02.11.1982
Sameinað þing: 12. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í B-deild Alþingistíðinda. (196)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason (frh.):

Herra forseti. Það er að vísu slæmt að hæstv. ráðherrar skuli ekki sjá sér fært að mæta hér til þingfundar. Að vísu skal það tekið fram að það er að sjálfsögðu mikils virði að hæstv. ríkisstj. og ráðh. ræði við formann Alþfl., hv. 2. þm. Reykn. Ég hef því kosið, þrátt fyrir mjög mikla óánægju mína með að hæstv. ráðherrar skuli ekki mæta hér, að halda áfram máli mínu.

Ég held að það geti ekki farið fram hjá neinum þeim sem hlýtt hefur á stjórnmálaumræður á undangengnum dögum — þá á ég við útvarpsumræðurnar sem hér urðu fyrir rúmri viku og ekki síður þá umr. sem hófst hér í gær utan dagskrár og einnig það sem staðið hefur yfir hér í dag- hvers konar rekald hæstv. ríkisstj. er orðin að því er varðar stefnu í efnahagsmálum — og raunar öðrum málum. Engum getur blandast hugur um þetta sem heyrt hefur þær umr. Þess vegna er líka mikils virði að þessum umr. öllum sé komið sem best á framfæri við almenning í landinu.

Í þessum umr. um vaxtamál hafa komið hér í ræðustól fjórir hæstv. ráðherrar. Það er hæstv. viðskrh. — hann er reyndar horfinn líka úr salnum núna þannig að enginn er eftir — og hæstv. sjútvrh., báðir enn a.m.k. að talið er framsóknarmenn. Þessir hæstv. ráðherrar hafa talað hvor í sína áttina í þessu máli. Einnig hafa hér talað bæði hæstv. fjmrh. og hæstv. félmrh. sem báðir eru í sama flokki. Einnig þeir hafa talað hvor í sína áttina. Fjórir hæstv. ráðherrar, sem tekið hafa þátt í þessum umr., hafa því talað í sína áttina hver. Ég held að það fari ekkert á milli mála — ég tek undir það með hv. þm. Sverri Hermannssyni sem hann sagði hér áðan — að aldrei hefur verið aumari málflutningur uppi hafður af hálfu forsvarsmanna ríkisstj. en hæstv. ráðherrar hafa uppi haft í þeim umr. sem nú hafa staðið hér part úr tveimur dögum.

Um afstöðu Alþfl. til þess máls sem hér er á dagskrá þarf ég ekki mörg orð að hafa, en vísa til ræðu formanns flokksins, hv. 2. þm. Reykn., hér í gær og þeirrar stefnu sem Alþfl. hefur haft og hefur varðandi þennan þátt efnahagsmála, og þeirrar efnahagsmálastefnu almennt sem flokkurinn hefur sett fram tillögur og frumvörp um. Ég skal því ekki ræða það. En það eru nokkur atriði sem fram komu hér í umr. í gær, fyrst og fremst af hálfu hæstv. ráðh. sumra hverra, sem mér finnst ástæða til að gera að nokkru umræðuefni.

Allir fyrrnefndir ráðherrar, fjórir að tölu, töldu að ákvarðanir Seðlabankans hinar síðustu um vaxtamál og vaxtahækkun varhugaverðar, að það ætti a.m.k. að fara varlega í slíkt. Og raunar lýstu þeir af sér allri ábyrgð á þeirri ákvörðun eða þeirri stefnu. Nú geri ég ráð fyrir að allir þessir hæstv. ráðh. hafi lesið fskj. með stefnuræðu hæstv. forsrh., sem sumir nefna þjóðhagsspá ríkisstj. eða forsrh. En einmitt í því fskj. er þessi stefna talin sú sem þurfi að framkvæma. Það er því um tómt mál að tala hjá hæstv. ráðherrum að reyna að bera af sér ábyrgð á þessari stefnu. Þeir hafa sjálfir í ríkisstj. lýst fylgi sínu og samþykki við þessa stefnu með stefnuræðu hæstv. forsrh. og þeim fskj. sem henni fylgdu.

Það var held ég hæstv. fjmrh. sem fyrstur vakti máls á því að Alþb. hefði fyrst og fremst áhyggjur af rekstrarstöðu heimilanna, og þá fyrst og fremst áhyggjur af því misræmi sem er milli lánskjaravísitölunnar annars vegar og hins vegar kaupgjaldsvísitölunnar, og að þingflokkur Alþb. hefði gert samþykkt s.l. fimmtudag í þá átt að þessu yrði að breyta. Hæstv. fjmrh. gerði tilraun til þess að fara með ósatt mál. Hann var að vísu leiðréttur og honum bent á að raddir hefðu heyrst úr Alþfl. líka um að þetta þyrfti að gera. Og samþykkt þingflokks Alþb. er ekki gerð fyrr en hálfum mánuði eftir að hér hefur verið lagt fram frv. af hálfu Alþfl.-þingmanna þess efnis að leiðrétta þetta óréttlæti. Þá fyrst vaknar sú meðvitund að því er virðist í hugum þeirra Alþb.-manna að eitthvað þurfi að gera.

Hæstv. félmrh. fullyrti hér í gær að sú raunvaxtastefna, sem Alþfl. hefði illu heilli pínt fram, væri búin að ganga sér til húðar, sú raunvaxtastefna sem formaður Framsfl. sagðist hafa verið plataður til að fylgja á sínum tíma. Hér hafa að sjálfsögðu verið hraktar þessar fullyrðingar hæstv. félmrh. En það er ástæða til að eyða örlitlum tíma í að ræða þær nokkru frekar.

Núv. ríkisstj. er búin að sitja að völdum nokkuð langt á þriðja ár. Henni hefði verið í lófa lagið, með t.d. hæstv. bankamálaráðh. í broddi fylkingar eða hæstv. félmrh., að breyta þessari vaxtastefnu. Því hefur það þá ekki verið gert? Ber að líta svo á að það sé fyrst núna sem hæstv. félmrh. er að uppgötva það sem hann var að lýsa í gær? Sannleikur málsins er auðvitað sá, eins og hér hefur verið bent á, að ástæðan fyrir því hversu illa er komið t.d. fyrir húsbyggjendum í landinu eru þau svik sem núv. hæstv. ríkisstj. — og þá fyrst og fremst hæstv. félmrh. sem aðalráðamaður í húsnæðismálakerfinu — hefur haft uppi við húsbyggjendur. Annað grundvallaratriðið í raunvaxtastefnunni sem átti að framkvæma, sem var lenging lána, hefur verið svikið. Það er núv. ríkisstj. sem hefur gert það núna langt á þriðja ár. Ástæðan fyrir því hversu illa er nú komið h já sumum lántakendum er sú að skilinn hefur verið eftir annar hlutinn af þessu máli og svikið að framkvæma hann. Og á því ber hæstv. félmrh., formaður Alþb., ekki minnsta ábyrgð.

Hæstv. félmrh. tók til orða eitthvað á þann veg að samkv. þessari stefnu Alþfl. hefðu allir bankar átt að fyllast, verða yfirfullir af peningum. Ég man ekki betur en í stefnuræðu hæstv. forsrh. haustið 1981 hafi sérstaklega verið vitnað til batnandi ástands í peningamálum í landinu vegna gífurlegrar aukningar á innstreymi fjármagns í peningastofnanir. Ég man ekki betur en að ég hafi lesið þetta og heyrt hæstv. forsrh. einmitt vekja sérstaka athygli á hversu vel hefði til tekist vegna aukins innstreymis peninga í peningastofnanir. Og það var sérstaklega undirstrikað að það væri vegna raunvaxtastefnunnar. Þetta skrifaði öll hæstv. ríkisstj. upp á haustið 1981. Þessar yfirlýsingar hæstv. forsrh. eru fluttar í nafni allrar ríkisstj. sem sérstakur gleðiboðskapur um hver áhrif hafi í raun og veru orðið af raunvaxtastefnu Alþfl.

En það er ástæða til að vekja sérstaka athygli á þætti Alþb. í þessu máli. Hæstv. félmrh. og hæstv. fjmrh. sögðu. „Alþb. ber fyrst og fremst ugg í brjósti vegna rekstrar heimilanna í landinu, vegna þeirrar stöðu sem launafólk almennt er komið í.“ Hver hefur þáttur Alþb. verið í þessu? Það hefur látið það viðgangast nokkuð langan tíma að launafólk beri hærri vexti en atvinnureksturinn. Undir forsæti hæstv. félmrh. hefur átt sér stað ört minnkandi raungildi lána úr húsnæðismálakerfinu. Undir handarjaðri hæstv. fjmrh. og félmrh. — og ríkisstj. í heild hefur stórlega verið aukin greiðslubyrði af lánum hjá launafólki og húsbyggjendum. Og það er að manni skilst að frumkvæði Alþb. í ríkisstj. sem núna 1. des. á að skerða laun um 10% með brbl., sem hæstv. ríkisstj. þorir ekki að leggja fram hér í þinginu, vegna þess að hún telur ekki tryggan meiri hluta fyrir þeirri lagasetningu.

Í sem fæstum orðum er þetta sú umhyggja sem Alþb. ber fyrir launafólki í landinu. Hæstv. viðskrh. varð hér á í gær að tilkynna að á borðum þm. lægi frv. um brbl. (Gripið fram í.) Hann vissi ekki betur, sagði hann, eða verður lagt, sagði hann svo eftir á, á borð þm. Enn er ástæða til að vekja á því athygli að nú er ekki mánuður þar til kjaraskerðingarákvæði brbl. -og raunar það eina ákvæði sem í brbl. er að finna — á að taka gildi og enn hefur hæstv. ríkisstj. með forsrh. í broddi fylkingar ekki treyst sér til að leggja brbl. fram hér í þinginu. Ég held að hæstv. ráðherrar í ríkisstj., allir raunar en ekki síst ráðherrar Alþb., ættu að spara sér yfirlýsingar um velvilja af sinni hálfu til launafólks í landinu.

Ég sagði hér í upphafi að hæstv. ráðherrar fjórir, sem hér hafa talað í umr., hefðu talað hver í sína áttina. En ég man það held ég rétt, annaðhvort kom það fram hér í umr. í gær eða það kom fram í fjölmiðlum, að þetta mál ætti að taka upp á ríkisstjórnarfundi í morgun, að þessa ákvörðun Seðlabankans, sem allir þessir hæstv. ráðherrar fjórir a.m.k. voru að reyna að breiða yfir að þeir bæru nokkra ábyrgð á, en er að finna í skjölum með stefnuræðu forsrh., ætti að taka til umræðu á ríkisstjórnarfundi í morgun. Í ljósi þess spyr ég — og vænti þess að hæstv. viðskrh. geti svarað því hér á eftir: Var þetta mál tekið til umræðu á ríkisstjórnarfundi í morgun? Og ef svo er hver varð þá niðurstaða þeirra umræðna? Ég vænti þess að hæstv. viðskrh. heyri þetta og geti svarað því hér á eftir hvort ríkisstj. hefur komist að einhverri niðurstöðu í málinu.

Ekki er þó fyrir það að synja að sannleikskorn hafi slæðst með annað slagið í ræðum sumra hæstv. ráðh. Hæstv. félmrh. sagði eitthvað á þá leið hér í gær að hinar nýju útlánareglur Seðlabanka mundu stefna viðskiptabönkunum í algjör þrot. Ég tek undir þetta með hæstv. félmrh. Það er engu líkara en að með þeim nýju reglum, sem Seðlabankinn hefur nú sett, eigi að leggja í rúst nánast alla aðra bankastarfsemi í landinu. Seðlabankinn einn eigi að fara að annast útlán og önnur slík viðskipti eða þá að því eigi að sinna í gegnum Framkvæmdastofnun ríkisins, eins og að hluta til hefur verið gert með kreppulánum á undangengnum mánuðum. Ég tek því undir með hæstv. félmrh.: Seðlabankinn er nánast orðinn ríki í ríkinu. Það er hann sem virðist vera farinn að stjórna svo til öllum meiri háttar aðgerðum er varða peninga-, fjárfestingar- og efnahagsmál í landinu. Mér sýnist því að hæstv. ríkisstj., öll bankaráðin, bankastjórar og allt það lið gæti tekið sínar pjönkur og haldið heim ef fram verður haldið sem horfir og Seðlabankinn fær sinu framgengt. Mér sýnist meira að segja að svo langt ætli að ganga að Seðlabankinn ætli að fara að hlutast til um með hvaða hætti aðilar vinnumarkaðarins semji um þau mál sem þeir einir eiga um að fjalla og semja um, og þá er nokkuð langt gengið að mér finnst. Þó að ég ætli ekki að fara að ræða það sérstaklega hér þá gengur það nokkuð langt ef seðlabankastjóri eða stjórn Seðlabankans, bankaráð hans, ætlar að fara að hlutast til um þá samninga sem aðilar vinnumarkaðarins vinna að á hverjum tíma. Það sýnist mér vera í uppsiglingu og ekki langt undan. (Gripið fram í: Vissir þú það ekki?) Það er ekki von að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, formaður Verkamannasambandsins, hafi neina vitneskju um slíkt. Að svo komnu máli skal ég lýsa því fyrir honum í einkasamtölum en mun ekki gera það að opinberri umræðu hér á þessu stigi. En upplýsingar skal hann fá í þessum efnum og raunar fleirum ef ég get honum þær veitt. En ég þykist vita að hann rámi í hvað hér kunni að hanga á spýtunni.

En það er ástæða til þess að spyrja. Ja, spyrja, það er nú það. Hvern á að spyrja? Það er einn ráðh. hér. (Gripið fram í: Tómas.) Já, kannske vill hæstv. viðskrh. taka að sér að svara fyrir hæstv. Alþb.-ráðherra, en það voru fyrst og fremst þeir sem ég ætlaði að spyrja, vegna þess að það voru þeir sem gerðu hvað harðasta hríð að þeirri stefnu sem Alþfl. hefur haft í vaxtamálum og peningamálum. Það er ástæða til að spyrja forsvarsmenn Alþb. — ekki þýðir að spyrja ráðh., þeir eru ekki hér, líklega enginn hér í þinginu nú úr gáfumannadeildinni ... (Gripið fram í: Jú, jú, hér er einn.) Já, hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson. Það liggur þá beint við að beina spurningum sínum til hans. Ef Alþb. er andvígt þeirri stefnu í vaxta- og peningamálum sem Alþfl. hefur haft á stefnuskrá og hefur enn, ef Alþb. er eins andvígt þeirri stefnu og talsmenn þess virðast vera hér í umr. á Alþingi, með hvaða hætti vilja þá hinir sömu menn ávaxta fé og tryggja sparifjáreigendum raungildi sinna peninga? Eftir þeim tillögum er hér lýst. Ef Alþb. er andvígt þeirri stefnu sem Alþfl. hefur í þessum málum, að tryggja sparifjáreigendum raungildi sinna peninga, hvaða till. hefur Alþb. þá uppi um að tryggja þessum hinum sömu sparifjáreigendum raungildi sinna peninga sem þeir leggja inn í peningastofnun? (Gripið fram í: Það eru verðtryggðir reikningar í bankakerfinu.) Er það ekki það sem Alþfl. barðist fyrir? (Gripið fram í: Nei, nei.) Hv. þm. og formaður þingflokks Alþb. ætti að koma hér inn í þingdeildina og fá sér sæti. Mér liggur við að segja eins og einhver hv. þm. sagði í gær: Ef ég væri í hans sporum mundi ég þegja og hlusta. En engar tillögur hafa komið um þetta. (Gripið fram í: Það jukust innlán.) Einmitt. Þarna kemur hv. þm. inn á meginefni málsins, en fer um leið og á að fara að svara honum. Þetta eru afleiðingar raunvaxtastefnunnar, sem Alþfl. kom í framkvæmd á sínum tíma en forsvarsmenn Alþb. leggja sig nú í líma við að troða í svaðið. Hv. þm. hefur líklega ekki verið nærstaddur hér áðan þegar ég var að segja frá því að í stefnuræðu hæstv. forsrh. haustið 1981 var einmitt vitnað til þess að það jákvæðasta, sem gerst hefði í peningamálum þjóðarinnar á því ári, væri innlánsaukningin hjá peningastofnunum, sem væri ávöxtur af raunvaxtastefnunni og verðtryggingunni. Þetta er dómur reynslunnar, en sumir hverjir grípa nú í það hálmstrá að reyna að troða þann vitnisburð í svaðið af því að öll efnahagsstefna ríkisstj. er með þeim endemum að hér er allt að sigla í strand.

Ég skal ekki, herra forsesti, taka öllu lengri tíma hér af umr. Ég vil aðeins í lokin taka undir með hv. þm. Sverri Hermannssyni eða raunar spyrja hann: Hvað ætlar Alþingi sjálft að láta ganga langt í því að framkvæmdavaldið taki sér svo að segja völd að eigin vild? Það er að mínu viti löngu kominn til þess tíma að fjárveitingavaldið, Alþingi sjálft, taki í taumana í þeim efnum.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, taka undir þá beiðni hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að forseti beiti sér fyrir því að frv. sem varðar lánskjaravísitöluna og kaupgjaldsvísitöluna, sem þm. Alþfl. hafa lagt fram, verði tekið á dagskrá hið allra fyrsta svo að úr því fáist skorið hvort ekki er í raun og veru meirihlutafylgi við það mál hér á þinginu áður en 1. des. rennur upp, því að það er í tengslum við það sem þá á að ske. Ég ítreka því tilmæli til hæstv. forseta um að hann beiti sér eindregið fyrir því að þetta mál verði tekið til umr. og úr því fáist skorið hvort meirihlutafylgi er fyrir hér á Alþingi.

Að síðustu þetta. Mér hefur fundist öll stjórnmálaumræða síðustu tvær vikurnar, ekki síst síðustu dagana bera þess merki að Alþb.-menn eru orðnir mjög ókyrrir í því stjórnarsamstarfi sem þeir nú sitja í. Þetta þóttist ég heyra í útvarpsumræðunum sem fram fóru ekki fyrir löngu, og ekki heyrir maður það síður í þeim umr. sem átt hafa sér stað hér í gær og í dag um þennan þátt efnahagsmála, þ.e. vaxtaákvörðun og það sem henni fylgir.

Ég minnist þess að hv. þm. Helgi Seljan var að mér fannst óvenju hress í útvarpsumræðunum fyrir viku síðan og taldi þá allt á hinn verri veg fyrir stjórnarandstæðingum hér á Alþingi. Hann kastaði fram í lok sinnar ræðu vísu þessu til staðfestingar. Einu góðskáldinu varð að orði, eftir að hafa heyrt vísuna hjá hv. þm. Helga Seljan, eftirfarandi, sem best er að komist í þingtíðindi, og það skulu vera mín lokaorð:

Blekkingar þó byrla kunni

brjóta fylgi stjórnarlista

vandamál á víðum grunni,

veganesti kommúnista.