01.03.1983
Sameinað þing: 59. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2366 í B-deild Alþingistíðinda. (2111)

Umræður utan dagskrár

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég get ekki stillt mig um að fara upp í ræðustól undir þessum umr., því að mér blöskra þessar umr.

Ég hefði haldið fyrir fram að hv. þm. Albert Guðmundsson væri ekki svo órólegur, eins og kemur í ljós í sambandi við væntanlegar kosningar, að hann héldist ekki við í stólnum þangað til samgrh. er í salnum til að ræða þetta mál. Ég er alveg hissa á að menn skuli ekki fara fram á að Ólafur Jóhannesson fresti afmælisdeginum.

Ég er aftur ekki mikið hissa á hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni. Ég er meira hissa á því að hann skyldi ekki kalla á lögregluna til að reyna að færa samgrh. í salinn. Það væru hans eðlilegu vinnubrögð.

Ég held að í svona málum ætti að vera háttur allra þm. að sýna tillitssemi. Menn eru að ræða um hvort samgrh. hefði beðið um fjarvistarleyfi. Ég vil spyrja þm. yfirleitt að því hver hafi beðið um fjarvistarleyfi þó að þeir víki sér frá á fundartíma. Hver hefur gert það? Menn ættu að líta sér nær í svona umr.

Ég ætla ekki að hafa þetta meira að sinni, en ég vona að það sem eftir er af þingtímanum haldi flestir hverjir stillingu sinni.