer út fyrir það vofir sú hætta að sjálfsögðu yfir að hann nái ekki sínu fé til baka. Að öðru leyti skýrir fsp. sig sjálf, en hún er svohljóðandi:

,,1. Hve háum fjárhæðum var varið árið 1980 og 1981 til greiðslu launakrafna samkv. lögum um ríkisáabyrgð á launum við gjaldþrot?

2. Hve háar fjárhæðir voru á hvoru ári fyrir sig greiddar vegna gjaldþrots aðila í Reykjavík annars vegar og utan Reykjavíkur hins vegar?

3. Hvernig ákvarðar félmrn. greiðslur vaxta og innheimtukostnaðar, t.d. lögmannskostnaðar, við greiðslu þessara krafna? Eru sömu kröfur gerðar varðandi þessa liði og gerðar eru til sjálfrar launakröfunnar, t.d. að viðurkenndur sé forgangsréttur kröfuliða í viðkomandi þrotabúi?

4. Hvernig sundurliðast þessar greiðslur árin 1980 og 1981 í a) launakröfur launþega, b) lögmannskostnað, c) vexti?

5. Hvaða lögmannsskrifstofur hafa á umræddu tímabili fengið greiddar hæstar fjárhæðir vegna innheimtukostnaðar í sambandi við þessar kröfur og hve háar fjárhæðir er þar um að ræða til hverrar um sig, t.d. þriggja hinna stærstu?

6. Hver er hæsta fjárhæð sem hverjum einstökum launþega hefur verið greidd samkv. þessum lögum?“