10.10.1982
Sameinað þing: 1. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í B-deild Alþingistíðinda. (2)

Forseti Íslands setur þingið

Forseti Íslands (Vigdís Finnbogadóttir):

Háttvirtir alþingismenn. Hinn 17. sept. 1982 var gefið út svofellt bréf:

„Handhafar valds forseta Íslands samkv. 8. gr. stjórnarskrárinnar, forsætisráðherra, forseti sameinaðs Alþingis og forseti Hæstaréttar, gjöra kunnugt:

Við höfum ákveðið samkv, tillögu forsrh. að Alþingi skuli koma saman til fundar mánudaginn 11. okt. 1982. Um leið og við birtum þetta er öllum, sem setu eiga á Alþingi, boðið að koma nefndan dag til Reykjavíkur og verður þá Alþingi sett að lokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni sem hefst kl. 13.30.

Gjört í Reykjavík, 17. september 1982.

Gunnar Thoroddsen. Karl Steinar Guðnason.

Logi Einarsson.

Gunnar Thoroddsen.

Bréf handhafa valds forseta Íslands um að Alþingi skuli koma saman til fundar mánudaginn 11. okt. 1982“ Samkv. bréfi því, sem ég nú hef lesið, lýsi ég yfir því, að Alþingi Íslendinga er sett.

Síðan við komum hér síðast saman við setningu Alþingis Íslendinga fyrir réttu ári höfum við séð á bak mörgum mætum þjóðfélagsþegnum, æskufólki, sem við tregum svo djúpt að sárin gróa seint, þeim af kynslóðinni sem er að kveðja samkv. lögmálum lífsins, og enn öðrum sem hafa lifað manndómsár sín en ekki lokið ævistarfi.

Fráfall hvers og eins snertir okkur öll, fámenna þjóð sem engan mann má missa fyrir aldur fram. Skiptir þar litlu hvort við þekkjum persónulega hvert annað, heldur sú einlæga samúðarvitund sem er með þeim sem eftir lifa í landinu og gefa hugsunum sínum og tilfinningum orð á Íslensku. Það er íslensk tunga sem gerir okkur að þjóð og sameinar okkur hverja stund. Harmurinn á sín orð í hugarfylgsnum, — gleðin sín. Orðin eru íslensk.

Á þessum stað og á þessari stund er okkur efst í huga að minnast frífalls dr. Kristjáns Eldjárns, fyrrverandi forseta Íslands.

Dr. Kristján Eldjárn átti því láni að fagna að verða vinur allra landsmanna fyrir mannkosti sína, heiðarleika og einurð. Fregnin um að hann væri allur kom sem reiðarslag yfir þjóðina, og ég hygg að ekki sé til það heimili á Íslandi að ekki hafi sprottið rík orð dapurleika og missis í hugum manna.

Heimspekingurinn Sören Kirkegaard sagði eitt sinn: „Þegar þú komst í heiminn grést þú og aðrir glöddust. Lifðu nú lífi þínu á þann veg, að þegar þú yfirgefur heiminn gráti aðrir meðan þú sjálfur unir sáttur við þitt.“

Okkur er öllum ljóst að fram undan eru erfiðir tímar sem á engan hátt má kenna okkur einum. Við verðum hverju sinni að taka þátt í því að vera hluti af heimsmyndinni eins og hún er: Sjálfstæð þjóð meðal þjóða. Við verðum að sætta okkur við að leggja hart að okkur og að aga okkur til hins ýtrasta, svo að við megum komast sem best af. — Við sem höfum verið svo lánsöm að geta komist hjá böli annarra þjóða, — atvinnuleysi.

Okkur hafa lengi verið færðar heim sannanir um að aðrar þjóðir vita að við höfum ýmislegt að gefa, sem metið er, merka arfleifð, ríka listsköpun og annálaða verklagni, en allt fléttast það saman í hugtak sem nefnt er menning.

Við höfum oft í aldanna rás verið aufúsugestir á erlendum grundum og margt sem við höfum átt þar fram að færa hefur fremur þótt til fyrirmyndar en hið gagnstæða.

Ég á þá ósk þjóðinni og þingmönnum til handa við setningu Alþingis á þessum degi, að viska og sáttfýsi sitji í fyrirrúmi til að reyna að sameina sundurleitar skoðanir, þannig að minnast megi okkar í sögunni sem heilsteyptrar þjóðar, er kunni fótum sínum forráð á viðsjárverðum tímum, og að orð heimspekingsins megi sannast um hvern Íslending.

Ég bið yður að rísa á fætur og minnast ættjarðarinnar. [Þingheimur stóð upp og forsætisráðherra, Gunnar Thoroddsen, mælti: „Heill forseta vorum og fósturjörð. Ísland lifi.“Þingmenn tóku undir þessi orð með ferföldu húrrahrópi.]

Samkvæmt 1. gr. þingskapa ber nú aldursforseta að stjórna fundi þar til kosning forseta sameinaðs Alþingis hefur farið fram, og bið ég aldursforseta, dr. Gunnar Thoroddsen, 8. þm Reykv., að ganga til forsetastóls.