01.03.1983
Neðri deild: 47. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2357 í B-deild Alþingistíðinda. (2088)

Um þingsköp

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Út af þeim umr. sem hafa orðið finnst mér ástæða til að leggja hér nokkur orð í belg. Ég skil ástæðu hv. 4. þm. Reykv. fyrir umr. hér um þingsköp á þá leið að þó að hann vilji ekki beint á þessu stigi máls óska eftir aðild að formannaklúbbnum, þá sé hann að gefa í skyn að hann sé ekkert andvígur því að vera með í ráðum hjá þeim fjórum sem hér hafa lagt á ráðin og bætast við sem fimmta hjól undir vagni í því að leggja á ráðin um hvernig þessum málum skuli háttað.

En vegna þess að hv. þm. minntist hér á fjölmiðla og dró í efa að þeir mundu gera þessu máli rækileg og eðlileg skil, og hygg ég að hann hafi kannske ekki síst átt við ríkisfjölmiðla, þá finnst mér ástæða til að fara hér nokkrum orðum þar um.

Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá nemum hv. þm. að í fréttum bæði hljóðvarps og sjónvarps í gærkvöld var rækilega gerð grein fyrir ræðum og afstöðu þeirra fjórmenninganna sem hér töluðu og flytja þetta mál, þ. e. forustumanna flokkanna, sem verður að álykta að séu samþykkir þeim breytingum sem hér er um að ræða. Um var að ræða fjóra hv. alþm. sem hér áttu hlut að máli. Ég hef ekki orðið þess var að ríkisfjölmiðillinn, Ríkisútvarpið, hafi séð ástæðu til þess að greina frá því að sex aðrir alþm. sem tóku hér þátt í umr. í gærkvöld um þetta mál, lýstu andstöðu sinni við þetta frv. Hins vegar fékk sá sjöundi, sem er hv. 4. þm. Reykv., rúm í ríkisfjölmiðlunum ásamt formönnunum fjórum. En hinir óbreyttu þm. sex, sem þátt tóku í þessum umr. hér í gærkvöld og lýstu andstöðu við frv., hafa ekki fengið greint frá umr. sínum eða afstöðu til þessa máls, þó að þeir séu meiri hl. þeirra sem tóku þátt í umr.

Ég tel það vítavert að ríkisfjölmiðill sem Ríkisútvarpið skuli ekki sjá sóma sinn í því að greina með eðlilegum og hlutlausum hætti frá umr. hér á Alþingi, hvort sem í hlut eiga óbreyttir þm. eða formenn þingflokka eða hæstv. ráðherrar. Allir eru jafnir í því. (GJG: Hvenær áttu þeir að gera það?) Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson spyr: Hvenær áttu þeir að gera það? Ég veit ekki betur en bæði í morgunfréttum útvarpsins og í hádegisfréttum hefði verið tækifæri og ástæða til að greina frá andstöðu þeirra þm. sex umfram hv. þm. Vilmund Gylfason sem lýstu andstöðu við frv. Það eru engin rök fyrir því að bera blak af þeim fréttamönnum Ríkisútvarpsins sem hér eiga hlut að máli að greina ekki jafnframt frá afstöðu þeirra þm. sem eru andvígir þessu frv. og voru í meiri hl. í umr. í gærkvöld. Þarna er ástæða til að draga sjónvarpið undan vegna þess að enginn fréttatími hefur enn sem komið er verið sendur út hjá því eftir þær umr. sem áttu sér stað hér í gærkvöld. Við bíðum og sjáum hvað setur, hvort sjónvarpsdeildin er á sama bát og hljóðvarpið í þessu tilfelli og muni ekki greina frá því í næsta fréttatíma.

Þetta tel ég ástæðu til að gera hér að umræðuefni vegna þess að þjóðin öll á heimtingu á að fá að vita um afstöðu þm. allra, hver sem hún er og hvenær sem hún er gefin upp. Það er ástæðulaust að hlífa ríkisfjölmiðlunum við því að þeir greini hér samviskusamlega, réttlátlega og hlutlaust frá umr. og afstöðu þm., ekki síst í slíku stórmáli sem hér er um að ræða.