03.11.1982
Efri deild: 7. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í B-deild Alþingistíðinda. (204)

65. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum nr. 83 frá 1974, um verðjöfnunargjald af raforku, ásamt síðari breytingum.

Í gildandi lögum um verðjöfnunargjald af raforku er ákveðið að lögin gildi til ársloka 1982. Með frv. þessu er lagt til að lögin verði framlengd um eitt ár og gildi til ársloka 1983.

Verðjöfnunargjald af raforku er innheimt af allri raforkusölu í smásölu annarri en til húshitunar og nemur gjaldið 19%, sem lagt er á sama stofn og söluskattur er lagður á. Gjaldinu er varið til að styrkja fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða, en Rafmagnsveiturnar fá 80% gjaldsins, en Orkubúið 20%; og er lagt til að það haldist óbreytt og jafnframt að upphæð gjaldsins verði áfram 19%. Í fjárlagafrv. fyrir árið 1983 er gert ráð fyrir að verðjöfnunargjald af raforku nemi 120 millj. kr., en með tilliti til hækkana á raforkuverði, sem orðið hafa á árinu 1982, er þó gert ráð fyrir að verðjöfnunargjaldið verði hærra en í fjárlagafrv. greinir eða um 180 millj. kr. Endanleg fjárhæð mun þó ráðast af verðhækkunum, sem verða á árinu 1983.

Fjárhagsstaða Rafmagnsveitnanna og Orkubúsins er það slæm, að nauðsynlegt er að viðhalda þessum tekjustofni. Þrátt fyrir verðjöfnunargjaldið er áætlaður halli Rafmagnsveitna ríkisins á árinu 1982 allt að 41 millj. kr. og halli Orkubús Vestfjarða á þessu ári er áætlaður 5.4 millj. kr.

Þess skal hér getið, að ríkissjóður hefur á yfirstandandi ári yfirtekið lán Rafmagnsveitnanna að upphæð 7.75 millj. kr. Sú upphæð kann raunar að hafa hækkað eitthvað vegna gengisbreytinga. Einnig hefur ríkissjóður yfirtekið 10 millj. kr. lán eða upphæð sem því nemur vegna rekstrarhalla fyrirtækisins á árinu 1981 og leggur þannig til Rafmagnsveitnanna um 18 mill j. kr. á þessu ári miðað við það sem þegar hefur verið um samið. Í fjárlagafrv. fyrir næsta ár er lagt til að ríkissjóður yfirtaki 12.2 millj. kr. lán Rafmagnsveitnanna og bæti með því eiginfjárstöðu fyrirtækisins. Fyrir lok næsta árs verður svo endurmetið, eins og oft áður, hvort ætti ekki að lækka verðjöfnunargjaldið og þá í tengslum við úttekt á fjárhagsstöðu Rafmagnsveitnanna og Orkubúsins.

Í frv. er lagt til að iðnrh. verði á árinu 1983 heimilt að fela Orkusjóði að endurgreiða Rafveitu Siglufjarðar verðjöfnunargjald af raforku, sem nemi allt að þeirri upphæð sem innheimt verður af raforkusölu veitunnar.

1 umr. um framlengingu á verðjöfnunargjaldinu fyrir ári kom fram að Rafveita Siglufjarðar átti í miklum fjárhagserfiðleikum. Fór rafveitan þá fram á að fá hluta verðjöfnunargjaldsins. Athugun fór fram á fjárhagsstöðu fyrirtækisins og kom m.a. fram, að lánstími á lánum sem tekin höfðu verið var stuttur og lánakjör óhagstæð. Við þessu var brugðist með útvegun láns til lengri tíma, en á lánsfjáráætlun hafði verið gert ráð fyrir slíkri lántöku. Síðan hefur komið í ljós, að aðgerðir þessar eru ekki taldar nægja til að rétta af greiðslustöðu Rafveitu Siglufjarðar og er viðbúið að til frekari aðgerða þurfi að koma. Þörfin á að nýta endurgreiðsluheimildina, sem hér er lögð til að veitt verði, mun metin í ljósi niðurstöðu á uppgjöri á stöðu Rafveitu Siglufjarðar á þessu ári.

Fjárhagsstaða þessarar rafveitu er að sjálfsögðu mjög háð atvinnulífinu á staðnum. Minnkandi loðnuafli og stöðvun veiða nú mun t.d. leiða til mun minni tekna en ella væri fyrir fyrirtækið. Með endurgreiðslu verðjöfnunargjaldsins ætti að vera hægt að bæta fjárhagsstöðu fyrirtækisins verulega, en það skilyrði verður þó sett sem áður fyrir slíkri endurgreiðslu að gjaldskrá Rafveitu Siglufjarðar verði a.m.k. ekki lægri en gjaldskrá Rafmagnsveitna ríkisins, Orkubús Vestfjarða og annarra þeirra rafveitna er halda verða uppi tiltölulega háu raforkuverði.

Hvað snertir fjárhag Orkubús Vestfjarða, þá er þar áframhaldandi við erfiðleika að etja og hallarekstur hliðstætt og er hjá Rafmagnsveitum ríkisins á þessu ári. Fjárhagsstaða Orkubúsins er til sérstakrar meðferðar og hefur verið það á undanförnum mánuðum, þar á meðal nauðsyn þess að afla lána fyrir fyrirtækið til þess að mæta erfiðleikum og halla sem fyrirsjáanlegur er á þessu ári.

Hér er um mál að ræða sem er vel kunnugt hv. alþm. og sé ég ekki ástæðu til að orðlengja það frekar, en vildi aðeins að lokum segja, að með verðjöfnunargjaldinu hefur tekist á undanförnum árum að draga mjög verulega úr verðmun á raforku til heimilisnota frá þeim fyrirtækjum sem verðjöfnunargjaldsins njóta og verðmunur er nálægt 25% samkvæmt gjaldskrá á almennum heimilistaxta hjá Rafmagnsveitum ríkisins og Orkubúi Vestfjarða annars vegar og Rafmagnsveitu Reykjavíkur hins vegar. Munur á töxtum annarra fyrirtækja eða rafveitna sveitarfélaga er víða minni en þessu nemur, þannig að segja má að á síðustu árum hafi tekist á þessu sviði verðjöfnunar að ná umtalsverðum árangri. Þar skiptir þetta verðjöfnunargjald vissulega sköpum.