28.02.1983
Neðri deild: 46. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2335 í B-deild Alþingistíðinda. (2073)

206. mál, stjórnarskipunarlög

Ingólfur Guðnason:

Herra forseti. Hér er nú til umr. allveigamikið frv. og má furðu gegna að enginn flm. frv. er viðstaddur í þingsal þegar umr. fer fram. En hér er sem sagt til umr. frv. til stjórnskipunarlaga á þskj. 367, samtals hvorki meira né minna en fjórar greinar. Er það árangur af strangri vinnu nefndar, svokallaðrar stjórnarskrárnefndar, sem hefur setið á rökstólum um árabil, og einnig hafa formenn stjórnmálaflokkanna lagt nótt við dag að undanförnu og varla unnt sér matar eða hvíldar vegna anna við að semja þessar fjórar frvgr. og hafa þeir þar að auki notið dyggilegrar aðstoðar Reiknistofu háskólans við verkið.

Með frv. fylgir að sjálfsögðu allítarleg grg. svo og fskj., þ. e. drög að frv. til l. um breyt. á lögum um kosningar til Alþingis og grg. með þeim drögum og aths. við einstakar greinar draganna og útreikningar miklir. Svo eru einnig drög til l. um breyt. á lögum um sveitarstjórnarkosningar, ásamt grg. með þeim drögum og aths. við einstakar greinar þeirra draga.

Eins og fram kemur hér á þskj. eru það formenn þriggja stjórnmálaflokka og varaformaður eins stjórnmálaflokks sem eru flm. frv. Hafa þeir núna allir mælt fyrir frv., samtals að mér taldist til í um 80 mínútur. Þeir hafa allir lýst ánægju sinni með frv. og farið mörgum fögrum orðum um þá samstöðu sem náðst hafi við samningu þess.

Herra forseti. Það er fyllilega þess vert að rifja það upp núna, þó að ekki sé langt um liðið, um hvað hv. flm. töluðu í 80 mínútur hér fyrr í dag, þegar þeir mæltu fyrir þessum fjórum frvgr. Fyrst og fremst ræddu þeir um fskj. þau sem prentuð eru með frv. Þeir ræddu um drög að frv. sem e. t. v. verður einhvern tímann flutt.

Okkur er sagt að því Alþingi sem nú situr fari senn að ljúka. Talað er um að kjósa eigi síðari hluta aprílmánaðar. Nú er vitað með vissu að næsta Alþingi verður ekki skipað á sama hátt og núverandi Alþingi. Sumir núv. alþm. gefa ekki kost á sér til endurkjörs í næstu kosningum. Komið gæti fyrir, þótt menn gefi kost á sér til kjörs í kosningum, að einn og einn félli í þeim kosningum. Slíkt hefur nú gerst áður og gæti komið fyrir aftur. Gjarnan koma nýir siðir með nýjum herrum. Þeim kynni nú e. t. v. að detta í hug að einhver önnur aðferð við útreikning á þingsætum væri heppilegri en sú sem fyrrgreind drög gera ráð fyrir.

Hér hefur sem sagt fyrst og fremst verið fjallað um mál sem alls ekki eru á dagskrá, þ. e. fskj. með frv., enda kannske ekki svo margt að ræða um frv. sjálft. Það er fyrst og fremst þar að finna fjórar breytingar frá núgildandi lögum, þ. e. um fjölda þm. Samkv. frv. á að fjölga þeim um 3. Þar er getið um hækkun á lágmarksþingmannatölu í tveim kjördæmum og lækkun á kosningaaldri í 18 ár og síðan er það smábreyting á kjörgengi. Þetta er frv. sem hér er til umr. Allt annað, sem um er rætt í þessu kveri hérna, þskj. 367, er þessu óviðkomandi. 26 bls. af 29 bls. eru málinu óviðkomandi. Það eru fskj.

Fyrir Alþingi liggur frv. sem er upp á fimm greinar, en með fskj. er það 360 blaðsíður. Það er þskj. 363. Það eru nokkrir hv. þm. úr Alþb. sem flytja það. 1. flm. er hæstv. ráðh. Hjörleifur Guttormsson. Ef sá hæstv. ráðh. væri ekki yfirleitt stuttorðari en aðrir þm. telst mér svo til að á sama hátt væri hann 16 klukkustundir að mæla fyrir frv., ef hann færi jafnítarlega í öll fskj. og hér var áðan gert, og kynni þá einhvern vera farið að syfja.

Herra forseti. Á þessu stigi málsins mun ég ekki fjölyrða svo mjög um frv., en vil þó ekki láta undir höfuð leggjast að lýsa ánægju minni yfir því sem ekki er í frv., en það er bráðabirgðaákvæðið, sem fylgdi drögum að þessu frv. lengi vel. Sem betur fer er það ekki lengur þar að finna. Það var þess efnis, að almennar kosningar til Alþingis skyldu fara fram þegar stjórnskipunarlög þessi öðluðust gildi og félli umboð þm. niður á kjördegi. Þessu tókst að ná út. Mér virðist að fylgjendur þessarar greinar hafi hreinlega ætlað að taka ráðin af þeim alþm. sem kjörnir verða í næstu kosningum og ættu þá eðli málsins samkvæmt að hafa allan rétt til að skipa málum að sínum vilja, en ekki hafa frá okkur, sem nú erum hér, fyrirmæli um hvenær þeir skuli láta efna til kosninga, þ. e. annarra kosninga héðan í frá. Það kynni svo að fara að það Alþingi, sem væntanlega verður þá kosið í apríl n. k., telji margt þarfara að gera en að standa í kosningum meginhluta ársins. Mér finnst eins og það hafi verið minnst hér á t. d. efnahagsmál og kannske einhver fleiri mál. Þeir ágætu menn sem það þing munu skipa teldu e. t. v. að meira lægi á að leggja alúð við þau en hafa hér eitt allsherjarkosningaár og allt í ólestri langt fram á haustið jafnvel.

Varðandi frvgr. sjálfar get ég verið fáorður, enda eru þær ekki nema fjórar - með gildistökugr. vel að merkja.

Að mínu mati hafa ekki komið fram haldbær rök fyrir því að fjölga þurfi þm. frá því sem nú er. Að mínu mati er algerlega ástæðulaust að slíta þetta mál úr tengslum við aðra endurskoðun stjórnarskrárinnar, og þó hér sé getið um þingflokka, og þ. á m. þingflokk Framsfl., og að þeir hafi staðið að þessu tel ég mig á allan hátt óbundinn af þessu frv.

Herra forseti. Ég ætla að lokum að gera að umtalsefni plögg nokkur, sem bárust á borð okkar í dag, frá Samtökum áhugamanna um jafnan kosningarrétt. Dagsetningin er 13. febr. s. l. og segir svo í bréfi, með leyfi forseta:

„Samtök áhugamanna um jafnan kosningarrétt telja ástæðu til að skýra formönnum stjórnmálaflokkanna og þingflokka þeirra frá þeim niðurstöðum skoðanakönnunar um kjördæmamálið sem nú liggja fyrir.“

Þetta er merkt sem trúnaðarmál — hefur verið það einhvern tímann. En þessa frétt las ég í dagblaði. Þessi skoðanakönnun er nú ekki betri í framkvæmd en það, að mér dettur í hug að líkja henni við það ef öll atkv. í alþingiskosningum, sem hefðu verið greidd kannske kl. 3 um daginn, væru þá talin og niðurstöður talningarinnar tíundaðar í fjölmiðlum. Ég býst við að það þættu ekki góð vinnubrögð. Hluti skoðanakönnunarinnar, sem var lokið 13. febr., kom í blöðum. Til hvers? Til hvers er svona látið leka út? Auðvitað til að hafa áhrif á þá sem eftir eiga að skila sínum gögnum inn. En áhuginn virðist ekki vera meiri en þetta, að það eru alls 11.9% af þeim sem kusu 1982 sem taka þátt í þessu. 1% atkv. utan Reykjavíkur og Reykjaness, 19% í Reykjavík og 18.2% á Reykjanesi.

Það minntist einhver hv. ræðumaður á það hér áðan að þetta væri vítavert. Ég er honum fyllilega sammála. Það væri mjög nauðsynlegt að þessir fjórir forustumenn flokkanna hér á Alþingi, þegar þeir eru búnir að koma saman þessum fjórum frvgr. um stjórnarskrána, notuðu samstöðuna til að fyrirbyggja að svona skoðanakannanir væru leyfðar í landinu.