28.02.1983
Neðri deild: 46. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2330 í B-deild Alþingistíðinda. (2072)

206. mál, stjórnarskipunarlög

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Á þskj. 367 hafa menn fyrir framan sig afrakstur um 16 vikna starfs forustumanna stjórnmálaflokkanna hér á Alþingi og nú er það okkar og almennings í landinu að vega og meta hvað hér hefur áunnist, hvers virði það er og hvort það er í réttlætisátt.

Það hefur komið fram í umr. í dag hjá ýmsum að tiltölulega lítið hafi hafst upp úr því starfi sem hér er um að ræða. Þetta frv. er fjórar greinar. Mér sýnist það vera í kringum 40 línur á þessum 16 vikum. Það eru í kringum þrjár línur sem mótast hafa á hverri vinnuviku þessara 16 vikna sem hér er um að ræða. Það er ca. hálf lína á dag á þeim vinnudögum sem forustumenn stjórnmálaflokkanna hér á Alþingi hafa lagt í að koma frá sér þessu plaggi.

Nú segir þetta auðvitað ekki alla söguna um þetta mál. Það getur verið tiltölulega mikið innihald og efnisríkt í tiltölulega fáum orðum og ekki löngu máli. En frá mínum sjónarhóli séð virðast forustumenn stjórnmálaflokkanna hér á Alþingi ekki hafa uppskorið árangur sem erfiði í þessu máli.

Það segir, herra forseti, í grg. með þessu frv., að þingflokkar Alþb., Alþfl., Framsfl. og Sjálfstfl., sem að frv. þessu standa, hafi auk þess orðið ásáttir um eftirfarandi, og síðan er talið upp. Nú vil ég taka það fram strax við 1. umr. þessa máls að ég er andvígur því. Ég er andvígur þessu máli. Það er því ekki allur þingflokkur Alþfl. sem að því stendur Þetta vil ég að menn hafi á hreinu strax í upphafi umr. um þetta mál hér í þinginu, og geri raunar ráð fyrir að þetta sé fyrir alllöngu orðið nokkuð kunnugt sjónarmið, þ. e. afstaða mín, hjá þeim aðilum sem að þessu máli hafa unnið.

Í nokkuð langan tíma hafa verið umræður í gangi, að ég held fyrst og fremst í tiltölulega fámennum hópi pólitískra forustumanna á tilteknum svæðum, þar sem krafist er jöfnunar á hinu margumtalaða misvægi atkvæða, og er það flokkað undir mannréttindamál.

Stjórnarskrárnefnd hefur starfað alllengi. Stjórnarskráin hefur í raun og veru verið í endurskoðun í um 40 ár. Hér er þá niðurstaða þess starfs, í því frv. sem hér er lagt til. Hins vegar ber að taka fram, að með þessu frv. fylgir allítarleg grg. og fskj. sem veita ýmsar upplýsingar um marga þá þætti sem að þessu máli lúta. En frv. er eigi að síður ekki meira innihaldslega séð en það sem ég var nú að segja og margir aðrir hafa gert að umræðuefni.

Það hefur komið fram hér við umr. af hálfu talsmanna Alþfl., að þingflokkur Alþfl. hefur verið þeirrar skoðunar frá upphafi umr. um þetta mál að það bæri að afgreiða stjórnarskrármálið og kjördæmamálið sem heild, en ekki slíta kjördæmamálið úr samhengi. Ég tala nú ekki um að slíta þannig úr samhengi að þetta frv. er einvörðungu um að fjölga þm. um þrjá frá því sem er og miða kosningarrétt við 18 ára aldur.

Það er kannske ill tilgáta, en mér sýnist að eftir þessu frv. að dæma telji forustumenn stjórnmálaflokkanna það lausn alls vanda í þjóðfélaginu nú að fjölga þm. um þrjá og draga vald frá dreifbýlinu og flytja það hingað á þéttbýlissvæðið. Ég sé ekki betur en þetta sé, eftir frv. að dæma, sjónarmið og skoðun forustumanna allra stjórnmálaflokkanna sem eiga fulltrúa hér á Alþingi, þ. e. flutningur valds frá dreifbýli til þéttbýlis frá því sem nú er.

Ég held að rétt sé að það komi fram strax, að auðvitað eru menn ekki almennt andvígir því að leiðrétta í þessu tilfelli það misvægi atkv. sem um er að ræða. En það vill svo til, kannske því miður, að ótal mörg önnur mál í þjóðfélaginu eru þess eðlis að þau krefjast beinlínis líka leiðréttingar og jöfnunar. Og hvað sem menn segja um að ekki megi samtímis tala um þessi leiðréttingarmál samhliða því sem verið sé að ræða stjórnarskrármál komast menn ekki endalaust fram hjá því að það verður að taka á þeim málum líka.

Þó að ég segi að þetta frv. sé innihaldslítið skal ég viðurkenna að það sýnir þó hvað hægt er að komast ef hin pólitíska forusta, forustumenn hinna pólitísku flokka, er sammála um eitthvað hér á Alþingi. Þá er hægt að ná býsna langt og leiðrétta býsna margt. Ég hefði viljað sjá þessa sömu pólitísku forustumenn í stjórnmálaflokkunum víkka sjóndeildarhringinn til að leiðrétta og jafna fleiri misvægismál í þjóðfélaginu en einvörðungu það sem snýr að atkvæðisréttinum. Ég setti það því strax fram í umr. í þingflokki Alþfl. að ég teldi að nota ætti það færi sem nú gafst í sambandi við umr. og hugsanlega ákvarðanatöku um leiðréttingu á því misvægi atkv. sem um er talað til að gera samhliða leiðréttingar á öðru óréttlæti sem við búum við og við blasir víðs vegar í þjóðfélaginu. Það ætti að nota þetta tækifæri til að koma þessum leiðréttingarmálum líka fram fyrir fólk hinna dreifðu byggða.

Nú segja menn: Það fylgir þessu yfirlýsing um að stefnt skuli að valddreifingu í þjóðfélaginu, auknu sjálfsforræði sveitarfélaga og lagfæringu á hinni félagslegu aðstöðu víðs vegar. Ég gef ekkert fyrir slíkar yfirlýsingar. Ef menn á annað borð meina eitthvað með því að eitthvað þurfi að leiðrétta, það sé svo mikið óréttlæti í þjóðfélaginu, hljóta menn jafnframt að vera reiðubúnir að taka á málinu og ganga frá því. Mér finnst það a. m. k. undarlegt, svo að ekki sé meira sagt, að formenn allra stjórnmálaflokkanna í landinu skuli ekki treysta sér til að taka saman höndum um það hér á Alþingi samhliða afgreiðslu á hugsanlegu frv., eins og hér liggur fyrir um jöfnun á atkvæðisrétti, að taka aðra þætti jafnframt, þó ekki séu bundnir í stjórnarskrá, og afgreiða leiðréttingarmál hér á Alþingi samhliða því sem er verið að breyta stjórnarskrá eða kosningalögum. Ég fullyrði, að fyrst menn ekki treysta sér til þess að gera þetta skorti vilja. Það skortir vilja hinnar pólitísku forustu í landinu til þess að leiðrétta það ranglæti sem við blasir svo að segja hvarvetna, annars vegar milli hinna dreifðu byggða og þess fólks sem þær byggir og hins vegar milli þéttbýlissvæðisins hér á Faxaflóasvæðinu. Það eru til margar frómar yfirlýsingar, ég hugsa allra pólitísku flokkanna í landinu, um að það þurfi að jafna þarna á milli, að menn eigi að njóta jafnréttis án þess að tillit sé tekið til búsetu, en afskaplega skammt hefur miðað, að mér finnst, í þeim efnum, vægast sagt lítið sem ekkert gerst að því er það varðar. Ég gef því ekkert fyrir yfirlýsingar af því tagi sem eru í fskj. með frv., þó að enn ein komi um að stefnt skuli að þessu eða hinu. Þær hafa yfirleitt allar, a. m. k. flestar ef ekki allar, verið sviknar í reynd. Og ég hef enga ástæðu til þess að ætla annað í ljósi reynslunnar en á sama veg fari með þá yfirlýsingu sem er í fskj. með þessu frv.

Það skal þó koma hér fram, þannig að menn viti það líka, að að frumkvæði Alþfl.-fulltrúa í þessum svokallaða formannaklúbbi, eins og menn kalla hann nú, í viðræðum um þetta mál, var tekin upp umr. um að jafna þyrfti fleira innan þjóðfélagsins en einvörðungu það sem sneri að jöfnun á atkvæðisrétti. Það mál virðist hins vegar hafa strandað. (ÓÞÞ: Breytist nokkuð við það?) Það er það sem ég er að koma að. Ég dreg þá ályktun — og hlustaðu nú, hv. skrifari, — að það mál hafi strandað annars staðar en hjá fulltrúum Alþfl. Og ég óska gjarnan eftir því að það komi fram í umr. hvar sá þröskuldur var sem kom í veg fyrir að önnur leiðréttingarmál og fleiri, sem eru síst minni en hér er um að ræða, næðu fram að ganga, hvað kom í veg fyrir og hvar það strandaði að leiðrétting fengist.

Það var hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson sem sagði áðan að einn glæsilegasti kafli í sögu Alþfl. væri jöfnun atkvæðisréttarins. Það hygg ég að sé út af fyrir sig rétt. En það eru fleiri ákvæði í stefnuskrá Alþfl. til jöfnunar mannréttinda en bara jöfnun atkvæðisréttarins. Það gæti líka verið glæsilegur kafli í stjórnmálasögu Alþfl. hefði honum auðnast að koma fram í tengslum við það sem hér á nú að gerast leiðréttingum á fleiri sviðum en að því er þetta eina mál varðar. Sá kafli hefði líka getað gnæft hátt í sögu Alþfl., ef honum hefði auðnast að koma slíku fram.

Það er best að koma því frá sér strax að mér ofbýður þegar forustumenn stjórnmálaflokkanna, í því ástandi sem ríkir í þjóðfélaginu í dag, eru svo að krefjast þess, vilja helst koma því hér inn í frv., að tvennar kosningar a. m. k. fari fram á þessu ári með sem stystu millibili. Forustumenn stjórnmálaflokkanna í landinu virðast vilja horfa upp á að algert öngþveiti og ófremdarástand ríki áfram í stjórn efnahagsmála hér á landi — eða hverjum dettur það í hug að nokkur ríkisstj., sem að gagni réði við þann vanda sem við er að glíma, verði mynduð verði kosið í apríl og aftur í júní? Hverjum dettur í hug að búið verði að mynda starfhæfa ríkisstj.?

Hv. 4. þm. Reykv. kallar sig yfirleitt þm. Bandalags jafnaðarmanna, sem er algerlega rangt, og það er rétt að það komi hér fram, því að hv. 4. þm. Reykv., Vilmundur Gylfason, er ekki þm. Bandalags jafnaðarmanna. Hann hefur ekki verið kjörinn á þing af því, a. m. k. ekki enn. Hann segir að sér detti ekki í hug að starfhæf ríkisstjórn verði hér á þessu tveggja mánaða tímabili, og geti honum ekki dottið það í hug, þá hverjum? (Gripið fram í.) Það fer nú eftir því hvernig menn taka það. — Það er því augljóst og það er í raun og veru furðulegt að hlusta á það frá forustumönnum stjórnmálaflokka í landinu, hinum pólitísku leiðtogum sem eiga að vera, að þeir krefjist í raun og veru þess, að í því ástandi efnahagsmála sem þjóðin nú býr við verði kosið með tveggja mánaða bili á þessu ári, sem þýðir auðvitað að engin starthæf ríkisstj., sem ræður við þau vandamál sem við blasa og verður að leysa, verður að líkindum til fyrr en á haustmánuðum. Ætla menn þá að láta allt reka á reiðanum til þess tíma, hafa landið stjórnlaust áfram eins og það nú er?

Ég er viss um að almenningur í landinu krefst annars af hinum pólitísku foringjum en þess, að þetta frv., sem hér er um að ræða, sé númer eitt til þess að leysa allan vanda þjóðfélagsins, og hann krefst annars af forustumönnum stjórnmálaflokkanna og þm. almennt talað en þeir haldi þannig á þessum málum að krefjast þess beinlínis að þjóðinni verði dembt út í tvennar kosningar á þessu sama ári. Ég a. m. k. hef ekki heyrt þær raddir frá almenningi í landinu að það sé lífsspursmál eða raunar eina bjargráðið í þeim vanda sem við nú stöndum í að haga málum með þessum hætti. Og það verður að segjast, að það er ekki beint aðlaðandi eða trúverðugt að eina málið sem foringjar stjórnmálaflokkanna hér á Alþingi geta komið sér saman um í ríkjandi þjóðfélagsástandi sé að fjölga þm. um þrjá, breyta valdahlutföllum frá dreifbýli til þéttbýlis, í raun og veru sé það eina sem hér sé lagt til að tryggja þm. sjálfa. Það er ekki trúverðugt, að mínu viti, þegar þannig er á málum haldið af þeim sem kjörnir hafa verið til forustu á þjóðmálasviðinu í landinu. Mér sýnist að meðalmennskan tröllríði í þessu máli sem öðrum að því er varðar lausn á meginvanda sem íslenskt þjóðfélag stendur í.

Ég sagði áðan að ég liti svo á, að sá þrýstihópur, sem uppi hefur verið með kröfuna um mannréttindi, eitt atkvæði á einn mann, sé tiltölulega fámennur og sú krafa sé fyrst og fremst í munni nokkurra pólitíkusa á þessu landssvæði, sem við nú dveljumst á, það sé ekki almenn krafa kjósenda í þjóðfélaginu. Ég held næstum því að það megi taka sér í munn orð hæstv. sjútvrh. og segja: Það skyldi ekki vera að þjóðin væri í þessu tilfelli miklu skynsamari og á annarri skoðun en hinir pólitísku foringjar í þessu máli.

Þeir eru margir sem telja að það skorti á mannréttindi á þessum þéttbýlustu svæðum landsins að því er varðar kosningarrétt. Ekki skal ég draga úr því. Ég hef meira að segja lýst því yfir áður að ég tel það nokkuð sjálfgefið að slíkt þurfi að leiðrétta. En það er algerlega andstætt a. m. k. mínum hugmyndum um jafnaðarmennsku og jafnrétti að slíta þetta eitt og sér úr tengslum við öll önnur mál þegar við horfum daglega upp á fjölda mála og málaflokka innan þjóðfélagsins sem hið megnasta óréttlæti blasir við í — eða hefði það verið ofrausn af hinum pólitísku foringjum og Alþingi almennt talað þó ekki hefði verið afgreitt nema eitt annað réttlætismál í tengslum við þetta hér? Þá er ég að tala um jöfnun orkuverðs. Er það til of mikils mælst að hið pólitíska afl í landinu hefði knúið fram samstöðu um afgreiðslu á slíku réttlætismáli samhliða því sem t. d. þetta frv. yrði afgreitt hér á Alþingi? Til þess virðast menn ekki treysta sér. Og það er forkastanlegt að mínu viti horfandi upp á það herfilega óréttlæti sem við blasir í þessum efnum. Menn virðast ekki trúa því eða loka þá bæði augum og eyrum fyrir þeirri staðreynd t. d., að í hverjum einasta mánuði — þetta ættu þm. Vestf. að vita — borga menn á Vestfjörðum upp í 5 þús. kr. á mánuði fyrir að hita upp íbúðina og rafmagn til heimilisnota. Telja menn ekki skort á mannréttindum ef slíkt er ekki leiðrétt? Og svona mætti telja upp fleira þó að þetta stingi mest í augu að því er varðar óréttlætið.

Ég þarf ekki, herra forseti, að hafa þessi orð öllu fleiri. — Mér heyrist nú þeir kalla fram í sem síst skyldi, þeir sem kannske hafa fyrst og fremst brugðist sínum umbjóðendum í leiðréttingu þessara mála, og þar á ég við hv. 6. þm. Norðurl. e. og hv. þm. Halldór Ásgrímsson ekki síður. En það er full ástæða til að minna á þessi mál, að mér finnst, undir umr. um frv. eins og það sem hér er nú lagt fram.

Ég fullyrði að dreifbýlisfólk almennt talað er ekki andvígt því að atkvæðisréttur sé jafnaður í landinu. En það hlýtur að krefjast þess jafnhliða að annað óréttlæti sé líka lagfært, misvægi á öðrum sviðum sé líka minnkað og lagfært. Það er að mínu viti fullkomlega eðlileg og sjálfsögð krafa. Raunar er furðulegt hvað þm. hefur lengi liðist að haga sér með þeim hætti sem raun ber vitni að því er þessa þætti varðar.

Menn segja: Reykvíkingar og Reyknesingar eru settir hjá að því er varðar áhrifavald á löggjafarsamkomunni — og líklega þá líka áhrif á gang mála í stjórnsýslukerfinu skyldi maður ætla. Það er fróðlegt að velta því fyrir sér að á árinu 1975, ef við tökum Reykjavíkursvæðið, var gerð, að vísu lausleg, athugun á þessu, og þá kom í ljós að samkv. ríkisreikningi fyrir árið 1974 námu launagreiðslur ríkisstarfsmanna um 6 þús. millj. kr. Af þessum 6 þús. millj. naut höfuðborgarsvæðið 5 þús. millj. vegna þessara sömu starfsmanna — 5 þús. millj. 1974, hv. þm. Árni Gunnarsson, og hlustaðu vel. Svo koma menn hér upp og segja: Þessi svæði eru sett hjá. Þó skipti það milljörðum á ári sem þessi landssvæði fengu í afrakstur af starfsmönnum sem allir þegnar þessa lands borga kaup. Ég held að menn ættu að átta sig á þeim staðreyndum, sem hér eru í þessu máli, áður en menn fara að fullyrða að það sé út í bláinn að tala um jöfnuð á fleiri sviðum en bara jöfnun kosningarréttar. Sú fullyrðing sem alltaf kemur fram og síðast nú í umr. um þetta mál: Þessu má ekki blanda saman, þetta má ekki afgreiða saman, þetta skal afgreiðast fyrst. Frómar yfirlýsingar, sem jafnharðan eru sviknar, skulu koma með í sambandi við hinn leiðréttingaþáttinn. Þetta er það sem við fáum að heyra frá hinum pólitísku foringjum, og mér sýnist, án þess að ég vilji fullyrða, að þessa skoðun hinna pólitísku forustumanna hér á Alþingi, hinna pólitísku flokka, virðist æðimikill meiri hluti þm. ætla að styðja, og ég harma það.

Bæði hv. þm. Geir Hallgrímsson og hæstv. félmrh. töluðu nokkuð langt mál í dag og það var á þeirra ræðum að heyra að hér væru menn að fá í hendur eina allsherjarlausn til framgöngu réttlætisins og lýðræðisins í þjóðfélaginu. (Gripið fram í: Og efnahagsvandans.) Ég tala nú ekki um efnahagsvandann. En það vill svo til að meginmál þeirra hv. þm. fjallaði um það sem er í fskj. með þessu frv., ekki frv. sjálft. Það eru fskj. Hæstv. félmrh. sagði: Frv. er sáttmáli byggðanna í landinu um leikreglur lýðræðisins. Það var hvorki meira né minna. Ég dreg mjög í efa að þjóðfélagsþegnarnir í þessu landi séu þessarar skoðunar þó svo að inni í fskj. með frv. væri það sem þessir hv. þm. voru að vitna til og tala um.

Hitt skal þó viðurkennt, að verði af því sem hér er verið um að tala, bæði að því er varðar frv. sem slíkt og það sem fram kemur í fskj. og grg., þá má segja að hér sé verið að jafna stöðu milli stjórnmálaflokka, þegar það er á annað borð það eina sem menn telja að þurfi að gera að sjá farborða sjónarmiðum flokkanna sem slíkra, burtséð frá því réttlætissjónarmiði, sem ætti að mínu viti að vera í þessu máli, að þjóna fyrst og fremst hagsmunum og réttlætishugsjónum þess fólks sem í landinu býr. Ég er a. m. k. ekki það mikill flokksmaður að ég setji flokkshagsmunina í þessu tilfelli ofar hagsmunum minna umbjóðenda, sem í þessu tilfelli ásamt ýmsum öðrum landsbyggðarmönnum eru svo sveltir að því er varðar réttlæti í ýmsum málum að engu tali tekur.

Ég skal, herra forseti, fara að stytta mál mitt. Það er ljóst, eins og fram hefur komið, að ég er andvígur þessu frv. Það fullnægir ekki þeim lágmarkssjónarmiðum jafnaðarstefnunnar sem ég vil berjast fyrir í þjóðfélaginu. Það er á skjön við þær hugmyndir sem a. m. k. ég hef um þessi mál. Og það er þess eðlis, að ég sé enga ástæðu, enga þörf, þaðan af síður nauðsyn, til að slíta það eitt og sér úr samhengi við allt annað sem er sambærilegt, a. m. k. að því er varðar óréttlæti, og láta það lönd og leið, en ætla sér að knýja þetta eitt og sér fram hér í lok þingsins. Ég held að menn ættu að hugsa sig um, ég tala nú ekki um hina pólitísku foringja áður en þeir knýja eins hart á og hér um þörf og nauðsyn á afgreiðslu þessa máls.

Það væri vissulega full ástæða til að ræða um fleira í tengslum við þetta. Kannske gefst tækifæri til þess síðar og þá undir þeim kringumstæðum að a. m. k. einhver flm. væri viðstaddur, sem mér sýnist ekki vera nú, og ég tala nú ekki um undir þeim kringumstæðum a. m. k. ríkisfjölmiðlarnir sæju sér fært að hafa sína fulltrúa hér, þegar ræður eru fluttar af þm. sem andstæðir eru þessum sjónarmiðum flokksforustunnar í landinu. En vonandi koma þeir því til skila eins vel og öðru í umr. fyrr í dag að það eru ekki allir sammála um það sem hér er að gerast og það sem hér er lagt til og telja að það sé brýnna og nauðsynlegra, meira hagsmunamál fólksins í landinu, þjóðarinnar allrar sem heildar, að taka til hendinni á öðrum sviðum og fleiri en þessu eina.