03.11.1982
Efri deild: 7. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í B-deild Alþingistíðinda. (207)

59. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Forseti (Helgi Seljan):

Hv. 1. flm. hefur óskað eftir því að umr. um þetta dagskrármál yrði nú frestað og gerðar yrðu ráðstafanir til þess við framhaldsumr. að hæstv. félmrh. yrði viðstaddur. Skal ég að sjálfsögðu verða við því. Ég vil aðeins taka það fram út af umr. um fjarveru hæstv. félmrh. við þessa umr., að hæstv. ráðh. var bundinn í Nd. í framsögu um það leyti sem þessi umr. hófst, en þó er öllu fremur að hv. 1. flm. hafði ekki óskað þess við mig að ráðh. væri viðstaddur. Ég veit að bæði skrifara mínum og hv. 1. flm. er kunnugt um að ég geri ævinlega fyllstu ráðstafanir til að sjá til þess að ráðherrar séu viðstaddir þegar þess er óskað, enda tel ég það sjálfsagða skyldu, svo fremi sem þeim sé það kleift, að þeir séu viðstaddir. (ÞK: Hefur hæstv. ráðh. verið upptekinn í sinni framsögu allan fundartímann í dag?) Ég hef ekki kannað það, en mundi hafa gert það ef sérstök ósk hefði komið fram um það, þá hefði ég að sjálfsögðu athugað málið. Mér var þó kunnugt um að hann fylgdi úr hlaði máli sem var til umr. allnokkuð fram eftir. Þar sem hv. 1. flm. hefur nú lokið máli sínu hygg ég að það sé réttast að hæstv. ráðh. lesi ræðu hans yfir og síðan sé beint til hans spurningum í framhaldi af því. Ég tel því rétt að fresta umr. um þetta mál og taka það út af dagskrá nú.