01.03.1983
Sameinað þing: 58. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2361 í B-deild Alþingistíðinda. (2096)

90. mál, fræðsla um vöruvöndun

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir svör hans. Eins og ég minntist á hér áðan var mikið af þessu komið fram nú nýlega, þegar sjútvrh, greindi frá sérstakri kynningarherferð. En eins og ég einnig gat um var þessi fsp. lögð fram hinn 17. nóv. s. l. og það er ekki vansalaust að ekki skuli hafa reynst mögulegt að svara henni hér fyrr. Fsp. hafa lítinn tilgang ef þeim er ekki svarað fyrr en að mörgum mánuðum liðnum.

Um efni þessa máls vildi ég aðeins segja að það átak sem verið er að gera á vegum sjútvrn. er sjálfsagt góðra gjalda vert. Það þarf ekki að fara um það mörgum orðum hvert tjón hefur hlotist af því þegar við höfum sent héðan og selt gallaða vöru. Fram til þessa hefur öll starfsemi á þessu sviði beinst að auknu eftirliti, fiskmatinu og öllu í kringum það. En menn byggja auðvitað ekki vönduð hús með því að hafa góða eftirlitsmenn. Þeir sem að húsbyggingunni vinna verða að kunna til verka. Ég held að stærsta gloppan í öllu menntakerfi þjóðarinnar sé hversu vanrækt hefur verið að mennta fólk á sviði fiskiðnaðar, fiskvinnslu og sviði matvælaiðnaðar og matvælavinnslu. Ég held að það sé stærsta gloppan í menntakerfi þjóðarinnar. Og frá þessari ríkisstj. hefur a. m. k. ekkert heyrst til úrbóta í þeim efnum frekar en öðrum efnum á sviði skóla- og menntamála.

Ég held sem sagt, herra forseti, að þarna sé verið á réttri leið. En það sem gera þarf er að stórefla í skólakerfinu fræðslu á sviði matvælaiðnaðar og matvælavinnslu. Þar bíða okkar stórverkefni á næstu árum.