03.11.1982
Efri deild: 7. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í B-deild Alþingistíðinda. (206)

59. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég flyt frv. það sem hér er á dagskrá ásamt hv. þm. Agli Jónssyni, Guðmundi Karlssyni og Salome Þorkelsdóttur.

Hér er um að ræða húsnæðismál, en húsnæðismálin eru ein allra þýðingarmestu mál hvers þjóðfélags. Það er ekki einungis að húsnæði er öllum mönnum nauðsynlegt, heldur hefur húsnæðisástandið, sem þjóðin býr við, hin víðtækustu áhrif.

Þetta vita menn allt. En við skulum líka hafa í huga, að húsnæðismálin hafa þá sérstöðu gagnvart ýmsum öðrum málum, að jafnvel þótt tiltölulega fáir búi við slæmt ástand er það þó alltaf mjög alvarlegt mál. Og því fremur kastar tólfunum þegar ástandið er almennt slæmt. Fólk býr í heilsuspillandi íbúðum eða í ofþrengslum eða getur ekki stofnað heimili vegna húsnæðisskorts getur átt við ósegjanlega erfiðleika að stríða.

Allir heilbrigðir menn hafa samúð með fólki sem lendir í slíkum erfiðleikum. En það er einmitt vegna þessarar sérstöðu húsnæðismála að hætt er við að þau séu notuð enn frekar en önnur mál í lýðskrums- og auglýsingaskyni. Skortir þá ekki á að farið sé hugnæmum orðum um raunir hinna húsnæðislausu og er þó oft lögð meiri áhersla á þann söng heldur en raunhæf úrræði. Þetta skyldu menn hafa í huga þegar litið er til laga nr. 51/1980 um Húsnæðisstofnun ríkisins, ef menn vilja leita skýringa á þeim ólíkindum sem í þeim felast.

Fyrir rúmum aldarfjórðungi voru fyrstu lögin sett um húsnæðismálastjórn og almenna veðlánakerfið tók til starfa. Þetta markaði þáttaskil í lánamálum húsbyggjenda í landinu. Síðan hefur almenna veðlánakerfið verið grundvöllur opinberra aðgerða til fjármögnunar íbúðarhúsabygginga. Á þessu tímabili hefur verið lyft Grettistaki í húsakosti landsmanna. Eru þær framfarir eitt af undrum þeim sem þjóðin hefur upplifað á þessum tíma. Almenna veðlánakerfið eða Byggingarsjóður ríkisins hefur lengst af lánað 90–95% til allra íbúðarhúsabygginga landsmanna á þessum tíma.

Almenna veðlánakerfið var ekki fullkomið þegar það hóf starfsemi sína og ýmsu var ábótavant. En menn vissu hvað þeir vildu og höfðu markmið að stefna að. Viðfangsefnið var frá upphafi að efla veðlánakerfið. Það þurfti að bæta lánskjörin, lengja lánstímann, lækka vexti og umfram allt að hækka lánin og auka hlutfall þeirra í byggingarkostnaðinum.

Forsenda þessa alls er fjármagnið. Það hefur verið meginvandinn frá fyrstu tíð að afla aukins fjármagns í þágu húsnæðismálanna. Það hefur líka verið aðalatriði, því að ekkert hefur verið hægt að sækja fram á þessu sviði nema með auknu fjármagni. Þess vegna hefur endurskoðun húsnæðislöggjafarinnar venjulega beinst fyrst og fremst að fjármagnsöflun. Í þessum efnum hefur verið smám saman sótt fram í rétta átt með því að Byggingarsjóði ríkisins hafa verið fengnir auknir og nýir tekju stofnar, svo sem með skyldusparnaði ungs fólks og með launaskatti.

En árið 1980 dregur bliku á loft með því að rofin er hin jákvæða þróun sem fólgin var í því að styrkja fjárhagsgrundvöll Byggingarsjóðs ríkisins. Við setningu laga nr. 51/1980, um Húsnæðisstofnun ríkisins, var brugðið frá þeim vana, sem jafnan hafði verið áður fylgt við endurskoðun húsnæðislöggjafarinnar, að afla aukins fjármagns í þágu húsnæðismálanna. En það var ekki nóg með þetta, heldur var farið þveröfugt að við það sem áður tíðkaðist, með því að Byggingarsjóður ríkisins var sviptur aðaltekjustofni sínum þar sem var launaskatturinn. Og svo var óskammfeilnin mikil að jafnframt voru lögð stóraukin verkefni á Byggingarsjóð ríkisins án þess að honum væri séð fyrir nokkrum nýjum tekjustofnum til að mæta þessum þörfum. Hér var um bein fjörráð að ræða við hinn almenna húsbyggjanda í landinu. Það var beinlínis verið að grafa undan þeim lánasjóð sem lánað hafði til meginhluta allra íbúðarhúsabygginga í landinu.

En hér var um meira að tefla en Byggingarsjóð ríkisins. Það var vegið að þeim viðhorfum og lífsskoðunum sem eru grundvöllur þess átaks sem þjóðin hefur gert í húsnæðismálum sínum á undanförnum áratugum. Það var vegið að þeirri sjálfsbjargarviðleitni og einkaframtaki sem skilað hefur okkur glæsilegum árangri í húsnæðismálunum. Það sem mest á reið var að styrkja þetta framtak með því að bæta íbúðalánin til fólksins í landinu, lengja lánstímann, lækka vexti og hækka hlutfall lána af byggingarkostnaði. Það þurfti að festa í sessi þá skipan, sem svo vel hefur reynst okkur, með því að tryggja betur að öllum almenningi í landinu væri gert fært að byggja og standa undir þeim lánskjörum sem hið almenna íbúðalánakerfi hefur upp á að bjóða.

Þessi niðurrifsstefna ríkisstj. gagnvart Byggingarsjóði ríkisins er svo áréttuð í lögunum um Húsnæðisstofnun ríkisins frá 1980 með því að tekið er fram að stefnt skuli að því að Byggingarsjóður verkamanna geti fjármagnað a.m.k. þriðja hluta af árlegri íbúðaþörf landsmanna. Þessi stefna er út í hött nema ráð sé fyrir því gert, að hið almenna veðlánakerfi geti ekki mætt þörfum hins almenna húsbyggjanda.

En sýndarmennska ríkisstj. ríður ekki við einteyming. Undir yfirskini umhyggju fyrir lítilmagnanum eru Byggingarsjóði verkamanna brugguð fjörráð. Um leið og sjóðurinn er gerður að almennum lánasjóði á að svipta hann möguleikanum að sinna sérþörfum þeirra sem verst eru settir. Áður var Byggingarsjóður verkamanna fjármagnaður með óafturkræfum framlögum frá sveitarfélögum og ríkissjóði þannig að allt fjármagn hans til verkamannabústaða var fengið með þeim hætti. Í lögunum frá 1980 er kveðið svo á að frá ríkissjóði og sveitarfélögum komi einungis 40% af því fjármagni sem gengur til verkamannabústaða. Samkv. ákvörðun laganna á hitt fjármagnið að koma með sérstökum lántökum sem ákveðnar eru hverju sinni. Þannig á að leita á hinn almenna lánamarkað með þeim lánskjörum sem þar eru nú og sjóðnum að vera gert að taka þar lán og lána síðan út með 0.5% vöxtum.

Með þessu fyrirkomulagi er raskað til frambúðar fjárhagslegum grundvelli fyrir starfsemi Byggingarsjóðs verkamanna nema breytt verði þeim útlánskjörum sem lögin gera ráð fyrir. Þessi lánskjör eru miðuð við þarfir hinna verst settu. Ef það á að gera þau lakari, þá er kippt fótunum undan aðstoð við fólkið sem verst er sett. Það er þessi þróun, sem ég hef nú lýst í nokkrum orðum, sem menn skyldu hafa í huga þegar þeir lita á ástand húsnæðismálanna í dag. Öllum kemur saman um að það sé ekki gott. Og meira en það. Ég held að það verði að segja að það komi öllum saman um að ástand húsnæðismálanna sé óþolandi og óhafandi og fátt sé meira aðkallandi en að leysa þann vanda sem þessi mál eru komin í.

Höfuðvandinn er sá, eins og ég vék að áður, að Byggingarsjóður ríkisins var með lögunum frá 1980 sviptur megintekjustofni sínum, sem var 2% launaskattur. Þetta er höfuðástæðan. Annað, sem til má taka, má rekja til þessarar staðreyndar. Það hefur ekki verið nægilegt fjármagn til að mæta eftirspurninni eftir lánum og eftirspurnin eftir lánum hefur verið minnkuð með ráðstöfunum ríkisvaldsins vegna þess að lánin hafa alltaf verið minni og minni hluti af byggingarkostnaði. Á sama tíma hefur hækkun vaxta og verðtrygging lána lagst með ofurþunga á lántakendur og húsbyggjendur í landinu.

Allt er þetta mönnum kunnugt. En menn vilja kannske leggja mismunandi áherslu á að skýra þessi mál og benda á einstaka þætti þeirra. Það má t.d. minna á að um 1970 hafði þokast svo áfram í þessum málum að íbúðalán almenna veðlánakerfisins námu milli 45–50% af byggingarkostnaðinum. Minna má á hvernig síðan hefur stöðugt sigið á ógæfuhliðina í þessum efnum og mest hin síðustu misseri. Nú er svo komið, að íbúðalán almenna veðlánakerfisins eru komin undir 20% af byggingarkostnaðinum. Það sjá allir hvaða áhrif þetta ástand hefur, enda getum við séð hvernig þessi þróun hefur dregið úr húsbyggingum.

Ég hef hér fyrir framan mig yfirlit frá Húsnæðisstofnun ríkisins varðandi Byggingarsjóð ríkisins, þar sem tiltekinn er fjöldi íbúða vegna veittra lána árin 1978–1981. Þar kemur glögglega í ljós hver þróunin hefur verið varðandi nýbyggingar, sem skiptir höfuðmáli. Árið 1978 var lánað til 1883 íbúða, árið 1979 til 1687 íbúða, árið 1980 til 1665 íbúða, árið 1981, þegar stefna núv. ríkisstj. kemur með fullum þunga, er lánað út á 1072 íbúðir. 1072 íbúðir árið 1981, en árið 1978 út á 1883 íbúðir. Vilja menn ekkert hugsa um slíkar staðreyndir? (Gripið fram í: Menn þekkja nú þessa ríkisstj.) Já, menn þekkja þessa ríkisstj. og munu þekkja hana æ betur meðan hún lafir, en það er ekki nóg að þekkja ríkisstj. Það er einskis góðs að vænta af ríkisstj. í þessum efnum. Hún hefur sýnt það í einu og öllu. Og má ég minna á að samkv. íbúðaspá Þjóðhagsstofnunar er gert ráð fyrir að það þurfi að byggja 2000 nýjar íbúðir á ári á Íslandi. Það var lánað á síðasta ári út á 1072 íbúðir. Hafa menn gert sér grein fyrir þessum geigvænlegu staðreyndum og sjá menn ekki glöggt í hvert óefni stefnt er ef þessi þróun heldur áfram?

Ég held að ég þurfi ekki að fjölyrða frekar um þennan þátt. Ég held að það liggi eins ljóst fyrir og verða má að þróunin í húsbyggingarmálum er slík, að í óefni og fullkomið óefni stefnir. Ég sagði líka áðan að menn virtust sammála um að ástandið í húsnæðismálunum væri óþolandi. Ríkisstj. telur það, en segist ætla að bæta úr. Sú ríkisstj. sem með beinum aðgerðum hefur brotið niður Byggingarsjóð ríkisins og almenna veðlánakerfið, sem vísvitandi hefur stuðlað að því ástandi sem nú ríkir og hefur ekki á undanförnum þingum og misserum viljað hlusta á neinar aðvaranir í þessum efnum, segist nú ætla að gera ráðstafanir til að bæta úr. Við skulum nú athuga það í hverju það er.

Getur það verið að ríkisstj. ætli að halda áfram lýðskrums- og blekkingariðju sinni í þessum málum? Getur það verið að ríkisstj. ætli enn þá að halda að fólki að hún sé bestur málsvari fyrir það í þessum efnum? Ég geri ráð fyrir að ríkisstj. ætli að gera þetta. En lítum nú nánar á málin og hvaða blekkingar það eru sem ríkisstj. þykist núna vera með og í hverju þær eru fólgnar. Vitna ég þá til einhvers starfshóps sem kvað hafa verið að vinna á vegum félmrh. í þessum efnum. Ég hef ekki fengið í hendur álit þessa starfshóps, en ég hef lesið um þetta í Þjóðviljanum. Kannske mun það hvergi koma nema í Þjóðviljanum, en ég geri ráð fyrir að það sé þar rétt hermt frá þessum efnum.

Samkv. þessum upplýsingum er sagt að ríkisstj. ætli að efla Byggingarsjóð ríkisins með því að tvöfalda ríkisframlag til hans frá því sem var á síðasta ári. Það er ágætt að gefa slík fyrirheit um 100% hækkun þegar það er haft í huga að fyrst rífur ríkisstj. niður það sem var í þessum efnum. (Gripið fram í.) Ég skal skýra hvað ríkisstj. skildi eftir í þessum efnum, ef hæstv. ráðh. vill.

Þegar ríkisstj. tók við hafði Byggingarsjóður ríkisins þann tekjustofn að 2% launaskattur skyldi ganga í Byggingarsjóðinn. Ef svo væri enn hefði verið um að ræða á síðasta ári — tökum það fyrst — 224 millj. sem áttu að fara í Byggingarsjóð ríkisins. Þetta fólk ríkisstj. í burtu. En ekki bara þetta. Í staðinn fyrir 224 millj. voru á fjárl. 57 millj. úr ríkissjóði, en ef ætti að gera samanburð þarf að draga frá líka beina greiðslu úr ríkissjóði, sem áður var og ríkisstj. stal frá Byggingarsjóði ríkisins. Þegar hæstv, viðskrh. spyr um hvort eitthvað hafi ekki verið skilið eftir, sem ekki var rifið niður, hygg ég að það þurfi stækkunargler til að gera sér grein fyrir því hvað það var.

Nú er sagt að það eigi að tvöfalda þessa upphæð frá síðasta ári, 57 millj. kr. Látum svo vera. Kannske má treysta því loforði. Ég veit þó ekki. En þá væri um að ræða rúmar 100 millj. kr. Hvað ætti Byggingarsjóðurinn að hafa í tekjur af launaskattinum, ef núv. ríkisstj. hefði ekki tekið hann frá honum? Þá ætti hann að hafa á þessu ári 340 millj. Hæstv. viðskrh., það eru svona staðreyndir sem blasa við.

Það er hryggilegt að þurfa að segja það, en núv. hæstv. ríkisstj. hefur vísvitandi rifið niður starfsgrundvöll Byggingarsjóðs ríkisins. Svo segja þeir að í náð sinni ætli þeir að hækka framlagið frá síðustu árum um 100% — framlagið sem í raun og veru var ekki meira en það sem ég greindi frá áðan. Þetta ætlar hæstv. ríkisstj. að leggja fram sem úrræði í þessu máli. Það er hreinasta skömm að því að sýndir skuli vera einhverjir tilburðir í þá átt að telja fólki trú um að hér sé um raunverulegar aðgerðir að ræða, sem að gagni mega koma í húsnæðismálunum.

Þá er það eitt bjargráðið enn sem hæstv. ríkisstj. lofar. Hún segir að lán til þeirra sem byggja í fyrsta sinn skuli hækka um 25% á næsta ári. Fram til 1980 var í lögum ákvæði um að skyldusparendur þeir sem væru að bygg ja í fyrsta skipti gætu fengið lán sem væru 25% hærri. Hvað hefur ríkisstj. gert í þessu? Hún afnam þetta ákvæði í lögum. Það er verk ríkisstj. Nú segist hún ætla að lofa því að gera þetta á næsta ári, en hún afnam þetta ákvæði úr lögum. Svo þykist hún ætla að gera sig góða með því að lofa þessu út í loftið eins og öllu sem hún lofar um þessar mundir.

Þá segir í þessum fréttum um aðgerðir ríkisstj., að það eigi að stofna nýja húsnæðisreikninga í viðskiptabönkum og sparisjóðum og þeir sem geri það eigi að fá hærri íbúðarlán en aðrir. Nú segir hæstv. ríkisstj. þetta. Hvað hefur hæstv. ríkisstj. gert áður í þessu efni? Hliðstæð ákvæði voru í lögum fram til 1980, um sérstaka innlánsdeild í þessu skyni. Hvað hefur ríkisstj. gert? Hún afnam þetta ákvæði. Nú þykist ríkisstj. vera þess umkomin að lofa einhverju með því að innleiða aftur ákvæðið sem hún afnam. Sjá menn ekki ábyrgðarleysið, skrumið og yfirskinið í þessu efni? Menn þurfa ekki einu sinni að hafa í huga að það ákvæði sem afnumið var hafði lengi staðið í lögum, en því miður verið óraunhæft vegna fjármagnsskorts í landinu. Og dettur svo nokkrum manni í hug að ríkisstj. sem er komin að falli fyrir ástandið í efnahagsmálunum sé þess umkomin að lofa því að peningamál landsins verði í því horfi að þetta ákvæði verði raunhæft? Það hefur engum manni dottið slíkt í hug, en þetta er eitt dæmið um yfirskin, ábyrgðarleysi og blekkingar hæstv. ríkisstj. í þessum efnum.

Hæstv. ríkisstj., er sagt í Þjóðviljanum, ætlar að gera ráðstafanir til þess, að því er virðist, að meira komi frá lífeyrissjóðunum til íbúðalána. Þar á aðalatriðið að vera að tryggja, eins og þar er sagt eða látin orð að liggja, að lán lífeyrissjóðanna til sjóðfélaga verði aðeins veitt til húsnæðismála. Kemur nú nokkrum manni til hugar að þetta hafi nokkur afgerandi áhrif til þess að bæta úr ástandi lánamála húsbyggjenda? Ég held að það komi fæstum til hugar að slíkar yfirlýsingar hafi nokkurt gildi eða muni neitt um slíkt, sérstaklega þegar það er haft í huga að meginhlutinn, væntanlega yfir 90%, af öllum lánum lífeyrissjóðanna til sjóðsfélaga fer einmitt til húsnæðislána.

Hæstv. ríkisstj. hefur þráfaldlega verið að gefa í skyn að það væri bót allra meina í þessum efnum ef lífeyrissjóðirnir lánuðu meira, en það er ekkert skeytt um þá staðreynd að lífeyrissjóðirnir lána einungis til 15 ára og það er harla erfitt að byggja upp lánasjóð sem lánar til 26 ára með slíku fjármagni, enda er það alltaf að koma betur og betur í ljós. Þannig er áætlað að á þessu ári, árinu 1982, komi frá lífeyrissjóðunum 141 millj. kr. En það þarf að greiða í vexti og afborganir af þessum lánum lífeyrissjóðanna til Byggingarsjóðsins 80–90 millj. kr., þannig að það eru um 50 millj. kr. nettó sem koma frá lífeyrissjóðunum á þessu ári. Svo halda menn raunverulega — ekki halda, það er bein blekking þegar þeir segja að það sé eitthvað leyst í húsnæðismálunum með því að treysta á slíka fyrirgreiðslu lífeyrissjóðanna. Lífeyrissjóðirnir gegna sínu mikla hlutverki í þessum efnum með því að lána til sinna sjóðfélaga, og það verður ekki lögð of mikil áhersla á mikilvægi þess, en lífeyrissjóðirnir verða ekki til þess að byggja upp Byggingarsjóð ríkisins með þeim hætti sem hæstv. ríkisstj. þykist vilja gera. Það er ein blekkingin enn, eins og allt, ég leyfi mér að segja allt, sem hæstv. ríkisstj. hefur borið fram í þessu efni. (Gripið fram í: Hvar er húsnæðismálastjórnarráðh.?) Já, það væri nú ánægjulegt að sjá framan í húsnæðismálastjórnarráðherrann og ég er kannske ekki úrkula vonar um að hann komi áður en ég lýk máli mínu. Þó er ég ekki viss um það því að það vottar um fyrirlitningu hæstv. félmrh. á þessum málaflokki, sem hann hefur leikið eins hörmulega og ég hef hér lýst, að hann kemur ekki eða vill forðast að hlýða á þessar umr. Og það er ekki nóg með að hæstv. félmrh. virðist forðast að hlýða á þessar umr. Allir þm. stjórnarandstöðunnar forðast það. Hér er einungis hæstv. forseti viðstaddur. Ég vil þó segja, að ef hann væri ekki í forsetastóli tryði ég honum til að hlýða á það sem hér fer fram.

Ég mun nú koma að þeim kafla ræðu minnar þar sem ég mun víkja sérstaklega að frv. sem hér liggur fyrir, skýra hvað við flm. viljum gera, teljum að rétt sé að gera til að bæta úr því ástandi sem ég hef lýst. Er þá fyrst til að taka 1. gr. frv., sem varðar Byggingarsjóð ríkisins.

1. gr. frv. er í tveim liðum. A-liðurinn fjallar um 2. tölul. 9. gr. frv. og orðist sem þar segir. Til skýringar vil ég taka fram, að í 2. tölul. 9. gr. segir nú að fjár í Byggingarsjóð ríkisins skuli aflað með árlegum framlögum úr ríkissjóði af launaskatti, byggingarsjóðsgjöldum, af tekju- og eignarskatti og af aðflutningsgjöldum. Tvær breytingar eru lagðar til á þessu ákvæði laganna. Önnur breytingin er sú, að „launaskattur“, sem hér er óskilgreindur og í framkvæmd til málamynda, er felldur niður. Hin breytingin er sú, að skilgreint er nánar hvað átt er við með byggingarsjóðsgjöldum, þ.e. 1% álag er innheimta skal aukalega á tekju- og eignarskatt og 1/2% á aðflutningsgjöld samkv. tollskrá.

Þetta orðalag og þessi skýring á byggingarsjóðsgjöldunum er nákvæmlega sú sama og var í lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins fyrir 1980. Þetta er ekki stórt atriði varðandi fjármögnun Byggingarsjóðs ríkisins, en okkur þykir rétt, þar sem talað er í gildandi lögum um byggingarsjóðsgjöld, að það sé skilgreint með eðlilegum hætti við hvað er átt. Það gerum við í þessari brtt.

B-liður 1. gr. gerir ráð fyrir að nýr töluliður komi í 9. gr. laganna, er verði 6. töluliður. Þar er lagt til að andvirði 2% launaskatts gangi til Byggingarsjóðs ríkisins eins og áður en núgildandi lög komu til. Hér ber tvennt til. Annars vegar er um að ræða brýna fjárþörf Byggingarsjóðsins til að bæta íbúðarlánin og mæta nýjum verkefnum sem sjóðnum hefur nú verið ætlað að sinna. — Ég hef þegar lýst þessu hér í ræðu minni áður. — Hins vegar verður einnig að hafa í huga, að einungis með þessu móti verður haldið í heiðri forsendunum fyrir álagningu launaskattsins. Með þessu verður það virkt, sem almenningi og skattborgurum var sagt þegar þetta gjald var upphaflega sett á og menn gátu miklu betur umborið í vissu um að andvirði þess gengi til þeirra þarfa sem um var talað eða til að aðstoða húsbyggjendur í landinu.

Hér er raunverulega lagt til að við færum í sama horf tekjuöflun Byggingarsjóðs ríkisins af launaskattinum og var áður en niðurrifsstarf núv. ríkisstj. var hafið. Við viljum gera tilraun til að koma þessum málum í það horf sem þau voru í þegar núv. ríkisstj. tók við völdum.

Ég kem þá að 2. gr. frv. Þar er lagt til að lánstími hinna almennu íbúðarlána verði lengdur úr 26 árum í 42 ár. Þetta er gert í þeim tilgangi að létta greiðslubyrði lánanna svo að betur verði staðið undir af almennum launatekjum.

Það er ekki nægilegt að almennur lánasjóður fyrir húsbyggjendur veiti há lán og hækki lánin og hlutfall þeirra miðað við byggingarkostnað frá því sem nú er. Það er ekki heldur nægilegt að skapa grundvöll fyrir þessu með því að auka tekjur Byggingarsjóðsins eins og við leggjum til með því að leggja undir hann á ný 2% launaskatt, sem gefur á þessu ári 340 millj. kr. Hinn almenni húsbyggjandi í landinu verður að hafa möguleika á því að hagnýta sér þessi lán. Það er með tillit til þess sem við leggjum til að lánstími sé lengdur úr 26 árum í 42 ár.

Það sem ég hef nú greint frá, 1. og 2. gr. þessa frv., fjallar um Byggingarsjóð ríkisins. En í 3. gr. frv. er fjallað um Byggingarsjóð verkamanna. Samkv. tillögum okkar um Byggingarsjóð verkamanna er gert ráð fyrir að sá byggingarsjóður sé efldur til að sinna því sérhæfða verkefni að veita hinum verst settu í þjóðfélaginu aðstoð til að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Það er lagt til að þetta sé gert með því að framlag ríkissjóðs ár hvert nemi 80% af fjármagnsþörf sjóðsins í stað 30%, sem núgildandi lög ákveða. Er þá ekki keppikefli að aðstoð Byggingarsjóðs verkamanna nái til sem flestra, heldur hitt, að sjóðurinn megi veita sem besta þjónustu þeim sem eru þurfi þessarar sérstöku hjálpar. Er þá reiknað með því stefnumiði, að Byggingarsjóður ríkisins sé efldur svo að almenningur í landinu eigi kost íbúðarlána frá þeim sjóði í svo háu hlutfalli við byggingarkostnað að mönnum sé gert kleift að koma sér upp eigin íbúðum og með þeim lánstíma og vaxtakjörum að staðið verði undir með almennum launatekjum. Það sem við leggjum til varðandi Byggingarsjóð verkamanna er byggt á þessari forsendu, að við gerum Byggingarsjóð ríkisins raunhæfan byggingarsjóð fyrir hinn almenna launþega í landinu. En með tilliti til þessa er lagt til með þessari brtt., að fellt verði niður það stefnumið í núgildandi lögum að Byggingarsjóður verkamanna fjármagni a.m.k. 1/3 hluta af árlegri íbúðarþörf landsmanna.

Hér er um að ræða í grundvallaratriðum aðra stefnu en stefnu ríkisstj., sem ekki einu sinni getur verið heil í því tali sínu að þykjast vilja aðstoða lítilmagnann í þjóðfélaginu með því að efla Byggingarsjóð verkamanna, heldur ætlar að reka þann sjóð á þeim grunni, að miðað við óbreytta löggjöf verður hann ófær um þetta hlutverk. En ríkisstj. kærir sig sjálfsagt kollótta um hvað skeður eftir nokkra mánuði eða nokkur misseri, ef hún getur haldið áfram blekkingarvef sínum meðan hún er í valdastólunum.

Herra forseti. Ég hef þá lýst þróun mála á síðustu árum undir handleiðslu núv. ríkisstj. í húsnæðismálum. Ég hef vikið að því sem hæstv. ríkisstj. kallar, að því er virðist í háðungarskyni, „aðgerðir til úrlausnar“ í þessu máli. Ég hef lýst þeim tillögum sem felast í frv. því sem hér er til umr.

Það má öllum vera ljóst, að afleiðingar af stefnumörkun ríkisstj. í húsnæðismálum blasa núna við. Það er stefnt í almennt lánakerfi án sérkjara fyrir hina verst settu, en með þeim kvöðum sem verkamannabústöðum fylgja. Keppikeflið er að sem flestir húsbyggjendur falli undir slíkt kerfi verkamannabústaða. Þannig eru sem flestir gerðir háðir opinberri forsjá. Þannig undirgangast sem flestir þær takmarkanir sem löggjöfin setur á eignar- og umráðarétt þessara íbúða. Þetta á að þykja fullgott eftir að búið er að veikja almenna veðlánakerfið svo að það geti ekki veitt nægilega há lán með þeim kjörum sem hinn almenni launþegi getur staðið undir af launatekjum sínum. Þannig er vísvitandi — ég segi vísvitandi — grafið undan því framtaki einstaklingsins að frjálsri byggingarstarfsemi sem hefur staðið undir 90–95% af allri íbúðarbyggingu landsmanna. Þannig er skert samkeppnisaðstaða þeirra sem best hafa stuðlað að hagkvæmri íbúðarhúsabyggingu og lækkun byggingarkostnaðar. Það er talið keppikefli að ríkisforsjá komi í stað einstaklingsframtaks og jafnframt, eins og ég hef áður bent á, er forsmáð hugsjónin um sérstaka aðstoð við þá sem verst eru settir.

Með frv. því sem hér er flutt er ætlað að hamla gegn þeirri þróun í húsnæðismálunum sem ég hef hér lýst. Frv. felur í sér tvenns konar aðgerðir, sem mest er um vert í þessu tilliti að koma í framkvæmd: Annars vegar er lagt til að tekjustofnar Byggingarsjóðs ríkisins verði efldir til að gera sjóðnum betur fært að gegna því hlutverki sem almennur lánasjóður að veita íbúðalán með þeim kjörum sem gera almenningi í landinu fært að koma sér upp eigin íbúð. Hins vegar er lagt til að fjármögnun Byggingarsjóðs verkamanna verði með þeim hætti, að sjóðnum sé gert kleift til frambúðar að veita sérstaka félagslega aðstoð þeim sem verst eru settir til þess að þeir geti einnig komið sér upp þaki yfir höfuðið.

Frv. þetta fjallar um fjármögnun byggingarsjóðanna, en felur ekki í sér tillögur til alhliða breytinga á húsnæðislöggjöfinni. Það verður að bíða betri tíma. Hins vegar hafa tillögur þær sem hér eru gerðar almennt gildi sem forsenda þess, að lánasjóðunum sé gert kleift að sinna hinum ýmsu verkefnum sem lögin setja þeim. Af þeim ástæðum er einnig lagt til að lánstími almennra íbúðarlána Byggingarsjóðs ríkisins verði lengdur úr 26 árum í 42 ár, svo að staðið verði undir greiðslubyrði lánanna af almennum launatekjum, en það er forsenda þess að Byggingarsjóðurinn geti gegnt hlutverki sínu sem almennt veðlánakerfi.

Herra forseti. Ég tel að ég hafi nú allítarlega gert grein fyrir þessu frv., sem hér er til umr. Mér þykir mjög miður að hæstv. félmrh. skuli ekki sýna þessu máli, húsnæðismálunum, meiri sóma en svo að forðast að mæta til þessa fundar, þar sem við ræðum svo þýðingarmikið mál. Ég hefði talið að það væri nauðsynlegt áður en þetta frv. fer til nefndar að við ættum kost þess að heyra hvað hæstv. ráðh. hefur að segja um sumt af því sem hér er lagt til. Hér er um svo þýðingarmikil mál að tefla að það verður að ætlast til þess að hæstv. ráðh. tjái sig um þessi efni, þar sem í þessu frv. felast grundvallarbreytingar á þeirri löggjöf sem við nú búum við varðandi húsnæðismálin. Ég vildi því mega vænta þess, að hæstv. forseti gerði ráðstafanir til þess að þessum umr. yrði ekki lokið án þess að hæstv. ráðh. kæmi til leiks og tjáði sig um þessi efni. Ég hefði þá, vænti ég, fram að færa spurningar sem ég mundi þá mjög gjarnan vilja spyrja hæstv. ráðh. um.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. leyfi ég mér að óska þess að frv. þessu verði vísað til hv. félmn.