21.02.1983
Neðri deild: 42. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2125 í B-deild Alþingistíðinda. (1835)

78. mál, söluskattur

Frsm. (Ingólfur Guðnason):

Herra forseti. Fyrir hv. Nd. liggur frv. til l. um breyt. á lögum nr. 10/1960, um söluskatt, með síðari breytingum, á þskj. 80. Að 1. umr. lokinni var vísað til fjh.- og viðskn. Nefndin hefur fjallað um málið og leitað umsagnar fjmrn. Frv. þetta gerir ráð fyrir að heimilt sé að endurgreiða söluskatt af kostnaði sveitarfélaga við snjómokstur. Í umsögn rn. kemur fram, að þrátt fyrir að framkvæmd heimildarinnar hljóti að verða ýmsum annmörkum háð telji rn. ekki rétt að mæla gegn því að frv. nái fram að ganga.

Á ýmsum tímum og í ýmsum tilvikum hefur það verið gagnrýnt hér á hv. Alþingi að ríkissjóður geri sér erfiðleika fólks að fjáröflun. Slík gagnrýni hefur löngum komið fram þegar rætt hefur verið um greiðslu söluskatts af ýmiss konar kostnaði sem stafar af erfiðleikum, svo sem eins og með snjómokstur. Eins og alkunna er eru héruð og byggðarlög hér á landi misjafnlega snjóþung og því hlýtur kostnaður við snjómokstur að vera misjafn í hinum ýmsu byggðarlögum. Þá leiðir það einnig af sjálfu sér að þar sem vegagerð hefur dregist aftur úr kostar snjómokstur að öðru jöfnu meira en þar sem samfélagið hefur lagt meira fé til vegagerðar.

Með tilliti til þess, sem ég hef sagt, og fleiri atriða varð niðurstaða fjh.- og viðskn. í umfjöllun um málið, sem segir í nál. á þskj. 361, að nefndin telur að hér sé um sanngirnismál að ræða og leggur til að frv. verði samþykkt.

Fjarverandi við afgreiðslu málsins var Matthías Bjarnason, en undir álitið skrifa Halldór Ásgrímsson, Ingólfur Guðnason, Matthías Á. Mathiesen, Sighvatur Björgvinsson, Albert Guðmundsson og Guðmundur J. Guðmundsson.

Herra forseti. Að þessari umr. lokinni óska ég eftir að málinu verði vísað til 3. umr.