02.11.1982
Sameinað þing: 12. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í B-deild Alþingistíðinda. (192)

Umræður utan dagskrár

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Í umr. í gær um vaxtamálin kom fram hjá hæstv. fjmrh. að aðaláhyggjuefni hans og hans flokks í vaxtamálum væri misræmið í kaupgjalds- og lánskjaravísitölu. Vegna þeirra orða sé ég ástæðu til að blanda mér í þessar umr.

Ég fagna þessari yfirlýsingu, því að það er vissulega ástæða til að hafa áhyggjur af þróun þessa þáttar í verðtryggingarmálum. En það er ekki nóg að hafa áhyggjur. Það bætir ekki stöðu lántakenda að hafa bara áhyggjur af þessu. Það verður að grípa þegar í stað til aðgerða til að taka á þessu máli. Þrátt fyrir áhyggjur, sem bæði komu fram í gær hjá hæstv. fjmrh. og hæstv. félmrh., og ályktanir þingflokks þeirra í þessu máli hef ég þó lítið orðið vör við að þeir sýndu áhuga á frv. sem fyrir Alþingi liggur um þetta efni og ekki hefur enn komist til 1. umr. þótt það hafi legið fyrir þinginu nú í þrjár vikur.

Hæstv. fjmrh. orðaði það svo í umr. í gær, að Alþfl. hefði hugmyndir sem gengju í sömu átt og þær ályktarúr, sem Alþb. hefði gert í þessu efni. Auðvitað veit ráðh. að Alþfl. hefur meira en hugmyndir í þessu máli og meira fram að færa en bara ályktanir um málið. Það liggur fyrir ítarlega útfært frv., sem nú bíður þess að verða tekið á dagskrá.

Það var fyrir um það bil tveimur árum sem ég byrjaði að athuga þetta mál, en þá hafði þetta misræmi verið um nokkurra mánaða skeið. Sérfræðingar, sem ég leitaði til, töldu þá að þessi þróun, sem þá var, gæti ekki staðið lengi og hlyti að snúast við. Þess vegna hélt ég að mér höndum þar til s.l. vor að ég tók þetta mál upp að nýju.

Hæstv. fjmrh. talar um að kjaraskerðingin fyrirhugaða 1. des. muni enn auka þennan mun og talar um 10% í þessu sambandi. Þetta er auðvitað hárrétt hjá hæstv. ráðh. og tími til kominn að hann átti sig á því og þó fyrr hefði verið, því hver einasta kjaraskerðing sem ráðh. hefur staðið að síðan hann settist í ráðherrastól hefur aukið þetta misræmi. Ég held að allir hljóti að vera sammála um að það sé ákaflega lítið sem bendi til þess að þessari þróun verði snúið við á næstunni og menn verði því að taka höndum saman og leysa þetta mál, bæði stjórn og stjórnarandstaða. Og stjórnarsinnar, sem fjálglega hafa lýst yfir nauðsyn þess að taka á þessu máli, hljóta að geta sameinast um frv. sem fyrir Alþingi liggur, þó ekki sé um stjfrv. að ræða, þegar fram hefur komið að þeirra hugmyndir ganga í sömu átt og í þessu frv. felst. Ef eitthvað það er í útfærslunni sem stjórnarsinnar geta ekki sætt sig við erum við Alþfl.-menn að sjálfsögðu tilbúnir til að skoða allt sem betur mætti fara við meðferð frv. hér á Alþingi, en ég gat ekki heyrt annað en að efni til séu þeir sammála þeirri aðferð og þeirri meginhugmynd sem í frv. felst.

Sá mismunur, sem orðið hefur á verðtryggingarviðmiðun og kaupgjaldsviðmiðun frá því að lánskjaravísitalan var fyrst reiknuð út, er hrikalegur. Frá 1. júní 1979 til 1. okt. 1982 hefur lánskjaravísitalan hækkað um 323% og byggingarvísitalan hefur hækkað um 375%. Ef við berum þetta saman við meðallaunataxta nokkurra starfsstétta kemur í ljós að á sama tíma hafa meðallaun verkamanna hækkað um 291%, verkakvenna um 285%, iðnaðarmanna um 302%, verslunarmanna um 261%, landverkafólks um 286% og opinberra starfsmanna um 255%. Samtals hafa því meðallaun þessara starfshópa, sem ég hef hér rakið, hækkað um 277%, á móti því að lánskjaravísitalan hækkar um 323% og byggingarvísitalan um 375% á þessu tímabili. Það er alveg ljóst, að heimilin í landinu standa ekki af sér þessi áföll til lengri tíma, þegar þau hafa miklar fjárskuldbindingar, t.d. vegna íbúðakaupa.

Launafólk í landinu hefur orðið að búa við hverja kjaraskerðinguna á fætur annarri undanfarin ár og í kjölfar þeirra eykst sífellt misræmi á milli launa og verðtryggingar. Afleiðingin er að fólk þarf sífellt að leggja á sig meiri og meiri aukavinnu til að standa við sínar fjárskuldbindingar. Afleiðing þessa er ekki bara að rekstrargrundvelli heimilanna er stefnt í mikla tvísýnu, heldur hitt einnig, sem er ekki síður alvarlegt, að þegar fyrirvinnur þurfa sífellt að leggja á sig meiri og meiri aukavinnu, nánast vinnuþrældóm, til að standa við fjárskuldbindingar sínar, þá getur það haft í för með sér félagslegar afleiðingar af margvíslegum toga. Slíkar afleiðingar koma ekki bara niður á heimilum, sem fyrir slíku verða, heldur einnig á þjóðfélagsheildinni. Með þessu er ég ekki að segja að þetta mál eitt út af fyrir sig leysi fjárhagsvanda heimilanna, en leiðrétting á þessu misræmi er einn mikilvægur hlekkur þess að lántakendur hafi möguleika á að standa við skuldbindingar sinar, að kaupið haldi í við verðtryggingarviðmiðun.

Auðvitað þarf margt fleira að koma til, en ég skal ekki fara út í það hér. Um er auðvitað að ræða lengingu lánstímans og miklu hærra lánahlutfall sem lánað er til íbúðakaupa. Tvennt vil ég þó aðeins nefna hér í örfáum orðum. Það hefur ekki verið staðið við það ákvæði 33. gr. í lögum um Húsnæðisstofnun frá 1980, sem kveður á um að gjalddagar lána hjá Húsnæðisstofnun séu eigi færri en fjórir á ári. Það fyrirkomulag yrði þó til verulegra bóta fyrir lántakendur og mundi dreifa greiðslubyrðinni. Um þetta eru þó skýlaus ákvæði í lögum. Einnig hefur reynst erfitt fyrir húsbyggjendur að fá að skuldbreyta eldri lánum með hlutfallslegri verðtryggingu þrátt fyrir skýlaus ákvæði til bráðabirgða í lögum um Húsnæðisstofnun frá 1980 þar um. Greiðslubyrði lána sem tekin voru á árunum 1974–1979 með hlutfallslegri verðtryggingu, þ.e. 60% verðtryggingu og 9.75% vöxtum, er lántakendum mun þyngri en annarra lána. En það hefur verið, eins og ég segi, fyrirstaða í Húsnæðisstofnuninni við að fá í gegn þessa skuldbreytingu. Hæstv. fjmrh. og hæstv. félmrh. hljóta að hafa verulegar áhyggjur af þessum þáttum, sem þyngja greiðslubyrði heimilanna eins og sá þáttur sem snýr að verðtryggingarviðmiðun og kaupgjaldi.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja mál mitt frekar, þó um verðtryggingarstefnu þessarar ríkisstj. eins og hún er framkvæmd mætti hafa mörg orð. Ég tel það góðs viti og lýsi enn ánægju minni með það, að svo virðist sem samstaða geti náðst um frv. okkar Alþfl.-manna um lánskjaravísitölu og kaupgjaldsvísitölu. Ég minni einnig á í því sambandi, að hæstv. sjútvrh. hefur haft um það mörg orð í fjölmiðlum að taka þyrfti á þessu máli. Vænta má því þess, að a.m.k. þrír flokkar hér á Alþingi geti náð samstöðu um málið. Þó seðlabankafulltrúar hafi lýst því yfir að himinn og jörð muni farast ef hreyft verður við þessu máli, þá er þar auðvitað á ferðinni almenn íhaldssemi hjá bönkunum. Ég trúi því ekki að sjútvrh. láti seðlabankamenn stöðva sig í því að leggja lið þessu brýna réttlætismáli. Sjútvrh. hefur áður heyrt þau fleygu orð, að vilji sé allt sem þarf, og það gildir einnig um þetta mál. Ég er því vongóð um að samstaða geti náðst um þetta mál, a.m.k. hjá þrem flokkum hér á hv. Alþingi.

Ég vil taka undir með fjmrh., sem fram kom í hans orðum í gær, að brýnt sé að taka á þessu máli nú þegar, enda lýsti hann því réttilega yfir að 1. des., í kjölfar kjaraskerðingarinnar, mundi misræmið enn aukast, og talaði hann um 10% í því sambandi. Hæstv. fjmrh. og hans flokkur hlýtur því að leggja þunga áherslu á að frv. okkar Alþfl.-manna fái afgreiðslu hér á hv. Alþingi fyrir 1. des.

Ég minni á að í samþykkt þingflokks Alþb. segir að megináherslu beri að leggja á þetta mál, þar sem fyrirsjáanlegur sé verulegur munur á lánskjaravísitölu og verðbótum launa 1. des. n.k. Ég veit a.m.k. að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson leggur mikla áherslu á að frv. okkar Alþfl.-manna fái afgreiðslu fyrir 1. des., enda hefur hann látið þess getið í fjölmiðlum að eitt af skilyrðum hans fyrir stuðningi við brbl. sé samræming á kaupgjaldsvísitölu og lánskjaravísitölu. Í Þjóðviljanum 8. sept. s.l. segir hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, þegar hann ræðir um skilyrði fyrir stuðningi sínum við brbl., með leyfi forseta:

„Ég set því það að skilyrði“, segir Guðmundur J. Guðmundsson, „að verði það meginatriði ekki virt að meiri byrðar verði lagðar á aðra en láglaunafólk mun ég standa fastur á því að greiða atkv. gegn brbl. Í þessu sambandi“, segir Guðmundur J. Guðmundsson, „vil ég sérstaklega nefna það, að ég geri það að stóru máli að lánskjaravísitala verði látin fylgja kaupinu þannig að verkafólk geti staðið undir þeim dýru lánum sem það neyðist nú til að taka.“

Þetta segir Guðmundur J. Guðmundsson í Þjóðviljanum 8. des. s.l. og þetta sjónarmið ítrekar hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson síðar í Dagblaðinu 13. okt. Ef hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson meinar það sem hann segir um þetta mál, sem ég að óreyndu dreg ekki í efa, er það auðvitað ljóst að úrslit verða að fást í þessu máli áður en Guðmundur J. Guðmundsson greiðir atkv. um brbl. Því er það ekki síður mikilvægt að þetta frv. fái afgreiðslu fyrir 1. des. en frv. um orlof, sem nú liggur fyrir Alþingi, eða önnur fylgifrv. ríkisstj. við brbl.

Herra forseti. Ég vek athygli ríkisstj. á þessum orðum hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar, að þetta er eitt af skilyrðum hans, sem hann setur um stuðning við brbl., og ég vek athygli á því, að ekki er hægt að skilja ályktun þingflokks Alþb. öðruvísi en svo, að afgreiða verði þetta mál fyrir 1. des. Og ég vek athygli á því, að enn hefur ekki komist á dagskrá frv. um þetta mál, sem legið hefur nú fyrir Alþingi í þrjár vikur. Ég vil því beina því til hæstv. forseta Sþ., að hann beiti sér fyrir því að þegar á morgun verði tekið á dagskrá Nd. frv. okkar Alþfl.-manna um breytingu á lögum um stjórn efnahagsmála. Ég undirstrika, að Alþb.-menn hafa þegar lýst yfir því að hugmyndir þær sem í frv. okkar Alþfl.-manna felast falli að hugmyndum Alþb. og í útvarpsumr. hefur sjútvrh. látið í ljós svipaða skoðun. Það er ekki síður mikilvægt, að eitt af skilyrðum Guðmundar J. Guðmundssonar við stuðning við brbl. er að leiðrétting fáist á þessu máli, sem í frv. okkar felst, fyrir 1. des. Engin þörf er því á að tefja framgang málsins og auðvitað með öllu óþarft og nauðsynjalaust að bíða þess að ríkisstj. leggi fram frv. um málið.

Ég vildi að lokum enn ítreka ósk mína til hæstv. forseta Sþ. um að hann fallist á þessa málaleitan, sem ég hef hér beint til hans, og fram komi við þessa umr. að hann beiti sér fyrir því að frv. um breytingu á lögum um stjórn efnahagsmála verði tekið til umr. í Nd. á morgun. Ég vil reyndar einnig beina því til hæstv. forseta Nd., sem hér situr og hlýðir á þessar umr., að hann geti orðið við þessari ósk.