21.02.1983
Neðri deild: 42. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2122 í B-deild Alþingistíðinda. (1833)

195. mál, viðmiðunarkerfi fyrir laun

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, um nýtt viðmiðunarkerfi fyrir laun o. fl., virðist í fljótu bragði geta verið nokkuð meinlaust á að lita, en aftur á móti, þegar dýpra er kafað, virðist mér ýmislegt í því meira en lítið vafasamt og hættulegt fyrir almennt launafólk. Í fyrsta lagi dreg ég mjög í efa gagnsemi þessa frv., sem hér er fram lagt, og dreg jafnframt mjög í efa þær tötur sem gefnar eru upp og eiga að sýna að dragi úr verðbólgu. Og ef það dregur úr verðbólgu um 5–6%, hver er þá kjaraskerðingin, sem um er talað, sem í því felst?

Það er ýmislegt ærið tortryggilegt í þessu. Annað er nokkuð skýrt og segir sig nokkuð sjálft. Það er í sambandi við nýjan vísitölugrundvöll, sem lengi hefur verið rætt um og er talinn að ýmsu leyti eðlilegri og réttari. Þar er byggt á neyslukönnun frá 1979 og 1980, en sá sem nú er stuðst við byggist á neyslukönnun frá 1964 og 1965 og sér í lagi 1964. Vissulega hafa orðið stórfelldar breytingar á almennri neyslu og lifnaðarháttum landsmanna og gæti þar af leiðandi verið eðlilegt að slíkur grunnur verði tekinn upp. Skemmst er frá því að segja, að í samningum s. l. sumar bauð Alþýðusambandið að ræða þennan vísitölugrundvöll sem grunn fyrir samningum. Að vísu eru þarna nokkur atriði, sem mundu nú hafa ýmsar afleiðingar í för með sér, sem ég er ekki viss á að allir sjái fyrir. T. d. mundu landbúnaðarafurðir vega mun minna í þessum vísitölugrundvelli en í hinum fyrri. Matvæli vega í núverandi grundvelli um 20%. Ef niðurgreiðslur eru ekki teknar með kemur í ljós nokkuð fljótlega að sala á landbúnaðarafurðum í vísitölugrundvellinum mundi dragast verulega saman. Ég held ég megi fullyrða að það yrði hrein bylting í neyslu ýmissa landbúnaðarafurða. Það er hægt að koma með skýr dæmi sem sýna fram á það t. d. að neysla á nautakjöti hefur meira en tvöfaldast. Þó er það lítið sem ekkert niðurgreitt á móti dilkakjöti. Þetta mundi á örskömmum tíma draga verulega úr neyslu á dilkakjöti. Neysla á kjúklingum hefur fjórfaldast, ef ég man rétt. Ég er ekki alveg viss á því að hæstv. landbrh. knýi á þetta frv., hann sjái fyrir allar afleiðingar af þessu. Við samningamenn Alþýðusambandsins vildum nú, þó við værum reiðubúnir að semja um þennan grundvöll, athuga nánar ýmsa þætti eins og landbúnaðarvörur. En nóg um það.

Í þessu frv. er lagt til að frádráttarliðir í vísitölunni haldi sér. Breytingar á búvöruverði verða hins vegar nokkru minni vegna þess að landbúnaðarvörur vega minna í vísitölunni. Breytingar á áfengis- og tóbaksverði halda áfram að vera frádráttarliður, sem eru náttúrlega gömul svik við samninga, vegna þess að enginn féllst á sínum tíma á að taka áfengi og tóbak út úr vísitölunni. Verkalýðshreyfingin ætlaðist aldrei til að áfengis- og tóbaksverð yrði frádráttarliður í vísitölunni. Er náttúrlega hreint fals á núverandi vísitölu að hafa það innl í grundvellinum alltaf á núlli svo það skekki þann grundvöll.

Breytingum á gjaldskrá raf- og hitaveitna er bætt þarna inn í. Fannst nú ýmsum nóg um frádráttarliði, sem fyrir voru, sem eru einhvers staðar á milli 11 og 12%. Verðlag á raforku hvað Landsvirkjun snertir hefur hækkað einhvers staðar á milli 130 og 140% og það er jafnvel gert ráð fyrir 200% hækkun á þessu ári. Þá er náttúrlega ákaflega praktískt að taka orkuverð út úr, þegar það er sá liður sem fer út úr vísitölugrundvellinum og fyrirsjáanleg er á stórfelld hækkun.

Það sem þó er kannske það hættulegasta í sambandi við breytingar á vísítölunni er að óbeinir skattar og tollar eru teknir út úr vísitölunni. Það er sagt með réttu, að þetta sé gífurlegt hagstjórnartæki. Vissulega er það rétt. Þetta er mikið hagstjórnartæki. En að draga þetta út úr vísitölu skapar um leið ákaflega miklar hættur. Það skapar þær hættur, að með hvers kyns niðurgreiðslum og hvers kyns ævintýrum er hægt að færa til verðlag. Það er hægt að hækka verðlag á ákveðnum hlutum svo að verulegu magni nemi án þess að það komi fram í vísitölu. Það er hægt á þennan hátt að skerða vísitöluna þannig að hún verði aðeins svipur hjá sjón.

Það sem ýtir nú undir tortryggni varðandi þetta er 7. gr. frv., þar sem segir: „Forsrh. skal setja nánari reglur um framkvæmd þessara laga.“ Nú er ég ekki að segja hér að það sé ætlun eða vilji núv. forsrh. að falsa þetta sem allra mest og ásetningurinn sé sá og sá einn að falsa vísitölu eða hagræða vísitölu. Ég vil ekki bera þær sakir á hæstv. forsrh. En um þetta hefur kauplagsnefnd fjallað. Kauplagsnefnd er þannig saman sett, að í henni er fulltrúi frá Alþýðusambandinu, frá Vinnuveitendasambandinu og einn tilnefndur af Hæstarétti. Um störf þessarar nefndar er það að segja, að ég minnist þess ekki að hún hafi skilað áliti klofin. Ég held að hún hafi alltaf skilað einróma áliti og ég held að aldrei hafi verið vefengdir hennar úrskurðir.

Nú leitar á mann: Af hverju er skyndilega farið að rýra störf þessarar nefndar, sem hefur sér til ráðuneytis og trausts og halds einn vandaðasta embættismann á landinu, sem er hagstofustjóri, og leitar álits hans í þessum málum? Af hverju er verið að færa þetta yfir til forsrh.? Ég endurtek að ég er ekkert fyrir það að brigsla eða ásaka núv. hæstv. forsrh. um að hann sé að útbúa mikil svik, mikla fölsun á vísitölu o. s. frv., en það geta nú komið aðrir forsrh. Sannleikurinn er sá, að eftir að svona lagagr. er komin til framkvæmda fer náttúrlega ákaflega mikið eftir því hvaða vilji er hjá viðkomandi forsrh. til slíkra verka.

Það má lengi vitna í að nauðsynlegt sé að ríkissjóður ráðist í þessar og þessar framkvæmdir án þess að komi fram í vísitölunni, og má nefna ýmis dæmi í því sambandi. Ég skal ekki vera að halda uppi neinu málþófi hér, en ég vil aðeins segja, að reynsla okkar af öllu slíku í gegnum árin hefur verið ákaflega slæm og ég sé ekki betur en með því að taka þessa liði svona út úr, afhenda túlkunina hæstv. forsrh., sé verið að kippa ýmsum meginstoðum undan vísitölunni, a. m. k. ef vilji er fyrir hendi.

Ég vil líka minna á að í þeim erfiðleikum sem þessi þjóð á óneitanlega við að stríða í sambandi við verðfali á afurðum, í sambandi við lokun markaða o. s. frv., þá hefur þetta líka sagt til sín. 1981 var vísitalan skert. Kaupmáttur var sá sami og 1980, 104.9. Hins vegar er áætlað að hann fari niður í röska 103 fyrir 1982. Nú spá vísustu menn, t. d. hagdeild Alþýðusambandsins, að að óbreyttu muni kaupmáttur tímakaups falla niður í 95 eða verði um það bil sá sem hann var 1976. Kaupmáttur að óbreyttum aðstæðum er því kominn býsna neðarlega. Hann er kominn niður fyrir ákveðin hættumörk. Hér er vissulega við erfiðleika að glíma og menn eiga ekki að vera að neita þeim. En okkur virðist þarna nokkuð einhliða tekið á málum. Þarna sýnist okkur gerðar einhliða ráðstafanir sem skerða kaupmátt launafólks. Og jafnframt, ekki vegna aðgerða ríkisstj., heldur vegna þess að markaðir hafa brugðist, afli hefur verið verðminni og halli á viðskiptum, þá hefur atvinna dregist saman, þannig að ráðstöfunartekjur verða minni og stefna í að verða minni þannig að það verður ekki, eins og verið hefur hægt undanfarin ár, hægt að benda á þetta.

Ég sé að tíminn er að verða útrunninn og hefði nú margt verið hægt um þetta að segja fleira. En ég harma að ekki skuli hafa náðst betri grundvöllur. Það hefði vel komið til greina að breyta ýmsum — herra forseti, ég er alveg að ljúka máli mínu — liðum þessarar vísitölu. Við stöndum frammi fyrir ákveðnum vanda og þar er ekki hæstv. forsrh. um að saka. Við stöndum frammi fyrir þeim vanda, að ef við hækkum laun almenns launafólks í landinu um 5% fara þau 5% upp í efstu taxta sem til eru í landinu. Og ekki nóg með það, heldur líka í hæstu útselda vinnu sérfræðinga sem til eru í landinu. Þetta sjálfvirka kerfi malar slíkt inn. Við erum reiðubúnir að ræða ýmsa slíka þætti. (Forseti: Fundartíminn er nú búinn.) Herra forseti. Ég skal lofa að hlíta þeim tímamörkum. Ég vil aðeins taka fram og ítreka, að ég vil ekki vera að fullyrða hér og nú að það sé ásetningur núv. forsrh. að falsa þetta allt saman eins og mögulegt er, en það eru opnaðir möguleikar fyrir því. Það eru í þessu bein skerðingarákvæði, þegar kaupmáttur tímakaups er orðinn mjög lítill. Þess vegna get ég ekki stutt þetta frv.