02.11.1982
Sameinað þing: 12. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í B-deild Alþingistíðinda. (191)

Umræður utan dagskrár

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Það var hv. 1. þm. Reykn. sem upphóf þessa fróðlegu ráðstefnu um vexti og verðbólgu á hv. Alþingi. Hann var svo hvatvís að leggja nokkrar tiltölulega einfaldar spurningar fyrir hæstv. ráðh. um afstöðu þeirra til ákvarðana Seðlabankans. Það hefur margt fróðlegt og skondið komið fram í þessum umr. Sérstök ástæða er til að þakka hv. síðasta ræðumanni fyrir þann útdrátt úr ársskýrslu bankaráðs Útvegsbankans sem hann flutti okkur hér áðan. En eitt hið almerkilegasta í ræðu hans var það að hann tilkynnti þingheimi að fram hefði farið valdarán í þjóðfélaginu. Byltingarmennirnir eru hvorki meira né minna en bankastjórar Seðlabankans og byltingarforinginn, að ég segi ekki bara yfirskæruliði, er dr. Jóhannes Nordal.

Það vefst fyrir mér að skilja með hvaða hætti þessi valdataka gat farið fram hjá okkur hinum, því að við vissum ekki betur en að bankastjórn Seðlabankans væri að framfylgja lögum frá Alþingi, sem felur Seðlabankanum ákvörðunarvald um tiltekinn hluta af vaxtamálum, og að stjórn Seðlabankans væri með þeim hætti að taka ákvarðanir í skjóli þess valds, sem henni er fengið að lögum frá Alþingi, með svipuðum hætti og Hæstiréttur framfylgir lögum þegar hann kveður upp dóma. Kannske Hæstiréttur sé líka að dómi hv. þm. samsafn af valdaræningjum. Líkindin eru a.m.k. alveg rökrétt.

Það sem er merkilegt við þessa umr. er það, að þó að áhugavert sé að heyra skoðanir hæstv. ráðh. — einkum þegar þær eru jafn fjölbreytilegar og raun ber vitni, þær vísa a.m.k. í fjórar áttir — þá er það kannske ekki mergurinn málsins þrátt fyrir allt, af þeirri einföldu ástæðu að það eru í gildi lög í landinu sem kveða á um það að frá og með áramótum 1981 skuli hæstv. ráðh. — það er þeirra skylduverk — koma á fullri verðtryggingu í landinu. Um þetta eru lög og það er kjarni málsins.

Það kemur fram í umr.hæstv. sjútvrh. vefengir að Seðlabankinn hafi vald til þess að ákvarða án samráðs við ríkisstj. vaxtastig, sennilega afurðalána. Því næst kemur formaður bankaráðs Útvegsbankans og telur hér fullkomin ólög og valdarán í frammi haft. En enginn hefur hingað til vefengt að Ólafslög séu í gildi, kennd við þann mann sem kallaður hefur verið ókrýndur foringi þeirra framsóknarmanna, og fróðir menn segja mér að þessi lagabálkur, við hann kenndur, sé hvorki meira né minna en stolt hans og eftirlæti, enda lét hann hafa það eftir sér að þetta hefði hann samið á eldhúsbekknum heima hjá sér. Það er að vísu ekki rétt, enda má kannske geta þess að sá sem hér stendur gerir ákveðið tilkall til þess, af sögulegum ástæðum, að eiga stóran hlut í þeirri löggjöf, því hún var að verulegu leyti sniðin eftir frv., sem Alþfl.-menn illu heilli aldrei lögðu hér fram á Alþingi, sem hét frv. til laga um jafnvægisstefnu í efnahagsmálum. (Gripið fram í.) Ég ætla að láta vera að deila um höfundarréttinn, en lagabálkurinn var nokkuð góður.

Í þeim umr. sem fram hafa farið hafa ýmsir orðið til þess að ræða um siðfræði og vexti. Það er mjög áhugavert umræðuefni. Hv. 2. þm. Reykn. gerði því máli skil í mjög stuttri en hnitmiðaðri ræðu. Hún er ósköp einfaldlega á þá leið að frumforsenda heilbrigðra viðskipta í þjóðfélaginu sé að fólk geti treyst því í viðskiptum sínum við opinberar fjármálastofnanir og banka, að ef menn leggja inn fé fái þeir aftur það fé sem þeir höfðu inn lagt, punktur og basta. En þeir þurfi ekki að eiga von á því að löghelgaðar fjárvörslustofnanir þjóðfélagsins fremji bankarán á hverjum degi, eins og hann lýsti, og ágreiningurinn sé þá í því fólginn milli Seðlabanka og ríkisstj. hvort sá maður sem leggur inn 100 kr. skuli fá til baka 80 kr. eða 70 kr., en um það snýst málið. Það er m.ö.o. einfalt siðferði í þessu. En það er líka önnur skylda. Það er lagaskylda, sem hvílir á ráðh., að framfylgja ákvæðum Ólafslaga. Eftir því sem þessar umr. hafa leitt í ljós er ekki annað sýnna en að ráðh. og ríkisstj. í heild hafi brugðist þeirri skyldu sinni að framfylgja þessum lögum. Þeir sjálfir vefengja lagaheimildir Seðlabankans, formaður bankaráðs Útvegsbankans segir fullkomin ólög ríkja í landinu, og öðrum þræði er af siðferðilegum ástæðum talað um að daglega fari hér fram í landinu lögverndað bankarán. Það er þokkalegt ástand í þjóðfélaginu nú, þegar þessi hæstv. ríkisstj. er að eigin sögn — eða sögn hæstv. menntamrh. loksins að þrotum komin.

Fsp. hv. 1. þm. Reykn. til ráðh. um afstöðu til aðgerða Seðlabankans hefur ekki dugað til þess að knýja fram skýr eða skilmerkileg svör. Þeir framsóknarmenn tala út og suður. Annars vegar er á það að líta varðandi lögin, sem nú á að framfylgja, að það er fyrrv. formaður Framsfl. sem er höfundur þeirra að eigin sögn og þau eru við hann kennd. Því næst kemur núv. formaður Framsfl., hæstv. sjútvrh. Steingrímur Hermannsson, og lýsir því yfir að hann sé á móti því að framfylgja þessum lögum. Hann lætur að því liggja að hans skoðun sé sú, svo skemmtilegt sem það er, að stefna beri að vaxtalækkun. Varaformaður Framsfl. hefur þegar gefið sín svör, því að hann er formaður bankastjórnar Seðlabankans og er þess vegna fullgildur aðili að þeirri ákvörðun sem Seðlabankinn hefur tekið. (Gripið fram í: Bankaráðs.) Bankaráðs. Ég endurtek: Varaformaður Framsfl. er formaður bankaráðs Seðlabankans og þess vegna fullgildur aðili að þeirri ákvörðun sem Seðlabankinn hefur tekið. Því næst kemur hæstv. viðskrh. og bankamálaráðh. og svarar á þá leið að afstaða ríkisstj. sé fyrst og fremst sú, að það gæti tregðu til að framfylgja þessari stefnu, það gæti ákveðinnar tregðu og það beri að fara vægilega í sakirnar. En ef ég skildi orð hans rétt voru þau þó þveröfug við það sem formaður Framsfl. sagði, nefnilega að það ætti að lækka vexti. M.ö.o., frá þremur helstu talsmönnum Framsfl. fékk hæstv. fyrirspyrjandi þrenns konar svör. Það eitt út af fyrir sig er nokkurs virði.

Hver voru svo svör hæstv. félmrh. við þessum spurningum? Jú, félmrh. hafði það að segja að raunvaxtastefna, kennd við Alþfl., hefði nú gengið sér til húðar. Um hvað ætli maðurinn sé að tala? Hvaða raunvaxtastefnu ætli hann sé að tala um þegar fyrir liggur að raunvextir eru neikvæðir a. m, k. sem nemur 13–17%, og er þá varlega farið með tölur, hvaða raunvaxtastefnu er það? Og hvaða raunvaxtastefnu Alþfl. er maðurinn að tala um? Veit maðurinn ekki af því að hér var mynduð ríkisstj. árið 1980? Veit hann ekki af því að hann er einn af helstu höfuðsmönnum þessarar ríkisstj.? Því næst bítur hann höfuðið af skömminni með því að segja að það eigi eiginlega að framkvæma gagngera endurskoðun á þessum málum öllum saman. Hvað hefur maðurinn verið að gera í ríkisstj. s.l. þrjú ár?

Svörin eru þau frá hæstv. ráðherrum að ýmist tala þeir út og suður í þrjár áttir í einum og sama flokknum eða það koma yfirlýsingar um það frá ráðh., sem setið hafa á valdastóli í þrjú ár, að það þurfi eiginlega að gera eitt eða annað. Nánar tiltekið hvað er ekki upplýst. Þetta er glæsileg mynd af stefnufestu þeirrar ríkisstj. sem ætlaði sér að bjarga virðingu Alþingis.

En hvað felst í því þegar hæstv. félmrh., formaður þess flokks sem kennir sig við verkalýðshreyfingu og sósíalisma, er að lýsa því yfir að það beri að endurskoða þetta allt saman, út frá þeim forsendum væntanlega að ekki megi ríkja raunvextir í landinu? Hann er raunverulega að mæla gegn verðtryggingu sparifjár í landinu. Hvað felst í þessum ummælum? Það felst í þeim sú stefnuyfirlýsing, sem hingað til hefur þótt góð og gild atvinnurekendapólitík, að það sé allt í lagi að leysa rekstrarvandamál atvinnulífsins með því að krefjast þess af launþegum að þeir opni nú launaumslögin og yfirfæri nokkur hundruð millj. kr. úr launaumslögunum yfir í sjóði atvinnurekenda. Það verður ekki annað skilið af orðum hæstv. félmrh. en að það sé stefna þess flokks sem kennir sig við verkalýðshreyfingu og sósíalisma. Og þeir hnykkja á með því að gera að umtalsefni og vitna til sérstakrar þingflokkssamþykktar, sem þingflokkur Alþb. á að hafa gert, um að hann harmi þann mun sem orðinn er á lánskjaravísitölu og raunverulegri kaupgjaldsvísitölu, eftir að þessi flokkur hefur beitt sér fyrir því eitthvað um 14 sinnum að skerða kaupgjaldsvísitölu.

Opinberlega er stefna flokksins sú að vísitalan sé eina haldreipi launþega, óbreytt vísitölukerfi sé eina haldreipi launþega. Það er raunverulega það eina sem Alþb. hefur haft til málanna að leggja um íslensk efnahagsmál á undanförnum árum. Þetta sé haldreipið, þetta sé brjóstvörnin. En stefnan í framkvæmd er síðan sú að ráðast alltaf og ævinlega að þessu eina haldreipi launþegans. Þegar allir aðrir hafa fengið sitt, þá ber að opna launaumslögin, falsa vísitöluna. Því næst að það harmað að orðið sé ginnungagap milli lánskjaravísitölu og raunverulega útborgaðs kaups samkv. margfalsaðri kaupgjaldsvísitölu. Þetta er undarleg samkvæmni. En kjarni málsins er þessi: Það er yfirlýst stefna Alþb. samkv. þessu, þegar stjórnarstefnan hefur engan árangur borið, þegar allt er komið í þrot, þegar ekki er lengur hægt að gera út, þegar allir helstu atvinnuvegir landsins hanga á horriminni, þegar fyrirtækin eru öll skuldum vafin, þá er aðeins eftir eitt úrræði, þetta sem einhver frægur maður eitt sinn kallaði gömlu íhaldsúrræðin, það er að opna launaumslögin, gjörið þig svo vel. (Gripið fram í: Veit hv. þm. hvað eru stórar upphæðir á verðtryggðum bankareikningum í bankakerfinu?) Ég tek það fram, herra forseti, að ég er hér ekki á eintali við hv. uppbótarþingmann.

Eitt skorti á í máli hæstv. fyrirspyrjanda. Það var að hann gerði örlitla grein fyrir sínum eigin forsendum. Ég hef vitnað til þess að Framsfl. talar með þremur röddum. Og ég hef vitnað til ummæla talsmanns Alþb. þess efnis að ekki er hægt að væna þann flokk um að þar sé að finna nokkurn bilbug á hefðbundnum atvinnurekendasjónarmiðum Lúðvískunnar hjá hinum ungu mönnum. En hver er stefna Sjálfstfl.? Ég minnist þess að varaformaður Sjálfstfl. hefur oftar en einu sinni lýst fylgi sínu við þá skoðun að vaxtastig skuli gefið frjálst, að vextir eigi að ráðast á markaðinum af framboði og eftirspurn. Mér er spurn: Hvert ætli vaxtastigið á Íslandi væri samkv. því lögmáli nú? Ég veit það ekki. Ég veit ekki hvort hæstv. fyrirspyrjandi veit það heldur.

Það þýðir þess vegna lítið samkv. þeim svörum sem fengist hafa á þessari ráðstefnu að spyrjast fyrir um stefnu ríkisstj. um vaxtamál. Hún er engin. Hún er ekki nein. Hún er út og suður. Í raun og veru staðfestir það aðeins eitt. Það staðfestir það að nú þegar ráðh. geta ekki gefið einföld svör við einföldum spurningum, nú þegar stjórnarferli þeirra er að ljúka og ástandinu í þjóðfélaginu er þannig lýst af þeim sjálfum að ekki einasta ríkisstj. er að þrotum komin heldur einnig, svo að vitnað sé til ummæla hæstv. fjmrh., þjóðin sokkin í skuldir og vitað er að allur atvinnurekstur í landinu hangir á horrim, þá er svo komið að ríkisstj. er ósköp einfaldlega gjaldþrota. Þetta mál staðfestir það.

Auðvitað er það engin allsherjar lausn á heildarvandamálum íslensks efnahags- og atvinnulífs að beita því eina tæki sem heitir vextir. Það er löngu svo komið að ef menn ætla að snúa við, þá dugar ekki bara einhver einföld aðgerð, ekki einu sinni róttæk stefnubreyting. Það þarf beinlínis róttæka uppstokkun á því stjórnkerfi, sem viðgengist hefur, ekki aðeins undir þessari ríkisstj. heldur hefur verið að vaxa hér upp á verðbólguáratugnum og kenna má við pólitískt lénsveldi.

Hvert væri vandamálið ef hæstv. ríkisstj. hefði staðið við það einfalda en áhrifaríka loforð sem hún gaf í upphafi ferils síns? Það loforð eitt sem gnæfir upp úr því var

heitið í stjórnarsáttmála ríkisstj. Gunnars Thoroddsens að ríkisstj. mundi innan tveggja ára koma verðbólgu á Íslandi niður á svipað stig og tíðkast í helstu viðskiptalöndum þjóðarinnar. Til þess mundi hún beita ýmsum samræmdum aðgerðum. Verðbólgustig í helstu viðskiptalöndum Íslendinga er á bilinu 7–10%. Verðbólgustig á Íslandi er á bilinu 60–70%.

Framsóknarmenn eru hættir að tala um niðurtalninguna, en niðurtalningin var þeirra töfraformúla fyrir því hvernig þessu yfirlýsta markmiði skyldi náð. Ég hef ekki brjóst í mér til þess að fara mörgum orðum um það. Niðurstaðan liggur ljós fyrir. Þessi ríkisstj. getur sig hvergi hrært. Innan hennar er engin samstaða. Ekki aðeins um vaxtamál. Það er engin samstaða um eitt né neitt. Hún er bara að bíða eftir að útförin fari fram með kurt og pí.

Þessi ríkisstj. er vissulega sérstæð fyrir margra hluta sakir í stjórnmálasögu seinustu ára. Margar slæmar ríkisstjórnir hafa setið að völdum á Íslandi, en flestar þeirra hafa samt skilið eftir sig þó ekki væri nema eitt eða tvö mál, sem gætu orðið til þess að halda nafni þeirra á lofti. Þessi ríkisstj. hefur þá sérstöðu að eftir hana liggur ekki neitt, nákvæmlega ekki neitt. Hún hefur eiginlega aldrei náð lengra en að verða vonlausar stjórnarmyndunarviðræður, sem einkennist af því að á fárra missera fresti gerir ríkisstj. einhverjar bráðabirgðaráðstafanir í efnahagsmálum og gefur þá út yfirlýsingar. Þær heita yfirlýsing, þær heita áætlun eða eitthvað þess háttar og hafa verið gefnar út í þrígang fyrir utan sjálfan stjórnarsáttmálann. Þetta er ákveðin hagræðingarstarfsemi vegna þess að þar sem þau loforð, sem gefin eru, eru yfirleitt aldrei efnd, þá er alltaf hægt að endurtaka þau í næstu yfirlýsingu. Og það er vinnuregla ríkisstj. Í hvert skipti sem hún grípur til einhverra bráðabirgðaaðgerða eru þær yfirleitt allar á einn veg, þ.e. þær eru fólgnar í því að falsa vísitölukerfið; sem átti að vera brjóstvörn launþega, en klæða síðan kauprán kommanna í einhvern svolítinn glassúr sem heitir yfirlýsing eða loforð ríkisstj.

Þessi ríkisstj. er líka sérstæð um það að hún telur að eigin sögn að hún beri enga ábyrgð á þeim óförum sem nú blasa við í íslensku efnahagslífi. Ráðherrarnir lýsa því yfir hver um annan þveran að þeir beri enga ábyrgð, þetta sé allt öðrum að kenna. Þeir lýsa því yfir að þetta sé að kenna aflabresti. Þeir lýsa því yfir að þetta sé að kenna áhrifum heimskreppunnar á Íslandi. Það er óþarfi að fara langt út í þetta mál. Það er óþarfi að hrekja það lið fyrir lið. En það vita allir að þetta eru bara ýkjusögur. Staðreyndin er sú að þessi ríkisstj. væri fyrir löngu komin í þrot, hefði siglt í þrot mjög snemma ef hún hefði ekki notið alveg einstaks óskabyrs í upphafi ferils síns. Á þessum árum höfum við smám saman verið að éta út arðinn af útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 200 mílur. Aflaaukningin á s.l. 4–5 árum er gífurleg. S.l. þrjú ár hafa öll verið metaflaár í samfelldri fiskveiðasögu þjóðarinnar frá upphafi vega. Árið í fyrra fékk gullverðlaun, árið í hitteðfyrra fékk silfurverðlaun og árið í ár mun fá bronsverðlaun.

Íslendingar eru vanir miklum sveiflum í afla. En þegar um slík toppár er að ræða þrjú í röð þýðir ekki að kenna um aflabresti. Og það er alveg fráleitt þegar hæstv. félmrh. lét sér t.d. sæma að bera erfiðleika okkar nú saman við það sem dundi yfir þjóðarbúið 1967–1968. Það er algerlega fráleitur samanburður. Þá glötuðum við í einu vetfangi hvorki meira né minna en 45–50% gjaldeyristekna okkar á einu ári rúmu. Nú er talað um að samsvarandi tala sé á bilinu 16–20 %. Á þeim árum, þegar síldin hvarf, var um að ræða samdrátt í þjóðartekjum sem svaraði hvorki meira né minna en fimmtungi. Nú er verið að tala um samdrátt í þjóðartekjum sem er kannske um 4%. Það eru algerar ýkjur að leggja þetta tvennt saman. Það eru hreinar ýkjur líka að ætla að kenna áhrifum heimskreppunnar um erfiðleika okkar. Það er þegar af þeirri ástæðu að svo undarlegt sem það er, þó ekki ætli ég að neita því að samdráttareinkennin eru mikil og alvarleg í efnahagslífi grannlandanna, þá eru þau áhrif enn ekki komin til okkar með fullum þunga. Þess er hins vegar að vænta að þau eigi eftir að verða erfiðari.

Atvinnuleysisvandamál nágrannaþjóðanna stafa fyrst og fremst af tæknilegum orsökum. Þar er búið að innleiða nýja tækni í svo stórum stíl og svo víða, sem leysir mannshöndina af hólmi, að þar er um að ræða svokallað „strukturelt“ atvinnuleysi, sem erfitt er við að ráða. Þegar íslensk fiskiðjuver verða orðin full af sjálfvirkum „robotum“ til þess að vinna þau verk sem mannshöndin vinnur nú, þá er eftir að sjá hversu vel okkur tekst og hversu vel duga ráð snillinga verðbólguáratugarins til þess að forða íslenskum höndum frá atvinnuleysi. Það er bara ekki farið að reyna á það enn.

Staðreyndin er sú að sá árangur sem náðst hefur í nágrannalöndunum í því að hamla gegn verðbólgu og halda niðri verðbólgu og lækka verðbólgu er auðvitað okkar hagur. Hann leiðir til þess að innflutningsverð okkar, og við erum mjög háðir innflutningi og utanríkisviðskiptum, hefur farið hlutfallslega lækkandi. Annað er það að þar sem við fáum greitt fyrir megnið af útflutningsafurðum okkar í dollurum hefur gengisþróun dollarans á undanförnum árum verið eins og hver annar happdrættisfengur fyrir íslenskan sjávarútveg. Það eru þess vegna hreinar ýkjur að erfiðleikarnir stafi af hvort heldur er aflabresti eða áhrifum erlendrar kreppu. Staðreyndin er sú að þetta er heimatilbúinn vandi, þetta er heimanfylgja verðbólguáratugarins. Og það er þessi ríkisstj., þessi úrræðalausa og stefnulausa ríkisstj. sem ber á því alla ábyrgð, þó að hún sé svo lítilmótleg að þegar harðnar á dalnum, eftir að hún hefur notið meðbyrsins og hagstæðra ytri kringumstæðna, loksins þegar harðnar á dalnum segir hún: Það er öllum öðrum að kenna en ekki mér. Hver er ábyrgð þessara stjórnarherra? Hún er engin. Þeir firra sig ábyrgð. Og reyna meira að segja að ganga svo langt að koma ábyrgðinni af óráðsíunni, stefnuleysinu, árangursleysinu yfir á stjórnarandstæðinga.

Nei, það er þýðingarlaust að spyrja hæstv. ráðh. um vexti. Þeir hafa enga stefnu í vaxtamálum. Það er þýðingarlaust að spyrja hæstv. ráðh. um verðbólgu. Þeir lofuðu 7 % en þeir efna 70%. Það er mælikvarðinn á það hvernig þessir herrar efna loforð.

Það er þýðingarlaust að spyrja þessa herra um fjárfestingarpólitík liðinna ára. Í Dagblaðinu í dag stendur í fyrirsögn, með leyfi forseta: „Skuldir Kröflu yfir milljarð — 220 milljóna afborganir og vextir á næsta ári.“ Og áfram segir þar: Í lok næsta mánaðar munu skuldir Kröfluvirkjunar verða komnar í nærri 1 milljarð og 80 millj. kr. Afborganir og vextir á næsta ári eru samkv. áætlun í frv. að fjárlögum ársins 219 millj. 382 þús. kr. Í árslok 1981 námu skuldir virkjunarinnar alls 561 millj. 47 þús. kr. Fjárlagaáætlun í ár gerði ráð fyrir tæplega 72 millj. í afborganir og vexti og rúmlega 63 millj. í fjárfestingu, alls 137 millj. 712 þús. kr. Samtals eru þetta nærri 695.8 millj. kr., sem síðan er eftir að reikna upp í samræmi við verðbólguna og raungildi skuldanna, en til þess að notuð reiknitalan 1.55 eða 55%.“ Ríkisstj. er farin að átta sig á því að verðbólgan sé a.m.k. 55%. „Skuldir Kröfluvirkjunar verða um næstu áramót 1 milljarður 78 millj. 426 þús. kr. Tekjur virkjunarinnar“ og hlusti menn nú „1981 urðu 24 millj. kr. sem nægðu rúmlega fyrir daglegum rekstri. Reiknað er með slíkri niðurstöðu í ár og næsta ár og að virkjunin skili engum tekjum“ — ég endurtek: „engum tekjum upp í fjármagnskostnað, hvað þá skuldir. Í frv. að fjárlögum fyrir næsta ár vantar enn“ (Forseti: Ég vil biðja hv. ræðumenn, sem hafa kvatt sér hljóðs utan dagskrár, að halda sig við málefnið. Herra forseti. Þessari tilvitnun er að ljúka. Ég er að tala um vexti og vextir eru óaðskiljanlegur þáttur í því sem heitir fjárfestingarpólitík. „Í frv. að fjárlögum fyrir næsta ár vantar enn megnið af framlögum til virkjunarframkvæmda, þ. á m. til frekari framkvæmda við Kröflu. 220 milljónirnar fara allar í vexti og afborganir og að venju á að taka það fé allt að láni og bæta því við skuldahalann.“

Það er ástæða til þess að rifja það upp enn einu sinni að hæstv. forsrh. er fyrrv. iðnrh., sá sem ber ábyrgð á Kröfluævintýrinu, að hæstv. fjmrh. er fyrrv. Kröflunefndarráðherra, og að hæstv. yfirmaður vísinda og mennta á Íslandi er fyrrv. Kröflunefndarmaður. Það er táknrænt að þessir þrír fyrrv. Kröflunefndarmenn eru helstu áhrifamenn í þessari ríkisstj. og það fer saman.

Sannleikurinn er sá — og ég segi aftur, herra forseti, ég er að tala um vaxtamál í því samhengi hver eru áhrif vaxta, verðtryggingar og þess ástands sem nú er í efnahagsmálum — sannleikurinn er sá að undirrót þeirrar ríkisreknu verðbólgu, sem hér er búin til og er núna að nálgast 70%, er sú öfugsnúna, vanhugsaða og ábyrgðalausa fjárfestingarpólitík, sem þessi ríkisstj. hefur rekið, sem má lýsa ósköp einfaldlega með þeim hætti að það eru tekin erlend lán á háum vöxtum, eins og vitað var, og því næst er þeim útdeilt í gegnum pólitískt fyrirgreiðslukerfi til hefðbundinna, jafnvel hnignandi greina, sem enga nýja fjárfestingu bera og engum arði geta skilað.

Það eru tekin erlend lán til þess að fjármagna framkvæmdir í landbúnaði á sama tíma og offramleiðsla í landbúnaði kostar þjóðina ómæld hundruð milljóna til þess að greiða niður matföng ofan í útlendinga. Það eru tekin erlend lán til þess að fjárfesta í nýjum fiskiskipum á sama tíma og það er yfirlýst stefna ríkisstj. að algerar takmarkanir ríki á veiðum vegna afrakstursgetu fiskistofna.

Þessi vitlausa stefna er undirrót verðbólgunnar á Íslandi, en saman fer síðan slök vaxtastefna, algerlega stjórnlaus stefna í peningamálum. Afleiðingarnar eru þær að þjóðin er sokkin í erlendar skuldir, að viðskiptahallinn er botnlaus og að hrun blasir við bankakerfinu. Þannig er ástandið eins og það blasir við nú, þegar þessi ríkisstj. er að nálgast útgönguversið.

Það er alveg þýðingarlaust að spyrja hæstv. ráðh. um vexti frekar en annað. En þó verður maður að leyfa sér að spyrja einnar spurningar. Ef það á að vera markmið hæstv. ríkisstj. að draga úr erlendum skuldum, ef það á að vera markmið hæstv. ríkisstj. að draga úr og setja skorður við viðskiptahalla, innflutningsæði og óhófseyðslu, þá spyr ég: með hvaða tækjum ættar hæstv.

ríkisstj. sér að ná þeim markmiðum? Ef hún afsalar sér vaxtatækinu, hvernig ætlar hún þá að gera það?

Sannleikurinn er sá að það er engin ástæða til að ætla að þessi ríkisstj. hafi snúið við á þeirri braut sem hún hefur mótað á undanförnum árum. Hún ætlar að fleyta sér áfram samkv. gamla mottóinu „flýtur á meðan ekki sekkur“, með því að slá erlend lán fyrir næsta fjárlagaár. Hefur hún breytt um stefnu í ríkisfjármálum? Nei. Hefur hún breytt um stefnu í peningamálum? Nei. Hefur hún breytt um stefnu í vaxtamálum? Nei. Hefur hún breytt um stefnu í fjárfestingar- og atvinnumálum? Nei. Hún flýtur bara sofandi að feigðarósi, flýtur á meðan ekki sekkur og ætlar síðan að skella skuldinni á alla aðra en sjálfa sig. Hún ber enga ábyrgð.

Svo er spurt um brbl. og stjórnarsinnar eru svo ósvífnir að vera að spyrja stjórnarandstæðinga hver sé afstaða þeirra til þeirra brbl. sem ríkisstj. er ekki farin að þora að sýna hér á Alþingi enn þann dag í dag. Um hvað voru þessi brbl.? Voru þau um gengisfellingu? Nei. Um hvað voru þau? Þau voru um það að ríkisstj., sem er búin að kollsigla atvinnulífið á Íslandi, sem er búin að tröllsliga íslensku þjóðina í erlendar skuldir, kemur nú með bakreikning rányrkjustefnunnar til launþega og segir: Gerið svo vel, opnið þið launaumslögin 1. des. og borgið þið. Og síðan er hún að hækka vörugjald, sem er gáfuleg aðgerð til þess að hamla gegn verðbólgu eða hitt þó heldur. Um annað er ekki að ræða í þessum brbl. En það átti að fylgja þeim glassúr. Það átti að fylgja þeim loforðalisti. Það átti að fylgja þeim frv. um láglaunabætur, að vísu skitnar 50 millj. í staðinn fyrir að úr launaumslögunum 1. des. verða teknar á einu bretti 450–500 millj. Það dugar ekki einu sinni fyrir vörugjaldshækkuninni sem skilar 85 millj. á ári. Það átti að fylgja fleira. Það átti að fylgja lenging orlofs á sama tíma og menn tala um það að þjóðin eigi að vinna sig út úr ógöngunum til þess að geta borgað bakreikning ráðherrasósíalistanna og rányrkjupostulanna. Það áttu að fylgja ótal fylgifrv.

En sannleikurinn er sá að það er ósköp einföld ástæða fyrir því að þau frv. eru ekki komin fram. Það er vegna þess að í þeim málum, rétt eins og í vaxtamálum, næst ekki samkomulag innan ríkisstj. Framsóknarmenn bíða eftir því að Alþb.-mennirnir samþykki nýjan vísitölugrundvöll. Þeir samþykkja ekki láglaunabæturnar fyrr. Alþb.-menn hafa það uppi í erminni að þeir hafa gælt við þá hugmynd að leita nú í smiðju Alþfl. eftir skynsamlegum málum. Og verði þeim að góðu, ekki veitir þeim af í allri sinni hugmyndafátækt. Þeirra á meðal er t.d. hugmyndin um að leggja niður Framkvæmdastofnun ríkisins og sameina fjárfestingarlánasjóði og fara að reka þá af viti og ábyrgð. Þeirra á meðal er t.d. hugmyndin um það að hætta þeirri óráðsíu og ósvinnu, á sama tíma og verið er að krefja launþega í þéttbýli um stórkostlegar skattgreiðslur, að halda áfram að greiða hundruð millj. með óseljanlegum landbúnaðarafurðum sem skattlagningu á launþegafjölskyldur, sem í sumum tilfellum er bein eignatilfærsla frá fátæku fólki í þéttbýli til stóreignamanna í sveitum, varið af málsvörum þess flokks sem kennir sig við sósíalisma og verklýðshreyfingu.

Ég spái því að ekki muni standa á stjórnarandstöðunni — um það leyti sem þessi vinstri stjórn hefur náð samkomulagi um sín fylgifrv. og mannað upp kjarkinn til þess að leggja fram sín brbl. — að svara því hvað hún vilji í staðinn, eins og þegar hefur komið fram. Alþfl. hefur náttúrlega á undanförnum árum lagt fram þann lagabálk sem er svarið við því í heild sinni, og Alþb.-mönnum, þeim hugmyndaöreigum, er ekkert of gott að tína til úr því það sem þeim þóknast. Það mun ekki standa á því að við fylgjum okkar málum þegar ríkisstj. stendur við það loforð sitt að setja þau fram sem fylgifrv. Og það getur vel verið að við hjálpum þeim svolítið við það.

Að lokinni þessari ráðstefnu er eiginlega fátt eftir annað en eitt. Og það er það að hæstv. fyrirspyrjandi, sem hefur fengið fjögur eða fimm svör til allra átta — vegir liggja til allra átta frá hæstv. ráðherrum um afstöðu til vaxtamála — reki nú endahnútinn á þetta undarlega málaþjark og svari fyrir hönd Sjálfstfl.: Frjálsir vextir eða atvinnurekendavextir?