01.03.1983
Sameinað þing: 58. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2360 í B-deild Alþingistíðinda. (2095)

90. mál, fræðsla um vöruvöndun

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það hefur löngum viljað há íslenskri framleiðslu að meira hefur verið hugað að magni en gæðum. Á síðustu árum hafa orðið miklar framfarir í ýmsum greinum á þessu sviði, en mjög virðist þó skorta á almennan skilning á því meginatriði að verðgildi framleiðslu okkar og sölumöguleikar ráðast af gæðum og vöruvöndun. Ríkisstj. hefur viljað stuðla að auknum skilningi á þessu í atvinnulífinu og því var sett inn í efnahagsyfirlýsinguna frá 21. ágúst í fyrra svohljóðandi ákvæði: „Ríkisstj. hefur ákveðið að standa að því, að á næstu mánuðum verði efnt til stóraukinnar fræðslu um gæði og vöruvöndun í íslenskri framleiðslu.“

Þetta er ekki verkefni af því tagi sem unnt er að afgreiða í einu átaki. Hér þarf að koma til stöðug árvekni á öllum sviðum atvinnulífsins. Þetta er ekki heldur verkefni sem hið opinbera geti leyst eitt með valdboði eða einhliða aðgerðum. Þvert á móti skiptir hér mestu að allir aðilar atvinnulífsins taki höndum saman að þessu sameiginlega markmiði. Ríkisvaldið getur veitt veigamikla aðstoð í þessu sambandi og nú er leitast við að gera það á sem flestum sviðum og annað er í undirbúningi.

Varðandi það sem hið opinbera hefur aðhafst á þessu sviði á s. l. mánuðum ber sérstaklega að nefna stórátak í þessum efnum í sjávarútvegi, sem skipulagt hefur verið af sjútvrn. og kostað af opinberu fé. Nýlega hefur hæstv. sjútvrh. gert á blaðamannafundi ítarlega grein fyrir þessum aðgerðum og fyrirætlunum. Helstu atriði eru þau að kynna fyrir þeim sem starfa að framleiðslu á sjávarvörum þýðingu þess að viðhalda gæðum íslenskra sjávarafurða og auka þau og bæta. Fræðslu- og kynningarstarfsemi verður þannig háttað, að unnið hefur verið fræðsluefni fyrir starfandi fólk í framleiðslu sjávarafurða. Jafnframt er stefnt að því að kynna þeim sem starfa við slíka framleiðslu aðstæður í markaðslöndum og kröfur neytenda þar. Með þessu er fyrirhugað að leggja grundvöll að skipulagðri fræðslustarfsemi í framtíðinni með þátttöku þjónustustofnana og hagsmunaaðila í sjávarútvegi.

Þá hefur einnig verið gert verulegt átak í eftirmenntun í iðnaði, sem að vissu leyti stuðlar að þessu sama. Í samstarfi við fjölmarga aðila í iðnaði hefur verið byggt upp starf í þessum efnum sem lofar góðu. Á síðasta ári var sett upp fræðslumiðstöð iðnaðarins. Með fræðslukynningu og námskeiðahaldi hefur þegar talsvert áunnist í þessum efnum og margt er í undirbúningi.

Varðandi aukna vöruvöndun þarf að stíga hin næstu skref með auknu samstarfi aðila vinnumarkaðarins og með atbeina ríkisvaldsins, eftir því sem þurfa þykir í hverju tilviki. Til athugunar hefur verið að koma á formlegu samstarfi þessara aðila með þátttöku ríkisvaldsins og eru tillögur þar að lútandi í undirbúningi.

Það er fullur vilji fyrir því í ríkisstj. að styðja gott starf á þessu sviði og einnig að hafa beina forgöngu um slíkt, þar sem það á við, eins og framangreind dæmi sýna. Ríkisvaldið hefur þegar haft forgöngu í þessum efnum í mikilvægustu atvinnugrein okkar, þar sem sjávarútvegurinn er,, þar sem sérstaklega var þörf átaks í þessum efnum. Árangur á þessu sviði næst fyrst og fremst með réttu hugarfari aðila atvinnulífsins. Ýmis samtök atvinnulífsins hafa þegar unnið gott starf að þessum málum og þaðan er eðlilegast og vænlegast að frumkvæðið komi. En ríkisvaldið mun, þar sem forganga þess á við, leitast áfram við að koma á umbótum í þessu mikilvæga máli og liðsinna eftir þörfum.