01.03.1983
Neðri deild: 47. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2356 í B-deild Alþingistíðinda. (2087)

Um þingsköp

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Það kemur ekki alveg heim og saman hjá hv. síðasta ræðumanni að þjóðin geri sér annars vegar ekki grein fyrir hvað felst í frv. því til stjórnskipunarlaga, sem nú er verið að afgreiða til 2. umr. og nefndar, þar sem það sé ekki fulllýst fyrir almenningi í landinu, og hins vegar það sem hann hefur áður látið í ljós, að í frv. fælist ekkert annað en fjölgun þm. Ég er að vísu mjög öndverðrar skoðunar við hv. síðasta ræðumann. Ég tel að þessi breyting á stjórnskipunarlögunum sé jafnvel betur undirbúin en ýmsar aðrar breytingar sem gerðar hafa verið á kjördæmaskipan og kosningalögum. Það hefur t. d. ekki verið til siðs hér almennt við fyrri breytingar að gera grein fyrir því með hvaða hætti kosningalögum yrði breytt.

Það kom vissulega til tals að leggja fram frv. til breytinga á kosningalögum hér til meðferðar og afgreiðslu á þessu þingi, en með því að sumir drógu í efa að það væri stjórnskipulega rétt áður en stjórnarskránni hefði verið breytt, þá var á þetta ráð brugðið og prentað sem fskj. frv. til l. um breytingu á kosningalögum. Ég fullyrði þess vegna að sjaldan eða aldrei hefur verið gerð nákvæmari grein fyrir hvað felst í breytingu á stjórnskipunarlögum hvað snertir breytingu á kjördæmaskipan og kosningalögum. Hins vegar fagna ég því að fram fari umr. á Alþingi í áheyrn alþjóðar um þetta frv., hef síður en svo nokkuð á móti því og er hvatamaður þess.

Hv. síðasti ræðumaður var að tala um flokkana fjóra og flokkakerfið. Ég hef ekki getað betur séð en þessum hv. þm. þyki svo vænt um flokkakerfið að hann hafi brugðið á það ráð að bæta einum flokki við. Það er enginn annar munur á Bandalagi jafnaðarmanna og hinum stjórnmálaflokkunum, sem starfa með þjóðinni, en sá að í Bandalagi jafnaðarmanna er formaðurinn sjálfskipaður.