21.02.1983
Neðri deild: 42. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2135 í B-deild Alþingistíðinda. (1840)

195. mál, viðmiðunarkerfi fyrir laun

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég mun ekki flytja hér langt mál, enda hef ég talað áður í þessari umr. stuttlega um það frv. sem hér er til umr.. en kemst vart hjá því að segja örfá orð eftir að hæstv. forsrh. hefur talað í lok 1. umr. málsins.

Það var reyndar athygli vert, sem kom fram hjá hæstv. forsrh., að það er hans skilningur, og hann sýndi fram á það í sinni ræðu, að það væri ekki brot á stjórnarsáttmálanum að leggja fram þetta frv., þvert ofan í það sem hv. Alþb.-menn hér á þingi hafa haldið fram. En þá kemur sú áleitna spurning upp í hugann: Hvers vegna var þetta ekki gert miklu fyrr?

Það kom jafnframt fram hjá hæstv. forsrh., að í raun sé ágreiningurinn afar lítill á milli Alþb. annars vegar og annarra stjórnarparta hins vegar. Þetta ræddi ég nokkuð í minni fyrri ræðu, enda má glöggt sjá á minnihlutaáliti Þrastar Ólafssonar að þar er bitamunur en ekki fjár.

Síðan fjallaði hæstv. forsrh. með athyglisverðum hætti um verðbólguna, kjaraskerðingu ellegar launaskerðingar og samband verðbólgunnar við kjör manna í landinu. Hann hélt því fram, og vitnaði þar til hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar, sem hann taldi sér sammála um það atriði, að í raun og veru hefði með 7% launaskerðingu í upphafi ársins 1981 náðst fram 4% kjarabót þegar á árið var litið. Þetta er frægt mál, því að þegar Alþb. gleypti við þessari launaskerðingu í upphafi árs 1981 skrifaði formaður Alþb., hæstv. félmrh., yfirmaður kjaramála á Íslandi, í Þjóðviljann og kallaði þetta „slétt skipti“. Það er án efa rétt, sem kom fram hjá hæstv. forsrh. þegar hann vitnaði til ummæla hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar, að hjöðnun verðbólgu með verðbótaskerðingum er kjarabót. M. ö. o.: verðbólgan felur í sér kjararýrnun. En sé rétt til vitnað til hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar spyr maður þeirrar spurningar. Af hverju voru þær verðbætur ekki skertar meir og af hverju er þeim leik ekki haldið áfram, fyrst það gefur a. m. k. „slétt skipti“ og kannske betri kjör? Út á það ganga þessi rök. Og hvernig í ósköpunum stendur á því að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson getur verið á móti því að bæta kjörin í landinu? Ef hæstv. forsrh. vitnar rétt til hans ummæla upplýsist það hér, að hæstv. forsrh. heldur því fram að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson sé á móti því að lækka verðbólguna og þess vegna á móti því að bæta kjör í landinu. Þetta er mjög eðlileg rökfærsla út frá því sem hæstv. forsrh. sagði í sinni ræðu.

Ég held að hann hafi dálítið til síns máls. Ég skil ekki hv. þm. Guðmund J. Guðmundsson að láta þetta tækifæri frá sér sleppa. Hæstv. forsrh. sagði jafnframt, að hann væri sammála þeim hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur annars vegar og hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni hins vegar um að það væri ákaflega slæmt að greiddar séu jafnmiklar verðbætur á bæði há laun og lág og í framhaldi af því að það væri ákaflega slæmt þegar verðbótaskerðing væri jafnmikil á lág laun og há. Ég get borið saman tvö tilvik.

Annars vegar tek ég sem dæmi brbl. sem sett voru seint í ágúst í sumar, þar sem kjaraskerðingin var jafnmikil á há laun og lág, en reynt var síðan að breyta þessu með þeim hætti að greiða 50 millj., pínulítinn part af skattahækkuninni, til baka til þeirra lægst launuðu með svokölluðum láglaunabótum, sem reyndust vera eins konar vísitölubætur á laun sem menn höfðu haft árið áður. Mér er sagt að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson hafi staðið að þessu. Það er skjalfest í pappírum frá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni og haft eftir fulltrúum fjmrn. að svo hafi verið. En ég ætla að rifja það upp fyrir hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni að í febr. 1978, þegar hæstv. forsrh. var iðnrh. í stjórn Geirs Hallgrímssonar, gerðust þau tíðindi að efnt var til efnahagsráðstafana og þá var farið öðruvísi að. Þá voru ekki, ég undirstrika, þá voru ekki skertar verðbætur á lægstu laun. Með þeim ráðstöfunum, sem þá voru framkvæmdar, fengu laun að upphæð 88 þús. gkr. á mánuði fullar verðbætur. Eftir það voru verðbætur skertar þar til hálfar verðbætur voru greiddar á laun að upphæð í gkr. 140 þús. og eftir það. Ef fært er til verðlags dagsins í dag, — það skal ég gera með ánægju, það hef ég látið gera fyrir mig — þýða 88 þús. kr. laun á þessum tíma sama, þarna er um vegið meðaltal að ræða, og 6184 nýkr. og 140 þús. 9 843. Þessu var síðan breytt með brbl. í maí og bilið varð þá frá 8 102 kr. — Það var gólfið — upp í 16 603. Á því tímabili, frá 8 þús. upp í 16.5 þús.. gerðist það að ekki komu til greina fullar verðbótaskerðingar. M. ö. o.: í febr. 1978 gerðist það að farið var að þeim hugmyndum sem þeir hæstv. forsrh. og hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, að sögn hæstv. forsrh. eru sammála um að ætti að fara.

Hvað gerði hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson þá? Fór hann ekki niður á Lækjartorg og hrópaði húrra? Var ekki skrúðganga hjá Verkamannasambandinu, þar sem var haldið upp í Stjórnarráð og sagt: Þetta var fín verðbótaskerðing, miklu betri en þær sem hafa farið fram áður, og svona ætlum við að haga okkur í framtíðinni. Nei, það getur verið að mig misminni, en ég man ekki betur en hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson efndi til einhvers konar útflutningsbanns. Það voru hans húrrahróp 1978. Og hann lét prenta seðla og dreifði á ýmsa vinnustaði í landinu: Við kjósum ekki kaupránsflokkana. Við viljum samningana í gildi. Kosningar eru kjarabarátta. — Hljómar þetta ekki kunnuglega, hv. þm.?

Svo gerðist það, að út á þessi loforð var hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson kjörinn á Alþingi. Í næstu kosningum þar á eftir, sem voru aðeins ári síðar, haustið 1979, ég vona að hv. þm. viðurkenni það þó. (Gripið fram í.) Jæja, enn frekar, ef það er rétt. Og hvað ætli hv. þm. hafi gert þá, þegar hæstv. ríkisstj. sem hann studdi fór að skerða verðbætur á laun? Notaði hann ekki aðferðina sem hann hafði lagt til sjálfur? Ég læt öðrum eftir að svara þessum spurningum.

En svo kemur hv. þm. og segir: Er hægt að bjóða mönnum upp á kjaraskerðingar á borð við þessa, sem hér er til staðar? Og hver skyldi ágreiningurinn vera? Hæstv. forsrh. upplýsir hér að ágreiningur við Alþb. um þetta sé smávægilegur. Það er spurning, hvenær verðbótatímabilslengingin á að taka gildi, hvort þetta fjögurra mánaða tímabil á að taka gildi 1. des. eða 1. mars. Og í stað þess að taka orkufrádráttinn út úr vill Þröstur Ólafsson taka hlutfallslegan frádrátt — eða eru kannske ekki skoðanir Þrastar Ólafssonar og um leið hæstv. fjmrh. um leið skoðanir hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar?

Nei, hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson segir: Það má bara alls ekki blanda sér í almenna frjálsa kjarasamninga, þ. e. í þeim tilvikum þegar hann hagnast ekki á því. Hins vegar má gera það þegar á að setja orlofslög og breyta þannig kjarasamningum, því að þá telur hann sig hagnast á því. Er þetta ekki tvískinnungur? Ef ekki, hvað er þetta þá? Ég hef aldrei setið undir ræðu eins og þeirri, sem hæstv. forsrh. hélt hér áðan, að hann skyldi gera svona gífurlegt grín að einum af þeim mönnum sem hefur stutt ríkisstj. hæstv. forsrh. En ég efaðist hreinlega um að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson skildi þetta grín fyrr en ég væri búinn að útskýra það fyrir hv. þm., eins og ég hef verið að reyna að gera núna.

Hæstv. forsrh. sagðist hafa átt von á stuðningi frá sjálfstæðismönnum í stjórnarandstöðu, og ég þakka honum að sjálfsögðu hlý orð í minn garð þar sem hann lýsti minni ræðu. En ég spyr á móti: Af hverju kom ekki þetta frv. fyrr fram? Ég minnist þess, því var haldið fram þegar brbl. voru ekki lögð fram á Alþingi í upphafi þings, að þá var sagt víða og því héldu ýmsir ráðherrar fram, ég man ekki hvort það var hæstv. forsrh., en það kom fram t. d. hjá hv. þm. Framsfl., að það væri ekki hægt að leggja frv. fram, það vantaði fylgifrv., þar á meðal þetta frv. Þannig lá í því. Og hvers vegna skyldi hæstv. forsrh. hafa lagt frv. fram? Það var vegna þess að hv. þm. Kjartan Jóhannsson, formaður Alþfl., lét að því liggja að það kæmi til greina að semja um þetta mál. Þetta er staðreynd sem er hægt að fletta upp í blöðum. Það græddu ekki margir á því því að Alþfl. klofnaði, og má lengi kljúfa eldspýtur í þessu landi.

Það er auðvitað erfitt fyrir sjálfstæðismenn í stjórnarandstöðu, ef þeir tækju nú þá afstöðu að styðja frv., að styðja frv. sem er tæknilega dautt. Það kom allt of seint fram. Við höfum ekki lagt stein í götu frv., þvert á móti hafa fulltrúar Sjálfstfl. mætt á nefndarfundum þrátt fyrir mótmæli annars stjórnarflokksins um að nefndarfundir væru haldnir í fjh.- og viðskn. Nd. Sjálfstæðismenn létu sig hafa það, því að þeir vildu að málið fengi þinglega meðferð.

Þegar formaður Sjálfstfl., hv. þm. Geir Hallgrímsson, sagði frá því í Morgunblaðinu á laugardaginn, sama dag og hæstv. forsrh. kom úr opinberri heimsókn frá Danmörku, að flokkurinn mundi ekki styðja frv. þá lá fyrir að ekki var hægt, vegna þess að Alþb.-menn höfðu ákveðið að tefja þetta mál, að afgreiða það í tíma, því að i fyrramálið kemur saman kauplagsnefnd til að reikna út hver eigi að vera verðbótavísitala. — Það er kannske kaldhæðni örlaganna, en kemur ekki þessu máli við, að samkv. gildandi brbl. ber að skerða þá vísitölu að hálfu. Það er alveg örugg lagaskýring, enda má gagnálykta, og þetta veit hæstv. forsrh., fyrrv. prófessor í lögum út frá þeirri breytingu sem gerð var í Ed., þar sem gert er ráð fyrir að það þurfi að taka inn í frv. þá brtt. að kjaraskerðingin gildi aðeins til 1. mars. Það er ekki í brbl., en er núna í því frv. til staðfestingar á brbl. sem liggur fyrir Alþingi. Kannske er hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson að tefja vísitölumálið vegna þess að á meðan verður hæstv. forsrh. að sitja í Nd., getur ekki staðið að afgreiðslu mála í Ed., og hv. þm. Helgi Seljan, flokksbróðir hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar, neitar að taka brbl. á dagskrá í Ed. af því að þeir eru að bíða eftir því að hægt sé að skerða laun núna um 7.5% til viðbótar af þeirri einföldu ástæðu, sem kom fram hjá hæstv. forsrh., að þeir væru sammála, hæstv. forsrh. og hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, um að besta kjarabótin væri að lækna verðbólguna með verðbótaskerðingu. En óskaplega sveigir eru þeir í hugsunarhættinum, ef þetta reynist rétt.

Það var ljóst á laugardaginn, það verða allir að vita, að hv. þm. Halldór Ásgrímsson færi úr landi á Norðurlandaráðsfund. Sá hv. þm. er formaður fjh.- og viðskn. Varaformaðurinn er enginn annar en hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson. Og hver trúir því að hv. þm., eins og hann hefur talað í þessari umr., muni gera það fyrir hæstv. forsrh. að hraða málinu í gegn, nema þá að þetta sé allt allsherjar samsæri. Frá mínum bæjardyrum er þetta grín. Þetta er eitthvert hið mesta grín sem ég nokkurn tíma hef heyrt eða séð á ævinni.

Herra forseti. Ástæðan fyrir því að það er ekki hægt, jafnvel þótt menn vildu, að styðja þetta frv. fyrir stjórnarandstöðuna er af mörgum toga spunnin.

Í fyrsta lagi hefur þetta mál verið á ferðinni í heilt ár, eins og kom fram hjá hæstv. forsrh. Í heilt ár hefur það verið á ferðinni í stjórnarherbúðunum og stjórnarandstaðan hefur aldrei fengið að sjá frv. né heldur þá vinnu sem farið hefur fram á vegum stjórnarflokkanna og stjórnarpartanna um þetta mál.

Í öðru lagi er frv. allt of seint fram komið. Hins vegar get ég sagt það, að við sjálfstæðismenn erum tilbúnir nú eins og ætíð endranær að skoða það með ábyrgum hætti, ásamt þeim sem sitja í hæstv. ríkisstj., ásamt verkalýðsforustunni og ásamt forustu Vinnuveitendasambandsins, með hverjum hætti, ekki bara í því sem snýr að vísitölunni heldur í öðrum málum, er hægt að koma lagi á hlutina. Ein alvarlegasta uppástunga okkar í þessum efnum var þegar við báðum um að Alþingi yrði kallað saman í sept. á s. l. ári til þess að hægt væri að ræða þetta mál, fá fram kosningar, skýrari línur, festu og ábyrgð í íslenskri pólitík, en því var hafnað. Og enn stóðu þeir saman hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson og hæstv. forsrh.

Að lokum, herra forseti, er það ljóst að Alþb. ber ábyrgð á þessu frv. Fyrirvarinn sem þeir gera er æðilítill málefnalega. Það er þess vegna alveg út í bláinn þegar hv. þm. koma hér upp og myndast við að reyna að halda því fram, að þeir séu á móti, eins og þeir kalla, kjaraskerðingunni sem kemur fram í þessu frv.

Þetta taldi ég nauðsynlegt vegna ágætrar ræðu hæstv. forsrh. að kæmi fram áður en 1. umr. málsins væri lokið. En ég efast um að þetta mál komist úr nefnd.