28.02.1983
Neðri deild: 46. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2307 í B-deild Alþingistíðinda. (2069)

206. mál, stjórnarskipunarlög

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Það er að vissu leyti freistandi að álykta, þegar fjórir hv. forustumenn úr flokkskerfinu flytja saman frv. og eru svo glaðir og reifir og ánægðir með það eins og þeir hafa verið hér allir fjórir að frv. hljóti að vera lítils eða einskis virði. Þegar þetta frv. er skoðað, herra forseti, þá kemur það í ljós að frv. er ekki lítils virði —- það er einskis virði. Og var naumast á öðru von því að ef horft er til verka undanfarinna ára í þessari stofnun og þeirra aðstæðna sem af þeim hefur leitt dylst ekki að eitthvað mikið er að í þessu félagskerfi okkar og að kerfið er ófært um að ná skynsamlegu samkomulagi í máli af þessu tagi. Það er líka nákvæmlega það, herra forseti, sem hefur gerst.

Svo að vikið sé fyrst að framsöguræðu 1. flm, frv., hv. 1. þm. Reykv., Geirs Hallgrímssonar, þá var meginuppistaðan í ræðu hans röksemdafærsla með grg. frv. Því í ósköpunum er verið að eyða tíma hér í að rökfæra hvernig grg. með frv. er hugsuð? Grg. með frv. er ákaflega lítils urði. Dettur mér þá í hug aðferðin sem beitt var hér í þinginu haust og vetur 1978 og 1979, þegar deilum um efnahagsmál milli þáv. stjórnarflokka lyktaðá ævinlega þannig að ágreiningsefnin voru sett í grg., sem auðvitað reyndist vera einskis virði þegar á hólminn var komið.

Herra forseti. Það sem á að skoða í þessu frv. er frv. sjálft, breytingargreinarnar við stjórnarskrána, en ekki það sem reiknimeistarar hafa reiknað og menn hafa komið sér saman um að setja í grg. með frv., því að það er auðvitað einskis virði, m. a. af þeirri ástæðu, herra forseti, að eins og þetta er hugsað núna er það alls ekki þetta þing sem um þessi kosningalög á að fjalla, heldur það þing sem kosið verður kannske 23. apríl, kannske seinna. Það þing mun auðvitað fjalla um kosningalögin en ekki þetta þing. Ef litið er til þess sem verið hefur að gerast í stjórnmálum landsins síðustu misserin, þá sýnist manni að það þing kunni að verða bæði að því er einstaklinga og samtök þeirra varðar allt öðruvísi saman sett en það þing sem nú situr. Því spyr ég: Til hvers er verið að eyða tíma í að kynna þá grg. sem með þessu frv. er? Ástæðan er auðvitað, herra forseti, ein og aðeins ein: það er valda- og hagsmunavarsla þeirra fjögurra stjórnmálaflokka sem að þessu standa. Það er, herra forseti, allt og sumt. Það er þetta sem er kjarni málsins.

Við skutum, herra forseti, láta grg. liggja á milli hluta og þau drög að frv. sem þar eru sett fram. Hér koma menn og eru að lýsa kostum vissra tillagna. Þar eigi t. d. að auka valfrelsi kjósenda o. s. frv. En þessa er getið í gr. í frv. sem flutt er sem grg. með öðru frv. (Gripið fram í: Fylgiskjal.) Fylgiskjal, að ég ekki tali um fylgiskjal. Þetta er náttúrlega svo fráleitt að engu tali tekur.

Ég spyr, herra forseti. hverja er verið að blekkja? Því að væntanlega dettur ekki nokkrum manni í hug hér í þessum 60 manna klúbbi að menn séu að blekkja hver annan. Og þá er málið það, herra forseti, að það er væntanlega verið að blekkja einhverja sem utan veggja þessarar stofnunar eru með fskj. og grg. Hér er náttúrlega svo lágt lagst í vinnubrögðum að engu tali tekur. Úr því að samkomulagið er ekki meira en sést af greinum þessa frv., þá á auðvitað ekki að flytja neitt frv. og ekki að vera að reyna að blekkja þjóðina með því að hér sé eitthvert samkomulag. Því að samkomulagið, herra forseti, er ekki neitt. Samkomulagið er ekki neitt.

Nú skulum við, herra forseti, skoða greinar frv. og ekkert vera að moða því saman við fskj. og greinargerðir, bara frv. eins og það stendur. Og um hvað er það þá? Frv. er um eitt og aðeins eitt. Það er um fjölgun þm. úr 60 í 63. Það er allt og sumt. Hitt er allt óuppgert í raun og veru. Og það sem meira er. Það er lagt til að 54 þingsæti af þessum 63 séu bundin í stjórnarskrá eftir kjördæmum. Það er lagt til að þm. Reykv. verði 14. Þeir eru 15 í raun. Það er lagt til að þm. Reykn. séu 8. Þeir eru 7. Ekki teljast þetta vera miklar breytingar. Síðan segir í frv.: „A. m. k. átta þingsætum skal ráðstafa til kjördæma fyrir hverjar kosningar samkv. ákvæðum í kosningalögum.“ Það segir ekkert með hverjum hætti það skuli gert. Væntanlega verður það hið næsta þing, sem er lýðræðislega og kosningalega óháð því þingi sem nú situr, sem kemur til með að ráðstafa þessum átta sætum. Það sem menn segja í fskj., grg. og framsöguræðum kemur málinu nákvæmlega ekkert við. Það að reyndir og virtir stjórnmálamenn séu að taka þátt í þessum loddaraskap er náttúrlega ekki aðeins fyrir neðan þeirra virðingu heldur virðingu þessa húss og okkar allra. Það er þetta. herra forseti, sem við eigum að íhuga. Það er þetta sem er kjarni málsins.

Í 1. gr. þessa frv. segir: „Við úthlutun þingsæta samkv. kosningaúrslitum skal gæta þess svo sem kostur er að hver þingflokkur fái þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við heildaratkvæðatölu sína.“

Herra forseti. Ég vek athygli á orðalaginu „svo sem kostur er“. Við erum ekki að tala um málefnasamninga ríkisstjórna sem eru nú ekki virðulegustu og eftirbreytniverðustu plögg allra tíma. Við erum ekki einu sinni að tala um grg. með lögum. Og, herra forseti, við erum ekki einu sinni að tala um lagafrv., um lög. Við erum að tala um stjórnarskrá lýðveldisins og menn vilja setja inn orðalagið „svo sem kostur er“. Af hverju, herra forseti, er þetta orðalag sett inn? Vegna þess að hvor fylkingin um sig vill geta túlkað það til sinnar áttar?

Þetta er eitt af þessu fyrirlitlega orðalagi, eins og þegar sagt var áður fyrr: „Stefnt skal að“ og allir vissu að orðalagið „stefnt skal að“ þýddi það eitt, að það var ágreiningur og allir vildu geta túlkað orðalagið sér í hag. Í stjórnarsáttmálum er alþekkt að þessi orð séu sett fyrir framan allt sem ágreiningur er um. Stefnt skal að hinu og þessu. En nú erum við ekki að tala um þingplögg. Við erum að tala um stjórnarskrá lýðveldisins. Og ég fullyrði að í engu lýðræðisríki nokkurs staðar, sem hefur stjórnarskrá, hefur orðalagi af þessu tagi verið komið inn til að leysa deilumál lítilfjörlegra stjórnmálamanna sem ráða ekki við verkefni sín. Engum hefur hugkvæmst að leggja til við þjóðþing að viðhafa orðalagið „svo sem kostur er“ í stjórnarskrá.

Og vitið þið hvað svo á að gera? Síðan ætlar hver þeirra að geta farið heim til sín, Reykvíkingur heim í Reykjavík og Reyknesingur heim á Reykjanes og Vestlendingurinn heim á Vesturland og geta túlkað hvað þetta þýðir: „svo sem kostur er.“ Það fer eftir því hvar við erum að tala á landinu. Í till. til breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins segir: „Við úthlutun þingsæta samkv. kosningaúrslitum skal gæta þess svo sem kostur er að hver þingflokkur“ o. s. frv. Þetta nær ekki nokkurri átt. Það er engin furða þó að þeir komi hér hver á fætur öðrum hrósandi hver öðrum og sjálfum sér fyrir það að hafa náð samkomulagi. Samkomulagi um hvað? Samkomulagi um ekki neitt.

Nei, herra forseti. Þetta frv. á ekki einu sinni erindi við þingið. Það á ekki erindi til samþykktar þess því að það nær engri átt að leikreglur samfélagsins eigi að byggjast á þessu. Enda hlaut svo að vera, herra forseti. Nógu grunsamlegt er að þeir fjórir saman nái samkomulagi. Það hlaut að vera að einhvern veginn svona lægi í því. Þetta er, herra forseti, allt og sumt.

Þetta frv. gengur út á það eitt að fjölga þm. um þrjá til að fullnægja flokkunum. Það gengur ekki út á neitt annað. Svo ætla þeir að halda opnu spilinu um það með hverjum hætti þeir hafa eftir sem áður níu þingsæti til ráðstöfunar. Hvers konar slagsmál eru menn að bjóða upp á um það? Þetta frv. er ekki til lausnar á einu eða neinu, nema þeim vanda flokkanna að fólkinu í landinu þykir ekki ýkja mikið til þess koma að þeir geta ekki leyst þetta mál og ekki neitt mál. Það er það, herra forseti, sem er kjarni málsins.

Svo stilla þeir sér upp allir fjórir, búnir að ná samkomulagi og þetta er lausnin. Þetta er engin lausn. Að því er Reykjavík varðar er það minna en var. Að því er Reykjanes varðar er það heldur meira en var. Það er allt og sumt. Hitt er eftir. Fskj., grg. skiptir engu máli. Það vita þeir auðvitað mætavel sjálfir. En með þessum hætti geta þeir slefað sér yfir einar kosningar. Þeir eru hissa á því að Alþingi njóti lítillar virðingar. Ég er ekki hissa á því. Við erum fleiri sem erum ekki hissa á því.

Það er þetta, herra forseti, sem er kjarni málsins. Aðfinnslur um stjórnarskrá, um ójafnan kosningarrétt og vanda í stjórnkerfinu, sem hefur leitt til vanda í félags- og efnahagskerfinu, eru auðvitað fullkomlega á rökum reistar. Þjóðfélagið umleikis þetta hús og um landið allt kallar á breytingar. En ekki svona breytingar. Það kallar á breytingar þar sem sanngjarnt tillit er tekið til hagsmuna þéttbýlis og hagsmuna dreifbýlis.

Sá sem hér stendur er þm, þéttbýlis, en vill ekki standa að uppskiptingu samfélagsins milli hinna þéttari byggða og hinna dreifðari. Ég er sannfærður um að í því kjördæmi sem ég er þm. fyrir er allur vilji til þess að þessi mál verði leyst með friði og sátt. Við viljum ekki að til ófriðar sé blásið á milli þéttbýlis og dreifbýlis og höfum aldrei viljað. Það er verið að gera tilraunir til þess. Menn eru að nota sér mál af þessu tagi, vegna þess hvað flokkakerfið hefur brugðist, til þess að afla sér stundarvinsælda. En við viljum það ekki og við erum fleiri.

Herra forseti. Ef flokkakerfið stæði í stykkinu, þá er hægt að finna lausn á þessu máli sem sættir til hlítar hinar þéttari byggðir og hinar dreifðari. Það er hægt með því að jafna kosningarrétt að hluta og hafa hann ójafnan að hluta. Það leysir auðvitað ekki fræðilega þan mál sem um hefur verið talað, um jafnan kosningarrétt. En við verðum þá að taka mið af því að þetta er stórt land, þar sem miðað við landsins stærð býr fátt fólk. Til slíkra aðstæðna verða menn að taka tillit. En ekkert af þessu er snert í þessu frv.

Við tölum, herra forseti, um vanda stjórnskipunarinnar, sem síðan er kallað stjórnarskrár- eða kjördæmamál. Menn verða að skilja hver hann er. Kosningarréttur hefur verið ójafn. Það þarf í sjálfu sér ekki að gera mikið til. En vegna þeirra starfsaðferða sem í þessu húsi hafa þróast, að löggjafarvaldið hefur ekki fyrst og fremst verið að setja lög og hafa eftirlit með því að lögum sé fylgt heldur hefur löggjafarvaldið, eða þeir einstaklingar sem eru handhafar þess og hér hafa setið, verið að koma sér fyrir í sjóðakerfinu og úthluta fjármagni til baka eftir sömu rásum og þeir hafa verið kosnir til. Af þeirri ástæðu hefur hinn ójafni kosningarréttur valdið svo miklum ójöfnuði í aðgangi að opinberum peninga- og skömmtunarstofnunum. Það hefur síðan aftur leitt til svo mikilla félagslegra og efnahagslegra skekkja.

Þetta er hægt að leiðrétta með einfaldri breytingu. Hún er sú að sumir menn gegni þeim störfum að framkvæma lög með ýmsum hætti. Aðrir menn — og ekki þeir sömu — gegni þeim störfum að setja landinu lög og hafa eftirlit með framkvæmd þeirra. Ég er ekki einn þm. um þessa skoðun. Hv. þm. Halldór Ásgrímsson flutti t. d. fyrir fáum árum frv. sem gekk mjög til þessarar áttar. Það var í sambandi við ríkisbókhald. Hv. þm. lýsti því vel með hverjum hætti þetta hefur leitt okkur í ógöngur. Og það sem meira er. Það þarf ekki að leita mörg ár aftur í tímann til að margir a. m. k. eldri hv. þm. Framsfl. þekki slíkar umr. úr sínum röðum.

Það er þetta sem hefur gert það að verkum, að hinn ójafni kosningarréttur hefur leitt til félagslegs ójafnaðar og efnahagslegra skekkja. Sé þessu breytt, þá er eftir sem áður réttlætanlegt að kosningarréttur sé ójafn í þágu dreifbýlis, vegna þess að aðstæður þar eru allt aðrar en í þéttbýli. Það er þetta, herra forseti, sem við verðum að fara að horfa meira á, að ójafn kosningarréttur er ekki vandi flokkanna fyrst og fremst, þó að þessir herramenn komi hér hver á fætur öðrum úr fjórflokkunum og lýsi ójöfnum kosningarrétti sem vanda flokkanna. Vandi flokkanna kemur þessu máli ekkert við. Hitt er alvarlegra, þegar þessi ójafni kosningarréttur er farinn að koma fram í ójöfnu félagskerfi og jafnvægislausu efnahagskerfi. Það er það sem hefur gerst.

Af þessari ástæðu, herra forseti, höfum við, sem stöndum að Bandalagi jafnaðarmanna og höfum verið að kynna þau samtök um landið vítt og breitt, lagt til að í þessum efnum verði allt öðruvísi farið að. Nefnilega þannig, að kosningarréttur verði jafnaður algerlega að því er framkvæmdavaldið varðar, ríkisstj., forsrh., hvað við köllum það hverju sinni. Þannig verði kosið, að sérhver einstaklingur í landinu, dreift búandi eða þétt búandi, hafi eitt og jafnt atkv., og sá einstaklingur, hann eða hún, sem kosinn kann að verða, skipi með sér síðan ríkisstj. Með þessum hætti verði kosningarréttur í landinu algerlega jafnaður.

Þessar hugmyndir hafa verið gagnrýndar. Þær hafa verið gagnrýndar sem ákall á hinn sterka mann. Þetta er auðvitað rangt og út í hött. Það er hvorki sterkari né veikari maður en hinn, sem nú situr og hefur setið undanfarin ár. Það eina sem verið er að leggja til er að sá aðili verði ekki þingkjörinn eins og verið hefur heldur þjóðkjörinn. Orðið þingræði, sem er auðvitað vont orð á íslensku og þýðing á allt öðru orði í útlendum málum, hefur villt mönnum sýn í þessum efnum, m. a. þeim sem skrifar forustugreinar í Morgunblaðið. En látum það allt liggja á milli hluta.

Í öðru lagi, herra forseti, þegar menn eru að ákveða hvað þm. eigi að vera margir þurfa þeir að hafa einhverjar hugmyndir um það hvað þm. eiga að gera. Við leggjum til að um leið og fjöldi þm., sem við viljum hafa óbreyttan, er ákvarðaður, þá sé það skýrt hvað þm. eru. Það er auðvitað skýrt nokkurn veginn af stjórnarskránni, en hefur hins vegar þróast áratugum saman til allt annarrar áttar. Þeir eru nefnilega löggjafar og eiga að setja lög og ekki að sinna öðrum opinberum störfum. Við leggjum til að með þessari breytingu komi önnur, sem er sú, að skilið verði milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds, alveg með sama hætti og dómstólarnir eru skildir frá hinum tveimur valdþáttunum og enginn í þessu þjóðfélagi að ég hygg dregur í efa að rétt skuli vera.

Ég hef lýst því að ójafn kosningarréttur er óréttlætanlegur þegar hann leiðir til efnahagslegrar skekkju í gegnum sjóðakerfið. Hann er réttlætanlegur þegar aðeins er verið að hugsa um vernd hinna dreifðari byggða. Það er það sem er kjarni málsins. Við leggjum til að þeir þm. sem eru að afsala sér sjóðavöldunum fái í staðinn eftirlitsvöld með framkvæmd laga í gegnum þingnefndir, sem af sjálfu leiðir. Að þessu sögðu, herra forseti, leggjum við til að kjördæmaskipan verði óbreytt, þm. verði 60 en ekki 63. Því að þegar menn eru búnir að jafna kosningarrétt framkvæmdavalds meir og gera það með róttækum hætti, að einn maður hafi eitt atkv., þá verða menn auðvitað að gæta þess, að það verður að halda uppi byggðastefnu og byggð í landinu. Þá er forsvaranlegt að réttar hinna dreifðari byggða sé gætt með þeim hætti.

Í fimmta lagi, herra forseti, er það auðvitað hárrétt, sem fram kom hjá foringjunum fjórum hér áðan, að það á að auka valkosti kjósenda í kosningum, enda skárra væri það og aldeilis sjálfsagt. Ég tala nú ekki um þegar menn til skamms tíma höfðu ekki um annað að velja en fjóra flokka sem allir eru raunverulega eins. Það á auðvitað að leyfa fólki, ef það svo kýs, að kjósa lista eða kjósa einstakling eða einstaklinga á milli lista. En þær yfirlýsingar, herra forseti, sem hér hafa verið gefnar um þetta, eru einskis virði. Þær tilvísanir í fskj. og grg. Enda hygg ég að þetta eigi að vera fjaðrir fyrir kosningar, sem gleymist þegar að kosningum loknum.

En, herra forseti, það er ekkert óeðlilegt við það, heldur beinlínis rétt að setja ekki aðeins inn í stjórnarskrána eða kosningaþátt hennar tillögur um fjölda þm., sem við leggjum til að verði 60, heldur einnig um kosningaaðferðina sjálfa. Sá sem hér stendur hefur flutt um það frv. til l. að kosningaaðferðin sé slík, að kjósandi geti kosið lista, hann geti kosið einn einstakling af lista, eða svo marga einstaklinga af svo mörgum listum sem hann vill, upp að tölum kjörinna fulltrúa, og skiptist þá atkvæði á milli listanna í þessum hlutföllum. Ég vil eindregið taka undir það með fulltrúum fjórflokkanna að þetta er rétt og skynsamleg aðferð.

Ég er, herra forseti, að boða brtt. við þetta frv. sem ekkert er og hér liggur fyrir framan mig. Ég skildi yfirlýsingu fjórflokkaforingjanna þannig, að þeir mundu styðja slíka brtt., sem flutt verður við þetta frv., um að persónuval verði aukið. Og við göngum lengra. Við leyfum mönnum að kjósa á milli lista ef menn svo kjósa.

Það á auðvitað ekki að vera hlutverk Alþingis að halda einhverjum flokkalistum að þjóðinni ef þjóðin vill kjósa öðruvísi, vill kjósa einstaklinga milli lista. Við eigum ekki að vera að lögbinda skoðanir sem kannske koma ekki nálægt raunverulegri skoðanamyndun fólksins í landinu. En þegar fólki er aðeins heimilt að kjósa einn lista, ekki annan eða aðra, þá er auðvitað verið að lögbinda skoðanir. Ég fellst á að fyrir ekki mörgum árum síðan var rétt að gera það, meðan raunverulegur munur var á flokkunum. Hann er ekki til staðar lengur. Enginn grundvallarmunur. Þetta eigum við að viðurkenna með því að ef fólk vill fara listaleiðina og kjósa lista, þá gerir það það. Ef listarnir bjóða upp á raunverulega valkosti, þá kýs fólk listana. Ef ekki er um neitt slíkt að ræða, þá kýs fólk auðvitað milli lista. Það verður bara að ráðast með hverjum hætti kjósandi kýs að nýta sér slík réttindi.

Ef Alþb. verður eins langt frá hinum flokkunum og það segist vera, þá auðvitað kjósa þeir sem aðhyllast Alþb. þann lista. En ef þetta er nú orðið eitthvað blandnara, sem mig grunar, þá kemur það auðvitað fram í því hvernig fólk kýs. Við erum ekki bara að þvinga eða hindra.

En þetta er ekki kjarni málsins, heldur hitt, að hér hafa þeir staðið upp hver á fætur öðrum tilbúnir til að auka persónuvalið. Brtt. um það verður flutt við 2. umr. málsins ásamt með öðrum þeim atriðum sem ég hef hér nefnt. Ég vænti stuðnings við hana, því að ekki eru þetta orðin tóm væntanlega sem hér er verið að flytja og allur þessi fagri parsus hér, sem þeir segja, herra forseti, að þeir hafi komið sér saman um.

Hér stendur á bls. 3, herra forseti: „Þingflokkar Alþb., Alþfl., Framsfl. og Sjálfstfl.“ — minna má það nú ekki vera — „sem að frv. þessu standa, hafa auk þess orðið ásáttir um eftirfarandi.“ Ég nefni bara, herra forseti, nr. 2: „Að beita sér fyrir aukinni valddreifingu og virkara lýðræði samhliða afgreiðslu nýrrar stjórnarskrár.“ Þetta er nú ekki lítið, herra forseti, sem þessir háu herrar ætla að beita sér fyrir. En það sést hvergi í frv., sem þeir svo eru að flytja, hvernig þetta eigi að koma fram.

Hér og nú boða ég brtt. við þetta frv., sem ég hef þegar lýst, að þrátt fyrir það að hér sé verið að ákvarða um kosningu þm., þá verði framkvæmdavaldið tekið út fyrir sviga og kosið sérstaklega beinni kosningu í tvöfaldri umferð, þar sem allir hafi eitt og jafnt atkv.

Í öðru lagi um algeran aðskilnað þess þings sem við hér erum að fjalla um og framkvæmdavaldsins.

Í þriðja lagi um eftirlitsvald þingsins sem það fær í auknum mæli um leið og það missir sjóðavöldin.

Í fjórða lagi um óbreytta kjördæmaskipan.

Og svo í fimmta lagi um nýja kosningaaðferð, þar sem menn fái þetta persónuval, sem foringjasveitin, sem ætlar að beita sér fyrir aukinni valddreifingu og virkara lýðræði hlýtur auðvitað að vera mér sammála um að eigi þá að koma inn í stjórnarskrána. Ekki trúi ég því að hér fari hjá þeim yfirlýsingarnar einar. Efndirnar eru vanar að koma á eftir.

Herra forseti. Þetta frv., eins og það hér stendur, frv. til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, er ónýtur pappír og fjallar aðeins um eitt: Um fjölgun þm. úr 60 í 63. Allt hitt eru óskir í grg. og fskj., sem þeir menn sem nú skipa bekki Alþingis koma ekki til með að fjalla um, heldur hið næsta Alþingi. Menn verða að skilja þarna á milli. Það eina sem lagt er til hér til samþykktar eða synjunar er fjölgunin um þrjá. Allt hitt er óuppgert.

Ég vek enn athygli á því, að í b-lið 1. gr., sem er brtt. við 31. gr., segir þegar búið er að gera ráð fyrir þessum 54: „A. m. k. átta þingsætum skal ráðstafa til kjördæma fyrir hverjar kosningar samkv. ákvæðum í kosningalögum.“ Það segir ekkert um hvernig. Það er verið að bjóða upp á ég vil segja blóðugan og heldur ógeðfelldan slag hér að kosningum loknum um hvernig þessum málum skuli háttað. Auðvitað verður nýtt þing ekki hið minnsta bundið af einhverjum framsöguræðum og greinargerðum og fylgiskjölum sem með þessum pappír er. Það er bara blekking, fullkomin blekking.

Í annan stað, herra forseti, vil ég mjög vara við því orðalagi sem hér er að finna og ég hef lesið upp áður. Þar segir: „Við úthlutun þingsæta samkv. kosningaúrslitum skal gæta þess svo sem kostur er.“ Þetta orðalag er fyrir neðan allar hellur og á undir engum kringumstæðum heima í stjórnarskrá lýðveldisins. Ef menn ákvarða hluti þar, þá eiga þeir að standa eins og þeir eru ákvarðaðir. Það á ekki að viðhafa orðalag sem gefur mörgum sjónarmiðum undir fótinn. En auðvitað er leikurinn til þess gerður, vegna þess að það er ekki nokkur sátt í þessu gamla flokkakerfi, hvað sem foringjarnir fjórir hafa hér sagt í sínum ræðum. Þetta er allt sundrað út og suður, svo sem efni málsins gefur tilefni til.

Það er því ljóst af því, herra forseti, sem ég hef hér sagt, að ég er andvígur þessu frv. Ég tel þetta ekki vera nokkra lausn. Þetta er aðeins frv. til þeirrar áttar, að fjórflokkakerfi geti komið fram fyrir þjóðina og sagt: Þetta er lausnin. En þetta er engin lausn. Þeir eru ekki búnir að koma sér saman um neitt annað en fjölgun þm. um þrjá. Og þeir freista þess að geta fleygt sér út í kosningar með þessum hætti og sagt síðan: Við náðum samkomulagi, eins og hér hefur svo fagurlega verið galað af þeim fjórum á undan mér. En þetta er ekkert samkomulag. Öllu sem máli skiptir er eftir að ganga frá. Ég fullyrði það, að sé þessi leikur til þess gerður að blekkja einhvern, þá blekkir hann ekki nokkurn mann í þessu húsi. Og mín sannfæring stendur til þess, að utan þessa húss verði heldur enginn blekktur.

Þetta er ekki nokkur lausn. Það er aðeins þetta sem er verið að leggja til. Hitt er allt eftir. Og meira að segja er sett grein í stjórnarskána sem gefur undir fótinn með loðnu orðalagi og loðmullulegri hugsun, sem hægt er að túlka til svo margra átta sem menn kjósa. Að leyfa sér að leggja fyrir þingið orðalag sem þetta: „svo sem kostur er“ í sjálfri stjórnarskrá lýðveldisins, það er auðvitað alveg með eindæmum og fordæmislaust að með þessum hætti skuli vera að málum staðið.

Þessi pappír, herra forseti, fjallar um flokkakerfið og innri vanda þess, sem þeir þykjast vera að leysa. Hann fjallar undir engum kringumstæðum um það samspil stjórnarskrár og kjördæmamála annars vegar og félagsog efnahagsmála hins vegar, sem ætti að vera kjarni þessa máls. Þeir snerta ekki á því. Þeir hafa verið að reikna sig inn, eins og sagt er, og þeir lofa hinu og þessu í einhverjum fskj. Þó er þannig um hnútana búið, að það þarf aldrei að standa við það og aldrei að efna það.

Eftir alla þá vinnu sem í þetta er búið að leggja er auðvitað búið að hrósa fólki út um allt. Og allt á það fólk auðvitað hrós skilið. En vinnan þess hefur komið fyrir lítið. Það verður að segjast. Meira að segja er þetta svo klúðurslega orðaður texti að hann er óskiljanlegur. Ég nefni enn dæmi. Hér segir, herra forseti, í þessari sömu gr.: „Er þá heimilt að úthluta allt að fjórðungi þingsæta hvers kjördæmis með hliðsjón af kosningaúrslitum á landinu öllu.“ Ég bið menn að hugsa um þessar setningar. Þær eru óskiljanlegar. Fjórðung af hverju er hér verið að tala um? Mér sýnist við fljótan yfirlestur að þessar setningar gangi ekki upp. (Gripið fram í.) Nei, þær gera það nefnilega ekki, því að fjórðungur af 14 eins og hér varðar Reykjavík nær ekki fjórum þingsætum og verður þá þrjú þingsæti. Ég þykist vita hvað fyrir þeim vakir, því að það er að finna í einu af þessum fskj., en eins og setningin er orðuð gengur þetta ekki upp. Ætti a. m. k. sú nefnd sem þetta fær að íhuga það betur.

Þetta virðist vera svona í einu og öllu. Það er hvergi snert á neinum vanda. En hér koma þeir upp einn og þrír og hrósa sér af því að þeir hafi náð sáttum. Og einn þeirra, hæstv. sjútvrh., endaði á því að betur væri að þeir hefðu náð með sama hætti sáttum í efnahagsmálum. Ég vil nú segja þjóðarinnar vegna: guði er fyrir þakkandi að þeir hafa ekki náð sáttum af þessari gerðinni í efnahagsmálum. En svona yrði það ef þeir kæmu saman allir.

Það er því deginum ljósara, herra forseti, að ég er andvígur þessu frv. Ég mun freista þess að flytja við það þær brtt. sem hér hefur verið lýst. Auðvitað mun þjóðin horfa á það hversu langt þær komast, t. d. hvernig verður háttað atkvgr. um það eðli í starfsemi löggjafarþingsins, að skilið verði milli þess og starfsemi framkvæmdavaldsins. Við erum að fara út í kosningar og um þetta verður kosið m. a. Ég fullyrði það, herra forseti, að þetta frv. er fram sett til þess að blekkja þjóðina að því leytinu til, að hér sé allt í sátt og eindrægni. En ég segi, herra forseti, að sú sátt og sú eindrægni er, eins og hlaut auðvitað að vera eðli málsins samkvæmt, utan um nákvæmlega ekki neitt. Það er skelfileg niðurstaða mikillar vinnu og margra ára. En ástæðan fyrir þessu er auðvitað sú, að félags- og flokkakerfið sem að þessu stendur er ónýtt að því leytinu til, að skoðanir þess eiga ekkert skylt við þær skoðanir sem bærast út um hið víða og breiða land. Fyrir vikið verður niðurstaðan af þessu tagi. Ég fullyrði að þetta frv. mun valda óánægju í dreifbýli og fyrirlitningu í þéttbýli. Þannig er til þessa leiks stofnað og þeir sem að honum hafa staðið verða að skilja að þeir munu auðvitað ekki uppskera öðruvísi en til hefur verið sáð. Þetta er frv. utan um ekki neitt. Það er þessi venjulegi friður hér innan húss sem er eins og alltaf friður gegn fólkinu í landinu.

Herra forseti. Ég hef lýst afstöðu minni til þessa frv. Ég er andvígur því. Ég hef lýst því einnig, að ég mun freista þess að flytja við það allmargar brtt. sem auðvitað eru í anda þeirrar stefnu sem Bandalag jafnaðarmanna hefur mótað. Ég geri mér varla vonir um að það nái mjög langt að þessu sinni og á þessu þingi. En einhvern veginn segir mér svo hugur um, að fráhlaupin séu byrjuð í fjórflokkakerfinu og þeir standi ekki jafngallharðir saman eins og þeir fjórmenningar gáfu í skyn þegar þeir töltu hér í ræðustólinn hver á fætur öðrum áðan. Ég hygg að með einhverjum hv. alþm. bærist sú sæmilega hugsun, að svona blekkingarleik sé ekki hægt að leyfa sér frammi fyrir fólkinu í þessu landi. Þetta frv. er til þess eins flutt að sýna þjóðinni að flokkakerfið geti nú sitthvað, þeir geti komið sér saman, þeir geti náð samkomulagi og komist að niðurstöðu. En hvaða niðurstöðu, herra forseti? Niðurstöðu um ekki neitt. Það er það sem er málið. Þetta frv. er frv. um fjölgun alþm. um þrjá og ekkert annað. Þegar af þeirri ástæðu, þar sem ekki er snert á neinum öðrum hluta þessa máls, er ég andvígur því. Ég er mjög andvígur því. — [Fundarhlé.]