01.03.1983
Neðri deild: 47. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2355 í B-deild Alþingistíðinda. (2086)

Um þingsköp

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Eins og fram kom í umr. í gær um það mál sem nú hefur verið sent til lausanefndar lýsti ég mikilli andstöðu við málið og svo gerðu raunar fleiri hv. þm. En ég bætti því við að það verk sem hér væri verið að fremja og það mál sem flutt hefur verið af formönnum fjögurra stjórnmálaflokka sé þannig í pottinn búið, að þjóðin, þ. e. þeir sem utan þessarar stofnunar eru, hafi alls ekki fullnægjandi upplýsingar um hvað hér er um að ræða.

Í framsöguræðu hv. 1. þm. Reykv. held ég að mjög hafi verið blandað saman annars vegar efnisatriðum þessa frv. og hins vegar því sem er í grg. og fskj. með þessu frv. og mun verða lagt fyrir nýtt, annað og öðruvísi kosið Alþingi, sem koma mun saman að afloknum kosningum. Þetta er auðvitað mjög veigamikill misskilningur. En ég vil, herra forseti, ítreka þá skoðun að mér sýnist þjóðin alls ekki hafa fengið upplýsingar um hvað hér er raunverulega á ferðinni.

Nú er það svo að þetta sama flokkavald, sem að þessu frv. stendur, ræður fyrir fjölmiðlunum í landinu í einni eða annarri mynd, dagblöðunum og ríkisfjölmiðlunum beint og óbeint, og ég hef ástæðu til að ætla að þetta sama fjölmiðlavald, sem þessi sömu öfl ráða fyrir, miskynni þetta mál og gefi þjóðinni í skyn eða beinlínis segi berum orðum að hér sé verið að leggja til miklu meiri breytingar en raunverulega er um að ræða í þessu máli.

Út af fyrir sig er auðvitað ekkert við þessu að segja nema eitt, og það er erindi mitt hér í ræðustól að mælast til þess við hæstv. forseta þessarar deildar — ég ætlast ekki til svara núna — að hann beri það undir forseta hinnar virðulegu deildar Alþingis og forseta Sþ. að til þess verði séð að umræðum um þetta mál verði á einhverju stigi og fljótlega útvarpað héðan, þannig að við, sem erum öndverðir þessu máli og tilheyrum ekki þeim hópi sem þetta frv. hefur lagt fram, fáum einnig að kynna okkar sjónarmið. Mér sýnist að með því að fara með valdi að hraða mjög meðferð þessa máls, vegna þess að þetta sama kerfi ræður meira og minna hinum valdhlýðnu fjölmiðlum, þá séu okkar sjónarmið mjög mis- og ókynnt í þessu máli. En Alþingi á samkv. þingsköpum, herra forseti, leið til úrlausnar í svona stöðu. Sú leið er útvarpsumræður. Ég held að það sé réttmæt og sanngjörn krafa nú, þegar þessu máli hefur verið vísað til þessarar nýkjörnu nefndar, að það sé tryggt — og helst sem allra fyrst — að þjóðin fái líka upplýsingar frá okkur sem erum andstæðir þessu máli. Og það gerir Alþingi ekki betur á annan hátt en í umr. frá því sjálfu.

Þessum óskum langar mig, herra forseti, til að koma til skila úr ræðustól nú þegar þetta mál hefur verið afgreitt til nefndar og 2. umr. Ég vænti þess, herra forseti, að þessum óskum verði vel tekið, vegna þess að þó að þetta frv. sé flutt af fjórum forustumönnum úr fjórflokkakerfinu gamla, þá er ljóst að það er andstaða við það vítt og breitt um flokkakerfið. Það er einnig ljóst að við sem stöndum að Bandalagi jafnaðarmanna erum andvígir því þó á nokkuð öðrum forsendum sé, en okkar sjónarmið eiga líka rétt á að koma fram, þó svo að á hið valdhlýðna fjölmiðlakerfi sé ekki að treysta í þessum efnum.

Þegar svona stendur á, herra forseti, á Alþingi völ á þessari leið. Ég skora á forsetana að beita henni til þess eins að þjóðin hafi upplýsingar um hvað hér er að gerast, hvað í þessu frv. er og hvað ekki er í því. Því að ég fullyrði að á þessu stigi málsins — og vitna þar t. d. í kynningu Morgunblaðsins á málinu — hefur fólk ekki hugmynd um það. Það heldur að þetta frv. sé allt annað og meira en það raunverulega er. Því er þessum óskum komið hér á framfæri, herra forseti.