21.02.1983
Neðri deild: 42. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2133 í B-deild Alþingistíðinda. (1839)

195. mál, viðmiðunarkerfi fyrir laun

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil sérstaklega taka undir síðustu orð hæstv. forsrh. Það stendur ekki á okkur að bjóða hann velkominn í hópinn, ef hann fullnægir því lágmarksskilyrði að segja af sér sem forsrh. Veri hann velkominn. Þá getum við sameinað Sjálfstfl. að nýju, og ekki skal standa á okkur að taka brosandi á móti honum (ÓÞÞ: Er þetta í umboði þingflokksins?) þó hann yrði hv. í staðinn fyrir hæstv. í þeim svifum sem hann gengi inn um dyrnar á flokksherberginu.

Hæstv. forsrh. sagði hér áðan að hann hefði vænst þess að þm. Sjálfstfl. mundu greiða — það var efnislega — veg þessa frv. í gegnum Nd. Nú minnist ég þess ekki að hæstv. forsrh. hafi gengið á fund flokksbræðra sinna. Hann er enn í þingflokki Sjálfstfl. og sá er nú háttur okkar, ef við viljum vænta stuðnings hver annars, að bera mál þar upp, og hefur m. a. hæstv. dómsmrh. gert það og atkvgr. bera með sér að við höfum oft brugðist vel við hans málaleitan. Það má fletta upp þingtíðindum og sjá að við höfum ráðið úrslitum um að mál hans hafa náð fram að ganga hér á Alþingi þrátt fyrir klofning stjórnarliða um þau og ágreining, þannig að hann hefur góða reynslu af því. En hins vegar minnist ég þess ekki að hæstv. forsrh. hafi komið niður í þingflokksherbergi og kynnt fyrir okkur þetta mál áður en hann lagði það fram. Nú má vel vera að það hafi verið boðaður einhver fundur án minnar vitundar með hæstv. forsrh., það hafi ekki náðst í mig, og hann hafi samt sem áður setið fund með þingflokki Sjálfstfl. Það má vera, en ég hef ekki frétt af því. En það væri náttúrlega kurteisi, ef hann ætlaðist til stuðnings okkar, að leyfa okkur að fylgjast með og kannske hafa einhver áhrif á efni frv., eins og t. d. að taka laxveiðarnar út úr verðbótaþættinum, fyrst þær eiga þar ekki heima að hans mati. En það kom ekki til þess, þannig að það var ekki við því að búast að við gætum gefið hæstv. forsrh. holl ráð í sambandi við þennan frv.-flutning.

Nú er hæstv. fjmrh. kominn í salinn og eiginlega synd að hann skyldi ekki hafa komið ögn fyrr. Ég ætlaði að fara að segja, að það hefði vakið athygli mína að hæstv. forsrh. skyldi hafa gripið tækifærið til að segja að framlagning frv. væri ekki brot á stjórnarsáttmálanum þegar enginn ráðh. Alþb. var staddur hér í Nd. Nú langar mig til að spyrja hæstv. fjmrh., fyrst hann er kominn í salinn, hvort hann hafi sama skilning og hæstv. forsrh., að framlagning frv. sé ekki brot á stjórnarsáttmálanum. Það væri fróðlegt að fá svar hæstv. fjmrh. á því.

Ég vil einnig vekja athygli á því, að það kveður við nýjan tón nú hjá hæstv. forsrh., það minnir mig í það minnsta, þegar hann segir að þetta frv. sé ekki stjfrv., heldur flutt af forsrh. einum. Mig minnir að hann hafi sagt hér áður í deildinni að meiri hl. ríkisstj. stæði að þessu frv., allir ráðherrar nema þrír, og í þeim skilningi væri það stjfrv. Nú þarf ég að fletta þessu upp til að vera viss um að ég muni þetta rétt. En hitt liggur fyrir, að forseti Nd. hefur lýst því yfir að þetta sé stjfrv. og hæstv. forsrh. mótmælti ekki þeim úrskurði forsetans þegar hann var gefinn. Nú er sá forseti ekki við í deildinni svo að hann getur ekki áréttað sinn fyrri úrskurð, en fróðlegt væri að vita hvað hæstv. varaforseti segir um það, hvort hann sé sammála fyrsta forseta um að þetta sé stjfrv. eða ekki eða hvort hann sé ósammála hæstv. forsrh. um að þetta sé ekki stjfrv., án þess að það skipti nú neinu meginmáli satt að segja.

Ég er alveg sammála hæstv. forsrh. um að vaxandi verðbólga bitnar á launafólki og bitnar á lífskjörunum. Auðvitað er það öldungis rétt hjá hæstv. forsrh., og þetta skyldi hann hafa í huga nú, þegar verðbólgan er komin upp í nýjar hæðir. Ég veit ekki hvort sú kjaraskerðing, sem felst í hækkun verðbólgunnar, hefur verið metin sérstaklega, en hún er veruleg, ekki síst ef tekið er í reikninginn að skuldbindingar hins almenna borgara eru verðtryggðar núna gagnstætt því sem áður var. Af þeim sökum verður kjararýrnunin miklu meiri en áður, eins og vanskilin í bönkunum sýna okkur ljóslega. Ég hygg að kaupmáttarskerðingin sé mun meiri en opinberar tölur gefa til kynna, einfaldlega af þeirri ástæðu að verðtrygging fjárskuldbindinga er ekki tekin inn í kaupmáttarútreikninginn. Þess vegna eru þessar síðustu tölur um stöðu kaupmáttarins rangar og gefa til kynna hærri kaupmátt en hann raunverulega er. Um þetta veit ég að við hæstv. forsrh. erum sammála.

Það er aðeins smáaths. í viðbót. Hæstv. forsrh. segir að kaupmáttur ráðstöfunartekna hafi verið svo og svo mikill á árinu 1981 borið saman við næsta ár á undan. Ég man ekki betur en veruleg grunnkaupshækkun hafi orðið á ofanverðu ári 1980, um mánaðamótin okt./nóv., fyrir það alþýðusambandsþing sem þá var haldið. Og ég hygg að það sé líka rétt hjá mér, að þeir kaupmáttarútreikningar sem lagðir voru fram á því alþýðusambandsþingi gáfu til kynna mun hærri kaupmátt en hann síðar varð, þó svo að árið 1981 hefði verið besta ár sem yfir þjóðina hefur gengið. Það er þess vegna öldungis víst að kaupmátturinn á því herrans ári var mun minni en búist hafði verið við og ætla mátti í ársbyrjun. Það er öldungis víst. Kjaraskerðingin 1. mars var í rauninni ekkert annað en að þurrka út þá kauphækkun sem samið hafði verið um nokkrum mánuðum áður. Það skakkaði ekki miklu. (Gripið fram í.) Ef ég má svara formanni Verkamannasambandsins. Mig minnir að það hafi verið gefin út brbl. 31. des. 1980, sem fólu í sér skerðingu verðbótavísitölu 1. mars 1981, og að Alþingi hafi lagt blessun sína yfir þá kjaraskerðingu undir páska um veturinn eða nokkrum vikum eftir að kjaraskerðingin tók gildi. Það hefur m. ö. o. komið fyrir formann Verkamannasambandsins tvívegis að rétta upp hendina á Alþingi með verulegri kjaraskerðingu sem ákveðin var með brbl. algerlega að nauðsynjalausu af því að Alþingi kom saman í bæði skiptin nægilega snemma til þess að svigrúm hefði gefist til að afgreiða lög með venjulegum hætti.

Ég tek svo undir það, sem hæstv. forsrh. sagði áðan, að það er ekki ágreiningur um það út af fyrir sig að lengja verðbótatímabilin frá 3 mánuðum í 4. Það er hvorki ágreiningur milli einstakra stjórnmálaflokka, Alþýðusambands né Vinnuveitendasambands um þá hugsun út af fyrir sig. Um hitt er ágreiningur, hvernig að því skuli farið, með hvaða hætti það skuli gert. Það er talin veruleg ástæða til þess eftir að frv. var lagt fram að þessi mál verði skoðuð miklu betur.

Svo síðast þetta: Auðvitað er það rétt hjá hæstv. forsrh. að fórnir launþega til þess að styðja að atvinnurekstrinum geta borgað sig síðar. En það skilyrði hefur verið sett af verkalýðshreyfingunni fyrir kjaraskerðingu í bili að ríkisstj. hafi á prjónunum alhliða efnahagsráðstafanir til að taka á öðrum þáttum efnahagskerfisins en bara launaþættinum. Nú hefur hæstv. forsrh. lagt fram frv. sem skerðir launaþáttinn. Þá er eðlilegt að maður spyrji: Hvað er hann með meira í pokanum? Hvað er í pokanum? Er hæstv. forsrh. með eitthvað fleira í huga? Hyggst ríkisstj. áður en þingi lýkur leggja fram nýtt efnahagsfrv., sem feli í sér víðtækar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgunni, sem taki á öðrum þáttum en launaþættinum? Það er um þetta sem við erum að spyrja. Við erum tregir til að taka launaþáttinn einan út úr. Við trúum því ekki að of háum launum sé einum um að kenna hvernig komið er. Við erum sannfærðir um að það þurfi að taka á öðrum þáttum líka, og þess vegna spyrjum við: Hyggst ríkisstj. flytja frv. um alhliða efnahagsráðstafanir eða ekki? Á að láta sitja við launaþáttinn einan eða á að taka annað inn í myndina líka?