02.11.1982
Sameinað þing: 11. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í B-deild Alþingistíðinda. (185)

263. mál, lögmannskostnaður og ríkisábyrgð á launum

Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég vil nú byrja á að þakka hæstv. félmrh. svör hans. Í þeim kom m.a. fram, að rn. hefur túlkað heimildir sínar til greiðslu á lögmannskostnaði mjög frílega og fæ ég satt að segja ekki séð að öll þau miklu umsvif, sem hann lýsir, séu nauðsynleg til að tryggja viðkomandi aðila ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot, sem hann lýsti. Hann talaði þar um ferðakostnað og hvað eina, stighækkandi skala vegna kröfu sem er í ríkisábyrgð, sem ég tel að sé algerlega ónauðsynlegt. Ég tel að ef ekki er um forgangskröfu að ræða eigi lögfræðingur ekki rétt á öðru en þóknun fyrir að skrifa bréfið, sem er um 300–400 kr., en eigi ekki rétt á fullum innheimtulaunum. Ég álit þess vegna að rn. hafi ekki gætt nægilegrar aðhaldssemi varðandi greiðslu lögmannskostnaðar á þessu tímabili. Ég vil í því sambandi vekja athygli á, að mjög verulegur hluti þessara greiðslna rann til lögmannsstofu sem aðstoðarmaður félmrh. rak á þessum tíma eða Arnmundur Backman, en þeir lögfræðingar sem þarna eru langhæstir hafa ýmist verið starfsmenn hans eða félagar. Mér sýnist að þar sé um nánast allan lögmannskostnaðinn að ræða og þeir hafi fengið í sinn hlut, Viðar Már, Sveinn Skúlason og Örn Höskuldsson, eitthvað í kringum 120 þús. kr. af þeim 136 þús. sem um er að ræða. Ég verð að lita svo á hins vegar, að það sé að vænta meiri festu í þessum málum þegar Alþingi fær þetta mál á ný til meðferðar og strangari ákvæði verða sett um það, eftir hvaða reglum skuli farið um greiðslur ríkissjóðs á lögmannskostnaði. (Gripið fram í: Eru hinir tveir óvinir Arnmundar Backmans?) Ég er ekki að tala um það, hv. þm., en hitt vekur athygli, þegar um greiðslur úr ríkissjóði er að ræða á vafasömum kröfum, til hvers greiðslurnar renna. Í lögum er skilið á um það, í hvaða tilvikum lögmannskostnaður skuli vera forgangskrafa. Ég tel að löggjafinn hafi markað línuna með því og ríkissjóður hafi átt að binda sig við að greiða fullan lögmannskostnað einungis þegar um það er að ræða að krafan var sett fram áður en til gjaldþrotaskipta kom, en á hinn bóginn hafi rn. ekki haft heimild til þess að greiða lögmannskostnað nema krafan hafi gengið inn í forgangskröfu viðkomandi aðila.

Nú má auðvitað lengi deila um hversu mikillar aðhaldssemi eigi að gæta í ríkisrekstri. En ég hygg að það sé rétt hjá mér, að í hinum almenna „praxís“ sé sú leið farin hjá lögmönnum að stilla sínum kröfum í hóf og krefjast ekki fulls innheimtukostnaðar þegar gjaldþrotaskipti eru komin áleiðis, heldur láti sér nægja að skrifa einfalt bréf og sjá svo hverju fram vindur. En þetta er aðeins eitt dæmi um það, ef ríkið á annað borð kemst í spilið, hvernig kostnaður allur hleypur upp úr öllu valdi, og áminning um að gæta meiri aðhaldssemi í framtíðinni en gert hefur verið.