01.03.1983
Neðri deild: 47. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2359 í B-deild Alþingistíðinda. (2091)

Um þingsköp

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Vegna síðustu aths. er rétt að taka fram að ég svara ekki svona persónulegum ábendingum hv. þm. Alberts Guðmundssonar, Karvels Pálmasonar og Geirs Hallgrímssonar. Þeir verða auðvitað að fá að ráða því, mennirnir, hvað þeir telja vera umr. um þingsköp. En það er ekki málið.

Málið er það, eins og ég held að fram hafi komið líka hjá hv. þm. Árna Gunnarssyni, að við sem höfum lýst gagnrýni eða beinni andstöðu við þetta frv. höfum ástæðu til að ætla að héðan frá Alþingi verði sýnd sú mynd að hér ríki meiri eindrægni um þetta mál en raunverulega á sér stað. Það eina sem verið er að fara fram á er það, að með þeim hætti sem Alþingi getur beitt, þ. e. með útvarpsumr., verði þjóðinni greint satt og rétt frá hverjar eru skoðanir manna hér. Þetta er allt og sumt.

Hv. síðasti ræðumaður verður auðvitað að ráða því með hverjum hætti hann leggur út af þessu máli. Hann gerði það hér með sínum hætti. Það er út af fyrir sig ekki mitt mál.

En kjarninn er þessi, að við óttumst skoðanalega einstefnu um störf á Alþingi í þessu máli. Við höfum ástæðu til að ætla að þegar málið er lagt fram með þeim hætti sem gert hefur verið, þá megi ætla að um það sé meiri einhugur en raunverulega á sér stað. Og þar sem hv. Alþingi hefur tæki til þess að sýna sjálft sig í réttu ljósi, skulum við segja, þ. e. með útvarpsumr., þá er það allt og sumt sem verið er að fara fram á að sé möguleiki til þess, þá beiti hæstv. forsetar þingsins þeim möguleika. Þetta er allt og sumt.

Hvernig kjörið er innan Bandalags jafnaðarmanna eða hverjar ávirðingar mínar kunna að vera sé ég ekki að komi út af fyrir sig málinu við. Þar ræður smekkur þeirra sem tala.

Þetta, herra forseti, er kjarni málsins. Við biðjum um að sú flóra skoðana, sem hér kann að vera í þessu máli, verði borin á borð fyrir þjóðina. Ég sé ekki að þau tilmæli hafi gefið tilefni til þeirra aths., sem hér hafa fallið. En þeirra er smekkurinn sem þær hafa borið fram.